13.12.2018 | 7. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 7. fundur bæjarstjórnar

image_pdfimage_print

 

7. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn miðvikudaginn 12. desember 2018 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi. 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Helgi S. Haraldsson, B-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Tómas Ellert Tómasson, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Ari Björn Thorarensen, D-lista.

Auk þess situr fundinn Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá: 

1. 1711075
Deiliskipulagsbreyting að Eyravegi 34-38, Selfossi

Tillaga frá 9. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 21. nóvember sl., liður 1 – Lagt er til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

2. 1808156
Grenndarkynning vegna breytinga á innkeyrslum að Starmóa 14 og 16, Selfossi

Tillaga frá 9. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 21. nóvember sl., liður 12 – Grenndarkynning hefur farið fram og engar athugasemdir borist. Lagt er til við bæjarstjórn að breytingin verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

3. 1811174
Óveruleg breyting á deiliskipulagi – Larsenstræti

Tillaga frá 9. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 21. nóvember sl., liður 15 – Lagt er til við bæjarráð [bæjarstjórn] að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi við Larsenstræti.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista, tóku til máls

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

4. 1810247
Hjólreiðasamgöngur í Árborg til framtíðar

Tillaga frá 17. fundi bæjarráðs frá 29. nóvember sl., liður 1 – Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að stofna stýrihóp um hjólreiðasamgöngur í Árborg til framtíðar og verði Jóna Sólveig Elínardóttir formaður hans. Meirihluti og minnihluti bæjarstjórnar skipi auk þess einn fulltrúa hvor. Starfsmaður hópsins verður Bragi Bjarnason.
Stýrihópnum er falið að skila drögum að erindisbréfi og leggja fyrir bæjaráð til samþykktar. Lögð skal áhersla á að vinna stýrihópsins nýtist í tengslum við yfirstandandi endurskoðun á aðalskipulagi.

Lagt er til að Klara Öfjörð Sigfúsdóttir, S-lista  og Kjartan Björnsson, D-lista, verði  fulltrúar bæjarstjórnar í hópnum.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.

5. 1811176
Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna borunar við Ingólfsfjall

Tillaga frá 10. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 5. desember sl., liður 1 – Lagt er til við bæjarráð [bæjarstjórn] að framkvæmdaleyfið verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

6. 1801220
Reglur um félagslegar leiguíbúðir í Sveitarfélaginu Árborg

Tillaga frá 4. fundi félagsmálanefndar frá 5. desember sl., liður 1 – Félagsmálanefnd samþykkir breytingarnar og leggur til við bæjarstjórn að reglurnar verði samþykktar.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

7. 1811030
Styrkbeiðni – Stígamót 2019

Tillaga frá 4. fundi félagsmálanefndar frá 5. desember sl., liður 6 – Félagsmálanefnd leggur til að veita Stígamótum styrk að upphæð kr. 70.000 fyrir árið 2019.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

8. 1810100Styrkbeiðni – Rekstur Kvennaathvarfsins árið 2019

Tillaga frá 4. fundi félagsmálanefndar frá 5. desember sl., liður 7 – Félagsmálanefnd leggur til veita Kvennaathvarfinu styrk að upphæð kr. 70.000 fyrir árið 2019.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

9.1812056
Siðareglur kjörinna fulltrúa
Bæjarstjórn Svf. Árborgar samþykkir að yfirfara og endurskoða „Siðareglur kjörinna
fulltrúa hjá Sveitarfélaginu Árborg,“ ef þurfa þykir.  Eftir endurskoðun og breytingar verði þær lagðar fram í bæjarstjórn til samþykktar.

Lagt er til að vísa tillögunni til bæjarráðs til endurskoðunar í samráði við bæjarstjóra.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Tómas Ellert Tómasson, M-lista, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 atkvæðum.

 10. 1810219
Fyrirspurn Gunnars Egilssonar, bæjarfulltrúa, dags. 9. desember 2018
Á 13. fundi bæjarráðs spurðist ég fyrir um hvort sveitarfélagið ætti í viðræðum um sölu á hlut í fráveitu Árborgar. Fyrirspurninni var ekki svarað efnislega heldur fól svarið í sér upplýsingar um félagið Summu rekstrarfélag hf. Nú hefur komið í ljós að bæjarstjóri hefur verið í viðræðum við félagið um kaup þess á 49% hlut í fráveitu Árborgar, án umboðs bæjaryfirvalda að því er virðist. Undirritaður óskar eftir upplýsingum um það hvort fram hafi farið mat óháðs aðila á grundvelli 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 á þeirri ráðstöfun sem um ræðir.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Í svari við fyrirspurn bæjarfulltrúa Gunnars Egilssonar frá 13. fundi bæjarráðs kemur skýrt fram að bæjarstjóri hafi hitt fulltrúa frá Summu fjármálafyrirtæki. Tilgangur þessa fundar var að kynna fyrir bæjaryfirvöldum mismunandi leiðir til fjármögnunar framkvæmda við veitur. Það sem hins vegar var ekki vitað þegar þetta svar var lagt fram að sömu aðilar sem hér um ræðir höfðu hitt fyrrverandi framkvæmdastjóra sveitarfélagsins á sambærilegum fundum á síðasta kjörtímabili. Þær samræður fóru fram án vitneskju þeirra kjörnu fulltrúa sem þá áttu sæti í bæjarstjórn, í það minnsta þeirra fulltrúa sem tilheyrðu minnihluta bæjarstjórnar. Í þeirri fyrirspurn sem liggur fyrir á þessum fundi eru aðdróttanir um að tilteknir starfsmenn séu að vinna í málum umboðslausir og á eigin forsendum. Það er  skoðun undirritaðs að slíkur málflutningur kjörins fulltrúa á opinberum vettvangi sé býsna alvarlegur og til þess fallinn að afvegaleiða umræðuna um þetta mál.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Umboð bæjarstjóra

Að því er látið liggja í fyrirspurninni að bæjarstjóri sé að vinna án umboðs bæjarstjórnar.

Í 48. grein samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar (bæjarmálasamþykkt) er kveðið á um að bæjarstjóri skuli annast verkefni sveitarfélagsins, auk framkvæmdar ákvarðana bæjarstjórnar. Í 49. grein bæjarmálasamþykktar er kveðið á um að bæjarstjóri skuli sjá um að fundir bæjarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst.

 • Það hlýtur að samræmast störfum og umboði bæjarstjóra að vera í samskiptum við þau fyrirtæki sem óska eftir viðskiptum við sveitarfélagið, bjóða sveitarfélaginu þjónustu sína eða óska eftir þjónustu sveitarfélagsins.
 • Það hlýtur einnig að samræmast störfum og umboði bæjarstjóra að vinna að undirbúningi þeirra fjárfestinga sem bæjarstjórn er með til skoðunar og gera tillögur um fjármögnun þeirra.
 • Það hlýtur jafnframt að samræmast störfum og umboði bæjarstjóra að leita allra leiða til að bæta vegferð sveitarfélagsins og leggja fyrir bæjarstjórn mótaðar og undirbúnar tillögur um slíkar leiðir.
 • Þann 5. desember síðastliðinn boðaði bæjarstjóri kynningu fyrir bæjarfulltrúum á þeirri leið sem fjallað er um í drögunum og verður sú kynning haldin í aðdraganda bæjarstjórnarfundar 12. desember.

Framkvæmdir vegna fráveitu

Undirbúningur að framkvæmdum við nýja hreinsistöð fráveitu hefur staðið yfir síðastliðin tvö kjörtímabil og stendur enn. Á þeim tíma hafa verið ræddir fjárfestingakostir sem kostað gætu milljarða í framkvæmd. 

Á fundi framkvæmda- og veitustjórnar 6. desember 2017 voru kynntir eftirfarandi kostir í drögum að tillögu að matsáætlun um hreinsistöð fráveitu á Selfossi:

 1. Núllkostur. Hann miðast við óbreytt ástand, þ.e. að skólpi verði áfram veitt að mestu leyti óhreinsuðu í Ölfusá.
 2. Að byggja eins þreps hreinsistöð við Sandvík með útrás í Ölfusá.
 3. Að byggja tveggja þrepa hreinsistöð við Sandvík með útrás í Ölfusá.
 4. Að byggja hreinsistöð með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa við Sandvík með útrás í Ölfusá.
 5. Að byggja eins þreps hreinsistöð við Sandvík og dæla skólpi um lögn með Eyrarbakkavegi og áfram út í sjó við Eyrarbakkahöfn.

Ákvörðun bæjarstjórnar um að ráðast í slíkar fjárfestingar gæti mjög líklega fallið undir 66. grein sveitarstjórnarlaga. Sá valkostur um hreinsistöð sem nú er til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum er talinn kosta um 1.250 milljónir króna – það er reyndar mun ódýrari leið en áður hefur verið á borðinu.

