10.3.2011 | 12. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 12. fundur bæjarstjórnar
image_pdfimage_print

12. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 09. mars 2011 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eyþór Arnalds, D-lista,
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Íris Böðvarsdóttir, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista.

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri og Líney Magnea Þorkelsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð Írisi Böðvarsdóttur velkomna á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund.

Dagskrá:

I. Fundargerðir til staðfestingar

1. a) 34. fundur bæjarráðs (1006055)    frá 10. febrúar

2. a) 1006056
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar   frá 26. janúar
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar    frá  9. febrúar
c) 35. fundur bæjarráðs (1006055)     frá 17. febrúar
d) Mál no. 1012096 – Tillaga um framlengingu á samningum  við Íslenska gámafélagið um sorphirðu á meðan unnið er að undirbúningi útboða.

3.  a) 36. fundur bæjarráðs (1006055)                        frá 24. febrúar

4.  a) 1007076
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar   frá 22. febrúar
b) 1007095
Fundargerð fræðslunefndar     frá 24. febrúar
c) 37. fundur bæjarráðs (1006055)    frá 3. mars
    -liður 2b) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um lið 3, nr. 0504050 – Verkstaða BES Stokkseyri.

 -liður 2d) mál nr. 1012096 í fundargerð bæjarráðs, 35. fundur, 17. febrúar 2011, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, vék sæti og Kjartan Björnsson, D-lista, kom inn á fundinn. Tillaga um framlengingu á samningum  við Íslenska gámafélagið um sorphirðu á meðan unnið er að undirbúningi útboða var tekin til afgreiðslu þar sem mótatkvæði kom fram við afgreiðslu í bæjarráði.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls.

Tillaga um að samningar við Íslenska gámafélagið ehf um sorphirðu verði framlengdir út árið 2011 meðan unnið er að undirbúningi útboða var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum gegn þremur atkvæðum bæjarfulltrúa B- og S-lista, fulltrúi V-lista sat hjá.

Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, kom inn á fundinn að nýju eftir afgreiðslu málsins og Kjartan Björnsson, D-lista, vék af fundi.

-liður 3a)  Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um lið 3, nr. 1010106 – Kauptilboð í Austurveg 52 – Slökkvistöð.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.

 -liður 3a)  Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um lið 7, nr. 0508068 – Tilboð Miðjunnar ehf. um sölu lóða og byggingaréttar á miðbæjarsvæði.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri tók til máls.

-liður 4a)  Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram bókun vegna fundargerðar skipulags- og bygginganefndar.
Undirrituð fagnar fjölda umsókna um nýframkvæmdir sem afgreiddar voru á 8. fundi skipulags- og byggingarnefndar.  Vonandi er þetta vísbending um batnandi ástand á bygginga- og fasteignamarkaði í Árborg.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-lista.

Aðrir bæjarfulltrúar taka undir bókun bæjarfulltrúa S-lista.

-liður 4b) Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls um lið 2, nr. 1101181 – Svör við fyrirspurnum kennara til fræðslunefndar frá 6. fundi.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls.

Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði að undanskildum þeim lið sem þegar hafði verið afgreiddur og samþykktar samhljóða.

II. Þriggja ára fjárhagsáætlun 2012-2014

Eyþór Arnalds, D-lista og Ásta Stefánsdóttir fylgdu þriggja ára fjárhagsáætlun 2012-2014 úr hlaði.

Greinargerð með 3ja ára fjárhagsáætlun
fyrir árin 2012- 2014

Stefnumörkun
Fyrir liggur til fyrri umræðu fyrsta 3ja ára áætlun sem sett er fram á þessu kjörtímabili. Til grundvallar henni liggur fyrsta fjárhagsáætlun eftir meirihlutabreytingar en hún var gerð fyrir yfirstandandi fjárhagsár, 2011. Gert er ráð fyrir að byggja á þeim grunni og þeim breytingum sem fyrir liggja og halda áfram á sömu braut. Ekki er gert ráð fyrir umfangsmiklum fjárfestingum og áhersla verður á aðhald í rekstri. Stefnt er að lækkun skulda um hálfan milljarð króna enda er stefnt að bættu hlutfalli tekna og skulda í samræmi við viðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Segja má að lækkun skulda sé líka mikilvæg og arðbær fjárfesting enda er gert ráð fyrir að fjármagnsliðir verði jákvæðari um 82 milljónir árið 2014 en árið 2011 á föstu verðlagi. Niðurgreiðsla skulda leiðir þannig af sér sterkari peningalega stöðu og aukið svigrúm til að lágmarka álögur á íbúa sveitarfélagsins. Þá er stefnt að því að taka til baka þær hækkanir á fasteignaskatti heimilanna sem urðu eftir bankahrun og lækka í áföngum fasteignaskattsprósentuna úr 0.35% í 0.275%. Er hér um að ræða 21.6% lækkun á fasteignaskattsprósentunni á tímabilinu. Má segja að með þessari aðgerð og öðrum sem vikið verður að hér á eftir sé verið að skila hagræðingunni til eigendanna, íbúa sveitarfélagsins.
Fjárfestingar verða í lágmarki en miðast við að bæta innviði og veitukerfi sveitarfélagsins eftir föngum, fegra umhverfi, götur og gangvegi, taka á ókláruðum verkefnum og skipuleggja ný verkefni sem mikilvæg eru samfélaginu. Þá er stefnt að sölu eigna og þá sérstaklega fastafjármuna sem ekki eru notaðir af sveitarfélaginu sjálfu. Með þessu er unnt að ráðast í fjárfestingar án þess að lántökur fari úr hófi fram. Ýmsir óvissuþættir eru í umhverfi sveitarfélaga um þessar mundir og er því mikilvægt að fara varlega. Má hér nefna ýmsa lagasetningu ríkisins, ástand á vinnumarkaði, launaþróun og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Má segja að þessi áætlun sé hófleg og aðhaldssöm án þess þó að vega að rekstraröryggi og þjónustu við íbúana.

Helstu áherslur
Hér er lögð fram í bæjarstjórn Árborgar þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árin 2012 – 2014. Áætlunin er unnin í samræmi við 63. gr. sveitarstjórnarlaga og er greind niður á málaflokka.

Þriggja ára áætlun er ekki staðfest fjárhagsáætlun fyrir árin 2012-2014 heldur yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár.  Við fjárhagsáætlanagerð hvers árs fer fram nánari útfærsla á þriggja ára áætlun miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir og því geta fjárhæðir og framkvæmdahraði vegna einstakra verkefna breyst frá því sem fram kemur í þriggja ára áætlun hverju sinni.

Samkvæmt lögum fer þriggja ára áætlun í tvær umræður í bæjarstjórn. Áætlunin sem nú liggur fyrir getur því tekið breytingum milli umræðna en seinni umræða er áætluð þann 16.mars næst-komandi.

Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

Helstu forsendur áætlunar 2012 – 2014

Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar.  Í ljósi efnahagserfiðleika í landinu og óvissu um þróun mála næstu misserin þá er ljóst að forsendur áætlunarinnar geta breyst þegar fram líður.  Þriggja ára áætlun er byggð á áætlun ársins 2011 og er á föstu verðlagi og föstu gengi.

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri allra málaflokka næstu 3 árin.

Þann 1.janúar síðastliðinn yfirtóku sveitarfélögin í landinu málefni fatlaðra. Tekið skal fram að við yfirfærsluna er ætlað að sveitarfélögum verði tryggðar tekjur til reksturs þessa verkefnis og er áætlun næstu ára í þessum málaflokki sett þannig fram hér. Hugmyndir hafa verið uppi um að á næstu árum taki sveitarfélögin einnig yfir frá ríkinu málefni aldraðra.  Ekki er tekið tillit til þessa í framlagðri áætlun þar sem undirbúningur málsins er ekki kominn á það stig að unnt sé að áætla tekjur og rekstrarkostnað.

Íbúaþróun
Í áætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir að íbúafjöldi standi í stað en í þriggja ára áætlun er nú gert ráð fyrir fjölgun íbúa sem nemur 0,5% árið 2012, 1% árið 2013 og 2% árið 2014.

Skatttekjur
Áætlað er að skatttekjur hækki um 3% á ári næstu þrjú árin. Áætluð hækkun tekur mið af opinberum spám um hækkun útsvars vegna aukinna atvinnutekna í kjölfar jákvæðs hagvaxtar, fjölgunar íbúa og minnkandi atvinnuleysis. 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Gert er ráð fyrir hækkun á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem nemur 2% á ári næstu þrjú árin. Vonir standa til að með breyttum reglum um úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði muni Sveitarfélagið Árborg fá hærra hlutfall sinna tekna úr sjóðnum en verið hefur hingað til.

