9.10.2013 | Menningarmánuðurinn OKTÓBER 2013

Forsíða » Fréttir » Menningarmánuðurinn OKTÓBER 2013

image_pdfimage_print

Þetta mun vera í fjórða sinn sem íþrótta og menningarnefnd sveitarfélagsins stendur fyrir menningarmánuðinum október, þar sem ýmsum menningarviðburðum í Sveitarfélaginu Árborg eru gerð skil. Í ár verða 4 meginviðburðir á vegum nefndarinnar og einnig höfum við gefið einkaaðilum og félögum tækifæri á að fljóta með í kynningu og þannig orðið hluti af menningarmánuðinum. Með nokkru stolti kynnum við fyrir ykkur íbúunum eftirfarandi dagskrárliði og minnum við á að inn á alla viðburði menningarnefndar er frír aðgangur:

Laugardagur 12.október á Stokkseyri – 120 ára afmælis Páls Ísólfssonar minnst með tvennum hætti. Stytta af Páli verður afhjúpuð að nýju við Þuríðarbúð á Stokkseyri klukkan 15.00. Stokkseyrarkirkja klukkan 16.00, „Blítt er undir björkunum“ kvartett Kristjönu Stefánsdóttur leikur og syngur lög eftir skáldið frír aðgangur.    

Fimmtudagur 17. október á Selfossi KÁ smiðjurnar – Öllum eru í fersku minni sem komnir eru að miðjum aldri gömlu KÁ smiðjurnar og verður á einu kvöldi í Hótel Selfossi klukkan 20.00 sögu smiðjanna minnst með lifandi frásögnum starfsmanna úr smiðjunum, ljósmyndum og sagnfræðilegri yfirferð ásamt öðru léttu efni frá þessum eftirminnilegu tímum. Kvöldið er í umsjá Guðna Ágústsonar og Gríms Thorarensen Arnarsonar. Frír aðgangur.

Sunnudagur 20. október á Eyrarbakka Staður – Sögur af Bakkanum, sagðar verða sögur af Bakkanum, gamlir Eyrbekkingar munu ganga í lið með Geira Ingólfs Staðar-haldara og segja sögur frá liðnum dögum. Einnig verður vígður rampur, göngubraut við Stað. Kirkjukór Eyrarbakka syngur nokkur lög og boðið verður upp á kaffisopa. Dagskráin hefst að stað klukkan 15.00 og er í umsjón Siggeirs Ingólfssonar. Aðgangur frír.

Fimmtudagur 24. október á Selfossi  Menningarsalurinn okkar – Nýverið eignaðist sveitarfélagið menningarsalinn að nýju og er hann nú að bíða síns framtíðarhlutverks sem okkur vonandi tekst með samstilltu átaki að koma í gagnið á næstu árum. Það er því viðeigandi að unga fólkið okkar eigi þar fyrstu sporin. Því verða ungu hljómsveitirnar okkar í sveitarfélaginu Árborg með tónleika í menningarsalnum klukkan 20.00 og fram eftir kvöldi. Margar hljómsveitirnar okkar hafa þegar vakið mikla athygli á landsvísu og aðrar eru á þeirri leið, spennandi kvöld. Aðgangur frír.

Miðvikudagur 30. október á Selfossi Blítt er undir björkunum, tónleikar kvartetts Kristjönu Stefánsdóttur í minningu Páls Ísólfssonar í tilefni af 120 ára afmælis skáldsins í Tryggvaskála, frítt inn.

Fleiri viðburðir eru nánar auglýstir að heimasíðu sveitarfélagsins arborg.is en svo dæmi séu tekin er 12.okt súputónleikar í barnaskólanum á Stokkseyri, 13 okt. Saga til næsta bæjar, tónleikar í Tryggvaskála með mörgum af okkar bestu sonum, 3 nóvember tónleikar í Tryggvaskála og svo er rúsínan í pylsuendanum í boði Sveitarfélagsins og íþrótta og menningarnefndar sem lokahnykkur í menningarmánuðinum október 4-8 nóvember, heimsókn Eyþórs Inga eurovisionfara í alla leik og grunnskóla Sveitarfélagsins Árborgar sem endar svo með tónleikum hjá Eyþóri.

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta og menningarnefndar