5.7.2018 | 2. fundur bæjarráðs

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarráð » 2. fundur bæjarráðs
image_pdfimage_print


2. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022 haldinn fimmtudaginn 5. júlí 2018 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

 Mætt:
Eggert Valur Guðmundsson, formaður, S-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, varamaður, Á-lista
Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi, D-lista
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari

Formaður leitaði afbrigða að taka á dagskrá tvær tillögur frá bæjarfulltrúa D-lista um íbúakosningu vegna miðbæjarskipulags. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá: 

Fundargerðir til staðfestingar
1.   1806174 – Fundargerðir framkvæmda- og veitustjórn 2018 – ný nefnd
  1. fundur haldinn 28. júní
  – liður 3, málsnr. 1710088 – Hönnun á dælustöð og miðlunargeymir Selfossveitna. Bæjarráðs leggur til að breytingunum verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

– liður 4, málsnr. 1804229 – Útistofur við Vallaskóla. Bæjarráð óskar eftir kostnaðaráætlun til að gera viðauka við fjárhagsáætlun 2018.

Gunnar Egilsson, D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun undir lið 4, í fundargerð:
Undirritaður furðar sig á vinnubrögðum meirihluta B-, S-, Á og M-lista í þessu máli. Í vor var samþykkt samhljóða af öllum fulltrúum í framkvæmda- og veitustjórn að ráðast í kaup á lausum kennslustofum til nota í Vallaskóla, ákvörðunin var tekin að höfðu samráði við stjórnendur í Vallaskóla vegna mjög hraðrar fjölgunar nemenda í skólanum mánuðina þar á undan og fyrirsjáanlegra þrengsla í skólanum í haust. Voru kaupin staðfest að undangenginni könnun á verði slíkra eininga. Viðauki við fjárhagsáætlun vegna verkefnisins var síðan samþykktur samhljóða í bæjarstjórn. Um er að ræða einfalda og ódýra leið til að taka á húsnæðisvanda í þéttsetnum grunnskóla til skamms tíma og fljótlegt er að koma einingunum fyrir þar sem þær eru ekki jarðfastar. Stefnt hefur verið að því að taka fyrsta áfanga nýs skóla í landi Björkur í notkun haustið 2020 og nýta stofurnar þangað til. Samskonar lausnir hafa verið nýttar á öðrum stöðum á landinu, og er t.d. verið að reisa heilan skóla úr slíkum stofum í Reykjanesbæ. Nú tekur nýr meirihluti, sem er að mestu skipaður sömu einstaklingum og samþykktu þessi kaup fyrir nokkrum vikum, þá ákvörðun að henda þessu úrræði um næstu áramót og setja niður aðrar kennslustofur til bráðabirgða. Fjárheimildir til aukins kostnaðra í þessu skyni eru ekki fyrir hendi. Ekki er farið vel með fjármuni sveitarfélagsins með þessum hætti og er klárlega ekki verið að gæta hagsmuna Sveitarfélagsins Árborgar með þessari ákvörðun. Þessi hringlandaháttur vekur einnig upp hugrenningar um hvort til standi að seinka framkvæmdum við nýjan skóla í Björkurlandi og er hér með farið fram á svör við þeirri spurningu.
Gunnar Egilsson, D-lista.

Fundargerðin staðfest.

     
2.   1806173 – Fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar 2018 – ný nefnd
  1. fundur haldinn 2. júlí
  – liður 3, málsnr. 1711075 – óveruleg breyting á aðalskipulagi að Eyravegi 34-38, Selfossi. Bæjarráð samþykkir eftirfarandi rökstuðning skipulags- og byggingarnefndar fyrir umræddri aðalskipulagsbreytingu: Um er að ræða lóðir sem eru staðsettar á blönduðu svæði verslunar- og þjónustu. Lóðirnar sem eru alls 9.540 fermetrar að stærð, eru að hluta aðliggjandi íbúðarsvæði og er einungis verið að auka við mögulega nýtingu lóðanna með því að leyfa íbúðir á efri hæðum enda hafa tvær lóðanna staðið óbyggðar svo árum skiptir og efri hæð húsnæðis við Eyraveg 38 hefur staðið auð. Eins og fram kemur í greinargerð er ekki um að ræða verulegar breytingar á meginstefnu aðalskipulags. Ekki er um að ræða aukningu á byggingarmagni eða stækkun byggingarreits. Svæðið nýtur ekki sérstakrar verndar. Áætlað er að tillagan hafi lítil eða engin áhrif á þá starfsemi sem fyrir er eða á nærliggjandi íbúðarsvæði en líklegt er að verðmæti lóðanna aukist með auknum heimildum til nýtingar.
– liður 4, málsnr. 1707183 – breyting á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags að Lækjarmóti/Lén. Bæjarráð samþykkir eftirfarandi rökstuðning skipulags- og byggingarnefndar fyrir umræddri aðalskipulagsbreytingu: Um er að ræða lóð sem eru staðsett á landbúnaðarsvæði. Allt umhverfis lóðina er landbúnaðarsvæði. Lóðin sem er alls 6186 fermetrar að stærð. Núverandi eigandi lóðarinnar hyggst reisa heilárshús á lóðinni, þar sem hann muni búa með fjölskyldu sinni. Eins og fram kemur í greinargerð er ekki um að ræða verulegar breytingar á meginstefnu aðalskipulags. Fyrirhugað er að byggja eitt íbúðarhús á lóðinni og mun byggingareitur stækka í samræmi við það. Svæðið nýtur ekki sérstakrar verndar. Áætlað er að tillagan hafi lítil eða engin áhrif á þá starfsemi sem fyrir er eða á nærliggjandi löndum og jörðum en líklegt er að verðmæti lóðarinnar aukist með auknum heimildum til nýtingar.
– liður 8, málsnr. 18051048 – Umsókn Selfossveitna, um framkvæmdaleyfi til að reka ídráttarrör undir Suðurlandsveg. Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfið.
– liður 12, málsnr. 18051708 – Umsókn TRS, um framkvæmdaleyfi fyrir ljósleiðara í Gagnheiði, Selfossi. Álfheiður vék af fundi við afgreiðslu málsins. Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfið með því skilyrði að gerður verði skriflegur samningur við framkvæmda- og veitusvið um yfirborðsfrágang og verktíma.
– liður 13, málsnr. 1804016 – Umsókn Selfossveitna, um framkvæmdaleyfi fyrir dælubrunni að Jórutúni 2a, Selfossi. Umsóknin var grenndarkynnt og ein athugasemd barst. Skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara athugasemdinni. Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfið.
– liður 14, málsnr. 1802234 – Afgreiðsla grendarkynningar að Stekkjarlandi 12, Selfossi. Bæjarráð samþykkir breytinguna.
– liður 21, málsnr. 1806200 – Umsókn HS veitna, um framkvæmdaleyfi fyrir raflögnum að fyrirhuguðum dælubrunni við Jórutún 2b. Bæjarráð samþykkir framkvæmdaleyfið með því skilyrði að gerður verði skriflegur samningur við framkvæmda- og veitusvið um yfirborðsfrágang og verktíma.
– liður 25, málsnr. 1711075 – Tillaga að breytingu á deiliskipulagi að Eyravegi 34-38, Selfossi. Bæjarráð samþykkir að tillagan verði auglýst.
Fundargerðin staðfest.
     
Fundargerðir til kynningar
3.   18051661 – Fundargerðir Bergrisans bs. 2018
  34. fundur haldinn 18. júní  3-18051661
Aukaaðalfundur haldinn 18. júní 3-18051661 auka fundur
  – liður 6, Bæjarráð Árborgar samþykkir að ráðist verði í byggingu íbúðarkjarna á Selfossi. Jafnframt samþykkir bæjarráð Árborgar að veita stofnframlög til verkefnisins í formi lóðarúthlutunar.
– liður 8, Bæjarráð Árborgar samþykkir að ráðist verði í kaup á íbúðarhúsi til nota fyrir börn með fjölþættan vanda og að úrræðið verði tekið í notkun svo fljótt sem unnt er.
     
4.   1802003 – Fundargerðir heilbrigðisnefndar Suðurlands 2018
4-1802003
  188. fundur haldinn 29. júní
  Lagt fram.
     
5.   1806079 – Aðalfundur Háskólafélags Suðurlands ehf. – Þekkingarnets
5-1806079
  10. aðalfundur haldinn 12. júní
  Lagt fram.
     
6.   1802019 – Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2018
6-1802019
  861. fundur haldinn 29. júní
  Lagt fram.
     
Almenn afgreiðslumál
7.   1709212 – Samkomulag um Hólaskarðsveg við Seyðishóla í Grímsnes- og Grafningshreppi
7-1709212
  Minnisblað lagt fram. Bæjarráð samþykkir að vegurinn verði alfarið í umsjá vegasamlags um Hólaskarðsveg, enda fellur enginn kostnaður á Sveitarfélagið Árborg vegna málsins.
     
8.   1806093 – Samkomulag um að Ingibjörg Garðarsdóttir gegni starfi framkvæmdastjóra tímabundið þar til nýr hefur verið ráðinn.
8-1806093
  Bæjarráðs samþykkir samkomulagið.
     
9.   1806198 – Skipan starfshóps um endurbætta heimasíðu og innri síðu
  Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
     
10.   1807006 – Umsókn um leyfi – skilti á horni Suðurlandsvegar og Breiðumýrar
10-1807006
  Erindi frá Stillingu, dags. 2. júlí, þar sem óskað er eftir að setja upp skilti á horni Suðurlandsvegar og Breiðumýrar.
  Bæjarráð vísar erindinu til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd.
     
11.   18051486 – Tillaga frá Gunnari Egilssyni, bæjarfulltrúa D-lista, um miðbæ Selfoss og íbúakosningu.
  Lögð var fram eftirfarandi tillaga:
Undirritaður leggur til að samið verði við Sigtún Þróunarfélag um að gildistöku samninga sveitarfélagins og Sigtúns Þróunarfélags verði frestað fram yfir fyrirhugaða íbúakosningu. Jafnframt verði skipulagsferli miðbæjarskipulags haldið áfram. Íbúakosningin fari fram eins fljótt og unnt er og verði rafræn eins og áður hefur verið ákveðið.
Greinargerð:Tillaga þessi er sett fram þar sem fyrir liggur að Þjóðskrá getur ekki útvegað kosningakerfi til að viðhafa rafrænar kosningar nógu tímanlega til þess að unnt verði að ljúka ferlinu í ágústmánuði. Í lok ágúst er eitt ár liðið frá því að athugasemdafresti vegna miðbæjarskipulags lauk og ógildist skipulagstillagan ef auglýsing um gildi hennar verður ekki birt í Stjórnartíðindum fyrir þann tíma.Gunnar Egilsson, D-lista.
  Tillagan var borin undir atkvæði og feld með tveimur atkvæðum bæjarfulltrúa Á- og S-lista.
     
12.   18051486 – Tillaga frá Gunnari Egilssyni, bæjarfulltrúa D-lista, vegna íbúakosningu vegna miðbæjarskipulags.
  Lögð var fram eftirfarandi tillaga:
Undirritaður leggur til að fyrirhuguð íbúakosning um aðal- og deiliskipulagstillögu vegna miðbæjar Selfoss verði haldin laugardaginn 11. ágúst n.k. með hefðbundnu sniði.
Greinargerð:Framkvæmdaaðilum vegna miðbæjar á Selfossi hefur verið tilkynnt af fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar að skipulagsferlið verði stöðvað með þeim afleiðingum að hinn 29. ágúst n.k., þegar ár er liðið frá því að athugasemdafresti lauk, ógildist deiliskipulagið. Í ljósi þess leggur undirritaður til að íbúakosning verði haldin laugardaginn 11. ágúst n.k. með hefðbundnu kosningafyrirkomulagi, þ.e. ekki rafrænt eins og áður hafði verið ákveðið. Fram hefur komið að þjóðskrá getur ekki útvegað kosningakerfi fyrir rafrænar kosningar fyrr en í september n.k.Meirihluti B-, S-, Á og M lista hefur hafnað þeirri einföldu lausn að láta deiliskipulagið taka gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og semja við framkvæmdaaðila um að samningur um framkvæmdir á lóðum í miðbæ Selfoss taki ekki gildi fyrr en eftir íbúakosninguna, fái skipulagið framgang í henni og er því nauðsynlegt að láta kosninguna fara fram með hefðbundnum hætti eigi síðar en 11. ágúst n.k.

Gunnar Egilsson, D-lista.

  Tillagan var borin undir atkvæði og feld með 2 atkvæðum bæjarfulltrúa Á- og S-lista.

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að meirihluti B-S-Á- og M- lista, hafnar þeim leiðum sem færar eru til þess að láta deiliskipulagstillögu vegna miðbæjar ekki ógildast meðan beðið er íbúakosningar. Verði niðurstaðan sú að íbúakosning að fleiri eru með tillögunni en á móti þarf því að byrja allt ferlið á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði og töfum.
Gunnar Egilsson, D-lista.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, lögðu fram eftirfarandi bókun:

Bókun vegna tillögu bæjarfulltrúa D lista
Það hefur verið öllum ljóst sem að hafa fjallað um fyrirhugað miðbæjarskipulag á Selfossi að gildistaka samnings sveitarfélagsins og Sigtúns þróunarfélags öðlast ekki gildi fyrr en skipulagsferlinu er lokið og skipulagið hefur endanlega öðlast gildi. Það er því óþarfi að samþykkja sérstaka tillögu um það mál.
Fyrir liggur að Þjóðskrá er að undirbúa rafræna íbúakosningu fyrir sveitarfélagið byggða á tillögu sem D listi Sjálfstæðisflokksins lagði fram á 46. fundi bæjarstjórnar þann 14 maí s.l og var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Það er ekki á valdi bæjarfulltrúa meirihlutans að hafa áhrif á hve Þjóðskrá Íslands þarf mikinn tíma til þess að undirbúa slíka kosningu, en aldrei hefur staðið annað til en íbúakosning um miðbæjarskipulagið verði framkvæmd en fljótt og kostur er.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að meirihluti bæjarstjórnar hafi hafnað því að láta deilskipulagið taka gildi með auglýsingu í B deild stjórnartíðinda, og gera samhliða baksamning við framkvæmdaraðila. Það að láta skipulagið öðlast formlegt gildi áður en niðurstaða liggur fyrir úr íbúakosningunni eru vinnubrögð sem meirihluta bæjarstjórnar hugnast ekki.
Málið verður unnið áfram eftir leikreglum góðra stjórnsýsluhátta og gegnsæi.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista.
Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista.

     
Erindi til kynningar
13.   1806139 – Ný og breytt lög um félagsþjónustu sveitarfélaga – öldungaráð og þjónustuhópur aldraðra
13-1806139
  Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 18. júní,um ný og breytt ákvæði um notendaráð á grundvelli laga sem taka gildi þann 1. október nk.
  Lagt fram.
     

 

 

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:20

 

Eggert Valur Guðmundsson   Álfheiður Eymarsdóttir
Gunnar Egilsson   Rósa Sif Jónsdóttir