9.8.2018 | 20 ára afmælislag Sveitarfélagsins Árborgar

Forsíða » Fréttir » 20 ára afmælislag Sveitarfélagsins Árborgar

image_pdfimage_print

Sveitarfélagið Árborg samþykkti nú í sumar styrk til Valgeirs Guðjónssonar þess efnis að vinna lag í tilefni af 20 ára afmæli Sveitarfélagsins Árborgar. Nú er lagið að líta dagsins ljós og verður það frumflutt nk. laugardag 11.ágúst kl. 21:30 í Sigtúnsgarðinum á undan Sléttusöngnum á Sumar á Selfossi. 

Flytjendur lagsins eru þau Valgeir Guðjónsson, Vigdís Vala Valgeirsdóttir og Gísli Ragnar Kristjánsson en auk þeirra komu eftirfarandi aðilar að útgáfu lagsins. Upptaka og frágangur fór fram í Stúdíó Paradís.

Pétur Valgarð Pétursson, Gítar

Tomas Jónsson, Píanó

Jóhann Ásmundsson, Bassi og trommur

Hér að neðan má sjá texta lagsins og geta íbúar haft hann með sér á laugardaginn og tekið undir með Valgeir og félögum þegar lagið verður flutt opinberlega í fyrsta skipti. 

„Borgin við ána“

Áin hvíta leitar lengi að ósi
líkt og myrkið skimar eftir ljósi
hún þræðir farveg þekkir klungur kletta
og krika þar sem sumarblómin spretta

Undir fjalli ingólfs blanda blóði
og bindast á og sog  í sama flóði
jökullindavatnið lengra leitar
og lítur borg á mörkum ár og sveitar

Borgin við ána árborgin sæla
erindið við þig er lof þér að mæla
frá ströndu til hlíða og fríðan um flóann
er fjölskrúðugt mannlíf – svo tjáir mér lóan

Áin streymir úthaf hennar bíður
yfir himinboginn hvelfist víður
eins og forðum bylgjur brotna á sandi
og blessun góðra vætta lýsir landi

Borgin við ána árborgin sæla
erindið við þig er lof þér að mæla
megum við blómstra í súru og sætu
í suðvestan, norðaustan sólskini og vætu