Möguleg aðkoma fjárfestingarsjóðs lífeyrissjóðanna

Bæjarstjóri hefur verið í sambandi við Summu rekstrarfélag hf. frá því að fyrirtækið bað fyrst um fund með bæjarstjóra og var sá fundur haldinn 11. september síðastliðinn í Ráðhúsi Árborgar. Summa kynnti þar fyrir bæjarstjóra sjóð í eigu lífeyrissjóðanna, Innviðir fjárfestingar slhf., og mögulega aðkomu sjóðsins að innviðafjárfestingum sveitarfélaga. Í lok þeirrar kynningar upplýsti bæjarstjóri fulltrúa Summu um að miklar fjárfestingar væru fyrirhugaðar í fráveitumálum sveitarfélagsins og víst að þær fjárfestingar gætu orðið sveitarfélaginu þungur baggi. Niðurstaða fundarins var að Summa myndi kanna möguleika fjárfestingasjóðs lífeyrissjóðanna til að létta undir með sveitarfélaginu í því gríðarmikla verkefni sem fyrirhugað væri í uppbyggingu fráveitu Árborgar.

Summa rekstrarfélag hf. hefur í framhaldinu unnið drög að tillögu um aðkomu innviðasjóðs lífeyrissjóðanna að fjárfestingum í fráveitu Árborgar. Leið Summu er í stuttu máli sú að Sveitarfélagið Árborg stofni sérstakt félag um fráveituna og eignir hennar og Innviðir kaupi svo 49% í félaginu. Skýr lög og reglur eru um það að sveitarfélög verða að eiga meirihluta í slíkum félögum. Skýrar reglur eru einnig um það hvernig heimilt er að ákvarða gjaldskrá slíks félags og um það hver arðsemin má vera af slíku félagi. Sveitarfélagið færi með meirihluta í stjórn slíks félags. Helsti kosturinn við þessa aðferð er að Árborg gæti fjármagnað nýja hreinsistöð við Ölfusá – og aðrar fjárfestingaþarfir fráveitu – án lántöku.

Mat á áhrifum skuldbindinga sbr. 66. gr. sveitarstjórnarlaga

Ekki hefur farið fram mat á áhrifum ofangreindra fjárfestinga, í fráveitu eða þeirrar ráðstöfunar að selja Innviðum 49% hlut í hugsanlegu félagi um fráveitu Árborgar, á fjárhag sveitarfélagsins. Slíkt mat þarf að fara fram áður en bæjarstjórn tekur ákvarðanir um ofangreint ef þær nema sem svarar 20% af skatttekjum sveitarfélagsins, eða sem nemur um 1,2 milljörðum árið 2019. 

Gunnar Egilsson, D-lista, og Ari Björn Thorarensen, D-lista, tóku til máls.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, óskaði eftir að Arna Ír Gunnarsdóttir, 1. varaforseti, tæki við stjórn fundarins. Arna Ír tók við stjórninni.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Kjartan Björnsson, D-lista, og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, tók aftur við stjórn fundarins.

11. 1811132
Gjaldskrár 2019 – síðari umræða 
a) Tillaga að breytingu á gjaldskrá Selfossveitna 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
b) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir frístundaheimili í Árborg 2019 – Ný útfærsla á gjaldskrá frístundaheimila, lækkun hjá þeim sem nota þjónustuna mest og hækkun hjá þeim sem nota þjónustuna lítið og stopult. Þeir sem nota þjónustuna alla daga lækka um u.þ.b. 6.000 kr.
c) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
d) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir fæði í grunnskólum í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
e) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir hundahald í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
f) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir kattahald í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
g) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir bókasöfn Árborgar 2019 – Hækkunin nemur að meðaltali 4,2%.
h) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
i) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir leigubílaakstur aldraðra í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
j) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
k) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir frístundaklúbbinn í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
l) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir Grænumörk 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
m) Tillaga að breytingu á gjaldskrá vegna afnota á skólahúsnæði í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
n) Tillaga að breytingu á gjaldskrá vegna fráveitu (tæmingu rotþróa) í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
o) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Árborg 2019 – Hækkunin nemur 10%.
p) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir gámasvæði Árborgar 2019 – Hækkunin nemur 3,6%.
q) Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir sundstaði í Árborg 2019 – Hækkunin er breytileg milli einstakra liða, frá 1,7% – 6,7% fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Tillögur að breytingum á gjaldskrám fyrir Sveitarfélagið Árborg voru bornar undir atkvæði og samþykktar með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, sem  voru á móti.

12. 1811159
Samþykktir og gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld 2019 – síðari umræða 

Gísli Halldór Halldórsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi greinargerð:
Hér verið að leggja til nokkrar breytingar á innheimtu gatnagerðargjalda. Annars vegar miða þær að því að skerpa á innheimtu gjaldanna þannig að ekki sé hægt að halda lóðum í lengri tíma án þess að gatnagerðargjöld séu greidd upp. Hins vegar er gjaldskráin færð nær því sem tíðkast í öðrum sambærilegum sveitarfélögum.

Gatnagerðargjöld og innheimta þeirra þurfa að standa undir nauðsynlegri uppbygginu innviða í nýjum hverfum og því mikilvægt að þau séu í samræmi við kostnað af slíkri uppbyggingu.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.

Samþykktir og gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld 2019 voru bornar undir atkvæði og samþykktar með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa, D-lista, sem  voru á móti.

13. 1811233
Ákvörðun útsvarsprósentu 2019

Lögð var fram eftirfarandi tillaga um útsvarsprósentu. 

Miðað er við að útsvarshlutfall fyrir árið 2019 verði hámarksútsvar, þ.e. 14,52 % af útsvarsstofni.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa, D-lista, sem voru á móti.

14. 1808140
Fjárhagsáætlun 2019 og 3ja ára áætlun – síðari umræða
           
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls og kynnti breytingar á fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun milli umræðna. 

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, óskaði eftir að Arna Ír Gunnarsdóttir, 1. varaforseti, tæki við stjórn fundarins. Arna Ír tók við stjórninni.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, tók aftur við stjórn fundarins.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls.

Fjárhagsáætlun 2019 og 3ja ára áætlun voru bornar undir atkvæði og samþykkar með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa, D-lista, sem voru á móti.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram eftir farandi bókun bæjarfulltrúa D-lista vegna fjárhagsáætlunar 2019 og þriggja ára áætlunar 2020-2022:
Það er mat bæjarfulltrúa D-lista að tekjur sveitarfélagsins af lóðasölu þau ár sem áætlunin tekur til séu verulega ofáætlaðar og óraunhæft að áætlunin nái fram að ganga. Tekjuáætlunin virðist sett fram sem rök fyrir fjármögnun framkvæmda, sem ella væri ekki hægt að sýna fram á með hvaða hætti ætti að fjármagna. Bæjarfulltrúar D-lista hafna óábyrgri áætlanagerð eins og hér er viðhöfð.

Sú aukning sem er á rekstrarkostnaði sveitarfélagsins þykir benda til þess að ekki sé lengur sýnt það aðhald í rekstri sem viðhaft hefur verið undanfarin ár. Áfram er afar mikilvægt að gæta hófs í fjölgun stöðugilda. Áætlunin ber ekki með sér sparnað í aðkeyptri þjónustu á móti auknum fjölda stöðugilda, þvert á móti hækka þjónustukaup talsvert. Athygli vekur einnig að ekki skuli beðið eftir niðurstöðum úttektar á rekstri sveitarfélagsins áður en ákvarðanir eru teknar um ýmis ný útgjöld.

Bæjarfulltrúar D-lista eru andvígir þeirri gífurlegu hækkun gatnagerðargjalda sem gert er ráð fyrir í nýrri gjaldskrá gatnagerðargjalda. Hækkunin á gatnagerðargjöldum fyrir annað húsnæði en íbúðarhús nemur 42,9%, þar undir fellur allt atvinnuhúsnæði, s.s. iðnaðarhúsnæði, verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhúsnæði, einnig falla þar undir aðrar byggingar svo sem hesthús og flugskýli. Þessi hækkun er ekki til þess fallin að laða atvinnufyrirtæki að sveitarfélaginu, né til þess að styrkja starfsemi þeirra fyrirtækja sem fyrir eru og þurfa að stækka við sig. Sveitarfélagið verður enganvegin samkeppnishæft hvað atvinnulóðir varðar, gjaldskráin verður t.d. tvöfalt hærri en gjaldskrá Sveitarfélagsins Ölfuss vegna iðnaðarhúsnæðis og tæplega fjórfalt hærri en gjaldskrá Hveragerðisbæjar vegna iðnaðarhúsnæðis. Þá hækkar gjaldskrá gatnagerðargjalda vegna fjölbýlishúsa um 46% og verður nærri fjórfalt hærri en t.d. í Sveitarfélaginu Ölfusi. 

Sú mikla fjárfesting sem ráðgerð er í fjárhagsáætluninni árin 2019-2022 leiðir til þess að skuldsetning sveitarfélagsins eykst verulega. Undir lok áætlunartímabilsins fer skuldahlutfall yfir viðmiðunarmörk og skuldaviðmið skv. nýjum útreikningum nálgast viðmiðunarmörk, hækkar um 30 prósentustig á áætlunartímabilinu. Ljóst er að sveitarfélagið mun þurfa að leita á önnur mið en til Lánasjóðs sveitarfélaga varðandi lánafyrirgreiðslu, sem getur leitt af sér mun hærri fjármagnskostnað en verið hefur. Það virðist einbeittur ásetningur meirihluta Á-, B-, M- og S-lista að steypa sveitarfélaginu á ný í það skuldafen sem unnið hefur verið að á undanförnum árum að draga það upp úr.

Bæjarfulltrúar D-lista greiða því atkvæði gegn fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar

Á grundvelli málefnasamnings framboðslista Áfram Árborgar, Framsóknar og óháðra, Miðflokks og Samfylkingarinnar sem varð til eftir kosningarnar sl vor, er nú lögð fram metnaðarfull fjárhagsáætlun. Hún miðar  að því að Svf. Árborg verði áfram leiðandi sveitarfélag á Suðurlandi, sem veita muni fyrirmyndarþjónustu m.a á sviði menntunar, menningar, velferðarþjónustu og góðra stjórnsýsluhátta. Við sem stöndum saman að þessu samstarfi í Svf. Árborg höfum sammælst um að gera gott sveitarfélag betra, við ætlum að vanda okkur við þau verkefni sem okkur hefur verið trúað fyrir enda snerta þau fólk,fyrirtæki og umhverfi okkar með beinum hætti. Við sem stöndum að þessu samstarfi komum úr ólíkum áttum og áherslurnar mismunandi. Það sem sameinar okkur er brennandi áhugi fyrir hagsmunum íbúa þessa sveitarfélags og uppbygging þess til framtíðar. Fagnefndum sveitarfélagsins, forstöðumönnum stofnana og öðru starfsfólki er þakkað fyrir að vinna innan þeirra rekstrarmarkmiða sem bæjarstjórn hefur sett sér. Starfsfólki er þakkað mikið og óeigingjarnt starf við gerð þessarar fjárhagsáætlunar, það er svo verkefni okkar allra að vinna með þeim hætti að áætlunin gangi eftir.

Helgi S Haraldsson
Tómas E Tómasson
Sigurjón V Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Eggert V Guðmundsson

Fundargerðir til kynningar           
15. 1806102
Fundargerðir bæjarráðs
a) 16. fundur frá 22. nóvember
b) 17. fundur frá 27. nóvember
c) 18. fundur frá 6. desember

 • liður a) Ari Björn Thorarensen, D-lista, tók til máls um lið 6 í 16. fundargerð bæjarráðs, málsnr. 1810218 – Erindisbréf – Samþykktir hverfisráðs Árborgar.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls.   

 • liður a) Ari Björn Thorarensen, D-lista, tók til máls um lið 9 í 17. fundargerð bæjarráðs, málsnr. 1806138 – Fundargerðir Héraðsnefndar Árnesinga bs.

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, tók til máls.    

16. 1806175
Fundargerð félagsmálanefndar
a) 4. fundur frá 5. desember

 1806174
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar
a) fundur frá 28. nóvember

18. 1806176
Fundargerð íþrótta- og menningarnefndar

a) 5. fundur frá 27. nóvember

Kjartan Björnsson, D-lista, tók til máls um lið 2, málsnr. 1810117- Uppskeruhátíð ÍMÁ 2018.

19. 1806173
Fundargerð skipulags – og byggingarnefndar                

a) 9. fundur frá 21. nóvember
b) 10. fundur frá 5. desember

 

Bæjarstjórn Árborgar sendir starfsmönnum og íbúum öllum hugheilar jóla- og  nýárskveðjur með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.  

Fleira ekki gert.
Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl.  19:15

 

Helgi Sigurður Haraldsson     
Eggert Valur Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir   
Tómas Ellert Tómasson
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Gunnar Egilsson
Brynhildur Jónsdóttir   
Kjartan Björnsson
Ari Björn Thorarensen
Gísli Halldór Halldórsson                                    
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari