24.8.2017 | 37. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 37. fundur bæjarstjórnar
image_pdfimage_print


37. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn miðvikudaginn 23. ágúst 2017 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Ásta Stefánsdóttir, D-lista, framkvæmdastjóri,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Ari Björn Thorarensen, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista

Fulltrúar ungmennaráðs Árborgar sitja fundinn sem sérstakir gestir bæjarstjórnar: Ásdís Ágústsdóttir, Guðmunda Bergsdóttir, Jakob Heimir Burgel, Pétur Már Sigurðsson, Sigdís Erla Ragnarsdóttir, Soffía Margrét Sölvadóttir, Sveinn Ægir Birgisson, Veigar Atli Magnússon og Þórunn Ösp Jónasdóttir.

Auk þess situr fundinn Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna fulltrúa ungmennaráðs Árborgar og aðra gesti.  

Dagskrá: 

Pétur Már Sigurðsson tók til máls og sagði frá verkefnum ungmennaráðs og því sem áunnist hefur hjá ráðinu.

I.
1708100 
Tillaga UNGSÁ um leiguhúsnæði í Árborg

Sveinn Ægir Birgisson lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að bæjarstjórn standi vörð um leigumarkaðinn í Árborg.

Mikill skortur er á leiguhúsnæði, sérstaklega  fyrir ungt fólk í Árborg, og eru mörg þeirra leigð út til ferðamanna. Þegar leitað er á „airbnb“ má finna í kringum 150 íbúðir og herbergi til leigu í Sveitarfélaginu Árborg, þar af 100 á Selfossi. Mesta þörfin fyrir leiguhúsnæði fyrir ungt fólk er yfir vetrarmánuðina eða þegar skólaárið stendur yfir.  Ein möguleg lausn væri að takmarka leigu á „airbnb“ íbúðum sem eru ekki leigðar út í atvinnuskyni við tímabilið frá upphafi maí til ágústloka. Önnur væri að húsnæði mætti vera leigt út annað hvert ár. Þar sem engin heimavist er fyrir nemendur FSu og lítið um leiguhúsnæði sækjast margir annað í skóla. Erfitt getur líka verið fyrir suma foreldra að hýsa uppkomin börn.

Ef bæjarstjórnin myndi standa vörð og tryggja það að leigumarkaður sé til staðar, þá sérstaklega litlar íbúðir, þá væru líklega meiri möguleikar fyrir ungt fólk.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Tillaga ungmennaráðs rýmar vel við þær athugasemdir sem gerðar voru f.h. sveitarfélagsins við frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði sem var til meðferðar á Alþingi á sl. ári. Ekki var tekið tillit til athugasemdanna og eru sveitarfélögin í landinu nú í þeirri stöðu að þau hafa ekkert um það að segja hvort eða hvenær íbúðir eru leigðar út á „airbnb“ og öðrum sambærilegum miðlum. Einungis þarf að tilkynna slíka leigu til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið hefur heimilað uppbyggingu á litlum íbúðum sem henta til fyrstu kaupa og eru margar slíkar nú í byggingu.

II.
1708101
Tillaga UNGSÁ um athugun á húsnæði leik- og grunnskóla í Árborg 

            Jakob Heimir Burgel lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að Árborg skoði myglu í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.
Komið hafa upp nokkur dæmi á höfuðborgarsvæðinu um að mygla hafi fundist í leik- og grunnskólum.
Mygla getur valdið miklum heilsuvandamálum og skemmdum á verðmætu húsnæði.
Ungmennaráðið telur æskilegt að málið verði rannsakað áður en í óefni er komið í forvarnarskyni.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, og Kjartan Björnsson, D-lista, tóku til máls.

            Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Við árlegt viðhald fasteigna sveitarfélagsins er kannað hvort merki sjáist um myglu eða skemmdir af öðrum orsökum. Bæjarstjórn felur framkvæmda- og veitusviði og eignadeild sveitarfélagsins að gefa þessum þáttum sérstakan gaum. 

III.      
1708103
Fyrirspurn UNGSÁ um heimavist FSu 

            Þórunn Ösp Jónasdóttir lagði fram eftirfarandi fyrirspurn frá ungmennaráði:
            Ungmennaráðið spyr um stöðu mála varðandi heimavist Fjölbrautaskólans.

Fyrir einu ári var heimavist Fjölbrautaskólans lögð niður sem skapaði mikinn húsnæðisvanda fyrir nemendur sem sækja skólann. Nemendur sem æfðu íþróttir og stunduðu aðrar tómstundir og félagslíf hér í bænum þurftu að hætta því og jafnvel hætta í skóla vegna vegalengdar frá heimili.

Því spyr ungmennaráðið hvernig Árborg ætli að beita sér í þeim málum að fá heimavist aftur fyrir Fjölbrautaskólann.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Málefni heimavistar FSu hafa að nokkru leyti ratað inn á borð SASS, einkum í framhaldi af ungmennaþingi sem haldið var fyrir um ári síðan og hefur sveitarfélagið fylgst með þeim hugmyndum sem þar hafa verið ræddar. Möguleikar Sveitarfélagsins Árborgar til að beita sér í málinu geta falist í því að hafa tiltæka byggingarlóð, og hafa lausnir í þá veru verið ræddar m.a. við SASS. Einnig getur bæjarstjórn beint því til menntamálaráðuneytisins að séð verði til þess að FSu geti leyst þetta mál. Bæjarstjórn er sammála því að nauðsynlegt sé að nemendur úr dreifðari byggðum sem þurfa að sækja framhaldsnám fjarri heimahögum þurfi að eiga kost á öruggu og hagkvæmu húsnæði til dvalar á meðan á námi stendur.  

 IV.
1708104
Tillaga UNGSÁ um stofnun ungbarnaleikskóla í sveitarfélaginu 

            Guðmunda Bergsdóttir  lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að Árborg skoði þá möguleika að stofna ungbarnaleikskóla í sveitarfélaginu.

Erfitt er að koma ungbörnum til dagmömmu þar sem þær eru ekki margar hér í sveitarfélaginu. Að auki hefur fjöldi dagmæðra í sveitarfélaginu verið sveiflukenndur og ekki alltaf í takt við fjölda ungbarna.

Það myndi hjálpa foreldrum að byrja fyrr í vinnu og býður upp á meiri stöðugleika í þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að ef dagmamma er veik eða frá vinnu af öðrum ástæðum þurfa foreldrar að útvega aðra gæslu fyrir barnið. Hjá ungbarnaleikskólum er auðveldara að finna afleysingu ef starfsmaður er veikur eða er á annan hátt frá vinnu.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar. 

V.
1708106
Tillaga UNGSÁ um fjölnota burðarpoka 

            Sigdís Erla Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að sveitarfélagið sendi fjölnota burðarpoka á hvert og eitt heimili í sveitarfélaginu. 

Plastpokar eru óþarfir sérstaklega ef litið er til þess tíma sem tekur fyrir plastið að brotna niður í náttúrunni. Burðarpokarnir gætu verið framleiddir hjá VISS og hvetja mætti nemendur í grunnskólum til að búa til fjölnota poka fyrir sitt heimili. Hægt væri að fá fyrirtæki með  í lið til þess að draga úr notkun plastpoka, t.d. með því að byrja að selja burðarpoka í auknum mæli.

Vert er að benda á að Stykkishólmsbær fór í átak og minni fyrirtæki hættu að selja plastpoka í verslunum sínum. Það gekk mjög vel. Miðað við fjölda plastpoka sem hver Íslendingur notar má reikna með að íbúar Árborgar noti um 900.000 plastpoka á ári hverju.

Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði og Sandra Dís Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.

            Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Bæjarstjórn felur starfshópi sem hafði það verkefni að vinna að útboði á sorphirðu það verkefni að skoða tillöguna nánar með tilliti til kostnaðar og útfærslu. Einnig verði kannað hvaða verslanir bjóða nú þegar upp á fjölnota burðarpoka.  

