9.7.2019 | Er dagforeldrið þitt með leyfi?

Forsíða » Fréttir » Er dagforeldrið þitt með leyfi?

image_pdfimage_print

Sveitarfélagið í Árborg vill vekja athygli á þjónustu dagforeldra en ekki síður að brýna mikilvægi þess að foreldrar taki vel upplýsta ákvörðun þegar þeir standa frammi fyrir vali á gæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi. Samkvæmt reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005 ber öllum sem eru með daggæslu í heimahúsi að vera með leyfi frá sveitarfélaginu. Félagsmálanefnd Árborgar veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsi í Sveitarfélaginu Árborg. Með daggæslu samkvæmt reglum þessum er átt við gæslu barna á heimili á tímabilinu frá kl. 7:00 til kl. 19:00 á virkum dögum og gjald tekið fyrir.

Áður en félagsmálanefnd veitir dagforeldrum leyfi til gæslu barna í heimahúsum, fer fram:

– Úttekt á heilsu umsækjanda
– Úttekt á heimili umsækjanda, bæði hvað varðar slysahættur og brunavarnir 
– Sakavottorði skilað fyrir alla fjölskyldumeðlimi sem hafa náð 18 ára aldri

Dagforeldrum er einnig gert að slysatryggja börnin meðan á gæslu stendur. Starfi einstaklingur án tilskilinna leyfa frá sveitarfélaginu hafa ofangreindar úttektir ekki farið fram og börn ykkar eru ekki slysatryggð meðan á gæslu stendur. Eins skal það tekið fram að séu dagforeldrar ekki með leyfi frá sveitarfélaginu fá foreldrar ekki niðurgreiðslu á vistunargjaldi.

Fjárhæð niðurgreiðslu miðast við vistunartíma barns og greiðist forsjá foreldri:
Fyrir fjögurra tíma vistun 32.500 krónur
Fyrir fimm tíma vistun 40.625 krónur
Fyrir sex tíma vistun 48.750 krónur
Fyrir sjö tíma vistun 56.875 krónur
Fyrir átta tíma vistun 65.000 krónur

Sveitarfélagið í Árborg skorar á foreldra ungra barna að taka ákvarðanir um gæslu barna sinna að vel ígrunduðu máli og vera þess fullviss að dagforeldrið sem fyrir valinu verður uppfylli öll lagaleg skilyrði sem til staðar eru.

Vinsamlegast hafið samband við undirritaða í síma 480-1900 til að fá nánari upplýsingar eða sendið tölvupóst á netfangið bjorgm@arborg.is.
Virðingarfyllst,
f.h. fjölskyldusviðs Árborgar

Björg Maggý Pétursdóttir
Daggæslufulltrúi

Í skjalinu að neðan má finna þá dagforeldra sem eru með leyfi í Sveitarfélaginu Árborg

Dagforeldrar með leyfi í Sveitarfélaginu Árborg