12.4.2018 | Laugardagsplokk í Árborg 14. apríl

Forsíða » Fréttir » Laugardagsplokk í Árborg 14. apríl

image_pdfimage_print

Laugardaginn 14. apríl frá kl. 9:00 – 12:00 verður unnt að nálgast plastpoka til ruslatínslu og losa sig við afraksturinn í stórsekki að tínslu lokinni á þessum stöðum:

Eyrarbakki: Við sjoppuna.

Stokkseyri:    Við sjoppuna.

Selfoss:           Sunnan við Ráðhús Árborgar.

Sunnan við Krambúðina (grænt svæði við Fossheiði).

Sunnulækjarskóli við íþróttahúsið.

Bílaplan við leikskólinn Árbæ.

Bílaplan við Gesthús.

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að áhugi almennings á að hreinsa umhverfi sitt hefur verið mjög mikill síðustu daga og vikur. Sveitarfélagið Árborg fagnar framtaki íbúa sem vilja stuðla að snyrtilegu umhverfi og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að tína rusl sem víðast. Í kjölfar áskorunar til bæjaryfirvalda um að skipuleggja svokallað „plokk“ í Árborg hefur verið ákveðið að sveitarfélagið liðsinni áhugasömum með þeim hætti að laugardaginn 14. apríl n.k. verði pokar til að tína rusl í aðgengilegir á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu, auk þess sem fólk getur losað sig við afrakstur plokksins í stórsekki á sömu stöðum, eða á gámasvæðinu við Víkurheiði, sem er opið frá kl. 13-17. Sekkirnir verða fjarlægðir fyrir kl. 15. Mikilvægt er að í sekkina fari rusl í pokum sem hnýtt hefur verið fyrir.

Árlegt hreinsunarátak sveitarfélagsins mun standa frá 7. til 12. maí og verður þá unnt að skila úrgangi á gámasvæðið við Víkurheiði, án endurgjalds, auk þess sem gámar fyrir úrgang verða á Eyrarbakka og Stokkseyri að venju. Á næstunni koma sumarstarfsmenn umhverfisdeildar til starfa og hefjast þá handa við enn frekari umhirðu og hreinsun.

Sveitarfélagið Árborg