15.5.2015 | 11. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 11. fundur bæjarstjórnar
image_pdfimage_print


11. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn miðvikudaginn 13. maí 2015 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi. 
 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Kjartan Björnsson, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Ásta Stefánsdóttir, D-lista,framkvæmdastjóri,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Ari Björn Thorarensen, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Viðar Helgason, Æ-lista

Auk þess situr fundinn Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá:

1. Fundargerðir til staðfestingar

 a) 1501031
            Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar              12. fundur       frá 15. apríl
            https://www.arborg.is/12-fundur-framkvaemda-og-veitustjornar-2/

 b) 1501028
            Fundargerð fræðslunefndar                                      9. fundur         frá 15. apríl
https://www.arborg.is/9-fundur-fraedslunefndar/

 c) 35. fundur bæjarráðs ( 1501025 ) frá 30. apríl
https://www.arborg.is/35-fundur-baejarrads-2/
2.
a) 1501031
            Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar              13. fundur       frá 29. apríl
https://www.arborg.is/13-fundur-framkvaemda-og-veitustjornar-2/
b) 1501026
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar            10. fundur       frá    6. maí
https://www.arborg.is/10-fundur-skipulags-og-byggingarnefndar/
c) 36. fundur bæjarráðs ( 1501031 ) frá    maí
https://www.arborg.is/36-fundur-baejarrads-2/

Úr fundargerð skipulags- og byggingarnefndar samanber 36. fund bæjarráðs til afgreiðslu:

 • liður 4, málsnr. 1502006 – Tillaga að deiliskipulagi að Austurvegi 69. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.
 • liður 5, málsnr. 1502005 – Tillaga að deiliskipulagi við Hótel Selfoss. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.
 • liður 6, málsnr. 1504327 – Tillaga að deiliskipulagsbreytingu að Hulduhól, Eyrarbakka. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst og kynnt.
 • liður 7, málsnr. 1407045 – Aðgerðaráætlun gegn hávaða. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst.
 • liður 1 a) Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls um fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 15. apríl, lið 2, málsnr. 1504087 – Gámasvæði Árborgar við Víkurheiði – opnunartímar 2015.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, og Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.

 • liður 1 a) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 15. apríl, lið 1, málsnr. 1501109 – Aðkomuvegur og veitulagnir að hreinsistöð við Geitanes.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, tók til máls.

 • liður 2 c) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 7. maí, lið 9, málsnr. 1505048 – Tillaga frá bæjarfulltrúa S-lista, undirbúningur fyrir fjárhagsáætlun 2016.
 • liður 2 b) Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí, lið 4, málsnr. 1502006 – Tillaga að deiliskipulagi að Austurvegi 69. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 • liður 2 b) Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí, lið 5, málsnr. 1502005 – Tillaga að deiliskipulagi við Hótel Selfoss. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 • liður 2 b) Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí, lið 6, málsnr. 1504327 – Tillaga að deiliskipulagsbreytingu að Hulduhól, Eyrarbakka. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst og kynnt.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 • liður 2 b) Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. maí, lið 7, málsnr. 1407045 – Aðgerðaráætlun gegn hávaða. Lagt er til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða að undanskildum þeim liðum sem áður höfðu verið samþykktir

II. 1504105

Ársreikningur 2014 – síðari umræða                  

Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun vegna ársreiknings 2014:

Það er ljóst að framlagning ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2014 sýnir grafalvarlega stöðu í fjármálum sveitarfélagsins.  Enn og aftur er A-hlutinn, bæjarsjóður, rekinn með tapi eða sem nemur 194 milljónum eftir afskriftir og fjármagnsliði.  Bæjarsjóður hefur þá verið rekinn með tapi í samfellt sjö ár, eða frá því árið 2008.  Er svo komið að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga,(EFS), hefur sent sveitarfélaginu bréf þar sem nefndin lýsir yfir verulegum áhyggjum af rekstri A-hluta þess og áætlunum til ársins 2018, um áframhaldandi taprekstur A-hlutans.   Í bréfi nefndarinnar kemur m.a fram: „Vegna rekstrar A-hluta sveitarfélagsins og áætlana um  áframhaldandi neikvæða rekstrarniðurstöðu hans, óskar EFS eftir upplýsingum frá bæjarstjórn um stefnumótun hennar í rekstri A-hluta, mikilvægi þess að bæta neikvæðan rekstur A-hluta þannig að hann skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu, hugsanlegar aðgerðir bæjarstjórnar sem væru þess valdandi að ná markmiðum um jákvæða rekstrarniðurstöðu og aðrar upplýsingar sem bæjarstjórn vill koma á framfæri í tengslum við fyrirspurn þessa. Svar skal berast nefndinni fyrir 18.maí nk.“ Í stuttu máli, rekstur A-hlutans verður að bæta og það verður eingöngu gert með auknum tekjum eða niðurskurði í rekstrarkostnaði hans.

Rekstur A- og B-hluta skilar afgangi upp á 102 milljónir eftir afskriftir og fjármagnsliði og hefur skilað afgangi sl. fimm ár.  Inn í það uppgjör eru komin B-hluta fyrirtæki sveitarfélagsins, s.s vatnsveita, fráveita og hitaveita, sem hafa skilað afgangi öll þessi ár vegna minni framkvæmda og haldið þannig uppi heildarrekstri sveitarfélagsins réttum megin við núllið.  En eins og oft hefur komið fram áður eiga þessi fyrirtæki ekki að standa undir beinum rekstri sveitarfélagsins í A-hluta, heldur halda uppi þjónustustigi og afhendingaröryggi í sínum þjónustuflokki, með fjárfestingum og viðhaldi.  En það vekur athygli að allt frá árinu 2010 hefur skuld aðalsjóðs (A-hluta) við eigin fyrirtæki í B-hluta aukist verulega, eða frá því að vera árið 2009 432 milljónir í að vera í árslok 2014 840 milljónir, tæplega tvöfaldast.

Þrátt fyrir allt tal um að heildarskuldir sveitarfélagsins, að frádregnum peningalegum eignum, hafi lækkað á undanförnum árum er ljóst að svo er ekki og þær hafa bara hækkað. Er svo komið að í áætlun um rekstur sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að þessar sömu skuldir verði árið 2018 komnar í tæpa 10 milljarða, úr því að vera rúmir 6 milljarðar árið 2010.

Það er ljóst að allar þær ábendingar, bókanir og umræða sem undirritaður hefur tekið þátt í á undanförnum árum til að benda á þær staðreyndir að rekstur sveitarfélagsins þurfi að laga, hafa allar átt rétt á sér og verið réttar, þrátt fyrir að meirihluti bæjarstjórnar og einstaka bæjarfulltrúar hafi reynt á undanförnum árum að snúa út úr og gera lítið úr þeim.  Nú síðast staðfestir bréf EFS þennan málflutning undirritaðs.  Því skora ég nú á meirihluta bæjarstjórnar að sýna ábyrgð og hefja nú þegar vinnu allra bæjarfulltrúa til að snúa rekstri sveitarfélagsins okkar til betri vegar, því það verður ekki beðið með það lengur ef ekki á illa að fara. Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi, B-lista.

Viðar Helgason, Æ-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun vegna ársreiknings 2014:

Til umræðu hér í dag er ársreikningur ársins 2014, sú staða sem við erum í og hvert við stefnum miðað við þá fjármuni sem við höfum úr að spila. Eðlilegt er að líta til annarra sveitarfélaga og bera okkur saman við þau um það hvernig við stöndum og hvað við getum gert betur.

Ég vil hrósa meirihlutanum fyrir það að umtalsverður árangur hefur náðst í hagræðingu á rekstri sveitarfélagsins á þeirra vakt. En betur má ef duga skal.

Skatttekjur Árborgar standa ekki undir rekstri aðalsjóðs sem er alvarlegt mál. Það er ljóst að önnur sveitarfélög eiga við sama vandamál að stríða enda eru möguleikar sveitarfélaga til tekjuöflunar mjög mismunandi.

Sveitarfélagið Árborg hefur upp á mjög margt að bjóða, ekki síst í auðugu mannlífi sem býr við stórkostlega landkosti. En þó ber að hafa það í huga að við höfum ekki stóra tekjupósta eins og mörg önnur sveitarfélög, svo sem sjávarútveg eða orkufrekan iðnað. Árborg er fyrst og fremst þjónustusvæði og tækifæri okkar felast aðallega í því að byggja upp fjölskylduvænt samfélag sem laðar til sín íbúa og ferðamenn, innlenda sem erlenda.

Möguleikar okkar eru miklir en töluvert vannýttir. Tekjumöguleikar okkar liggja einnig í því að byggja grunn fyrir hvers kyns rekstur smærri sem stærri fyrirtækja. Það eru ýmis teikn á lofti um að einstaklingar og fyrirtæki eru að byggja upp og fjárfesta í ferðamannaiðnaði. Ber okkur kjörnum fulltrúum að standa við bakið og greiða götu þeirra sem vilja byggja upp.

En staðan er engu að síður sú, eins og ég sagði, að rekstur og tekjur sveitarfélagsins eru ekki í jafnvægi og það bendir því miður ekki til að svo verði í nánustu framtíð. Því verðum við, ásamt því að auka tekjur, að kafa ofan í rekstur sveitarfélagsins, velta við hverjum steini og nýta þá fjármuni sem við höfum úr að spila eins vel og kostur er.

Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkar af mörkum í þeirri vinnu á uppbyggilegan hátt með þverpólitískri samstöðu um að ná sem bestum árangri í rekstri sveitarfélagsins. Ég velti því þeirri hugmynd upp sem fram hefur komið hvort ekki væri skynsamlegt og þarft að leita til utanaðkomandi óháðs aðila sem gæti hjálpað okkur að greina hvað við gætum gert betur í rekstrinum.

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka félögum mínum í bæjarstjórn fyrir opin, heiðarleg og jákvæð vinnubrögð í fjárlagavinnunni. Viðar Helgason, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Árborg.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar vegna ársreiknings ársins 2014:

Ársreikningur Svf. Árborgar vegna ársins 2014 sýnir vel að ekki hefur tekist að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins. Skuldahlutfall samstæðureiknings sveitarfélagsins er nú 153% og er komið yfir þær viðmiðunartölur sem reglugerð nr. 502/2012 setur sveitarfélögum.

Ljóst er að verulegt tap er á A-hluta reksturs sveitarfélagsins eða sem nemur tæpum 200 milljónum króna. Þetta er verulegt áhyggjuefni og skýrist  ekki eingöngu af kjarasamnings bundum launahækkunum eins og fulltrúar meirihlutans hafa ítrekað vísað til. A-hlutinn er sá hluti rekstursins sem  að langmestu leyti er fjármagnaður með skatttekjum og  eru útsvarstekjur um 150 milljónum króna hærri en áætlunin gerði ráð fyrir. Einnig er rekstrarniðurstaðan mun betri vegna lægri verðbólgu heldur en gert var ráð fyrir en þar munar verulegum fjárhæðum.

Það er algerlega óásættanlegt að veltufé frá rekstri dugi eingöngu fyrir afborgunum af lánum þannig að sveitarfélagið verður að taka lán fyrir öllum framkvæmdum ársins.

Það er skoðun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að sá mikli halli sem ársreikningurinn sýnir á rekstri A- hlutans sé grafalvarlegur og kalli á aðgerðir er varða endurskipulagningu rekstursins og nýja forgangsröðun verkefna ef ekki á illa að fara. Það er mikilvægt að hefja nú þegar vinnu við rekstrarhagræðingu A-hlutans með það að markmiði að reksturinn verði í jafnvægi þannig að skatttekjur dugi fyrir rekstrarútgjöldum.

Svf. Árborg verður að sýna festu og ábyrgð í sínum fjármálum til þess að hægt sé að standa undir góðri þjónustu og nauðsynlegum framkvæmdum í skólamálum, fráveitumálum o.fl. Ástæða er til að árétta að allt yfirbragð umræðna í bæjarstjórn hefur breyst mjög til batnaðar frá því sem áður var og lýðræðislegri umræðu gert hærra undir höfði. Fyrir það ber að þakka. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar samþykkja fyrirliggjandi ársreikning sveitarfélagsins vegna ársins 2014. Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, S-lista Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista

Gunnar Egilsson, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls.

Ársreikningur 2014 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls.

III.       1501112

Lántökur 2015 

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls              

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 495.500.000 kr. til 20 ára í samræmi við skilmála láns til ársins 2034 með föstum verðtryggðum vöxtum eins og þeir verða á þeim tíma er lánið er tekið. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Er lánið tekið til að fjármagna viðbyggingu við Sunnulækjarskóla, framkvæmdir í fráveitu, vatnsveitu, eignasjóði og afborganir af eldri lánum hjá Lánsjóðnum sbr. 3.gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Sveitarfélagsins Árborgar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Lántökur ársins 2015 voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.           

IV.  1505160

Tillaga frá bæjarfulltrúum S- og  Æ-lista – Átak um eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Árborgar

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu frá bæjarfulltrúum S- og Æ-lista:

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar í bæjarstjórn Árborgar gera það að tillögu sinni að farið verði í átak í eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Svf. Árborgar. Lagt er til að Svf. Árborg leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin ‘78 um fræðslu og ráðgjöf við nemendur og starfsfólk grunnskólanna líkt og dæmi eru um úr öðrum sveitarfélögum.

Greinargerð:

Hinsegin ungmenni upplifa gjarnan mikinn skort á upplýsingum, umræðu og fyrirmyndum og eiga í erfiðleikum með að þróa jákvæða sjálfsmynd. Efling hinsegin fræðslu getur gert þeim auðveldara að takast á við þær tilfinningar sem tengjast kynhneigð og kynvitund. Auk þess getur hinsegin fræðsla verið mikilvægur liður í að útrýma fordómum og uppræta hatursfulla orðræðu gegn hinsegin einstaklingum. Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, S-lista Viðar Helgason, bæjarfulltrúi, Æ-lista

Viðar Helgason, Æ-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi greinagerð:

Greinargerð vegna tillögu S- og Æ-lista um hinsegin fræðslu

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar í bæjarstjórn Árborgar gera það að tillögu sinni að farið verði í átak í eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Svf. Árborgar. Lagt er til að Svf. Árborg leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin ‘78 um fræðslu og ráðgjöf við nemendur og starfsfólk grunnskólanna líkt og dæmi eru um úr öðrum sveitarfélögum.

Fræðsla og upplýst umræða um hinsegin málefni eru án efa mikilvægur þáttur í því að draga úr fordómum og hatursfullri orðræðu gagnvart hinsegin einstaklingum. Fræðsla og upplýst umræða skiptir jafnframt gríðarlegu máli fyrir þau ungmenni sem eru að velta fyrir sér kynhneigð sinni og kynvitund, eða sem tengjast hinsegin manneskju fjölskylduböndum.

Langflestir eru undir 18 ára aldri þegar þeir uppgötva kynhneigð sína og eru þar af leiðandi börn. Það skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd þeirra og framtíðarmöguleika að umhverfi þeirra sé umvefjandi og þau fái tækifæri til að vera þau sjálf án þess að verða fyrir fordómum. Staðreyndin er sú að samkvæmt íslenskum rannsóknum eru samkynhneigðir nemendur í meiri hættu en jafnaldrar þeirra á að upplifa eigin lífsánægju lakar, vera með verri andlega heilsu og að vera líklegri til að hafa reynt að enda eigið líf.

Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að jákvæðum breytingum og upplýstri umræðu til að eyða fordómum og bæta lífsskilyrði hinsegin einstaklinga. Upplýst umræða framkallar meiri þekkingu sem getur aukið virðingu fyrir fjölbreytilegu mannlífi og jafnframt dregið úr fordómum. Ungmenni þurfa að fá þau skilaboð að ekkert sé rangt við kynhneigð þeirra eða kynvitund. Við þurfum öll að vinna saman að þessum sjálfsögðu mannréttindum, að þurfa ekki að fyrirverða sig fyrir það hver maður er eða hvern maður elskar.

Til þess að þetta takist þurfa allir að taka höndum saman og skólakerfið þarf að vera í stakk búið að taka á fordómum í garð hinsegin einstaklinga og jafnframt að stuðla að jákvæðri orðræðu meðal nemenda og starfsfólks skólanna. Fræðsla um hinsegin málefni og opin upplýst umræða er gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessari keðju og vonum við að bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar taki jákvætt í tillögur okkar. Viðar Helgason, bæjarfulltrúi, Æ-lista

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Viðar Helgason, Æ-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun: Bæjarfulltrúar D-lista fagna áhuga fulltrúa S- og Æ-lista á málefninu.  Forvarnahópur Árborgar hefur lagt áherslu á hinsegin fræðslu og hefur menningar- og frístundafulltrúi, í samráði við framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, unnið að gerð samnings við Samtökin ´78 um fræðslu til fagfólks, foreldra, nemenda í 10. bekk o.fl. og um ráðgjafarþjónustu sem samtökin veita. Samningsdrög liggja fyrir og er næsta skref að kynna þau í forvarnahópnum og fyrir skólum sveitarfélagsins. Í grunnskólunum hafa framhaldsskólanemendur sinnt sk. jafningjafræðslu, en skv. fyrrgreindum samningsdrögum er gert ráð fyrir skipulagðri fræðslu fulltrúa Samtakanna ´78 til nemenda í 10. bekk, sé eftir því óskað.

Lagt er til að vísa tillögunni til fræðslunefndar og íþrótta- og menningarnefndar.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 V.  1505162

            Tillaga frá bæjarfulltrúum B-, S- og Æ-lista – 100 ára kosningarafmæli kvenna 

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu frá bæjarfulltrúum B-, S- og Æ-lista: 

Tillaga lögð fram í bæjarstjórn Árborgar 14.maí 2015: Þann 19.júní nk. fögnum við Íslendingar því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Af því tilefni leggja undirritaðir bæjarfulltrúar til að reglulegan bæjarstjórnarfund í júní nk. sitji eingöngu konur, þ.e.a.s. kvenbæjarfulltrúar og kvenvarabæjarfulltrúar.

Greinargerð:

Þess er minnst í ár með margvíslegum hætti að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Nú þegar hafa verið ýmsir viðburðir víða um land til þess að minnast þessa merka áfanga og margir fleiri viðburðir erufyrirhugaðir á næstunni. Mikilvægt er að Svf. Árborg leggi sitt af mörkum til þess að minnast þessara merku tímamóta og taki þátt í nýrri sókn í átt að aukinni jafnréttis-, lýðræðis- og mannréttindavitund. Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi, S-lista Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, S-lista Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi, B-lista Viðar Helgason, bæjarfulltrúi, Æ-lista

Ásta Stefánsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

 Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 18:40

Ásta Stefánsdóttir
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ari Björn Thorarensen
Gunnar Egilsson
Kjartan Björnsson
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Viðar Helgason
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari