Innleiðing lífrænnar sorpflokkunnar í Árborg – Spurt og svarað

Þurfa allir að flokka lífrænt sorp?
Það er mjög mikilvægt að allir íbúar sveitarfélagsins flokki lífrænan úrgang frá heimilissorpi. Sama hvaða leið er skoðuð í meðhöndlun á heimilissorpi þá er vinnsla á lífrænum úrgangi alltaf mun ódýrari og að auki mun umhverfisvænni. Hvert flokkað kíló sparar sveitarfélaginu útgjöld og hefur það beinar afleiðingar á sorphirðugjald. Stefnt er að því að flytja heimilissorp til brennslu erlendis til orkunýtingar. Til þess að hægt sé að brenna heimilissorp þarf að flokka allan lífrænan úrgang frá. Lífrænn úrgangur í grátunnu getur því útilokað heilan farm heimilissorps í brennslu og þarf þá að urða þann farm. Það leiðir til kostnaðaraukningar fyrir sveitarfélagið sem skilar sér í hærri sorphirðugjöldum.

Hvað mun lífræna flokkunin kosta fyrir heimili í Árborg?
Vegna óumflýjanlegra breytinga á meðhöndlun sorps munu verða breytingar á sorphirðugjaldi í heild sinni. Reiknað er með að flokkun lífræns sorps eigi heldur eftir að hafa lækkandi áhrif á heildar breytinguna heldur en hækkandi. Sveitarfélagið greiðir fyrir tæmingu á tunnum, kílóverð fyrir flutning á sorpi og síðan kílóverð fyrir meðhöndlun. Reiknað er með að kílóverð fyrir meðhöndlun á lífrænu sorpi verði mun lægri en meðhöndlun á heimilissorpi. Kostnaðarauki verður vegna tæmingar en við innleiðingu lífrænnar tunnu verða allar tunnur losaðar á þriggja vikna fresti og eykst losun um 9 losanir á ári m.v. núverandi kerfi.

Eru allir skyldugir til að taka við lífrænni tunnu, þó þeir séu með moltugerð?

  • Það er ekki skylda að nýta lífrænu tunnuna en allir fasteignaeigendur greiða sorphirðugjöld m.v. þriggja tunnu kerfi. Við innleiðingu er brúna tunnan keyrð til íbúa án endurgjalds en eftir innleiðingu munu íbúar þurfa að greiða gjald fyrir tunnuna líkt og aðrar tunnur.
  • Moltugerð í heimahúsum er þó afar hagkvæmur kostur fyrir alla íbúa enda er nátturulegasta leiðin til endurnýtingar að molta lífrænan úrgang heima við og nýta úrganginn í garðinn. Sveitarfélagið greiðir kílóaverð bæði fyrir flutning og meðhöndlun á lífrænu sorpi svo því fleiri sem molta því ódýrari verður bæði flutningur og meðhöndlun sem skilar sér í lægri sorphirðugjöldum.

Get ég hætt með tunnur heima og farið sjálfur með þetta á haugana og hætt að borga sorpgjaldið?

  • Allir fasteignaeigendur greiða sorphirðugjald miðað við þriggja-tunnu-kerfi.

Lífræna tunnan verður 140L sértunna, af hverju var ekki farið í tunnu-í-tunnu kerfi?

  • Tunna-í-tunnu kerfið hefur reynst erfitt viðureignar og skapar erfiðar vinnuaðstæður fyrir starfsmenn í sorplosun. Lífrænn úrgangur er mjög þungur og því snyrtilegra, fljótlegra og líkamlega auðveldara að tæma sér tunnu.
  • Það hefur einnig verið reynslan að hólfin í tunnunum hafa átt það til að falla ofan í tunnuna. Þær hafa í einhverjum tilfellum farið í ruslabílana fyrir mistök. Svo er meiri hætta á blöndun sorps í slíkum tunnum, en mikilvægt er að halda ólíkum flokkum sorps ómenguðum af öðru sorpi þannig að verðmæti þess verði sem mest.

Þarf lífrænn úrgangur að fara í pokum í tunnuna?

  • Já, lífrænan úrgang þarf að setja í poka sem brotna niður s.s. maispoka. Ekki má setja lífrænan úrgang í plastpokum í tunnuna.

Má ég setja pizzakassa í lífrænu tunnuna?

  • Nei, pizzakassar fara ásamt öðrum bylgjupappa í bláu tunnuna.