17.1.2019 | 8. fundur bæjarstjórnar

Forsíða » Fundargerðir » Bæjarstjórn » 8. fundur bæjarstjórnar
image_pdfimage_print

8. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn miðvikudaginn 16. janúar 2019 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi. 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Helgi S. Haraldsson, B-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Tómas Ellert Tómasson, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Ari Björn Thorarensen, D-lista.

Auk þess situr fundinn Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá:

1.  1808017
Innkaupareglur Sveitarfélagsins Árborgar
Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, fór yfir breytingar á innkaupareglum þar sem búið er að uppfæra upphæðir samkvæmt gildandi lögum, engar aðrar breytingar á reglum eru lagðar til.  Ný lög taka gildi í maí á þessu ári og lagt er til að þá verði búið að uppfæra reglurnar í heild sinni.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 2. 1810218
Kosning í Hverfisráð Árborgar
Kosning nefndarmanna og formanna og tilnefning bæjarfulltrúa sem starfa/mæta á fundi sem tengiliðir bæjarstjórnar.

Lagt er til að eftirtaldir aðilar verði kosnir í hverfisráð Eyrarbakka:

Aðalmenn                                                                            
Magnús Karel Hannesson, formaður            
Drífa Pálína Geirsdóttir                                            
Vigdís Sigurðardóttir
Guðmundur Ármann Pétursson

Bæjarfulltrúar
Eggert Valur Guðmundsson
Brynhildur Jónsdóttir

Lagt er til að eftirtaldir aðilar verði kosnir í hverfisráð Sandvíkurhrepps:

Aðalmenn                                                    
Margrét Katrín Erlingsdóttir, formaður                   
Páll Sigurðsson
Anna Valgerður Sigurðardóttir
María Hauksdóttir
Oddur Hafsteinsson

Varamaður
Jónína Björk Birgisdóttir

Bæjarfulltrúar
Arna Ír Gunnarsdóttir
Kjartan Björnsson

Lagt er til að eftirtaldir aðilar verði kosnir í hverfisráð Selfoss:

           
Aðalmenn                                                    
Kristján Eldjárn Þorgeirsson, formaður        
Stefán Pétursson                                           
Grétar Guðmundsson
Sigríður Grétarsdóttir
Elín María Halldórsdóttir

Varamenn
Jón Hjörtur Sigurðsson
Hörður Vídalín Magnússon
Böðvar Jens Ragnarsson
Úlfhildur Stefánsdóttir

Bæjarfulltrúar
Helgi Sigurður Haraldsson
Gunnar Egilsson

Lagt er til að eftirtaldir aðilar verði kosnir í hverfisráð Stokkseyrar:

 

Aðalmenn                                                
Guðný Ósk Vilmundardóttir, formaður                   
Jónas Höskuldsson                                       
Hafdís Sigurjónsdóttir
Svala Norðdahl
Björg Þorkelsdóttir

Bæjarfulltrúar
Ari Björn Thorarensen
Tómas Ellert Tómasson

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

3. 1812125
Upptaka og útsending bæjarstjórnarfunda
Tillaga frá 19. fundi bæjarráðs frá 20. desember sl., liður 13 – Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að bæjarstjórnarfundir Svf. Árborgar verði sendir út í beinni útsendingu bæði í hljóði og mynd og einnig að fundirnir verði aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins eftir að fundum bæjarstjórnar lýkur. Kostnaður er áætlaður um 1.000.000 kr. og rúmast innan samþykktar fjárhagsáætlunar.  

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.        

Lagt er til að vísa málinu til bæjarráðs til nánari útfærslu.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

4. 1807027
Heimild fyrir deiliskipulagi á jörðinni Goðanesi

Tillaga frá 11. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 19. desember sl., liður 3 – Lagt er til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

5. 1812114
Breytt starfsemi í húsinu að Vallholti 27, Selfossi

Tillaga frá 11. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 19. desember sl., liður 8 – Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti breytta notkun húsnæðisins og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja breytinguna.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

6. 1812130
Tillaga um stofnun faghóps vegna byggingar nýs leikskóla í Dísarstaðalandi
Tillaga frá 7. fundi fræðslunefndar frá 9. janúar sl., liður 2 – Tillaga um byggingu sex deilda leikskóla í Dísarstaðalandi. Vegna fjölgunar leikskólabarna í Árborg er lagt til að hefja undirbúning að byggingu nýs leikskóla í Dísarstaðalandi en þegar hefur verið gerður samningur um lóð fyrir skólann. Faghópur á vegum fræðslusviðs vinni með framkvæmda- og veitusviði. Lagt er til að hópinn skipi formaður fræðslunefndar Arna Ír Gunnarsdóttir, fræðslustjóri, Þorsteinn Hjartarson, leikskólaráðgjafi, Júlíana Hilmisdóttir og leikskólastjórarnir Júlíana Tyrfingsdóttir og Kristrún Hafliðadóttir. Framkvæmda- og veitusvið tilnefnir tvo fulltrúa í hópinn.

Gunnar Egilsson, D-lista, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða, enda gert ráð fyrir kostnaði í fjárhags- og fjárfestinga áætlun ársins 2019 og 2020.

7. 1901031
Bygging leikskóla við Engjaland 21
Tillaga frá 18. fundi framkvæmda- og veitustjórnar frá 9. janúar sl. – Tilnefning í faghóp vegna byggingar nýs leikskóla í Dísastaðalandi fulltrúar framkvæmda- og veitusviðs. Lagt er til að Tómas Ellert Tómasson, Sveinn Ægir Birgisson og Jón Tryggvi Guðmundsson muni vinna með faghóp fræðslusviðs að byggingu nýs leikskóla í Dísastaðalandi.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

8. 1807023
Skólahverfamál í Árborg – greining á búsetu nemenda

Erindi frá 7. fundi fræðslunefndar frá 9. janúar sl. – Skýrsla frá VSÓ Ráðgjöf frá október 2018 lögð fram og minnisblað frá desember 2018 þar sem um er að ræða viðbótargreiningu út frá áhrifum íbúðabyggðar í Laugardælalandi. Þar sem breyting á skólahverfamörkum er krefjandi verkefni var ákveðið að fá utanaðkomandi fagaðila í verkefnið. Í greiningu VSÓ er m.a. tekið mið af lýðfræðilegum þáttum, þróun byggðar, gönguleiðum og fjarlægð frá heimilum nemenda til og frá skóla.

Margir úr skólasamfélaginu hafa fengið kynningu á vinnu VSÓ og í kjölfar frekari skoðunar er lagt til að leið 3B verði valin, auk þess sem nemendur í væntanlegu Laugardælalandi sæki Vallaskóla. Skrifstofu fræðslusviðs er falið að kynna ný skólahverfi á næstu vikum en nýtt skipulag tekur gildi fyrir næsta skólaár. Þá er gert ráð fyrir að nýir nemendur sem tilheyra skólahverfi nýja skólans í Björkurstykki sæki Vallaskóla fyrst um sinn.

Samþykkt með þremur atkvæðum.

Fulltrúar D-lista greiddu atkvæði á móti og lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar D-lista gera athugasemd við að ekki sé horft nægilega til þeirrar byggðar sem mun verða í Laugardælalandi og þess fjölda grunnskólabarna sem mun búa þar í fullbyggðu hverfi. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þess hvaða áhrif uppbygging í því hverfi mun hafa, þannig að ekki þurfi að koma til breytingar á mörkum skólahverfa að nýju eftir örfá ár.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, og Ari Björn Thorarensen, D-lista, tóku til máls.

Tillaga um að leið 3B við skilgreiningu skólahverfa verði valin var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá.   

9. 1901039
Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands

Tillaga frá 20. fundi bæjarráðs frá 10. janúar sl. – Í ljósi alvarlegrar stöðu sem upp er komin í málefnum Sorpstöðvar Suðurlands er lagt til við bæjarstjórn að flokkun lífræns sorps verði hafin í sveitarfélaginu eins fljótt og mögulegt er og að keyptar verði tunnur fyrir sveitarfélagið til að hefja lífræna flokkun. Samþykktur verði viðauki við fjárhagsáætlun 2019, kostnaður er áætlaður um kr. 16 milljónir.

Tillaga um kaup á sorptunnum var borin undir atkvæði ásamt tillögu að viðauka við málaflokk 08 sem nemur hækkun útgjalda upp á kr. 16.000.000 og samsvarandi lækkun á rekstrarafgangi og handbæru fé.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Tómas Ellert Tómasson, M-lista, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

10. 1901038
Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista

Helgi S. Haraldsson forseti bæjastjórnar, las upp eftirfarandi tillögu D-lista:
Lagt er til að ef til þess kemur að bæjarstjórn taki þá ákvörðun að selja hlut í fráveitu Árborgar þá fari fram íbúakosning um málið.
Bæjarfulltrúar D-lista. 

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi frestunartillögu vegna tillögu D- lista um íbúakosningu:
Bæjarráð samþykkti, samhljóða, á fundi sínum 11. janúar sl. að fá hlutlaust endurskoðunarfyrirtæki til þess að leggja mat á hugmyndir Innviðasjóðs um kaup á 49% í fráveitu sveitarfélagsins. Niðurstöður úr þeirri vinnu liggja ekki fyrir, auk þess sem engar frekari tillögur  hafa verið lagðar fram um málið.

Undirritaðir bæjarfulltrúar Á-, B-, M- og S-lista, leggja því til að málinu verði frestað, þar sem það er með öllu ótímabært að taka afstöðu til máls sem ekki hefur verið mótuð tillaga um.
Sigurjón V Guðmundsson, Á-lista,
Helgi S Haraldsson, B-lista,
Tómas Ellert Tómasson, M-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.

Frestunartillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

11. 1207024
Skaðabótakrafa – Gámaþjónustan hf. og útboð sorphirðu í Árborg
Niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands og viðbrögð stefnanda gagnvart áfrýjun.

Niðurstaða dómsins var lögð fram og upplýsingar frá Torfa R. Sigurðsyni, lögmanni, sem flutti málið fyrir sveitarfélagið um að stefnandi hefur ákveðið að áfrýja málinu til Landsréttar.    
           
Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Við fögnum sýknudómum Héraðsdóms Suðurlands í þeim málum sem EKO eignir ehf (áður Gámaþjónustan hf) höfðaði gegn sveitarfélaginu til kröfu um skaðabætur vegna útboðs á sorphirðu í Árborg á árinu 2011.

Sveitarfélagið er sýknað af kröfum EKO eigna ehf og er m.a. með dómunum staðfest að Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista, var ekki vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins í bæjarstjórn. Þá eru EKO eignir dæmdar til að greiða sveitarfélaginu málskostnað upp á 8,5 milljónir króna.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að koma þessum málum á dagskrá bæjarráðs og þessari bókun á framfæri. Undirrituð óskuðu eftir að niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands frá 18. desember sl. í tveimur málum EKO eigna ehf (áður Gámaþjónustan hf) gegn Sveitarfélaginu Árborg yrði tekin á dagskrá þarsíðasta bæjarráðsfundar, með afbrigðum frá dagskrá, en var meinað um það af meirihluta bæjarráðs. Til að bregðast við þessu óskaði Gunnar Egilsson, D-lista, eftir að þetta yrði á dagskrá síðasta bæjarráðsfundar. Þegar kom að þeim lið í dagskrá fundarins óskaði Gunnar eftir að leggja fram stutta bókun, þá sem greinir hér að ofan. Var honum synjað um það og lögðu fulltrúar meirihlutans í bæjarráði fram og samþykktu tillögu um að ekki mætti ræða málið. Þetta er grafalvarlegt mál, Gunnari er meinað að nota það málfrelsi sem hann hefur skv. sveitarstjórnarlögum og samþykktum sveitarfélagsins. Þessi háttur meirihlutans er í hæsta máta ólýðræðislegur og sýnir af sér argasta valdhroka. Þá er ekki farið að samþykktum sveitarfélagsins við ritun fundargerðar síðasta bæjarráðsfundar, þar sem fundarritari lét þess ógetið að Gunnar hefði óskað eftir að leggja fram bókun sem synjað var. 

Margt hefur verið ritað og rætt um ferli málsins sem var til umfjöllunar dómstóla, m.a. hafa bæjarfulltrúarnir Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Helgi S. Haraldsson, B-lista, haft uppi stór orð og verið með yfirlýsingar í fjölmiðlum og bókunum á þeim sjö árum sem ferli málsins hefur staðið yfir, t.d. í grein sem birt var á dfs.is í byrjun mars 2017.  Velta má fyrir sér hvort öll þau stóru orð sem hafa verið viðhöfð hafi alltaf verið samrýmanleg hagsmunum sveitarfélagsins, en það er vissulega ein af frumskyldum kjörinna bæjarfulltrúa að hafa hagsmuni sveitarfélagsins síns ætíð í fyrirrúmi.
Gunnar Egilsson, D-lista,​​
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista,
Ari Björn Thorarensen, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista.

Gert var fundarhlé.

Fundi var fram haldið.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Það er ekki rétt það sem kemur fram í bókun bæjarfulltrúa D-lista að í grein bæjarfulltrúanna Eggerts Vals Guðmundssonar, Helga S. Haraldssonar og Örnu Írar Gunnarsdóttur sem birtist í Dagskránni í mars 2017 hafi verið efast um hæfi Gunnars Egilssonar til þess að fjalla um málið. Hvergi er minnst á hæfi Gunnars Egilssonar í umræddri grein. Í greininni er hins vegar fjallað um þá ákvörðun meirihluta D-lista  að hafa hafnað báðum tilboðum í sorphirðuna og ákveða að bjóða hana út að nýju. Þetta hafa dómstólar í tvígang dæmt ólögmæta aðgerð enda var það þetta sem öðru fremur var grunnur að málaferlum á hendur sveitarfélaginu með ófyrirsjáanlegum skaða.

Meðferð málsins af hálfu meirihlutans frá því að dómur héraðsdóms lá fyrir þann 18.desember sl. hefur í einu og öllu verið unnin skv. tilmælum bæjarlögmanns með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Undirritaðir bæjarfulltrúar taka undir að það sé frumskylda kjörinna fulltrúa að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í hvívetna enda teljum við okkur hafa gert það með því að fara að tilmælum bæjarlögmanns, sem rekur málið fyrir sveitarfélagið, um að fjalla ekki opinberlega um málið þar til áfrýjunarfrestur væri liðinn.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,

Helgi S. Haraldsson, B-lista, 
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.

Gert var fundarhlé.

Fundi var fram haldið.

Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Í bæjarmálasamþykkt er kveðið á um að þeir sem hafa rétt til að taka þátt í umræðum í bæjarstjórn eiga rétt á að fá bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru.

Bæjarstjóri, sem ritaði umrædda fundargerð bæjarráðs, kannast ekki við að farið hafi verið fram á að bókað væri um það í fundargerð að Gunnari Egilssyni hafi verið neitað um að leggja fram bókun um það mál sem bæjarráð samþykkti að fresta og tók þar með ekki til efnislegrar umræðu.

Bæjarstjóri vekur jafnframt athygli á þeirri ábyrgð sem bæjarráðsfulltrúar bera á fundargerðinni með því að undirrita hana, sem þeir gerðu í þessu tilviki allir og án fyrirvara.

Gunnar Egilsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Kjartan Björnsson, D-lista, Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista, tóku til máls.

 12. 1901077
Lántökur – Sveitarfélagið Árborg

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 600.000.000 kr. til 16 ára í samræmi við skilmála láns til ársins 2034 með föstum verðtryggðum vöxtum eins og þeir verða á þeim tíma er lánið er tekið. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdir skv. fjárhagsáætlun og einnig til að greiða afborganir af eldri lánum hjá Lánasjóðnum sbr. 3.gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

 Jafnframt er Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, kt. 151066-5779, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Sveitarfélagsins Árborgar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá.

13. 1901078
Lántökur – Selfossveitur
 

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn Árborgar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Selfossveitna bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 600.000.000 kr. til 16 ára, í samræmi við skilmála láns til ársins 2034 með föstum verðtryggðum vöxtum eins og þeir verða á þeim tíma er lánið er tekið. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1.mgr. 69. gr, sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna framkvæmdir skv. samþykktri fjárhagsáætlun, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3.gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. 

Bæjarstjórn Árborgar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Selfossveitna bs. til að selja ekki eignarhlut sinn í Selfossveitum bs. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. 

Fari svo að Sveitarfélagið Árborg selji eignarhlut í Selfossveitum bs. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Sveitarfélagið Árborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. 

Jafnframt er Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, kt. 151066-5779, veitt fullt og ótakmarkað umboð til að samþykkja f.h. Sveitarfélagsins Árborgar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningu og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá.

14. 1811132
Breyting á gjaldskrá fyrir leikskóla í Árborg 

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, lagði fram eftirfarandi tillögu að breytingu á gjaldskrá fyrir leikskóla:
Lögð er til breyting á gjaldskrá leikskóla í Árborg á þann hátt að systkinaafsláttur með öðru barni ( kennsluhlutanum) hækki úr 25% í 50%, jafnframt verði samþykktur viðaukið við málaflokk 04 sem nemur hækkun útgjalda upp á kr. 7.000.000 og samsvarandi lækkun á rekstrarafgangi og handbæru fé.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista, tóku til máls.Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. 

 15. 1901089
Tillaga frá D-lista – Álagningarhlutfall fasteignaskatts 2019
Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu um álagningarhlutfall fasteignaskatts:

Bæjarfulltrúar D-lista leggja til að bókað verði um álagningarhlutfall fasteignaskatts 2019 í fundargerð bæjarstjórnar, þar sem það var ekki gert við afgreiðslu fjárhagsáætlunar á síðasta ári. Uppfylla verður skilyrði laga um að bæjarstjórn taki ákvörðun um álagningarhlutfall fasteignaskatts og sú ákvörðun verður ekki tekin nema með bókun þar um. 

Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:

Til áréttingar um ákvarðanir bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2019

Í útsendum gögnum og tillögum vegna funda bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun 2019, sem haldnir voru 21. nóvember 2018 og 12. desember 2018, voru sundurliðaðar í greinargerð með fjárhagsáætlun upplýsingar sem eru grundvöllur tillögu að fjárhagsáætlun. Meðal þess sem fram kom í greinargerðinni voru þær breytingar á álagningu fasteignagjalda sem fólust í fjárhagsáætlunartillögum. Að samþykktri fjárhagsáætlun voru þessar  upplýsingar birtar á heimasíðu Árborgar, þann 13. desember 2018.

Til áréttingar, þar sem þær ákvarðanir sem eru tíundaðar hér á eftir voru ekki færðar í fundargerð bæjarstjórnar við samþykkt fjárhagsáætlunar, eins og þær voru samþykktar við síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar 12. desember 2018, staðfestir bæjarstjórn að neðangreindar ákvarðanir gilda um fasteignagjöld á árinu 2019.

Fasteignaskattur fyrir árið 2019 verður lagður á sem hér segir :

  • A-flokkur lækkar úr 0,325% og verður 0,275% af fasteignamati.
  • B-flokkur er óbreyttur – 1,32% af fasteignamati.
  • C-flokkur er óbreyttur – 1,65% af fasteignamati.

Lóðarleiga er óbreytt og verður sem hér segir árið 2019:

  • Almenn lóðarleiga verður 1,0% af fasteignamati lóðar.
  • Lóðarleiga ræktunarlands verður 3,3% af fasteignamati lóðar.

Vatnsgjald verður sem hér segir árið 2019:

  • Vatnsgjald á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,1961% og verður 0,1765%
  • Aukavatnsskattur verður óbreyttur og leggst á atvinnuhúsnæði m.v. rúmmetranotkun. Grunnur gjaldsins er 17,8 kr. á m3 miðað við grunnvísitölu neysluverðs í september 2007. Gjaldið uppreiknast á hverjum gjalddaga.

Fráveitugjald verður sem hér segir árið 2019:

  • Fráveitugjald lækkar úr 0,2795% og verður 0,2512% af fasteignamati.

Breytingartillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 Fundargerðir til kynningar

16. 1806102
Fundargerðir bæjarráðs 2018

a) 19. fundur frá 20. desember

17. 1901008
Fundargerðir bæjarráðs 2019
a) 20. fundur frá 10. janúar

18. 1806174
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar 2018
a) 16. fundur frá 12. desember
b) 17. fundur frá 19. desember

liður b ) Ari Björn Thorarensen, D-lista, tók til máls um lið 6 í 17. fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar, málsnr. 1812120 – Erindi frá Gagnaveitu Reykjavíkur vegna lagningar ljósleiðara í húseignir Árborgar.

19. 1901010
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar 2019
a) 18. fundur frá 9. janúar

20. 1806177
Fundargerð fræðslunefndar 2018
a) 6. fundur frá 11. desember

21.  1901011
Fundargerð fræðslunefndar 2019
a) 7. fundur frá 9. janúar

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, tók til máls um lið 9, málsnr. 1611240 – Menntastefna Árborgar 2018-2022

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls.

Bæjarstjórn Árborgar fagnar nýútkominni og samþykktri menntastefnu Árborgar.

22. 1806173
Fundargerð skipulags – og byggingarnefndar 2018       
a) 11. fundur frá 19. desember

Fleira ekki gert.
Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl.  19:45

Helgi Sigurður Haraldsson                                
Eggert Valur Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir                                       
Tómas Ellert Tómasson
Sigurjón Vídalín Guðmundsson                       
Gunnar Egilsson
Brynhildur Jónsdóttir                                        
Kjartan Björnsson
Ari Björn Thorarensen                                      
Gísli Halldór Halldórsson

Rósa Sif Jónsdóttir, ritari