Fasteignaskattur
Gert er ráð fyrir því að lækka fasteignaskatt A á íbúðarhúsnæði í þrepum á næstu þremur árum. Á árinu 2012 muni álagningarhlutfall  lækka úr 0,35% í 0,325%. Á árinu 2013 muni það lækka úr 0,325% í 0,30% og  í 0,275% árið 2014.

Þjónustutekjur
Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám vegna þjónustu sveitarfélagsins í áætluninni. Í áætlun þessari er gert ráð fyrir því að systkinaafsláttur fyrir annað barn hækki úr 25% í 50% bæði í leikskóla og skólavistun.

Laun
Áætlun launa og launatengdra gjalda er byggð á launaáætlun ársins 2011.  Ekki er gert ráð fyrir launahækkunum.

Rekstrarkostnaður
Áætlun rekstrarkostnaðar er byggð á áætlun ársins 2011.
 
Helstu niðurstöður áætlunar 2012 – 2014

Samantekin A og B hluti                               Fjárhæð í þús. kr.
                              
Áætlun 2011  Áætlun 2012  Áætlun 2013  Áætlun 2014
Rekstrarreikningur     
Tekjur                        5.266.015     5.276.200       5.339.613     5.396.816
Gjöld                        -4.761.968    -4.704.940      -4.716.708    -4.725.683
Fjármangsliðir            -453.471       -383.018         -374.860       -371.010
Söluhagnaður
Rekstrarniðurstaða      50.576          188.242          248.045        300.123

Efnahagsreikningur
Eignir                      12.432.359     12.416.678     12.406.376  12.518.058
Eigið fé                     3.444.874       3.571.615       3.758.160    3.996.783
Skuldir                      8.987.486       8.845.063       8.648.216    8.521.275

 

Sjóðstreymi   
Veltufé frá rekstri        534.136          678.901           755.240      828.340
Fjárfestingar              -213.855        -370.300          -350.600     -471.000
Ný langtímalán           290.000          370.300           315.000       407.196

Eins og sjá má í töflunni hér að ofan er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð öll árin. Eigið fé hækkar á áætlunartímabilinu og skuldir lækka. Veltufé frá rekstri er jákvætt og hækkar jafnt og þétt á tímabilinu.

Fjármagnsliðir
Fjármagnsliðir eru reiknaðir miðað við þau vaxtakjör sem sveitarfélagið býr við.  Eins og fyrr segir er áætlunin gerð á föstu verðlagi með  þeirri undantekningu þó að við útreikning á fjármagnskostnaði er gert ráð fyrir hækkun vísitölu um 2% á ári.

Fjárfestingar
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir 370,3 millj. kr. árið 2012, 350,6 millj. kr. árið 2013 og 471 millj. kr. árið 2014.

Lántökur
Ný langtímalán á árunum 2012 -2014 eru áætluð 1.092 millj. kr. en niðurgreiðslur eldri lána eru áætlaðar á sama tímabili 1.900 millj. kr.

Lokaorð
Umtalsverð hagræðing hefur átt sér stað í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar á síðustu misserum. Í áætluninni er gert ráð fyrir að álögur á íbúa minnki með lækkun álagningarhlutfalls fasteignaskatts í áföngum.  Áætlun þessi sýnir að með áframhaldandi aðhaldi í rekstri batnar rekstrarniðurstaðan umtalsvert á næstu árum. Sveitarfélagið á talsvert af eignum sem ekki eru nýttar fyrir lögbundinn rekstur sveitarfélagsins og er í áætlun þessari gert ráð fyrir að selja slíkar eignir. Lykiltölur á borð við eigið fé og veltufé frá rekstri hækkar á tímabilinu og gert er ráð fyrir talsverðri niðurgreiðslu skulda.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls, Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls.

Lagt var til að þriggja ára fjárhagsáætlun yrði vísað til síðari umræðu, sem fari fram á aukafundi bæjarstjórnar sem haldinn verði miðvikudaginn 16. mars nk. kl. 17. Var það samþykkt samhljóða.

III. Önnur mál

Engin

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 17.45

Eyþór Arnalds 
Elfa Dögg Þórðardóttir
Ari Björn Thorarensen 
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Gunnar Egilsson 
Íris Böðvarsdóttir
Eggert Valur Guðmundsson 
Arna Ír Gunnarsdóttir
Þórdís Eygló Sigurðardóttir 
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Líney Magnea Þorkelsdóttir, ritari