20.11.2015 | Fjölmenni á tendrun jólaljósanna – 3 ára afmælisbarn kveikti ljósin

Forsíða » Fréttir » Fjölmenni á tendrun jólaljósanna – 3 ára afmælisbarn kveikti ljósin

image_pdfimage_print

Fjöldi fólks var mætt við Bókasafnið á Selfossi í gær, fimmtudaginn 19. nóvember til að fylgjast með því þegar jólaljósin eru formlega kveikt í Sveitarfélaginu Árborg. Veðrið var með besta móti, kalt og stillt og gestir gátu yljað sér við heitt kakó sem félagar úr Skátafélaginu Fossbúar gáfu. Dagskráin hófst með ávarpi Ástu Stefánsdóttur, bæjarstjóra Árborgar og í framhaldinu söng Karítas Harpa Davíðsdóttir nokkur gullfalleg jólalög og fékk meira að segja góða aðstoð frá gestum. Barnakór Selfosskirkju undir stjórn Edit Molnár söng síðan fram að tendrun jólaljósanna en þar var Pétur Berg Aronsson í aðalhlutverki. Pétur Berg varð þriggja ára þennan dag og sú hefð hefur skapast að yngsta afmælisbarnið í sveitarfélaginu fær að kveikja á ljósunum.

Heilmikil stemmning var í á svæðinu en Jólatorgið við Ölfusárbrú opnaði einnig í gær og verður það opið fim – lau. fram að jólum. Verslanir á á Selfossi voru með lengri opnun og margar þeirra með flott tilboð og viðburði sem jók enn frekar á stemmninguna.

Næsti viðburður er laugardaginn 21. nóvember en þá verður kveikt á stóra torgtrénu sem staðsett er á Jólatorginu. Leikskólabörn í Árborg aðstoða við að kveikja á trénu kl. 16:00 og svo ætla þau að syngja nokkur jólalög fyrir gesti.