18.12.2014 | Nýjar leiðir í Árborg sem efla lestrarfærni barna og unglinga

Forsíða » Fréttir » Nýjar leiðir í Árborg sem efla lestrarfærni barna og unglinga

image_pdfimage_print

Á undanförnum mánuðum hafa skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk skólaþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar mótað nýjar áherslur í vinnu með læsi í leikskólum og grunnskólum út frá hugmyndafræðilegum grunni lærdómssamfélagsins. Litið er á verkefnið sem þróunar- og námsferli  er byggist á sameiginlegri ígrundun og faglegum samræðum í hverjum skóla, milli skóla og skólastiga með það að meginmarkmiði að efla lestrarfærni barna og unglinga í sveitarfélaginu. Nýleg skólastefna Árborgar 2013-2016, stjórnendanámskeið á síðasta skólaári og faglegt samstarf við fræðslusvið Reykjanes­bæjar hafa auðveldað innleiðingu á nýjum áherslum í skólum sveitarfélagsins.

Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar
Allir leikskólar eru að vinna þróunarverkefni sem hefur það að markmiði að auka hæfni og þekkingu barna í læsi. Unnið er að þróun daglegra og markvissra sögu- og samræðustunda með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning, orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu. Unnið er með ýmis verkefni sem tengjast daglegu lífi barnanna, svo sem bangsa sem fer á milli heimila barnanna og segir frá því sem fyrir augu ber með hjálp þeirra. Einnig er leitast við að fræða foreldra leikskólabarna og styðja þá í hlutverki sínu í málörvun. Hlutverk foreldra í málörvun barna felst meðal annars í því að vera góð fyrirmynd, ræða við barnið og lesa fyrir það. Þau börn sem búa við slíkar kjöraðstæður öðlast aukinn orðaforða og eru vel undirbúin fyrir lestrarnámið í grunnskólanum. Stefnt er að því að í lok leikskólagöngunnar nái börnin meðal annars að skilja uppbyggingu orða og hljóða, hafi öðlast ánægjulega reynslu af lestri og skrift, hafi kynnst stöfum og tengsl stafa og hljóða, njóti þess að hlusta á og semja sögur og ævintýri og hafi þróað læsi í víðum skilningi. Þróunarverkefnið fær myndarlegan styrk úr Sprotasjóði og verkefnastjóri þess er Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskóla­fulltrúi í Garðabæ. Verkefnið er liður í því að byggja upp góðar undirstöður í námi og þroska barnanna en í leikskólunum er jafnframt unnið að greiningum og skimunum með HLJÓM-2 sem mælir hljóðkerfisvitund ásamt TRAS sem er skráningar­listi til að fylgjast með máltöku ungra barna og félagsþroska með fyrirbyggjandi íhlutun í huga.

Nýtt verklag í grunnskólum Árborgar
Í grunnskólum Sveitarfélagsins Árborgar er lögð áhersla á að nota bestu mögulegu skimunartæki, greina vel niðurstöður og vinna með þær þannig að nemendur sýni góðar framfarir í lestri og öðru námi. Í 1.–4. bekk er notað skimunartækið Leið til læsis og skimun með LOGOS fer fram í 3., 6. og 9. bekk en LOGOS er tölvutækt greiningarpróf sem er grundvallað á nýlegum rannsóknum á lestrarfærni. Kennsluráðgjafar og sérkennarar við skólana leggja LOGOS skimun fyrir og kennsluráðgjafar vinna úr niðurstöðum sem eru svo kynntar fyrir skólastjórnendum og kennurum viðkomandi árganga. Þessir fagaðilar ákveða saman hvernig staðið skuli að lestrarnámskeiði fyrir þá nemendur sem á þurfa að halda. Upplýsingabréf er sent til foreldra þar sem skimunarniðurstöður eru kynntar og LOGOS greiningartækið útskýrt nánar. Mikil áhersla er lögð á lestrarþjálfun heima og í skóla, einkum hjá þeim nemendum sem fara á 8 vikna lestrar­námskeið í kjölfar skimunar. Eftir lestrar­námskeiðið er skimað aftur og ánægjulegt er að sjá miklar framfarir hjá nemendum. Starfið miðast fyrst og fremst við að bæta námsárangur nemenda, styrkja kennara í starfi og vinna vel með foreldrum. Loks er þetta stóra samstarfsverkefni, sem byggt er upp í anda lærdómssamfélagsins, liður í því að efla skólana í Sveitarfélaginu Árborg sem faglegar stofnanir þar sem áhersla er lögð á árangursríka og sveigjanlega kennsluhætti. 

O Þórdís H. Ólafsdóttir,
kennsluráðgjafi
 thorsteinn(2)10 8 2014  Þorsteinn Hjartarson,
fræðslustjóri