13.7.2018 | 3. fundur bæjarráðs

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarráð » 3. fundur bæjarráðs
image_pdfimage_print

  1. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn föstudaginn 13. júlí 2018 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10 

Mætt:
Eggert Valur Guðmundsson, formaður, S-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, varamaður, Á-lista
Kjartan Björnsson, varamaður, D-lista
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari

Dagskrá: 

Almenn afgreiðslumál
1.   18051486 – Íbúakosning um miðbæjarskipulag
  Bæjarráð Árborgar samþykkir að íbúakosning um miðbæjarskipulag á Selfossi fari fram laugardaginn 18. ágúst 2018. Stefnt er að því að kosningin verði með hefðbundnum hætti í kjördeildum og kjörstaðir verði opnir frá kl. 9:00 – 18:00.

Bæjarráð áréttar að eftirfarandi spurningar sem áður voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar 14. maí sl. verði lagðar fyrir í íbúakosningunni.

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Bæjarráð áréttar að niðurstöður kosninganna verði eins og áður var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. júní sl.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu úr íbúakosningunni um breytingu á aðal- og deiliskipulagi fyrir miðbæinn á Selfossi verði bindandi fyrir ákvörðun bæjarstjórnar um framhald málsins. Þessi binding bæjarstjórnar nær eingöngu til málsins ef að lágmarki 29% kjörgengra íbúa tekur þátt í kosningunni. Ef hins vegar færri en 29% íbúa taka þátt í kosningunni verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar.

Bæjarráð samþykkir að vísa til viðauka við fjárhagsáætlun kostnaði við íbúakosninguna.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Greinargerð með tillögu um íbúakosningu þann 18. ágúst n.k.
Áfram Árborg, Framsókn og óháðir, Miðflokkurinn og Samfylkingin stofnuðu til meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Sveitarfélagins Árborgar að afloknum sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí s.l.. Meginstef málefnasamnings framboðanna er lýðræðisleg og gagnsæ stjórnsýsla.
Í mars 2015 samþykkti Bæjarráð Árborgar vilyrði til sex mánaða fyrir úthlutun 16.000m2 svæðis í miðbæ Selfoss til handa Sigtúns þróunarfélags ehf, sem skuldbatt sig til þess að sjá um og kosta gerð deiliskipulags fyrir svæðið í heild sinni og leggja fyrir sveitarfélagið til umfjöllunar og afgreiðslu. Eftir nær þriggja ára undirbúning, vinnslu og umfjöllun var deiliskipulag miðbæjar á Selfossi síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 21. febrúar 2018. Fjöldi athugasemda bárust vegna deiliskipulagsins og þeirrar aðalskipulagsbreytingar sem nauðsynleg var til að deiliskipulagið gæti öðlast gildi. Í framhaldinu óskaði svo þriðjungur íbúa sveitarfélagsins, eftir því að fá að kjósa um hvort skipulag miðbæjarins á Selfossi byggðri á hugmyndum Sigtúns þróunarfélags ehf, öðlaðist lögformlegt gildi.
Á grundvelli málefnasamnings meirihluta bæjarstjórnar, X. Kafla sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 um samráð við íbúa og til þess að tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái að segja sína skoðun á miðbæjarskipulagi Sigtúns þróunarfélags ehf, fer íbúakosningin fram laugardaginn 18. ágúst n.k.. Með því að kjósa þennan dag, gefst rúmur tími til að auglýsa og kynna íbúakosninguna eins og lög gera ráð fyrir. Þá næst einnig að uppfylla tímaramma um auglýsingu í B- deild stjórnartíðinda verði skipulagið samþykkt í íbúakosningunni. Nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna fyrir sveitarfélagið gögn nægjanlega fljótt svo unnt sé að láta kosninguna fara fram með rafrænum hætti eins og áður hafði verið ákveðið í bæjarstjórn, þess í stað verður kosningin með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum.
Það er og hefur verið skoðun undirritaðra bæjarfulltrúa að mikilvægt sé að fá niðurstöðu í þetta mál sem allra fyrst svo að uppbygging á miðbæjarreitnum geti hafist eins fljótt og kostur er. Það er svo í höndum íbúa sveitarfélagsins hvort að unnið verði áfram með hugmyndir Sigtúns þróunarfélags ehf eða að uppbygging svæðisins verði með öðrum hætti. Hvort þetta tiltekna skipulag sem um ræðir verður samþykkt í almennri íbúakosningu eða ekki, mun núverandi meirihluti leggja sig fram um að uppbygging á miðbæjarreit Selfoss fari í gang sem allra fyrst.
Málið hefur að okkar dómi verið allt of lengi í undirbúningi og á vinnslustigi einnig virðist það hafa klofið íbúa sveitarfélagsins í tvær fylkingar með eða á móti skipulaginu. Það er því von okkar að með því að fá lýðræðislega niðurstöðu með íbúakosningu þann 18. ágúst n.k. náist sátt um framhald eða lok málsins.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista.

Kjartan Björnsson, D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður fagnar því að meirihluta B-, S-, Á- og M-lista hefur snúist hugur varðandi íbúakosninguna og hefur nú ákveðið að kosningin fari fram áður en aðal- og deiliskipulagstillaga um miðbæ Selfoss fellur úr gildi. Er það í samræmi við ábendingar og tillögur fulltrúa D-lista frá því í bæjarráði í sl. viku. Íbúum gefst því kostur á að greiða atkvæði um málefni sem raunverulega skiptir máli, en ekki tillögu sem er fallin úr gildi. Æskilegt hefði verið að 16 og 17 ára íbúar fengju að segja sitt álit á miðbæjarskipulaginu en geta það því miður ekki þar sem lög um rafræna kosningu eru ekki orðin að veruleika.

Kjartan Björnsson, D-lista.

     

 

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 8:40

 

Eggert Valur Guðmundsson   Álfheiður Eymarsdóttir
Kjartan Björnsson   Rósa Sif Jónsdóttir