1.2.2019 | Dagur leikskólans 6. febrúar 2019

Forsíða » Fréttir » Dagur leikskólans 6. febrúar 2019

image_pdfimage_print

Miðvikudaginn 6. febrúar nk. verður Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í 12. sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á Dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

Í tilefni dagsins verður viðurkenningin Orðsporið veitt í sjöunda sinn. Orðsporið eru hvatningarverðlaun sem veitt eru þeim sem þykja hafa skarað fram úr í því að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna.

Blásið verður til samkeppni meðal leikskólabarna í tilefni Dags leikskólans. Verkefnið er að yrkja á íslensku, á hvaða formi sem er (s.s. ljóð, vísur, sögur), og eru efnistök frjáls. Veitt verða þrenn verðlaun fyrir bestu textana. Skilafrestur er til 18. janúar nk. Sjá nánar á vef KÍ: http://ki.is/rss/5097-ad-yrkja-a-islensku-samkeppni-i-tilefni-dags-leikskolans

Dagur leikskólans 2019 er með myllumerkið #dagurleikskolans2019.

Látum Dag leikskólans verða okkur hvatning til að kynna okkur það mikilvæga starf sem þar fer fram.