VI.
1708107
Tillaga UNGSÁ um nuddpottinn í Sundhöll Selfoss 

            Pétur Már Sigurðsson lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að nuddpotturinn í Sundhöll Selfoss fái að þjóna sínum upprunalega tilgangi á ný. 

Mikill missir var þegar nuddpotturinn var kældur. Nú virðist sem þessi pottur sé lítið nýttur af almennum gestum Sundhallarinnar og teljum við að notagildi pottsins verði meira með heitu vatni í upprunalegri mynd. Þar sem hann er staðsettur lengra í burtu frá öðrum pottum var hann mjög vinsæll hjá ungu fólki. Einnig leggjum við til að gerður verði lítill aðgengilegur kaldur pottur í staðinn.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði, tóku til máls. 

            Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa erindinu til íþrótta- og menningarnefndar. 

VII.     1708108
            Tillaga UNGSÁ um sundtíma í grunnskólum Árborgar 

            Veigar Atli Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að sundtímar í grunnskólum Árborgar verði tvöfaldar kennslustundir og aðra hverja viku.  

Hingað til hafa margir nemendur, þá sérstaklega úr Sunnulækjarskóla og BES, misst dýrmætan tíma úr námi vegna rútuferða til og frá skólasundi. Strákarnir í 10. bekk úr Sunnulækjarskóla þurftu síðastliðinn vetur að fara 5 mínútum fyrr úr tíma fyrir sund og mættu síðan hálftíma of seint í tímann eftir það. Þetta gera allt að 35 mínútum á viku.

Með tvöföldun tímanna verða þeir markvissari og skila þar með betri árangri. Þar á móti geta verið lífsleiknitímar.

Samkvæmt kennurum sem kenndu fagið sem var eftir sundtíma strákanna fengu stelpur töluvert hærri einkunnir í því fagi. Þessi munur sást ekki í öðrum fögum.

Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði, og Jakob Heimir Burgel, ungmennaráði tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkri samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar. 

VIII.   
1708109
Tillaga UNGSÁ um skólahúsnæði á Eyrarbakka 

            Ásdís Ágústsdóttir  lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að tengigöngum verði komið fyrir á milli kennslustofa á Eyrarbakka.

Nemendur BES þurfa að fara út til þess að ganga á milli kennslustofa. Oft er slagveður hjá okkur á Íslandi og veldur það miklum óþægindum fyrir nemendur að sitja rennblautir í tímum.

Ungmennaráðið vill að komi verði fyrir tengigöngum á milli stofanna. Hægt væri að nýta þá ganga fyrir fatahengi og skápa líkt og gert er í mörgum skólum á höfuðborgarsvæðinu.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði og Sandra Dís Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa tillögunni til framkvæmda- og veitustjórnar. 

IX.
1708110
Tillaga UNGSÁ um lífsleiknitíma á unglingastigi í grunnskólum Árborgar 

             Veigar Atli Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráð Árborgar leggur til að lífsleiknitímar á unglingastigi í grunnskólum verði  lengri, markvissari og betur nýttir. 

Hingað til hafa lífsleiknitímar á unglingastigi ekki verið nýttir nógu vel. Þeir fara yfirleitt bara í kökudaga eða spilatíma. Okkur í ungmennaráðinu finnst það synd, því þessir tímar eiga að vera undirbúningur fyrir lífið.

Við leggjum til að gerð verði kennsluáætlun fyrir lífsleiknitímana þar sem sérstakt efni verði tekið fyrir í hverjum mánuði, með fræðslu í upphafi og verkefnavinnu og umræðum í kjölfarið.

Einnig leggjum við til að lífsleiknitímar verði tvöfaldaðir því það munar um leið svo miklu þegar hægt er að ná fram lengri umræðum eftir kynningar eða fræðslu. Eins og áður var nefnt væri hægt að hafa þá tvöfalda á móti sundtímum.

Dæmi um fræðslu: Réttindi ungs fólks á vinnumarkaði, fjármálalæsi, skyndihjálp, kynfræðsla o.fl.

o   Sífellt er verið að brjóta á ungu fólki sem þekkir hvorki réttindi sín né vinnumarkaðinn nógu vel. Þetta mætti auðveldlega bæta með markvissri fræðslu og verkefnum með. Stéttarfélögin hafa síðustu ár verið með kynningu og við teljum það mjög gott. Þó má bæta smá við þetta með verkefnum.

o   Í fjármálalæsi má kenna gerð skattaskýrslna, læsi launaseðla, skilning á sköttum, lífeyrissjóðum, tekjum, gjöldum o.s.frv. Strax við fermingu eignast meirihluti barna mjög mikið af peningum en kunna ekki einu sinni að leggja þá inn í banka.

o   Það er fullt af ungu fólki sem kann ekki skyndihjálp því það er svo lítið um fræðslu. Það er að sjálfsögðu ekki gott þegar á reynir. Hægt væri að fara í samstarf við björgunarsveitina, Rauða krossinn.

o   Það er nokkuð augljóst hvers vegna kynfræðsla er mikilvæg. Ungt fólk hefur oft margar spurningar en veit ekki hvert á að snúa sér með þær. Það er mjög gott að eiga stundum tíma sem gerður er fyrir slíkar spurningar. Einnig má reyna að fá allavega einu sinni á grunnskólagöngunni karlkyns kennara til þess að kenna strákum kynfræðslu.

 

Kjartan Björnsson, D-lista, Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, D- lista, Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Veigar Atli Magnússon, ungmennaráði, Jakob Heimir Burgel, ungmennaráði, og Sigdís Erla Ragnarsdóttir, ungmennaráði, tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar.

X.
1708111
Tillaga UNGSÁ um samgöngur út Hagalækjar- Landa- og Hólahverfum 

            Soffía Margrét Sölvadóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið gagnrýnir hvað það er langt að sækja þjónustu úr Hagalækjar-, Landa- og Hólahverfum.

Vert er að hafa það í huga í nýju deiliskipulagi.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls.

Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Í aðalskipulagi sveitarfélagsins eru skilgreind þau svæði sem ætluð eru til þjónustu. Meginsvæðin eru á miðsvæði eins og það er skilgreint í skipulagi, þ.e. við Austurveg og Eyraveg. Aðalskipulag gerir ráð fyrir þjónustusvæði á því landi sem nú er hafin vinna við að deiliskipuleggja sunnan Suðurhóla, en þar er ráðgert þjónustusvæði meðfram Eyravegi.  

XI.
1708112
Tillaga UNGSÁ um umferðarljós á gatnamótunum Austurvegur/Tryggvagata 

            Sigdís Erla Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að komið verði fyrir umferðarljósum á gatnamótum Austurvegar og Tryggvagötu.  

Eins og flest ykkar vitið er mjög erfitt að komast inn á Austurveginn við þessi gatnamót og sérstaklega þegar maður tekur vinstri beygju á háannatíma. Oft getur verið fljótara að taka hægribeygju og snúa við á næsta hringtorgi sem er við Gaulverjabæjarveg. Tryggvagatan er eina gatan sem þverar frá suðri til norðurs á Selfossi og er jafnframt mikil umferðargata.

Umferðarljós við þessi gatnamót myndu létta töluvert fyrir umferðinni sem þarf að komast inn á eða þvert yfir Austurveginn.

Ungmennaráðið hefur heyrt að leiðslur fyrir umferðarljós séu til staðar á svæðinu og ætti því framkvæmdin að vera ódýrari en ella.

Kjartan Björnsson, D-lista, Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa tillögunni til framkvæmda- og veitustjórnar. 

XII.    
1708113
Tillaga UNGSÁ um fjölskyldugarð í Árborg.   

             Pétur Már Sigurðsson lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til þá hugmynd að mynda einhvers konar fjölskyldugarð í Árborg.

