20.4.2012 | 27. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 27. fundur bæjarstjórnar
image_pdfimage_print

27. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 18. apríl 2012 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eyþór Arnalds, D-lista,
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Andrés Rúnar Ingason, varamaður, V-lista

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá:

 

I. I1007011
Viljayfirlýsing um stofnun mjólkuriðnaðarsafns á Selfossi
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbústjóri MS Selfossi, Magnús Sigurðsson, Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar, Elfa Dögg Þórðardóttir, varaformaður bæjarráðs Árborgar, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, skrifuðu undir viljayfirlýsingu um stofnun mjólkuriðnaðarsafns á Selfossi.

Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.

II. Fundargerðir til staðfestingar

1 a) 1201024
 Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar    frá  13. Mars
 b) 87. Fundur bæjarráðs ( 1201001 )   frá  22. Mars
 Úr fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, til afgreiðslu:
 -liður 9, málsnúmer 1201030 – Skilgreining lóðar úr landi Lækjarmóta, lagt er til við bæjarstjórn að aðalskipulagi lóðarinnar verði breytt í íbúðarhúsalóð úr lóð með grænt svæði til sérstakra nota ásamt frístundahúsalóð.

2 a) 1201020
 Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar   frá  21. Mars
  b) 88. Fundur bæjarráðs ( 1201001 )   frá  29. Mars

3 a) 1201023
 Fundargerð menningarnefndar Árborgar   frá    2. apríl
a) 89. fundur bæjarráðs ( 1201001 )    frá  12. apríl

– liður 1 b) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 22. mars, lið 4 – Úrskurður kærunefndar útboðsmála vegna kæru Gámaþjónustunnar á útboði vegna sorphirðu og lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa S- og B -lista:
„Undirrituð vilja ítreka bókun bæjarfulltrúa S- og B- lista þar sem vakin er athygli á að sú gagnrýni, sem fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar höfðu í frammi þegar sú ákvörðun var tekin að hafna tilboðum sem bárust vegna sorphirðuútboðs fyrr í vetur, átti fullan rétt á sér og er staðfest í úrskurði kærunefndar útboðsmála. 
Einnig er það skoðun undirritaðra fulltrúa að þau vinnubrögð, sem  varaformaður bæjarráðs og jafnframt fulltrúi D-lista viðhafði við meðferð málsins á þessum fundi, hljóti að teljast vægast sagt mjög sérkennileg í ljósi þess að bæjarfulltrúinn taldi sig vanhæfan til þess að taka þátt í umræðum um málið og vék af fundi við upphaf málsins. Að loknum umræðum  kom bæjarfulltrúinn aftur inn á fundinn og lagði fram harðorða bókun um málið. Það er skoðun undirritaðra bæjarfulltrúa að það samræmist ekki góðum stjórnsýsluháttum þegar bæjarfulltrúar víkja sæti vegna vanhæfis en leggja  jafnframt fram efnislegar bókanir vegna  þeirra mála sem þeir sjálfir telja sig vanhæfa til þess að fjalla um. Þetta verður að telja í hæsta máta afar óeðlileg vinnubrögð.“
Eggert V Guðmundsson, fulltrúi S-lista.
Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúi S-lista.
Helgi S. Haraldsson, B-lista.
Gunnar Egilsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.
Andrés Rúnar Ingason, V-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaður telur óeðlilegt að fulltrúi, sem víkur af fundi vegna vanhæfis við afgreiðslu máls, leggi fram bókun um málið þegar hann kemur inn aftur.  Um efni bókunarinnar lýsir undirritaður því áliti sínu að ómaklegt sé að kenna fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn um óvönduð vinnubrögð við útboðið og afgreiðslu þess.  Þeir fulltrúar meirihlutans sem stýrðu þessu máli bera alla ábyrgð á ferli þess og afleiðingum vinnubragða sinna. Aðkoma minnihlutans var aðeins að mínu mati að reyna að fá fram betri vinnubrögð sem sýndi sig síðar að ekki var vanþörf á.“
Andrés Rúnar Ingason, varabæjarfulltrúi V-lista.
– liður 1b) Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 22. mars, lið 5 – Beiðni um tilnefningu í byggingarnefnd vegna viðbyggingar við verknámshúsið Hamar.
Eyþór Arnalds, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

– liður 1 b) Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 22. mars, lið 8 – Endurbætur á gólfi í íþróttahúsi Vallaskóla.

– liður 1 a) fundargerð skipulags og byggingarnefndar – liður 9, málsnúmer 1201030 – Skilgreining lóðar úr landi Lækjarmóta. Lagt er til við bæjarstjórn að aðalskipulagi lóðarinnar verði breytt í íbúðarhúsalóð úr lóð með grænt svæði til sérstakra nota ásamt frístundahúsalóð. 
 Tillaga um að aðalskipulagi lóðar við Lækjarmót verði breytt í íbúðarhúsalóð úr lóð með grænt svæði til sérstakra nota ásamt frístundahúsalóð var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

– liður 2 b) Andrés Rúnar Ingason, V-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 29. mars lið 7 – Tillaga fulltrúa S-lista um ályktun um breytingar stjórnvalda á tillögum verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Tilgangur Rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðhita er að flokka hugsanleg virkjanasvæði í nýtingarflokk og verndarflokk og er biðflokkur notaður sem tímabundið ástand meðan nægilegra gagna er aflað til að ákveða í hvort fyrrnefndra flokka svæðið skuli fara. Sú ákvörðun, að setja allar þrjár virkjanirnar í Þjórsá í biðflokk, byggir á nýjum upplýsingum sem fram komu eftir að stýrihópur um Rammaáætlun lauk starfi sínu og talið var nauðsynlegt að meta frekar. Líklegt er að sú matsvinna taki ekki langan tíma og að eftir það verði tekin ákvörðun um hvort þessi virkjanasvæði skuli hvert um sig fara í nýtingarflokk eða verndunarflokk.
Undirritaður telur mikilvægt að þessi nýju gögn verði tekin til eðlilegrar skoðunar en þeim ekki vísað frá af pólitískum ástæðum.“

Andrés Rúnar Ingason, varabæjarfulltrúi V-lista.

