30.5.2007 | Fréttir af afreksfólki Árborgar

Forsíða » Fréttir » Fréttir af afreksfólki Árborgar
image_pdfimage_print

Fréttir af afreksfólki Árborgar : Örn Davíðsson og Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir – íþróttakarl og íþróttakona Árborgar 2006, Íslandsmeistaratitill í 6. og 4.flokki í handbolta, Þór Davíðsson Íslandsmeistari í júdó 15-16 ára, fimleikar og Umf. Stokkseyrar.

Fréttir af íþróttamálum í Árborg Eftirfarandi samantekt er byggð á fréttum af heimasíðum Umf. Selfoss og Umf. Stokkseyrar  í aprílmánuði með leyfi félaganna.


Fréttir af afreksfólki ÁrborgarÖrn Davíðsson og Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir – íþróttakarl og íþróttakona Árborgar 2006


Í aprílmánuði tryggði Örn Davíðsson, íþróttakarl Árborgar 2006, sér keppnisrétt í tveimur greinum á heimsmeistaramóti unglinga sem fram fer í Tékklandi í sumar. Hann bætti  árangur sinn í spjótkasti um rúma 13 metra þegar hann kastaði spjótinu 58,22 metra en lágmarkið fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu er 58 m. Á Coca Cola móti FH í lok apríl kastaði Örn 1,5 kg kringlu 53,24 m og náði með því einnig lágmarki í kringlukasti á heimsmeistaramótið.  Á FH mótinu setti Örn nýtt HSK met í drengjaflokki þegar hann kastaði spjóti 58,95 m. Hann keppti einnig í kringlukasti í karlaflokki og bætti sig um 90 cm, sannarlega glæsilegur árangur hjá þessu frábæra íþróttamanni og verður spennandi að fylgjast með honum í sumar.


Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir, íþróttakona Árborgar 2006, gegnir lykilhlutverki í meistaraflokki fimleikadeildar Umf. Selfoss í hópfimleikum. Hún var burðarásinn í liði fimleikadeildar Umf. Selfoss sem hreppti 3. sæti á Íslandsmeistaramótinu í almennum fimleikum (Evrópureglum) sem fram fór í marsmánuði sl. Bergþóra var einnig í vinningsliði fimleikadeildarinnar í keppni samkvæmt landsreglum á Íslandsmeistaramótinu en stúlkurnar urðu Íslandsmeistarar á öllum áhöldum, gólfi, dýnu og trampólíni, með glæsilegar einkunnir.  Á HSK mótinu í byrjun apríl varð meistaraflokkur fimleikadeildarinnar HSK meistarar 2007 og að venju gegndi Bergþóra Kristín þar lykilhlutverki.Handbolti


Íslandsmeistaratitill í 6. flokki


C lið Selfoss Íslandsmeistari 2007


A, B og C lið 6. flokks karla, 32 strákar, kepptu í handbolta á móti í Vestmannaeyjum í lok apríl. Flokkurinn hefur sannarlega gert það gott í vetur, miklar framfarir og kröftug lið.


C liðið tryggði sér  Íslandsmeistaratitilinn á mótinu í Vestmannaeyjum og A liðið varð í  3. sæti en liðið varð einnig deildarmeistari fyrr í vetur.


Íslandsmeistaratitill í 4. flokkiB lið Selfoss Íslandsmeistari 2007


Liðunum í 4. flokki heftur gengið vel í vetur og varð B liðið deildarmeistari og A liðið í 3 sæti. Í lok apríl fór fram úrslitakeppni og kepptu tvo lið frá Umf. Selfoss á Íslandsmótinu, A og B lið. A liðið hafnaði í 3. sæti en B liðið vann sterkt lið KA eftir æsispennandi leik og varð Íslandsmeistari í flokki B liða.


Þór Davíðsson Íslandsmeistari í júdó 15-16 ára Á Íslandsmóti barna og unglinga í júdó sem fram fór í mars voru keppendur frá Umf. Selfoss áberandi.  Þór Davíðsson  varð Íslandsmeistari í 81 kg flokki cadetta, 15-16 ára. Í sama flokki fékk  Matthías Harðarson silfrið og Sævar Ingi Sigurðsson bronsið. Þeir félagar færðu sig upp um flokk og kepptu einnig í flokki juniora, 15-19 ára. Þar fékk Þór silfur og Sævar og Matthías brons.  


Í 73 kg flokki, 15-16 ára, hlaut Þorkell Eyjólfsson bronsverðlaun. Bronsið kom einnig í hlut Steinars Sigurðarsonar í -66 kg flokki og í -55 kg flokki fékk Theodór Þorvaldsson silfurverðlaun.
Í táningaflokki, 13-14 ára, vann Gunnar Hjörleifsson silfur í -50 kg flokki. Sturlaugur Eyjólfsson náði silfri í -81 kg flokki. Birgir Ásbjörnsson fékk brons í -46 kg flokki og Stefán H. Helgason  silfur í -32 kg flokki.


Í barnaflokki, 11-12 ára, náðu Selfyssingar þremur bronsverðlaunum, Garðar Guðmundsson fékk brons í -46 kg flokki, Egill Ásbjörnsson í -50 kg flokki og Halldór Viðarsson í -55 kg flokki.


Í sveitarkeppni 15-16 ára náði sveit Umf. Selfoss silfri en einungis einn vinningur skildi að fyrsta og annað sætið.  


Fimleikar


Vormót FSÍ var haldið í Keflavík í lok apríl sl. Liðin frá Selfossi gerðu það gott. Selfoss hampaði gulli í Team-gym. Í landsreglum voru úrslit þau að Selfoss fékk 3 gull, 2 silfur og 2 brons í barnaflokki, 2 gull og eitt brons í unglingaflokki og eitt silfur og eitt brons í táningaflokki. 


Umf. Stokkseyrar 


Á heimasíðu Umf. Stokkseyrar er að finna ýmsar fréttir af íþróttamálum á ströndinni. Íþróttaskóli fyrir 2-6 ára hóf göngu sína í lok apríl og fótbolta- og körfuboltaæfingar eru í íþróttahúsinu. Þá hefur félagið  ráðið fimleikaþjálfara, Tinnu Björk Kristinsdóttur, og boðið er upp á    fimleikaæfingar bæði fyrir börn og fullorðna.  Slóðin er http://www.umfstokkseyrar.is/