31.10.2018 | Bæjarráð Árborgar fjallaði um tillögur samgönguáætlunar  fyrir árin 2019-2033

Forsíða » Fréttir » Bæjarráð Árborgar fjallaði um tillögur samgönguáætlunar  fyrir árin 2019-2033

image_pdfimage_print

Umsögn Árborgar um tillögur til þingsályktana um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar ályktaði á fundi sínum, 17. október síðastliðinn, um framlagðar tillögur að samgönguáætlunum.
Fyrir hönd Sveitarfélagsins Árborgar eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við þrjá þætti þessara tillagna um þingsályktanir:
Framkvæmdir við hringtorg og undirgöng við Suðurhóla á Selfossi geta með engu móti beðið til ársins 2021. Aðstæður eru stórhættulegar á þessum gatnamótum og bráðnauðsynlegt að ráðist verði í verkið strax árið 2019.
Ný brú yfir Ölfusá er brýnna verkefni en svo að það geti beðið til ársins 2024. Umferðarþunginn yfir gömlu Ölfusárbrúna er farinn að nálgast 20 þúsund bíla flesta daga sumars. Þessi umferð á vafalaust eftir að vaxa hratt á næstu árum. Afleiðingarnar eru kostnaðarsamar umferðartafir, vaxandi slysahætta og mikil óþægindi fyrir daglegt líf á Selfossi.
Það er jafnframt gagnrýnt að ekki verði ráðist strax í tvöföldun vegarins á milli Selfoss og Hveragerðis heldur látið nægja að leggja 2+1 veg. Þessi vegarkafli er einn sá hættulegasti á landinu – ef ekki sá hættulegasti – eins og opinberar slysatölur vitna um.