– liður 2 b) Andrés Rúnar Ingason, V-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 12. apríl lið 9 – Beiðni atvinnuveganefndar Alþingis um umsögn um  frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjöld og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Ég undirritaður, varabæjarfulltrúi V-lista Vinstri grænna í bæjarstjórn Árborgar, mótmæli þeirri afstöðu sem kemur fram í bókun fulltrúa B- og D- lista um málið, bæði ýmsum fullyrðingum í henni og niðurstöðu hennar.
 
Í nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi er áréttað það sem þegar segir í núgildandi fiskveiðistjórnunarlögum að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar allrar og að einstökum aðilum verði aðeins veittur tímabundinn afnotaréttur með samningum sem ekki myndi eign einkaaðila. Í frumvörpunum eru einnig ný ákvæði um greiðslu fyrir umsamin afnot af auðlindinni og að sú greiðsla renni í sameiginlega sjóði landsmanna.
 
Um langt árabil hafa útgerðarmenn stundað það að selja og leigja fiskveiðiheimildir sín í milli og hafa milljarðar króna farið út úr atvinnugreininni og í vasa þeirra sem selt hafa og hætt útgerð eða afkomenda þeirra sem ekki hafa viljað stunda útgerð. Eftir hafa staðið skuldsettar útgerðir þeirra sem keypt hafa af þeim sem fóru með andvirðið út úr atvinnuveginum. Einnig hafa einstaka útgerðarmenn veðsett aflaheimildir til að fjármagna alls kyns önnur hugðarefni óviðkomandi útgerð og skuldsett útvegsfyrirtæki sín þannig stórlega. Skuldsetning útgerðarfyrirtækja af slíkum orsökum á ekki að vera nein afsökun fyrir því að þau skuli hafa endurgjaldslaus afnot af þeirri sameiginlegu auðlind í þjóðareigu sem fiskveiðistýringin skapar.
 
Þegar aðgangur að auðlind er og þarf að vera takmarkaður, þá myndar nýtingarrétturinn verðmæti. Þessi verðmæti hafa sést í verði á fiskveiðikvóta. Andlag þessara verðmæta á að sjálfsögðu að renna til þeirra sem eiga auðlindina, en ekki til þeirra sem veittur hefur verið tímabundinn nýtingaréttur eins og tíðkast hefur. Hér er því í raun ekki um nýtt gjald að ræða heldur breytingu á því hver fær gjaldið og að allir borga það til þjóðarinnar en ekki sumir útgerðarmenn til annarra útgerðarmanna.
 
Fiskveiðigjald er á allan máta sanngjarnt. Það er afnotagjald til eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar allrar. Verðmæti auðlindarinnar er einnig að miklu leyti afrakstur verndunar almannavaldsins á viðhaldi hennar með veiðistýringu og hafrannsóknum, gegn skammsýnni ofveiði. Í umræddu frumvarpi er veiðigjaldið ákvarðað sem hluti af hagnaði sjávarútvegsins, ekki stærri hluti en svo að nægur ágóðahlutur á að verða eftir til að standa undir skynsamlegum fjárfestingum í greininni, þótt ekki sé þar áskilinn hagnaður til að fjárfesta í ýmsu kostnaðarsömu braski og bruðli að auki.
 
Fráeitt er að draga þá ályktun að skipting hagnaðar milli útgerðar og almennings muni leiða til lægri launa sjómanna. Hagnaður verður til eftir að allur kostnaður hefur fallið til, þar á meðal laun og því munu hærri laun sjómanna leiða til minni hagnaðar en ráðstöfun hagnaðar ekki leiða til lægri launa. Til að tryggja laun sjómanna mætti vel bæta við frumvarpið ákvæði um að allur fiskur skuli seldur á opnum fiskmörkuðum. Slíkt myndi einnig efla innlenda fiskvinnslu í landi og verðmætaaukningu aflans, með tilheyrandi atvinnusköpun og tekjum sveitarfélaga af henni. Einnig mætti bæta sanngirnissjónarmið í fumvarpinu með því að tryggja betur leiðir til að gæta meira jafnræðis til aðgangs að úthlutun fiskveiðiheimilda og nýliðunar í sjávarútvegi. Auðlindagjaldið mun renna til almannaþjónustu og mun því hvorki skerða tekjur sveitarfélaga né auka byrðar þeirra, heldur þvert á móti.“

Andrés Rúnar Ingason, varabæjarfulltrúi V-lista.

Eyþór Arnalds, D-lista, og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.

Fundargerðirnar bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða að undanskildum þeim lið sem áður hafði verið samþykktir.

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 17:50

Eyþór Arnalds 
Elfa Dögg Þórðardóttir
Ari Björn Thorarensen 
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Gunnar Egilsson 
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson 
Arna Ír Gunnarsdóttir
Andrés Rúnar Ingason 
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari