Dagdvöl | Árblik og Vinaminni
Dagdvöl er stuðningsúrræði fyrir þá sem þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagdvöl er reynt að klæðskerasníða aðstoðina að hverjum notenda.
Árblik
Árblik er að Austurvegi 51. þar er starfrækt dagþjálfun fyrir einstaklinga sem búa í heimahúsum og þurfa stuðning í þeim tilgangi að viðhalda færni og getu til að búa áfram heima. Áhersla er lögð á að styðja notendur dagþjálfunar til sjálfstæðis og sjálfræðis, ásamt því að efla færni og sjálfsbjargargetu heima og í dagþjálfun. Tekið er mið af getu hvers og eins þannig að hver og einn fái að njóta sín, finni fyrir öryggi og vellíðan og félagsleg einangrun rofin.
Þjónustuþegar fá morgunmat,hádegismat og kaffi og geta fengið aðstoð við böðun. Fastir liðir í þjálfuninni eru m.a. hópastarf, samverustundir, upplestur, söngur, leikfimi, gönguferðir og handverk. Misjafnt er eftir einstaklingum hversu mikið þeir nýta þjálfunina, getur verið allt frá einum degi upp í alla daga vikunnar. Þeir sem það vilja eru sóttir og keyrðir heim að degi loknum.
Farið er í ferðir á vegum Árbliks, kirkjuferð einu sinni í mánuði,haustlitaferð, jólahlaðborð og fleira ef aðstæður leyfa.
Notendur dagþjálfunar greiða daggjald fyrir veru sína hverju sinni samkvæmt reglugerð Velferðarráðuneytisins um daggjöld stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Umsókn skal koma til forstöðumanns Dagdvala Árborgar að Austurvegi 51
Dagþjálfunin er opin er alla virka daga frá 8:00 til 16:00. Lokað á rauðum dögum.
Vinaminni
Vinaminni er að Vallholti 38. Þar er sérhæfð dagdvöl. Dagdvöl sem þessi er mikilvæg til þess að virkja þann sem er með heilabilun, örva og hvetja til alls þess sem hann ræður við. Efla sjálfstraust og draga úr vanlíðan og vanmætti. En dagdvölin er ekki síður mikilvæg til að geta létt undir með ástvinum og aðstandendum og veita þeim ráðgjöf og stuðning til að takast á við þau vandamál sem upp kunna að koma.
Hlutverk starfsmannanna er að þjálfa, styðja og styrkja vitsmunalega og líkamlega hæfni einstaklingsins svo að hann geti viðhaldið sjálfstæði sínu eins lengi og kostur.
Mottó okkar er að öllum líði vel og hlakki til að koma til okkar á morgnana. Við munum leggja okkur fram um að skapa rólegt og notalegt andrúmsloft í Vinaminni og hafa hlýju og umhyggju að leiðarljósi. Hinn siðfræðilegi grunnur sem við byggjum á er að allar manneskjur eru jafn mikilvægar burtséð frá sjúkdómnum, aldri, menningarlegum uppruna, kyni og kynhegðun. Við munum leggja mikla áherslu á að hafa þjónustuna eins einstaklings miðaða og nokkur kostur er. Við munum því taka hvern dag fyrir sig, og láta dagsformið stjórna því hvað við tökum okkur fyrir hendur. Í gegnum söng, tónlist, teikningar, málun, spil, matartilbúning, samtöl og gönguferðir, svo eitthvað sé nefnt reynum við að koma til móts við þá einstaklinga sem hjá okkur verða. Flestir koma 5 daga vikunnar.
Í okkar huga eru aðstandendur ekki síður mikilvægir og lögð verður áhersla á samvinnu, samráð og reglulega upplýsinga gjöf til þeirra. Eins og í almennu dagdvölinni er boðið upp á máltíðir og ferðir að og frá staðnum.