9.2.2015 | Nýtt samkomulag heilsugæslu Selfoss, félagsþjónustu og skólaþjónustu Árborgar

Forsíða » Fréttir » Nýtt samkomulag heilsugæslu Selfoss, félagsþjónustu og skólaþjónustu Árborgar

image_pdfimage_print

Samkomulag um þverfaglega samvinnu heilsugæslu Selfoss, félagsþjónustu og skólaþjónustu Árborgar var undirritað mánudaginn 9. febrúar. Arnar Þór Guðmundsson, yfirlæknir heilsugæslu Selfoss og Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri, staðfestu samkomulagið fyrir hönd heilsugæslunnar, Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, félagsmálastjóri, fyrir hönd félagsþjónustunnar og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, fyrir hönd skólaþjónustu. Viðstaddar undirritun samningsins voru þær Anna Ingadóttir, skólafulltrúi á skrifstofu fræðslusviðs, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar.

Í dag eru þessir aðilar að veita sömu einstaklingum þjónustu og með auknu samstarfi verður hún heildstæðari og markvissari. Mikilvægt er að bregðast skjótt við hegðunar- og geðröskunum barna til að minnka eða koma í veg fyrir vandamál sem slíkum röskunum fylgja fyrir barn og fjölskyldu þess. Nú er til staðar greiningarteymi fyrir ung börn, en nýju teymi er ætlað að fjalla um málefni barna á öllum aldri. Til að þjónustan í Árborg styrkist er vilji til þess að víkka út þverfaglegt samstarf þessara þriggja þjónustuaðila sem tengjast greiningum, meðferð, stuðningi og eftirfylgni barna sem m.a. glíma við félagslega og tilfinningalega erfiðleika ásamt því að vinna saman að málefnum einstaklinga og fjölskyldna sem fá þjónustu á öllum stöðum. Því er þessu samstarfsverkefni komið á fót.

Markmið:
– Samhæfing úrræða fyrir einstaklinga, börn með heilsufarsleg og félagsleg vandamál og fjölskyldur þeirra.
– Þróa nýjar leiðir og verklag í þjónustu við einstaklinga, börn og fjölskyldur þeirra, t.d. með sameiginlegum námskeiðum.
– Samvinna og samráð um vinnslu mála einstaklinga og fjölskyldna.
– Efla samstarf milli heilsugæslu, félagsþjónustu og skólaþjónustu.
– Að byggja upp þekkingarbrunn um leiðir og úrræði sem nýtast í vinnu með einstaklingum, börnum, fjölskyldum í vanda og skólum.
– Snemmtæk íhlutun barna með t.a.m. þroskafrávik.
– Styrkja upplýsingastreymi og boðskipti.
– Þverfaglegt samstarf stofnananna.