3.5.2012 | 28. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 28. fundur bæjarstjórnar

image_pdfimage_print

28. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 2. maí 2012 kl. 10:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

 Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:

Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eyþór Arnalds, D-lista,
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Andrés Rúnar Ingason, varamaður, V-lista

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá: 

 1. I.                   1204170

Ársreikningur 2011 – fyrri umræða

Eyþór Arnalds D-lista, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, fylgdu ársreikning úr hlaði og lögðu fram svohljóðandi greinargerð.  

 

Greinargerð með ársreikningi Sveitarfélagsins Árborgar árið 2011

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2011 er lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 2. maí 2012. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður seinni umræðan í bæjarstjórn þriðjudaginn 15. maí 2012. 

Inngangur

Rekstrarafkoma Sveitarfélagins Árborgar árið 2011 er góð þrátt fyrir mikla verðbólgu, launahækkanir og há fjármagnsgjöld. Hagnaður af rekstri fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) nemur 1.159 milljónum króna sem er 165 milljónum betra er áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstur A-hluta gekk jafnframt vel og var EBITDA 571 milljón króna sem er 172 milljónum hærra en gert var ráð fyrir í áætlun. Fjármagnsgjöld vega hins vegar afar þungt enda var verðbólgan hærri en gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir fjármagnsgjöld upp á 718 milljónir nettó og afskriftir upp á 377 milljónir er engu að síður afgangur upp á 65 milljónir króna fyrir skatta sem er 24 milljónum hærra en gert var ráð fyrir í áætlun. Tekjuskattur er 29 milljónum hærri en gert var ráð fyrir og dregur það rekstrarniðurstöðu samstæðunnar niður en hún er samt jákvæð um 35 milljónir króna. 
Stærstu umskiptin eru í greiðslugetu sveitarfélagsins og skuldahlutfalli en það lækkar úr 203% í 173% af samstæðu. Þegar horft er til rekstrarafgangs sem nú hefur vaxið um 67% á tveimur árum er ljóst að skuldir sveitarfélagsins eru orðnar viðráðanlegar. Í stað þess að sveitarfélagið skuldaði 13X EBITDA, eða þrettánfaldan rekstrarafgang, er hlutfallið komið niður í 7,9X EBITDA, eða tæplega áttfaldan rekstrarafgang.
Sveitarfélagið greiddi yfir eitt þúsund milljónir í afborganir lána og lífeyrisgreiðslur en tók lán fyrir 532 milljónir, annars vegar 175 milljónir vegna miðjureits og hins vegar lán vegna fjárfestinga. Skuldir og skuldbindingar að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum nema í árslok 9.327 milljónum króna og hafa lækkað að nafnvirði um 68 milljónir króna en á föstu verðlagi um 665 milljónir króna á einu ári. Skuldir eru enn of háar og er áfram brýnt að létta á skuldum eins og kostur er. Þá er mikilvægt að sveitarfélagið geri það sem það getur til að örva framkvæmdir eins og kostur er.  

Rekstur ársins 2011 

Samstæðureikningur Sveitarfélagsins Árborgar samanstendur af A-hluta og B-hluta.

Í A-hluta eru :

 • ·         Aðalsjóður
 • ·         Eignasjóður
 • ·         Þjónustustöð
 • ·         Fasteignafélag Árborgar

Í B-hluta eru :

 • ·         Byggingarsjóður aldraðra
 • ·         Fráveita
 • ·         Vatnsveita
 • ·         Leigubústaðir Árborgar
 • ·         Selfossveitur
 • ·         Björgunarmiðstöð

 

Meginreglan er sú að í A-hluta flokkast þær rekstrareiningar sveitarfélagsins sem fjármagnaðar eru að hluta eða öllu leyti með skatttekjum en í B-hluta flokkast þær rekstrareiningar, stofnanir og fyrirtæki sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Rekstrareiningar í B-hluta hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld til þess að standa að fullu undir útgjöldum sínum. 

Helstu niðurstöður rekstrar eru :
 

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta er jákvæð um 35,3 millj.kr. Reikningurinn sýnir neikvæð frávik miðað við fjárhagsáætlun ársins 2011 sem nemur 5,8 millj.kr. Endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 41 millj.kr. en upphafleg áætlun ársins, sem gerð var í desember 2010, gerði ráð fyrir  jákvæðri  niðurstöðu sem nemur 50,6 millj.kr. 

Heildartekjur eru 5.400,7 millj.kr. og heildarútgjöld með afskriftum en án fjármagnsliða 4.618,3 millj.kr. Að öllu samanlögðu nema heildarútgjöld með afskriftum án fjármagnsliða 85,51% af heildartekjum A og B-hluta ársreiknings.  

Fræðslu- og uppeldismál er umfangsmesti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins, tekur til sín 2.247,6 millj.kr.  Sveitarfélagið Árborg er stór vinnuveitandi og greiðir um 2.568,8 millj.kr. í laun og launatengd gjöld. 

Skatttekjur eru 19,1 millj.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Tekjur frá Jöfnunarsjóði eru 423,4 millj.kr. yfir áætlun.  Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 voru tekjur  Árborgar frá Jöfnunarsjóði vegna yfirtöku á málefnum fatlaðs fólks áætlaðar á málaflokk 02, en að betur athuguðu máli eru þær tekjur færðar á málaflokk 00.  Tekjur Árborgar frá Jöfnunarsjóði vegna yfirtöku á málefnum fatlaðra nema um 213 millj. kr.  Tekjur frá Jöfnunarsjóði eru því í raun 210,4 millj.kr. yfir áætlun og munar þar mestu um tekjujöfnunarframlag upp á 127 millj.kr.. 

Einnig er um að ræða jákvæð frávik í málaflokknum hreinlætismál og umferðar- og samgöngumál.  Samtals eru þessir málaflokkar 18,3 millj.kr. undir áætlun. 

Þeir málaflokkar í aðalsjóði sem eru með neikvæð frávik eru eftirfarandi: félagsþjónusta, fræðslu- og uppeldismál, menningarmál, æskulýðs- og íþróttamál, brunamál- og almannavarnir, skipulags- og byggingarmál, umhverfismál, avinnumál og sameiginlegur kostnaður.  Samtals eru neikvæð frávik í þessum málaflokkum 366,4 millj.kr.  Nettó frávik fyrrgreindra málaflokka í aðalsjóði eru óhagstæð sem nema 348,1 millj.kr. 

Hagstæð frávik eru á breytingu lífeyrisskuldbindingar um 30,8 millj.kr. 

Neikvæð frávik fjármagnsliða aðalsjóðs eru 30,7 millj.kr. 

Afkoma eignasjóðs er lakari en áætlun sem nemur 108,6 millj.kr. Afkoma þjónustustöðvar er 2,7 millj.kr. undir áætlun og Fasteignafélag Árborgar er 56,7 millj.kr. yfir áætlun. 

Frávik B-hluta félaga eru óhagstæð um 73,4 millj.kr.  Frávik í Byggingarsjóði aldraðra eru óhagstæð um 1,7 millj.kr.  Leigubústaðir Árborgar ehf. skila betri afkomu en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 9,1 millj.kr.  Fráveita sýnir lakari afkomu en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 14,8 millj.kr.  Frávik vatnsveitu sýna lakari afkomu en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 11,9 millj.kr.  Selfossveitur sýna lakari afkomu en áætlun sem nemur 83,9 millj.kr.  Áætlun gerði ráð fyrir tapi á Björgunarmiðstöð upp á 27,8 millj.kr. en niðurstaða rekstrar varð hagnaður upp á 2 millj.kr.  

Fjárfestingar 

Fjárfestingar ársins námu alls 512,5 millj.kr. sem skiptast þannig: fasteignir 179,5 millj.kr., íþróttavöllur og önnur svæði 52,7 millj.kr., miðbæjarsvæði 175 millj.kr., veitu- og gatnakerfi 64,6 millj.kr. og vélar, áhöld og tæki 40,7 millj.kr. 

Efnahagsreikningur 31.12.2011 

Samanteknar niðurstöður efnahagsreiknings birtast í töflunni hér að neðan :

  

Sjóðstreymi ársins 2011 

Samanteknar niðurstöður birtast í töflunni hér að neðan :

  

Lykiltölur 

Samanteknar niðurstöður birtast í töflunni hér að neðan :
 

                                                                                             Framtíðarsýn
Nú er ljóst að tekist hefur að ná tökum á skuldasöfnun og hallarekstri sveitarfélagsins. Þetta hefur tekist með samstilltu átaki kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa sem hafa sýnt þessu erfiða verki einstaklega góðan skilning. En framtíðin er ekki byggð á niðurskurði einum saman heldur miklu heldur á uppbyggingu sem nú er möguleg á grunni sjálfbærs rekstrar. Uppbygging hefur þegar átt sér stað í verslun að undanförnu og má hér nefna nýbyggingar við Larsenstræti á síðasta ári þar sem Hagkaup hefur nú opnað í fyrsta sinn á Suðurlandi og Bónus hefur opnað stórverslun.  Nettó hefur opnað við Austurveginn auk margra smærri aðila í verslun og veitingarekstri. Þessi aukna samkeppni kemur íbúum og ferðamönnum vel og fjölgar bæði störfum og bætir vöruúrval. Nú þegar hafa þessar breytingar  bætt við tugum starfa á Selfossi og velta verslana hefur aukist. Tækifæri fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri liggja ekki hvað síst í ferðamönnum sem nú geta farið beint frá Leifsstöð meðfram suðurströndinni til okkar. Samstarf við Markaðsstofu Suðurlands er þáttur í þeirri viðleitni að gera kynningu á kostum sveitarfélagsins sýnilegri. Nú þarf að tryggja betur aðkomu stórra hópa, upplýsingagjöf og stuðla að áhugaverðum viðkomustöðum. MS hefur ákveðið að efla starfsemi sína á Selfossi og sveitarfélagið hefur undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um mjólkursafn sem sameinar mjólkurbæinn Selfoss og ferðamennsku. Unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu Hótels Selfoss og hefur sveitarfélagið lagt sín lóð á vogarskálarnar til að það megi ganga vel eftir. Sandvíkursetur er nýtt tækifæri í fræðslumálum þar sem fullorðinsfræðsla fær nýjan og öflugan starfsvettvang í hjarta bæjarins. Framundan er deiliskipulag á miðbæjarreit í sátt við íbúana sem býður upp á einstakt og langþráð tækifæri til eflingar Selfoss og Suðurlands alls. Þá er útlit fyrir uppbyggingu við eldri hluta HSu, byggingu verknámshúss FSu auk þess sem umsvif í virkjanagerð sem nú eru í bið hljóta á endanum að auka mjög verklegar framkvæmdir og umsvif. Öll þessi mál  og ótal fleiri hafa stuðning bæjarfulltrúa úr öllum flokkum sem hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir sveitarfélagið og íbúa. Við viljum nota tækifærið og þakka kjörnum fulltrúum, starfsmönnum og íbúum fyrir að leggjast á eitt við að gera gott sveitarfélag enn betra. 

Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
,,Hér er lagður fram ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2011.  Ég vil við það tækifæri láta í ljós óánægju mína með það hvað hann er seint lagður fram.  Áður en reikningurinn er kynntur bæjarfulltrúum af endurskoðendum sveitarfélagsins og þeir fá tækifæri til að ræða hann, er búið að skila honum til opinberra aðila vegna laga þar um.  Þar með er hann orðinn opinbert plagg og hefur m.a verið birtur á heimasíðu Kauphallarinnar.  Einnig hefur formaður bæjarráðs komið fram í netmiðlum og tjáð sig um niðurstöðu hans við blaðamenn áður en áðurnefnd kynning hefur farið fram.  En það sem verst er í þessu öllu er að allt er þetta vegna þess að vinna við frágang ársreikningsins er allt of seint á ferðinni og hann tilbúinn rétt áður en skila skal honum til opinberra aðila til að koma í veg fyrir áminningu og jafnvel sekt eins og áður hefur komið fyrir hjá sveitarfélaginu varðandi skil og upplýsingagjöf til opinberra aðila.  Ég vona að framvegis verði viðhöfð vandaðri vinnubrögð við frágang og framlagningu ársreiknings Sveitarfélagsins Árborgar. 

Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi B-lista. 

Eyþór Arnalds, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,  tóku til máls. 

Lagt var til að ársreikningi yrði vísað til síðari umræðu þriðjudaginn 15. maí næstkomandi, var það samþykkt samhljóða. 

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 10:25

Eyþór Arnalds                                                   
Elfa Dögg Þórðardóttir
Ari Björn Thorarensen                                      
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Gunnar Egilsson                                                
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson                             
Arna Ír Gunnarsdóttir
Andrés Rúnar Ingason                                      
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari