21.9.2018 | 6. fundur framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar

Forsíða » Fundargerðir » Framkvæmda- og veitustjórn » 6. fundur framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar
image_pdfimage_print


6. fundur framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn 6. September 2018 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 17:00.

Mætt:
Tómas Ellert Tómasson, formaður, M-lista
Álfheiður Eymarsdóttir, nefndarmaður, Á-lista
Viktor Pálsson, nefndarmaður, S-lista
Sveinn Ægir Birgisson, nefndarmaður, D-lista
Ragnheiður Guðmundsdóttir, nefndarmaður, D-lista
Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri

Dagskrá:

Almenn afgreiðslumál
1. 1809012 – Vetrarþjónusta í Árborg 2018-2019
Kristján Jóhannesson, verkstjóri þjónustumiðstöðvar, og Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri framkvæmda- og þjónustu, komu inn á fundinn. Kristjáni og Auði falið að uppfæra snjómokstursreglur og leggja fyrir næsta fund.

2. 1801063 – Borun á ÓS-4
Sigurður Þór Haraldsson deildarstjóri vatns- og hitaveitu, kom inn á fundinn. Vegna tafa við undirbúning viðhaldsborunar á ÓS-1 ákveður stjórnin að breyta forgangsröðun framkvæmda og fara í borun á nýrri vinnsluholu austan við núverandi vinnslusvæði skv. ráðleggingum frá ÍSOR.
Heitavatnsöflun í Sveitarfélaginu Árborg stendur tæpt á álagstímum og nauðsynlegt að halda áfram vinnu við jarðhitaboranir.

3. 1612102 – Kaupsamningur – Félagsmiðstöð og dagdvöl aldraðra að Austurvegi 51
Formaður stjórnar og Sigurður Sigurjónsson, bæjarlögmaður fóru yfir störf starfshóps vegna kaupa á félagsmiðstöð og dagdvöl aldraða að Austurvegi 51. Farið var yfir stöðu framkvæmda og efnisval byggingarefna. Gerð var grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá skilalýsingu. Seljandi gerir ráð fyrir að afhenda eignina 12. október nk. Fyrir afhendingu verður gerð úttekt á húsnæðinu og borin saman við skilalýsingu.

4. 1807089 – Samningur við Rarik um lagningu þriggja fasa rafmagns í Svf. Árborg
Álfheiður Eymarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Athugun hefur leitt í ljós að kostnaður tengingar við hitaveitu á jaðarsvæðum er ekki fýsilegur kostur að svo stöddu.

Framkvæmda- og veitustjórn hefur í samvinnu við RARIK ákveðið að flýta lagningu þriggja fasa rafmagns um 4.2 km leið, frá Tóftum að Traðarholti, framhjá Hraunhlöðu, til suðurs að Skipum og þaðan að Grundarbæjum innan Sveitarfélagsins Árborgar.
Lagning þriggja fasa rafmagns á þessu svæði hefur talsverð samlegðaráhrif með lagningu ljósleiðara, en stefnt er að því að vinna þessi tvö verk í sama verki. Með þessu fyrirkomulagi munu Selfossveitur spara umtalsverða fjármuni vegna lagningar ljósleiðara. Þá hafa eigendur Vestri- Grundar 3 ákveðið að falla frá styrk sem þeir ella ættu rétt á frá Selfossveitum bs. vegna kaupa á varmadælu.

Lagning þriggja fasa rafmagns er til þess fallin að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu sem og stuðla að möguleikum til frekari tæknivæðingar og þannig hafa jákvæð áhrif á núverandi búrekstur sem og allan annan atvinnurekstur á umræddu svæði.

Þá er framangreint fyrirkomulag einnig til þess fallið að auka afhendingar- og rekstraröryggi á rafmagni á dreifisvæði RARIK en núverandi loftlína hefur á undanförnum árum átt það til að slá út, nú síðast í ágúst sl., vegna áflugs fugla og veðráttu.

Framkvæmda- og veitustjóra er falið að ganga frá samkomulagi við RARIK um lagningu framangreinds þriggja fasa strengs og lagningu ljósleiðara.

5. 1809011 – Húsnæðismál grunnskóla í sveitarfélaginu
Umræður um stöðu húsnæðismála grunnskóla í sveitarfélaginu.

6. 1803096 – Hönnun á götum og veitulögnum í landi Bjarkar
Unnið er að útboðsgögnum vegna verkhönnunar á gatna- og veitukerfum í landi Bjarkar. Stjórnin felur framkvæmdastjóra að leggja fram tillögu að áfangaskiptingu 1. áfanga þar sem gatnagerð að nýjum grunnskóla verður höfð í forgangi.

7. 1301171 – Uppsetning öryggismyndavéla
Stjórnin samþykkir uppsetningu á öryggismyndavél vestan við þéttbýlið á Eyrarbakka. Kostnaður er áætlaður ein milljón króna og er framkvæmdatími áætlaður byrjun árs 2019. Áætluðum kostnaði er vísað til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2019.

8. 1808099 – Kortlagning umhverfismála á Suðurlandi
Skýrsla frá SASS um kortlagningu umhverfismála á Suðurlandi lögð fram. Stjórnin fagnar gagnlegu yfirliti frá SASS.

9. 1711264 – Viðbygging við leikskólann Álfheima
Niðurstaða útboðs vegna viðbyggingar við leikskólann Álfheima lögð fram. Tilboð verða yfirfarin og metin.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 21:30

Tómas Ellert Tómasson
Álfheiður Eymarsdóttir
Viktor Pálsson
Sveinn Ægir Birgisson
Ragnheiður Guðmundsdóttir
Jón Tryggvi Guðmundsson