25.2.2016 | 17. fundur íþrótta- og menningarnefndar

Forsíða » Fundargerðir » 17. fundur íþrótta- og menningarnefndar
image_pdfimage_print


17. fundur íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn miðvikudaginn 10. febrúar 2016 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 07:15. 

Mætt: Kjartan Björnsson, formaður, D-lista, Helga Þórey Rúnarsdóttir, nefndarmaður, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, nefndarmaður, S-lista, Estelle Burgel, nefndarmaður, Æ-lista, Bragi Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi.  

Axel Ingi Viðarsson, nefndarmaður, D-lista, boðaði forföll vegna veikinda.

Bragi Bjarnason ritaði fundagerð.

Dagskrá: 

Almenn afgreiðslumál
1. 1601074 – Vor í Árborg 2016
Rætt um megindagskrá Vors í Árborg 2016 og ákveðið að opnunarhátíðin fari fram á Hótel Selfoss fim. 21. apríl kl. 16:00. Þar verði hátíðin formlega sett sem og afhent menningarviðurkenning Árborgar 2016. Byrjað er að auglýsa eftir dagskráratriðum fyrir hátíðina og geta áhugasamir haft samband við starfsmann nefndarinnar, Braga Bjarnason, í síma 480-1900 eða sent tölvupóst á bragi@arborg.is til að koma að hugmyndum um dagskrárliði. Samþykkt samhljóða.
2. 1601177 – Ósk um styrk – Örnefni á Selfossi
Tekin fyrir ósk Gunnlaugs Bjarnasonar um ferðastyrk vegna rannsóknarverkefnis síns um nútímaörnefni á Selfossi en málinu var vísað til umsagnar í nefndinni frá bæjarráði. Um er að ræða ferðastyrk í formi strætókorts til að geta sinnt viðtölum og rannsóknarferðum á Selfoss en Gunnlaugur er búsettur í Reykjavík við háskólanám. Nefndin tekur jákvætt í erindið og leggur til við bæjarráð að styrkja verkefnið með þeim fyrirvara að aðrir styrkir skili sér líka enda sé það forsenda þess að farið verði í verkefnið. Samþykkt samhljóða
3. 1602067 – Umræða um tómstunda- og forvarnamál
Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, tómstunda- og forvarnarfulltrúi kemur inn á fundinn og ræðir málefni ungmennaráðs, ungmennahúss og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuzar. Fram kom að ungmennaráðið hefði tekið þátt í þremur stórum alþjóðlegum verkefnum á síðasta ári auk þess að sinna hefðbundnum verkefnum líkt og ungmennaþingi og fundum með bæjarstjórn. Verkefni næsta árs eru á svipuðum nótum en ekki verða eins mörg alþjóðleg verkefni og stefnt er á þing með öðrum ungmennaráðum á Suðurlandi. Starfið í félagsmiðstöðinni gengur vel en hérna er eitt öflugasta klúbbastarf á landinu. Félagsmiðstöðin hefur aðeins víkkað út starfsemina en regluleg opin kvöld hafa verið haldin á Eyrarbakka og Stokkseyri sem hafa gengið vel. 10-12 ára starfið er öflugt og greinilegt að margir á þessum aldri eru í einhverri tómstund. Almenn þátttaka er mjög góð og samstarf við aðrar stofnanir líkt og grunnskóla, félagsþjónustu og fleiri hefur verið til fyrirmyndar. Ungmennahúsið hefur haldið áfram að vaxa og dafna en nýting á húsinu er orðin mjög góð. Mikið um fjölbreytta hópa sem bæði eru skipulagðir af starfsmönnum og öðrum sem fá að nýta aðstöðuna. Hljóðverið hefur verið vel sótt og ýtt undir tónlistaráhuga ungmenna á svæðinu. Af forvarnamálum þá er svokallað dúkkuverkefni í gangi núna í grunnskólunum og nokkrir fyrirlestrar um ýmis mál eru skipulagðir á vorönn fyrir foreldra og starfsmenn. Af öðrum verkefnum þá kemur sveitarfélagið að þjálfararáðstefnu Árborgar á hverju ári. Rætt um aðkomu ungmenna að málefnum sveitarfélagsins og að hægt væri að gera miklu betur í því að nýta áhuga og krafta þeirra í starfshópum, nefndum og öðrum verkefnum. Gunnari þakkað kærlega fyrir góðar umræður.
Erindi til kynningar
4. 1601306 – Ársyfirlit Leikfélags Selfoss 2015
Lagt fram til kynningar.
5. 1601471 – Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði 2016
Lagt fram til kynningar.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 8:30

 

Kjartan Björnsson   Axel Ingi Viðarsson
Helga Þórey Rúnarsdóttir   Eggert Valur Guðmundsson
Estelle Burgel   Bragi Bjarnason