Fjölmenni á Skóladegi Árborgar sem heppnaðist vel

Skóladagur Árborgar var haldinn fyrir allt starfsfólk leik- og grunnskóla í Árborg miðvikudaginn 27. apríl síðastliðinn. Óhætt er að segja að dagurinn hafi heppnast vel því þátttaka var afar góð og andi samstarfs, áhuga og virkni sveif yfir vötnum Stokkseyrar. Þar var í boði frábær aðstaða og umgjörð í Menningarverstöðinni og skólanum á Stokkseyri (BES). Undirbúningshópur hafði unnið hörðum höndum í margar vikur og sami hópur sá um alla framkvæmd ásamt skólastjórnendum og starfsfólki Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og Menningarverstöðvarinnar. Allt skipulag Skóladagsins byggðist á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem litið er svo á að skólastarf sé ekki hægt að þróa í einangrun. Þvert á móti næst góður árangur með nemendum okkar ef við hjálpum hvert öðru og erum tilbúin að deila góðum hugmyndum, þekkingu og reynslu. Mikil fjölbreytni var í fyrirlestrum og menntabúðum dagsins en þeir sem komu þar að voru einkum starfsfólk skóla og skólaþjónustu í Árborg og nokkrir góðir gestir. Ljóst er að við búum yfir miklum mannauði í sveitarfélaginu.

skoladagur3(runar) (2)

Einn af gestum dagsins var Rúnar Sigþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem var með inngangserindi og tvær málstofur um námsmat. Rúnar hefur tekið að sér verkefnastjórn í stóru þróunar- og samstarfsverkefni skólanna í Árborg og FSu sem Sprotasjóður styrkir á næsta skólaári. Verkefnið hefur fengið vinnuheitið – námsmat á mörkum skólastiga í Árborg.

 

 

 

 

skoladagur2(asta) (2)Magnús J. Magnússon, skólastjóri BES, setti samkomuna og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, ávarpaði þátttakendur og kom meðal annars á framfæri áhersluatriðum og gagnlegum upplýsingum sem fram höfðu komið á menntaþingi SASS um framtíð háskólanáms á Suðurlandi sem var haldið þriðjudaginn 26. apríl. Fyrirlestrar voru haldnir fyrir hádegi og menntabúðir eftir hádegi og eins og þegar hefur verið nefnt var áhugi og mikil virkni til staðar hvert sem litið var.

 

 

 

 

 

skoladagur5(undirbuningshopur)
Í lok dags sleit Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, samkomunni og rifjaði upp aðdraganda að Skóladegi Árborgar og þakkaði sérstaklega undirbúningshópnum en hann skipa: Anna Gína Aagestad, Anna Ingadóttir, Eva Hrönn Jónsdóttir, Guðbjartur Ólason, Júlíana Tyrfingsdóttir, Kristín Guðlaug Magnúsdóttir, Páll Sveinsson og Sigurður Halldór Jessen.

 

 

 

Loks beið fólk spennt eftir því hver yrði rúsínan í pylsuendanum en það var enginn annar en Valgeir Guðjónsson sem fór á kostum og var tekið hressilega undir með honum í söngnum. Um kl. 16 var svo Teach meet (generalprufa) í boði fyrir alla sem höfðu tíma til og var gaman að sjá góða þátttöku þar. Almenn ánægja var með Skóladag Árborgar og margir nefndu að þessi dagur væri kominn til að vera.

Ljósmyndirnar sem fylgja með fréttinni eru fengnar að láni af facebooksíðu Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar og síðu Skóladags Árborgar

skoladagur4 (2)