2.11.2012 | 34. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 34. fundur bæjarstjórnar

image_pdfimage_print

34. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 31. október 2012 kl. 16:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi. 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:

Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eyþór Arnalds, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista. 

Fulltrúar ungmennaráðs Árborgar sitja fundinn sem sérstakir gestir bæjarstjórnar:
Dagur Fannar Magnússon, formaður, Ragnheiður Inga Sigurgeirsdóttir, Hrefna Björg Ragnarsdóttir, Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, Elfar Oliver Sigurðarson og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir.  

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð. 

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna fulltrúa ungmennaráðs Árborgar.  

Dagskrá: 

I.  1210157
Beiðni Elfu Daggar Þórðardóttur um lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi.
Beiðni Elfu Daggar Þórðardóttur um lausn frá störfum var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaðir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar þakka Elfu Dögg Þórðardóttur fyrir gott samstarf og viðkynningu í bæjarstjórn Sveitarfélags Árborgar á þessu kjörtímabili og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Um leið er Kjartan Björnsson boðinn velkominn til starfa með von um gott samstarf í bæjarstjórn hér eftir sem hingað til.“

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S lista.
Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S- lista. 

Helgi S. Haraldsson B-lista tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Ég vil þakka Elfu Dögg Þórðardóttur, bæjarfulltrúa, fyrir samstarfið í bæjarstjórn og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi, einnig býð ég Kjartan Björnsson bæjarfulltrúa velkominn í bæjarstjórn.“   

Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, tók til máls og vildi þakka Elfu Dögg Þórðardóttur fyrir samstarfið í bæjarstjórn og býður einnig Kjartan Björnsson velkomin til starfa bæjarstjórn.    

Eyþór Arnalds, fulltrúi D-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarfulltrúar D-lista þakka Elfu Dögg Þórðardóttur fyrir gott samstarf á kjörtímabilinu sem og kjörtímabilinu þar á undan.“   

Breytingar á eftirfarandi nefndum og ráðum. 

Ari Björn Thorarensen forseti bæjarstjórnar, lagði fram tillögur um að í stað Elfu Daggar Þórðardóttur verði eftirfarandi breytingar á fulltrúum D-lista í nefndum og embættum. 

1)      Kosning varaforseta Kjartan Björnsson
2)      Kosning varaskrifara Kjartan Björnsson
3)      Fulltrúi í bæjarráði Sandra Dís Hafþórsdóttir aðalmaður, í hennar stað sem varamaður verður Kjartan Björnsson
4)      Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Suðurlands Kjartan Björnsson verður aðalmaður en í hans stað sem varamaður verður Ragnheiður Guðmundsdóttir
5)      Héraðsnefnd Árnesinga Kjartan Björnsson verður aðalmaður en í hans stað sem varamaður verður Ragnheiður Guðmundsdóttir
6)      Landsþing Samband íslenskra sveitarfélaga Sandra Dís Hafþórsdóttur kemur í stað Þórdísar Eyglóar Sigurðardóttir
7)      Samstarfsnefnd með starfmannafélögum Ari Björn Thorarensen
8)      Aðalfundur SASS Kjartan Björnsson verður aðalmaður en í hans stað sem varamaður verður Ragnheiður Guðmundsdóttir
9)      Aðalfundur Skólaskrifstofu Suðurlands Kjartan Björnsson verður aðalmaður en í hans stað sem varamaður verður Ragnheiður Guðmundsdóttir
10)  Aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands Kjartan Björnsson verður aðalmaður en í hans stað sem varamaður verður Ragnheiður Guðmundsdóttir 

Tillögurnar bornar undir atkvæði og var það samþykkt samhljóða. 

II.        Önnur mál 

a)      1210124
Tillaga ungmennaráðs um menningarmál
Dagur Fannar Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði: 

1.  Við viljum koma menningarsalnum í reglubundna notkun sem fyrst. Ráðast þarf í framkvæmdir til að koma honum í nothæft horf og gera um hann nýtingaráætlun
Tillaga gerð um menningarmál í Árborg. Þegar hingað er komið er hálfur sigur unninn því menningarsalurinn er kominn í eigu Árborgar, en hvaða gagn er að því þegar ekki er hægt að nota hann. Við sjáum strax að aðsókn í notkun salsins yrði mikil og leggur ungmennaráð Árborgar því til að salurinn verður standsettur sem fyrst og honum komið í notkun því þetta er mikil sóun á stórkostlegu húsnæði.
Nýtingarmöguleikar:
– Leikfélag Selfoss. Hann er nógu stór til að hægt sé að halda almennilegar sýningar og gott að koma leikmynd fyrir o.s.frv.
– Tónleikar. Til að mynda Lúðrasveit og kórar
– Ráðstefnur. Hentar vel fyrir litlar ráðstefnur. 

2. Við viljum sjá markvissari auglýsingar fyrir menningarviðburði
– Meira upplýsingaflæði, við fáum ekki alltaf að vita hvað er að gerast. Ath. Facebook „like-síðu“ fyrir sveitarfélagið. 

3. Við viljum að ráðist verði í nýja áætlanagerð um flottan miðbæ á Selfossi þar sem tekið er tillit til færslu á Ölfusárbrúnni
– Eftir flutninginn á brúnni þá myndast hér tækifæri til að byggja upp öflugt miðbæjarlíf með göngugötu, öflugu menningarlífi og miðbæjargarði. 

–          Kjartan Björnsson, D-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, og Helgi S. Haraldsson, B-lista, tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunum yrði vísað til menningarnefndar Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

b)     1210126
Tillaga ungmennaráðs um  skólamál

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði

1. Við viljum auka samstarf á milli grunnskólanna í Árborg
Fyrsta skref væri að hafa sameiginlegar valgreinar hjá 8. – 10. bekk í Sunnulækjarskóla, Vallaskóla og BES.
Ástæður:
– Meira úrval af valgreinum fyrir nemendur.
– Aukin samskipti unglinga á milli skóla og þannig styrkjast böndin á milli ungmennanna í sveitarfélaginu – myndi hugsanlega draga úr klíkuskiptingu á milli skóla þegar upp í framhaldsskóla er komið
– Betri nýting á aðstöðu hjá hverjum skóla fyrir sig. Sem dæmi má nefna járnsmíðastofuna í Vallaskóla 

2. Við viljum að settar verði fleiri hjólagrindur við Sunnulækjarskóla
– Í vettvangsheimsókn sem ungmennaráðið fór í núna í haust urðu meðlimir ráðsins varir við mikið af hjólum í gangvegi að skólanum úr þessu mætti bæta með fleiri hjólagrindum í kringum skólann. 

–   Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Árborgar, Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir og Hrefna Björg Ragnarsdóttir, ungmennaráði, tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunum yrði vísað til fræðslunefndar Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

c)  1210128
Tillaga ungmennaráðs um samgöngur
Hrefna Björg Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði 

1. Við viljum sjá strætó ganga um helgar innan sveitarfélagsins. Í dag eru ekki ferðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri á Selfoss og öfugt.
– Þar sem við erum nú að borga í strætó þá ætti að vera hægt að hafa ferðir um helgar líka. Þegar viðburðir eru í sveitarfélaginu um helgar er nauðsynlegt að það séu líka almenningssamgöngur í boði fyrir þá sem hafa ekki aðra möguleika til að komast á milli. Þetta bætir heldur ekki samskiptin á milli þéttbýliskjarnanna. Öfugsnúið að það er auðveldara fyrir manneskju að taka strætó í Reykjavík á laugardegi á Selfossi en að komast frá Eyrarbakka á Selfoss. 

2. Við viljum að það sé frítt fyrir börn og námsmenn í strætó innan sveitarfélagsins
– Ekki sanngjarnt að það kosti börn utan Selfoss meira að sækja íþróttir og tómstundir innan sveitarfélagsins.
– Ósanngjarnt að námsmenn innan Árborgar sem búa utan Selfoss þurfi að borga í kringum 65 þús. á önn fyrir námsmannakort til að komast í skólann. 

3. Við viljum sjá reglulegri strætóferðir innan sveitarfélagsins og að haft sé samráð við ungmenni og námsfólk við gerð tímataflna hjá strætó.
– Það ætti að vera a.m.k. ein strætóferð á klukkutíma á virkum dögum yfir daginn. 

4. Við viljum kanna möguleikann á að niðurgreiða ferðir fyrir námsfólk sem býr í Árborg en sækir skóla í höfuðborginni

– Við teljum að þetta minnki brottfall af ungu menntuðu fólki af svæðinu. Þannig þarf unga fólki ekki að flytja til Reykjavíkur. Styrkir ungmennamenninguna á svæðinu. 

–   Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Helgi S. Haraldsson, B-lista, tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunum yrði vísað til bæjarráðs, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

d)     1210127
Tillaga ungmennaráðs um fasteignamál

Hulda Kristín Kolbrúnardóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði

Hrós fyrir gólfið í íþróttahúsinu við Vallaskóla 

1. Við viljum að ákvarðanir um framtíðarhúsnæði fyrir skólann á Eyrarbakka verði teknar sem fyrst
– Við teljum það ekki vera boðlegt að krakkar sem koma upp í 7. bekk í BES  fari  úr nýju húsnæði á Stokkseyri yfir í kaldar útistofur á Eyrarbakka. 

2. Við viljum að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar varðandi íþróttahúsið á Stokkseyri
– Húsnæðið í dag er ekki boðlegt. Leggjum til að annað hvort verði lagst í mikið viðhald og breytingar á núverandi húsnæði eða byggt nýtt hús þar sem praktísk hönnun ræður för, hvorki of dýrt né of stórt. 

–          Gunnar Egilsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunum yrði vísað til framkvæmda- og veitustjórnar og fræðslunefndar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

e)      1210129
Tillaga ungmennaráðs um málefni ungs fólks
Dagur Fannar Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði 

1. Við viljum að málefni sem tengjast ungu fólki beint verði vísað til ungs fólks til umræðu og álitsgjafar
Má nefna sem dæmi:
·       Framkvæmdir við skóla-, íþrótta- og menningarhúsnæði
·       Mennta- og menningamál
·       Tómstundamál
·       Forvarnamál

– Við teljum að of oft á undanförnum árum hafi verið ráðist í framkvæmdir eða breytingar á málefnum sem tengjast ungu fólki án samráðs við það. Má þar nefna byggingarframkvæmdir á íþróttamannvirkjum og skólahúsnæði ákvarðanir er tengjast tómstunda-, mennta- og menningarmálum. Við viljum sjá að unga fólkið fái að segja sínar skoðun á þessum málefnum áður en ákvarðanir eru teknar. 

–          Kjartan Björnsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunum yrði vísað til bæjarráðs, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

Forseti bæjarstjórnar þakkaði fulltrúum í ungmennaráði Árborgar fyrir fundinn.

Dagur Fannar Magnússon fulltrúi í ungmennaráði þakkaði einnig fyrir fundinn fyrir hönd ungmennaráðs og minnti á ungmennaþing sem haldið verður í Sveitarfélaginu Árborg 11. nóvember nk. 

III.       1210118
Fjárhagsáætlun 2013 – fyrri umræða
Eyþór Arnalds, D-lista, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri fylgdu fjárhagsáætlun 2013 úr hlaði. 
                                 
                             Greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2013 er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 31. október 2012. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um fjárhagsáætlun á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður seinni umræðan í bæjarstjórn 12. desember næstkomandi. 

I          Inngangur

Afkoma Sveitarfélagsins Árborgar árið 2013 sýnir bata á ýmsum sviðum og er gert ráð fyrir að hagnaður af samstæðu verði 72,6 milljónir eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta. Er því gert ráð fyrir jákvæðri afkomu þrátt fyrir hækkandi kostnað og áframhaldandi verðbólgu. Rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) er áætlaður 1.013 milljónir króna og er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 730 milljónir króna. Í viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er gert ráð fyrir því að rekstrarhagnaður (EBITDA) verði yfir 15% af samstæðu. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að framlegð (EBITDA) verði 17,1% af samstæðu sveitarfélagsins eða umtalsvert yfir þessum rekstrarviðmiðum.

Skuldir sveitarfélagsins eru enn miklar og verður áfram lögð áhersla á að greiða niður skuldir. Gert er ráð fyrir að greidd verði niður lán að fjárhæð 627 milljónir króna en tekin ný lán að fjárhæð 400 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að nýfjárfesting verði 463 milljónir. Fjárfestingaráætlun er metnaðarfull með áherslu á innviði og umhverfi sveitarfélagsins. Þrátt fyrir þessa umtalsverðu nýfjárfestingu lækka lán að raunvirði og er svo komið að skuldahlutfall verður komið í 154,6% þegar horft er á heildar skuldir og skuldbindingar, en samkvæmt viðmiðum eftirlitsnefndar sveitarfélaga verður skuldahlutfallið enn lægra eða 145,7% þegar tekið er tillit til lífeyrisskuldbindinga. Gerir því áætlun þessi ráð fyrir því að Sveitarfélagið Árborg hafi náð skuldaviðmiði eftirlitsnefndar á aðeins þremur árum en skuldahlutfallið var 206% árið 2009.

Álögur hækka ekki að raunvirði en eru almennt leiðréttar með tilliti til verðlagsbreytinga. Fasteignaskattsprósentan er lækkuð annað árið í röð og fer úr 0,325% í 0,3% af fasteignamati íbúða. Er hér stigið markvisst skref í þá átt  að gera fasteignagjöld sveitarfélagsins samkeppnishæf. Allt þetta leggur grunn að góðum og heilbrigðum vexti með uppbyggingu fyrir framtíðina. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 hefur verið unnin í góðri samvinnu  allra bæjarfulltrúa og stjórnenda og ber að þakka það óeigingjarna starf sem hér hefur verið unnið. 

II         Forsendur fjárhagsáætlunar 2013

Eftirfarandi forsendur liggja til grundvallar fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 :

1.    Útsvar :
       Útsvar fyrir árið 2013 verði 14,48 %

2.   Verðlag :
      Verðbólga 3,9%

3.   Aðrar forsendur :
       Íbúafjöldi : Gert er ráð fyrir fjölgun íbúa sem nemur 1% á ári.

4.   Fasteignagjöld :
Fasteignagjöld fyrir árið 2013 verði lögð á sem hér segir :

a.   Fasteignaskattur

i.        A – flokkur     Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis eins og það er skilgreint í 3.gr. í lögum nr. 4/1995 verður 0,30% af heildarfasteignamati.

ii.         B – flokkur    Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í 3.gr. í lögum nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.

iii.        C – flokkur    Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og öðrum eignum eins og þær eru skilgreindar í 3.gr. í lögum nr. 4/1995 verður 1,65% af heildarfasteignamati.

Sérstakur afsláttur er veittur af fasteignaskatti samkvæmt reglum um afslátt til elli- og örorkulífeyrisþega, sjá lið 5 hér að neðan.

b.      Lóðarleiga
           i.      Almenn lóðarleiga verði 1,0% af fasteignamati lóðar.
           ii.      Lóðarleiga ræktunarlands verði 3,0% af fasteignamati lóðar. 

c.       Vatnsgjald
          i.      Vatnsgjald á íbúðarhúsnæði verði 0,1961% af heildarfasteignamati eignar.
         ii.      Aukavatnsskattur verði lagður á atvinnuhúsnæði samkvæmt mæli og leggst á  m³notkun. Grunnur gjaldsins er 17,8 kr. á m³  miðað við grunnvísitölu septembermánaðar 2007. Gjaldið uppreiknast á hverjum gjalddaga.

d.      Fráveitugjald
       i.      Fráveitugjald er 0, 3172% af heildarfasteignamati eignar.
       ii.      Gjald fyrir hreinsun rotþróa verður skv. gildandi gjaldskrá. 

e.       Sorphirðugjald
         i.      Íbúðarhúsnæði
Á grundvelli laga nr. 7/1998 er sorphirðugjald lagt á hverja íbúð. Sorphirðugjald fyrir íbúðir skal vera sem hér greinir :
 

             ii.      Sumarhús
Heimilt er að veita 50% afslátt frá sorphirðugjaldi íbúðarhúsnæðis.
Gjalddagar fasteignagjalda verði 10 talsins, þeir eru: 1.febrúar, 1.mars, 1.apríl, 1.maí, 1.júní, 1.júlí, 1.ágúst, 1.september, 1.október og 1.nóvember. Eindagi er 30 dögum síðar.

5.     Afslættir
a.       Sérstakur afsláttur fyrir elli- og örorkulífeyrisþega verður veittur við álagningu fasteignaskatts og fráveitugjalds á íbúðarhúsnæði skv. reglum þar um.
b.      Veittir verða afslættir til félaga sem starfa að menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundarstarfmálum eða vinna að mannúðarstörfum og reka eigið húsnæði eða leigja til lengri tíma en eins árs fyrir starfsemina skv. reglum þar um. 

III       Rekstur málaflokka og helstu fjárhagslegar breytingar einstakra málaflokka milli áranna 2012 og 2013

Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfall málaflokka af skatttekjum árið 2013 :
 

Fræðslu- og uppeldismál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en útgjöld fræðslumála nema 56,5% af skatttekjum ársins 2013. Félagsþjónustan er með 16,43%, íþrótta- og menningarmál eru með 11,11% og umferðar- og samgöngumál eru með 4,4%. Sameiginlegur kostnaður nemur 4,31% af skatttekjum en undir þennan málaflokk falla nefndir og ráð, rekstur bæjarskrifstofu og tölvu- og upplýsingamál fyrir allar stofnanir. 

00    Skatttekjur
Gert er ráð fyrir að skatttekjur á árinu 2013 verði 629 millj.kr. hærri en á árinu 2012.
Áætlun útsvarstekna er byggð á útkomuspá ársins 2012, tekið er tillit til almennra launabreytinga og gert er ráð fyrir 1% íbúaaukningu. Útsvar hækkar  því um 160,8 millj.kr. milli ára. Stofn til útreiknings fasteignagjalda sem innheimt eru á árinu 2013 miðast við fasteignamat eigna sem birt var í sumarbyrjun 2012. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,325% í 0,30% en aðrir flokkar eru óbreyttir. Fasteignaskattar hækka um 9,5 millj.kr. Lóðarleiga hækkar um 1,5 millj.kr. Áætlað er að framlag frá Jöfnunarsjóði hækki um 457,4 millj.kr. frá áætlun 2012. Munar þar mestu um framlög vegna yfirtöku á málefnum fatlaðs fólks eða 265 millj.kr. Í áætlun 2012 voru þessi framlög færð undir málaflokk 02 en eru hér réttilega færð undir málaflokk 00. Aðrar greiðslur frá Jöfnunarsjóði hækka um 192,4 millj.kr. milli ára. Tekjujöfnunarframlag hækkar um 90 millj.kr. milli ára, útgjaldajöfnunarframlag hækkar um 38 millj.kr. og framlag vegna reksturs grunnskóla hækkar um 61,7 millj.kr. Önnur framlög hækka eða lækka lítillega milli ára.

02    Félagsþjónusta
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 299,5  millj.kr. milli ára. Munar þar mestu um að tekjur vegna fjögurra deilda er varða málefni fatlaðs fólks eru nú færðar undir málflokk 00, samtals 265 millj.kr. Framlag vegna fjárhagsaðstoðar lækkar um 5 millj.kr. milli ára. Framlag til félagslegrar heimaþjónustu hækkar um 7,9 millj.kr. milli ára og skýrist m.a. af nýráðningu tveggja starfsmanna í kvöld- og helgarþjónustu til að mæta brýnni þörf á þjónustu. Framlag til liðveislu fatlaðra er aukið um 3,6 millj.kr. til að mæta biðlista. Aðrar deildir ýmist hækka eða lækka lítillega milli ára. Hækkun er í svo til öllum deildum á launakostnaði vegna kjarasamningsbundinna hækkana á árinu. 

04    Fræðslu- og uppeldismál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 132,9 millj.kr. milli ára. Munar þar mestu um launabreytingar sem nema 105,7 millj.kr. á milli ára. Hækkun á innri leigu í málaflokknum nemur 17,4 millj.kr. Vörukaup aukast um 10,3 millj.kr. milli ára. Aðrir liðir breytast lítillega ýmist til hækkunar eða lækkunar. Framlög til leikskólanna Álfheima, Hulduheima og Jötunheima hækka á milli ára en framlög til leikskólanna Árbæjar og Brimvers/Æskukots lækka á milli ára. Rekja má þá lækkun til hagræðingar frá árinu 2011/2012 sem er að skila sér inn á árinu 2013 og til aukinnar samræmingar í fjárveitingum á milli leikskóla út frá fjölda barna í hverjum skóla. Framlög til grunnskólanna þriggja hækka á milli ára en mismikið þó. Mest er hækkunin til Sunnulækjarskóla sem rekja má m.a. til leiðréttingar vegna fjölgunar nemenda á undanförnum árum og stofnunar unglingastigs á tímum samdráttar. Minnsta hækkunin er hjá Vallaskóla þar sem hagræðing undanfarinna ára er farin að skila sér inn að fullu og fækkun nemenda á undanförnum árum hefur gefið svigrúm til fækkunar stöðugilda.

05    Menningarmál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 8,5 millj.kr. milli ára. Framlag til bókasafnsins á Selfossi hækkar um 2,8 millj.kr. vegna lækkunar á tekjum. Framlög til stofnana Héraðsnefndar Árnessýslu hækka um 2,6 millj.kr. Aðrir liðir hækka lítillega á milli ára.

06    Æskulýðs- og íþróttamál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 5,5 millj.kr. milli ára. Launakostnaður hækkar í öllum deildum málaflokksins sem það á við vegna kjarasamningsbundinna hækkana á árinu. Undir þennan málaflokk fellur sérstakt framlag vegna kostnaðar við landsmót árið 2013, samtals 9 millj.kr. 

07    Bruna- og almannavarnir
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 257 þús.kr. milli ára sem rekja má til hækkunar á framlagi til almannavarna.

08    Hreinlætismál
Fjárheimildir til málaflokksins lækka um 12,1 millj.kr. milli ára. Lækkunina má rekja til hagstæðs tilboðs í sorphirðu frá heimilum og stofnunum sveitarfélagsins.

09    Skipulags- og byggingamál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 1 millj.kr. milli ára. Hækkunina má rekja til aukins launakostnaðar vegna kjarasamningsbundinna hækkana á árinu.

10    Umferðar- og samgöngumál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 7,4 millj.kr. milli ára. Innri leiga af gatnakerfi hækkar á milli ára um 7,4 millj.kr.

11    Umhverfismál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 35,5 millj.kr. milli ára. Vöru- og þjónustukaup hækka um 47 millj.kr. Kostnaður og tekjur vegna starfsmanna umhverfisdeildar færist yfir á þjónustumiðstöð og lækkar kostnaður við yfirstjórn því um 11,5 millj.kr.

13    Atvinnumál
Fjárheimildir til málaflokksins hækka um 4,1 millj.kr. milli ára. Útlit er fyrir að framlög til SASS vegna málefna sem áður heyrðu undir Atvinnuþróunarfélag Suðurlands hækki um 3 millj.kr. Áætlað er að framlag til SASS eftir sameiningu SASS og Atvinnuþróunarfélagsins verði 13,4 millj.kr. Til að færa kostnað vegna atvinnumála undir viðeigandi málaflokk var framlaginu skipt hlutfallslega milli atvinnumála og sameiginlegs kostnaðar í sömu hlutföllum og þau skiptust árið 2012.

21    Sameiginlegur kostnaður
Fjárheimildir til málaflokksins lækka  um 3 millj.kr. milli ára. Launakostnaður hækkar vegna kjarasamningsbundinna hækkana á árinu í öllum deildum. Hlutdeild Selfossveitna í sameiginlegum skrifstofukostnaði hefur verið leiðrétt og lækkar það kostnað vegna skrifstofu sveitarfélagsins. Framlag til SASS hækkar um 1 millj.kr., aðrar deildir málaflokksins hækka eða lækka lítillega milli ára. 

IV       Nokkrar lykiltölur

Rekstur :
Fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir til fyrri umræðu gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar án afskrifta og fjármagnliða sé jákvæð um 1.013,3 millj.kr. Afskriftir eru áætlaðar 419 millj.kr., fjármagnskostnaður nettó er áætlaður 503 millj.kr. Tekjuskattur vegna Selfossveitna reiknast 18,7 millj.kr. Heildarniðurstaða samstæðunnar er því jákvæð um 72,6 millj.kr.

Áætlunin gerir ráð fyrir að samanlagðar tekjur A- og B- hluta verði 5.926 millj.kr. á árinu 2013. Hlutur skatttekna (útsvars, fasteignagjalda og Jöfnunarsjóður) í samanlögðum tekjum í A-hluta er 4.289 millj.kr. eða 86,6%

Samkvæmt áætluninni þá verða skatttekjur (útsvar, Jöfnunarsjóður og fasteignaskattur) á íbúa 542 þús.kr. og heildareignir á íbúa verða 1.524 þús.kr.

Veltufé samstæðunnar frá rekstri er áætlað 730 millj.kr. Afborganir lána eru áætlaðar 627,3 millj.kr. Heildarlaunakostnaður er áætlaður 2.862,1 millj.kr. sem er 48,3% af heildartekjum og 66,6% af skatttekjum en sveitarfélagið er stór vinnuveitandi með um 740 starfsmenn í 472 stöðugildum. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 2.050.2 millj.kr. 

Fjárfestingar :
Fjárfestingar ársins eru áætlaðar 462,8 millj.kr. Áætlað er að selja rekstrarfjármuni fyrir 50 millj.kr. Afborganir lána eru áætlaðar 627,3 millj.kr. og nýjar lántökur eru áætlaðar 400 millj.kr. Í neðangreindri töflu má sjá skiptingu helstu framkvæmda á málaflokka

 

Helstu framkvæmdir og fjárfestingar sem áætlaðar eru árið 2013

 

 

Eignasjóður :

 

   Íþróttaaðstaða

14.000.000

   Endurbætur á Sandvíkurskóla

34.000.000

   Gatnagerð

38.250.000

   Vallaskóli – lóð

8.500.000

   Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri

10.000.000

Þjónustustöð :

 

   Tækjakaup

9.000.000

Fasteignafélag Árborgar :

 

   Viðbygging- Sundhöll Selfoss

5.000.000

Fráveita :

22.500.000

Vatnsveita :

38.000.000

Selfossveitur :

222.000.000

 V         Lokaorð
Stór skref hafa verið stigin í að stöðva skuldsetningu sveitarfélagsins sem óx gríðarlega á uppgangs- og þenslutímanum. Skuldahlutfall hefur stórbatnað og hlutfall rekstrarafkomu við skuldir ekki síður. Skuldir verða innan við 9X EBITDA og vaxtagreiðslur lækka sem hlutfall af tekjum. Engin fjárfesting er mikilvægari en að lækka vaxtakostnað sveitarfélagsins. Bætt afkoma, trúverðugur rekstur og lækkun skulda er ein allra mikilvægasta aðgerð sem sveitarfélagið getur ráðist í.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir góðum bata í rekstri en jafnframt er lagður grunnur að nýjum mikilvægum verkefnum. Má hér nefna skipulag nýs miðbæjar, undirbúning að endurbótum á Sundhöll Selfoss, átak í gang- og hjólastígum, fyrstu skrefin í hreinsimálum vegna holræsakerfis, samstarf um verknámshús við FSU, Landsmót UMFÍ 2013, metnaðarfullt leik- og grunnskólastarf, átak í fullorðinsfræðslu og starfrækslu Sandvíkurseturs sem og bætt rekstraröryggi í veitustarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Framundan eru ótal tækifæri fyrir sveitarfélagið og íbúa þess, enda er vöxtur í verslun, þjónustu, ferðamennsku og öðrum vaxtarsprotum ásamt því að sveitarfélagið er hjarta landbúnaðarsvæðis Suðurlands og tengipunktur gestkomandi og búandi fólks á öllum aldri. 

– Helgi S. Haraldsson, B-lista, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, Eyþór Arnalds D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls. 

Lagt var til að fjárhagsáætlun 2013 yrði vísað til síðari umræðu.  Var það samþykkt samhljóða.           

IV.       1210160
            Fjárhagsáætlun 2014 – 2016, fyrri umræða
            Eyþór Arnalds, D-lista, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, fylgdu fjárhagsáætlun 2014 – 2016 úr hlaði. 

Greinargerð með 3ja ára fjárhagsáætlu
fyrir árin 2014- 2016 

Stefnumörkun
Fyrir liggur til fyrri umræðu þriðja 3ja ára áætlun sem sett er fram á þessu kjörtímabili. Til grundvallar henni liggur fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 en jafnframt er byggt á þriggja ára áætlun 2013-2015, ekki síst hvað varðar fjárfestingar og álögur. Gert er ráð fyrir að byggja á þeim grunni og þeim breytingum sem fyrir liggja og halda áfram á sömu braut. Fjárfestingar eru hóflegar og er áhersla á innviði og umhverfi. Gert er ráð fyrir að nýfjárfestingar verði ríflega einn og hálfur milljarður króna á tímabilinu, en talsvert hærri upphæð verður greidd í afborganir lána eða um fjögur hundruð milljónum hærri tala. Gert er ráð fyrir 3% verðlagshækkunum sem hafa umtalsverð áhrif á lán sveitarfélagsins en einungis 1% hækkun útsvarstekna. Segja má að þessi framsetning sé varfærin.  

Þá er áfram stefnt að því að taka til baka hækkanir á fasteignaskatti heimilanna, lækka í áföngum fasteignaskattsprósentuna úr 0,3% í 0,275%. Stefnt er að sölu eigna og þá sérstaklega fasteigna sem ekki eru notaðar af sveitarfélaginu sjálfu. Um þetta hefur náðst góð sátt meðal bæjarfulltrúa. Með þessu er unnt að ráðast í fjárfestingar án þess að lántökur fari úr hófi fram. Ýmsir óvissuþættir eru í umhverfi sveitarfélaga um þessar mundir og er því mikilvægt að fara varlega. Má hér nefna reglur og lagasetningu ríkisins, ástand á vinnumarkaði sem er ótryggt þó það fari batnandi í sveitarfélaginu, launaþróun og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Má segja að þessi áætlun sé hófleg og aðhaldssöm án þess þó að vega að rekstraröryggi og þjónustu við íbúana. Uppbygging og endurbætur mannvirkja setja svip sinn á áætlunina enda skilar slík fjárfesting sér með því að laða að íbúa til búsetu, náms og starfa í sveitarfélaginu. 

Helstu áherslur
Hér er lögð fram í bæjarstjórn Árborgar þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árin 2014 – 2016. 

Þriggja ára áætlun er ekki staðfest fjárhagsáætlun fyrir árin 2014-2016 heldur yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár.  Við fjárhagsáætlunargerð hvers árs fer fram nánari útfærsla á þriggja ára áætlun miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir og því geta fjárhæðir og framkvæmdahraði vegna einstakra verkefna breyst frá því sem fram kemur í þriggja ára áætlun hverju sinni. 

Samkvæmt lögum fer þriggja ára áætlun í tvær umræður í bæjarstjórn. Áætlunin sem nú liggur fyrir getur því tekið breytingum milli umræðna en seinni umræða er áætluð þann 12. desember næstkomandi. 

Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans. 

Helstu forsendur áætlunar 2014 – 2016
Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar.  Þriggja ára áætlun er byggð á áætlun ársins 2013 og er á föstu verðlagi og föstu gengi.
Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri allra málaflokka næstu 3 árin. 

Íbúaþróun
Í áætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir fjölgun íbúa sem nemur 1% á ári og í þriggja ára áætlun er gert slíkt hið sama.

 Skatttekjur
Áætlað er að skatttekjur hækki um 1% á ári næstu þrjú árin. Áætluð hækkun tekur mið af opinberum spám um hækkun útsvars vegna aukinna atvinnutekna í kjölfar jákvæðs hagvaxtar, fjölgunar íbúa og minnkandi atvinnuleysis. 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Gert er ráð fyrir hækkun á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem nemur 1% á ári næstu þrjú árin.

Fasteignaskattur
Gert er ráð fyrir því að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts A á íbúðarhúsnæði á árinu 2014 úr 0,30% í 0,275%. Önnur breyting er ekki fyrirhuguð í áætluninni. 

Þjónustutekjur
Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám vegna þjónustu sveitarfélagsins í áætluninni.

Laun
Áætlun launa og launatengdra gjalda er byggð á launaáætlun ársins 2013.  Ekki er gert ráð fyrir launahækkunum. 

Rekstrarkostnaður
Áætlun rekstrarkostnaðar er byggð á áætlun ársins 2013.

Helstu niðurstöður áætlunar 2013 – 2016
 

Eins og sjá má í töflunni hér að ofan er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð öll árin. Veltufé frá rekstri er jákvætt og hækkar jafnt og þétt á tímabilinu. 

Fjármagnsliðir
Fjármagnsliðir eru reiknaðir miðað við þau vaxtakjör sem sveitarfélagið býr við.  Eins og fyrr segir er áætlunin gerð á föstu verðlagi með  þeirri undantekningu þó að við útreikning á fjármagnskostnaði er gert ráð fyrir hækkun vísitölu um 3% á ári. 

Fjárfestingar
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir 534,8 millj.kr. árið 2014, 545,2 millj.kr. árið 2015 og 434,8 millj.kr. árið 2016. 

Lántökur
Ný langtímalán á árunum 2014 -2016 eru áætluð 1.545 millj.kr. en niðurgreiðslur eldri lána eru áætlaðar á sama tímabili 1.921 millj.kr. 

Lokaorð
Gott vinnulag í áætlanagerð fyrir einstök ár er undirstaða þessarar áætlunar. Gott samstarf hefur verið í fagnefndum sveitarfélagsins og milli bæjarfulltrúa og stjórnenda. Ber að þakka það góða starf sem ekki er sjálfsagt. Reynt er að fara varlega í fjárfestingar og dreifa þeim skynsamlega yfir tímabilið. Fyrir þremur árum síðan voru skuldir og skuldbindingar um 206% af tekjum sveitarfélagsins. Árið 2013 er stefnt að því að skuldahlutfall sveitarfélagsins verði komið undir 150% af árstekjum eins og það er reiknað samkvæmt viðmiðum innanríkisráðuneytisins. Það er mikið grettistak að ná tökum á og minnka slíka skuldastöðu á sama tíma og við lækkum álögur á íbúa og tökum í fang fjárfestingarverkefni sem þurfa úrlausnar við. Rétt er að þakka starfsmönnum og íbúum fyrir gott samstarf og skilning á erfiðum viðfangsefnum sveitarfélagsins okkar. Framtíð sveitarfélagsins er björt og vaxtar- og þróunarmöguleikar með því besta sem þekkist. Traustur fjárhagsgrunnur er hér lykill að uppbyggingu öllum til heilla.   

            Lagt var til að fjárhagsáætlun 2014 – 2016 yrði vísað til síðari umræðu.  Var það samþykkt samhljóða. 

V.        1208139
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá Selfossveitna 2013 – fyrri umræða 

–          Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls. 

            Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.  

VI.       1210142
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir skólavistun í Árborg 2013 – fyrri umræða

            Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.  

VII.     1210147
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 2013 – fyrri umræða

            Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.  

VIII.    1210148
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir mat í leikskólum í Árborg 2013 –fyrri umræða

Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.  

IX.       1210149
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir skólamat í grunnskólum í Árborg 2013 – fyrri umræða

Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.  

X.        1210150
Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir hundahald í Árborg 2013 – fyrri umræða

Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.    

XI.       1210151
            Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir kattahald í Árborg 2013 – fyrri umræða 

–          Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði til að skráningargjaldið fyrir ketti verði 3.900 kr. 
Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls og tók undir tillögu Helga S. Haraldssonar.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls. 

            Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða. 

XII.     1111075
            Starfshópur um skipulag mjólkurbúshverfis

            Lagt var til að leggja niður starfshóp sem skipaður var um skipulagsmál mjólkurbúshverfis og fela skipulags- og byggingarnefnd verkefnið. 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,  Helgi S. Haraldsson, B-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, og Gunnar Egilsson, D-lista,  tóku til máls. 

Lagt var til að tillögunni yrði frestað, var það samþykkt samhljóða.    

 

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 18:10

Eyþór Arnalds                                                   
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ari Björn Thorarensen                                      
Gunnar Egilsson
Kjartan Björnsson                                             
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson                             
Arna Ír Gunnarsdóttir
Þórdís Eygló Sigurðardóttir                              
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari