23.8.2016 | Námsmat á mörkum skólastiga í Árborg

Forsíða » Fréttir » Námsmat á mörkum skólastiga í Árborg

image_pdfimage_print

Þróunarverkefnið „Námsmat á mörkum skólastiga í Árborg“ fer vel af stað. Allir leikskólar og grunnskólar sveitarfélagsins taka þátt í verkefninu ásamt FSu. Verkefnið, sem styrkt er af Sprotasjóði, beinist að því hvernig þróun námsmats getur stuðlað að samfellu milli skólastiga með það að meginmarkmiði að bæta námsaðstæður, nám og árangur nemenda. Einnig að auðvelda færslu þeirra  milli skólastiga, þannig að það verði sem átakaminnst fyrir nemendur að flytjast úr leikskóla í grunnskóla og úr grunnskóla í framhaldsskóla. Annað meginmarkmið verkefnisins er að efla starfsþróun kennara á sviði námsmats og stuðla að hæfni skólanna til varanlegra breytinga á þessu sviði.

Verkefnastjóri er Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.  Fimm manna stýrihópur hefur verið myndaður en þar sitja þau Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, Rúnar Sigþórsson, verkefnastjóri, Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, Birgir Edwald, skólastjóri og Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri.  Einnig verða myndaðar þróunarstjórnir í hverjum skóla. Um er að ræða þriggja til fimm manna teymi og er hlutverk þeirra að leiða verkefnið, vera samhæfingaraðili innan skólanna og halda utan um vinnu milli fræðslufunda með kennurum. Þróunarstjórn er tengiliður við verkefnastjóra og stýrihóp og þess er vænst að þróunarstjórnirnar geti unnið saman og myndað tengslanet skólanna sem byggir brú á milli skólastiga.

Námskeiðsdagur var haldinn fimmtudaginn 11. ágúst sl. og var góð þátttaka frá öllum skólastigunum. Hugmyndafræði lærdómssamfélagins er lögð til grundvallar í þróunarverkefninu en þar er gert ráð fyrir að fólk deili góðum hugmyndum, reynslu og þekkingu sem styður við starfsþróun kennara með  námsárangur og góða líðan nemenda að leiðarljósi. Til að rækta þessa samstarfshugsun innan hvers skóla, þvert á skóla og skólastig hefur verið stofnað sameiginlegt vinnusvæði á Google þar sem allir þátttakendur í verkefninu geta unnið saman.