Tími er kominn á  almennilegt leiksvæði innan Árborgar sem gaman væri fyrir alla meðlimi fjölskyldunnar að kíkja á. Þau leiksvæði sem þegar eru til staðar teljum við vera frekar einhæf og væri þetta því einstaklega skemmtileg viðbót í sveitarfélaginu.

Þar gæti verið ærslabelgur, aparóla, klifurgrind, kastali, rennibraut og hin ýmsu leiktæki, bekkir og borð til að sitja við o.fl. Jafnvel væri gaman að koma fyrir útilíkamsrækt. Dæmi um staðsetningu eru grasbletturinn fyrir framan Háengisblokkina, Gesthúsasvæðið og  Sigtúnsgarðurinn.

Einnig viljum við benda á að við erum vör við hönnunarkeppnina og íbúafundinn sem er á dagskrá varðandi útivistarsvæði en viljum við bara koma með okkar hugmynd hingað.     

Kjartan Björnsson, D-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Sveinn Ægir Birgisson, ungmennaráði, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Eftirfarandi var samþykkt samhljóða:
Tillaga ungmennaráðs fellur vel að því ferli sem þegar er hafið varðandi val á aðila til að annast hönnun á Sigtúnsgarði, leikvellinum við Heiðarveg og Tryggvagarði. Bæjarstjórn vísar tillögunni inn í þá vinnu sem þar er fram undan. 

XIII.    1708114
Tillaga UNGSÁ um betri lýsingu í sveitarfélaginu           

            Guðmunda Bergsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að lýsing verði bætt á eftirfarandi stöðum í sveitarfélaginu: 

A) Á göngustíg sem liggur austan við frjálsíþróttavöllinn.

Þessi vegur á það til að verða frekar ógnvekjandi þegar dimma fer á veturna. Krakkar í hverfum öðrum megin við Erlurima sækja þennan stíg mikið til þess að komast í skóla og tómstundir. Fleiri upplýstir göngustígar hvetja fólk til þess að ganga og hjóla í stað þess að nota vélknúin farartæki.

B) Á körfuboltavellinum við Vallaskóla

Það er afar vinsælt hjá ungu fólki að fara út í körfubolta eftir kvöldmat. Ekki eru margir körfuboltavellir úti í sveitafélaginu og er völlurinn hjá Vallaskóla vinsæll. Erfitt er að stunda íþróttina þar með enga lýsingu í skammdeginu.

            Kjartan Björnsson, D-lista, og Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tóku til máls.

Bæjastjórn samþykkir samhljóða að vísa tillögunni til framkvæmda- og veitustjórnar.

Sveinn Ægir Birgisson, tók til máls fyrir hönd ungmennaráðs og þakkaði bæjarstjórnarmönnum fyrir gott samstarf og sagði ungmennaráð hlakka til þess sem koma skal.   

Sandra Dís Hafþórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, tók til máls og þakkaði fulltrúum ungmennaráðs fyrir komuna.           

XIV.    Fundargerðir til kynningar           

1.
a) 1701027
            Fundargerð fræðslunefndar   29. fundur       frá 8. júní
            https://www.arborg.is/33-fundur-fraedslunefndar-2/

 b) 114. fundur bæjarráðs ( 1701003 ) frá 15. júní
            https://www.arborg.is/114-fundur-baejarrads-2/

2.
a) 1701026
            Fundargerð félagsmálanefndar       29. fundur       frá 8. júní       
            https://www.arborg.is/29-fundur-felagsmalanefndar/

 b) 1701029
            Fundargerð íþrótta- og menningarnefndar         31. fundur       frá 14. júní
            https://www.arborg.is/31-fundur-ithrotta-og-menningarnefndar/

 c) 1701028
            Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar              41. fundur       frá 14. júní
            https://www.arborg.is/41-fundur-framkvaemda-og-veitustjornar-2/

 d) 115. fundur bæjarráðs ( 1701003 ) frá 29. júní
            https://www.arborg.is/115-fundur-baejarrads-2/

 3.
a) 1701024
            Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar            38. fundur       frá 5. júlí
            https://www.arborg.is/38-fundur-skipulags-og-byggingarnefndar/

 b) 116. fundur bæjarráðs ( 1701003 ) frá 13. júlí
            https://www.arborg.is/116-fundur-baejarrads-2/

 4.
a) 1701026
            Fundargerð félagsmálanefndar           30. fundur       frá 13. júlí
            https://www.arborg.is/62140-2/

            Fundargerð félagsmálanefndar            31. fundur       frá 17. júlí
            https://www.arborg.is/31-fundur-felagsmalanefndar-2/

 b) 1701024
            Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar            40. fundur       frá 3. ágúst
            https://www.arborg.is/40-fundur-skipulags-og-byggingarnefndar-2/

c) 117. fundur bæjarráðs ( 1701003 ) frá 3. ágúst
            https://www.arborg.is/117-fundur-baejarrads-arborgar/

–          liður 1 b) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 15. júní, lið 10, málsnr. 1706047 – Hefting á útbreiðslu lúpínu í Árborg.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls.

–          liður 3 b) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 13. júlí, lið 3, málsnr. 1704015 – Fundargerð hverfisráðs Stokkseyrar, lið 8, tillaga um að hverfisráðum verði úthlutað fjármagni til framkvæmda.  

Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, tók til máls.

–          liður 4 b) Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls um fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 3. ágúst – Stöðuleyfi fyrir gáma.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tóku til máls.

–          liður 4 c) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 3. ágúst, lið 8, málsnr. 1707234 – Tillaga að undirbúningi að hönnun Sigtúnsgarðs en Eggert Valur óskaði eftir að bókað yrði að hann tekur heils hugar undir bókun Örnu Írar Gunnarsdóttur.                     

 XV.
1708098
Tillaga bæjarfulltrúa S-lista – Íbúakosning um nýja deiliskipulagið á miðbæjarsvæðinu á Selfossi 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn samþykkir að láta fara fram íbúakosningu um nýja deiliskipulagstillögu á miðbæjarsvæðinu á Selfossi. Bæjarráði verði falið að útfæra með hvaða hætti staðið verði að kosningunni. 

Greinargerð: Framtíðarskipulag miðbæjarins á Selfossi er gríðarlega stórt mál og varðar alla íbúa sveitarfélagsins með einum eða öðrum hætti. Málið er umdeilt og flestir hafa á því skoðanir. Það er sameiginlegt verkefni okkar íbúa sveitarfélagsins að móta  hvernig samfélagi við viljum búa í. Því er mikilvægt að skapa sterka hefð fyrir því að leitað sé eftir viðhorfum og sjónarmiðum sem flestra og leggja stór mál eins og þetta í dóm íbúanna sjálfra. Með þeim hætti verður Svf. Árborg samfélag sem mótað er af almenningi sem þar lifir og starfar. Það er skoðun undirritaðra bæjarfulltrúa að með því að fara þá leið að kjósa um málið, tryggjum við samráð og samvinnu um þróun sveitarfélagsins til framtíðar ásamt því að auka líkur á almennri sátt um þetta umdeilda mál.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.

Kjartan Björnsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista og Eyrún Björg Magnúsdóttir, Æ-lista, tóku til máls. 

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með sex atkvæðum bæjarfulltrúa D- og B- lista gegn þremur atkvæðum bæjarfulltrúa S- og Æ- lista.

Kjartan Björnsson, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég var samþykkur því í upphafi að í jafn stóru máli og skipulagi miðbæjarins væri ekki óeðlilegt að leggja skipulagið fyrir íbúana. En það varð ekki niðurstaðan og síðan hafa margir kynningarfundir verið haldnir og tækifæri verið gefin fyrir athugasemdir við skipulagið. Brugðist var við mörgum athugasemdanna og öðrum ekki eins og gengur. En íbúakosningu eftir skipulagsferilinn og núna þegar styttist í framkvæmdir er að mínu mati  hæpið að fara í.    

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fullyrða má að hvergi á vettvangi málefna sveitarfélaga sé gert ráð fyrir jafnvíðtæku samráði við íbúa og hagsmunaaðila og í skipulagsmálum. Samráðsferlar eru skýrir og fremur einfaldir. Gefst íbúum þar kostur á að tjá sig um hvaða þátt skipulagstillögunnar sem er og má því segja að það ferli gangi lengra hvað samráð varðar en að samþykkja eða hafna tillögunni í heild sinni líkt og tillaga bæjarfulltrúa S-lista gengur út á. 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæðum bæjarfulltrúa S-lista og lagði fram eftirfarandi bókun:
Það veldur okkur vonbrigðum að ekki hafi náðst samstaða í bæjarstjórn um að vísa ákvörðun um framtíðarskipulag miðbæjar Selfoss til íbúa sveitarfélagsins. Það er okkar skoðun að þessi leið hefði lagt grunninn að friðsamlegu framhaldi málsins, og í leiðinni opnað leið fyrir  áhugasama íbúa til þess að hafa áhrif á samfélagið, umhverfið sitt og þar með sínar eigin aðstæður. Undanfarnar vikur hefur skapast mikil umræða á samfélagsmiðlum um þetta mál, stofnuð hefur verið sérstök síða um málið þar sem íbúar skiptast á skoðunum og efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar gegn þessari deiliskipulagsbreytingu.  Það ætti að vera sjálfsagt og eðlilegt að bæjaryfirvöld nýti sér þá leið að kalla eftir viðhorfi íbúanna þegar um er ræða stór og þýðingarmikil mál sem áhrif hafa á umhverfið og daglegt líf íbúanna til langrar framtíðar. Mörg dæmi eru um að sveitarfélög vísi umdeildum og mikilvægum málum í íbúakosningu. Við lifum á breytingatímum og bæjaryfirvöld á hverjum tíma  verða að vera í tengslum við þá þróun sem á sér stað og vera óhrædd við öflugt samráð og samvinnu við íbúa um úrlausn mikilvægra mála. Við eigum ekki að vera smeyk við að kalla fram afstöðu og vilja almennings til slíkra mála.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista. 

Eyrún Björg Magnúsdóttir, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði sínu. 

XVI.   
1611041
            Kosning í hverfisráð Stokkseyrar 2017

Lagt er til að eftirtaldir aðilar verði aðalmenn í hverfisráði Stokkseyrar:

Hafdís Sigurjónsdóttir
Elín Lóa Kristjánsdóttir
Björg Þorkelsdóttir

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

XVII. 
1708119
            Erindi frá Félagi sauðfjárbænda í Árnessýslu               

            Ari Björn Thorarensen, D-lista, tók til máls.

Bæjarstjórn Árborgar tekur undir eftirfarandi ályktun Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu:
Annað árið í röð er boðuð lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda og gæti hún numið allt að 35% í ár. Boðuð afurðaverðslækkun setur hag sauðfjárbænda í hættu, en ólíklegt er að nokkur atvinnugrein myndi þola slíka tekjuskerðingu.

Víða er sauðfjárræktin hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum, og á það einnig við hér í Árnessýslu þar sem margir hafa sauðfjárrækt að sinni atvinnu. Grípa þarf til aðgerða strax til að leysa þann tímabundna birgðavanda sem upp er kominn.

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu leggur áherslu á að vandinn verði leystur til að tryggja búskap á landinu öllu.    

 

Fleira ekki gert.

Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 19:40

Ásta Stefánsdóttir                                              Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ari Björn Thorarensen                                       Gunnar Egilsson
Kjartan Björnsson                                              Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson                              Arna Ír Gunnarsdóttir
Eyrún Björg Magnúsdóttir                                 Rósa Sif Jónsdóttir, ritari