8.6.2016 | Skólaþróun í Árborg – efling lærdómssamfélagsins

Forsíða » Fréttir » Skólaþróun í Árborg – efling lærdómssamfélagsins

image_pdfimage_print

Síðastliðið sumar, eða í júní 2015, hlaut Sveitarfélagið Árborg styrk frá Erasmus + til þess að efla lærdómssamfélag Árborgar. Þrír faghópar voru skipaðir af skólastjórnendum grunnskóla Árborgar og fræðslustjóra Árborgar, en þeim var ætlað að rannsaka og kynna sér vinnu og störf í Evrópu á þremur eftirtöldum sviðum: Nám og starf, upplýsingatækni og lærdómssamfélagið. Erasmus+Sá síðastnefndi var tilnefndur sem eins konar regnhlífarhópur sem ætlað var að kynna sér með hvaða hætti aðrar þjóðir í Evrópu efla og styrkja lærdómssamfélag sinna landa. Eftir ábendingar var ákveðið að leita fanga í Glasgow í Skotlandi en þar hefur verið lögð mikil vinna í eflingu lærdómssamfélagsins síðustu misseri. Einnig er á því svæði að finna ákveðin líkindi með samfélagsgerð og menningu sveitarfélaganna tveggja, Árborgar og Glasgow, þó vissulega sé Glasgow mun fjölmennara svæði. Kynningarferð var skipulögð í samráði við Education Scotland sem er menntamálaskrifstofa Skotlands í Glasgow og hún farin dagana 16. – 20. nóvember síðastliðinn. Hér á eftir fer stutt frásögn af ferðinni og einnig tillögur til eflingar lærdómssamfélagi Árborgar og sóknarfærin skoðuð.

Á undirbúningsfundum afréð hópurinn að skoða eftirfarandi málaflokka með það í huga að bera saman stöðu menntamála hjá Árborg og Glasgow: Söfn og safnastarf í skólastarfi, skil á milli leikskóla og grunnskóla, leiðtogaþjálfun, heilsueflingu og stoðþjónustu, tengingu náms og atvinnulífs ásamt straumum, stefnum og framtíðarsýn í menntamálum.

Til þess að afla fanga var fundað með þremur fulltrúum Education Scotland um tengingu atvinnulífs og náms og, heilsueflingar og fengum við einnig kynningu á stöðu menntamála í Skotland frá þeirri stofnun. Hópurinn heimsótti Scotland College of Educational Leaders sem er sjálfstætt starfandi háskólastofnun sem menntar og þjálfar verðandi stjórnendur á menntasviði. Einnig voru heimsóttir tveir skólar á sitthvoru aldursstiginu og fékk hópurinn áhugaverða kynningu á Riverside Museum, samgöngusafni Glasgowborgar, sem er margverðlaunað safn og er ein af skrautfjöðrum Glasgowborgar.

Faghópur um lærdómssamfélag Árborgar gerir eftirfarandi tillögur til fræðslunefndar Árborgar sem lúta að eflingu lærdómssamfélagsins:

 • Markvisst verði unnið að tengingu safna í Árborg og víðar á Suðurlandi við skólasamfélagið með það að leiðarljósi að skólar geti notfært sér þá þekkingu og menningarvarðveislu sem þar er að finna.
 • Að Árborg stuðli að skólaþróun og metnaði í menntamálum þannig að það virki sem hvati til að laða að hæft starfsfólk.
 • Að Árborg leggi aukna vinnu í uppbyggingu verk- og iðnnáms og að samvinna grunnskóla, framhaldsskóla og atvinnulífs verði efld enn frekar.
 • Að áherslu á læsi verði haldið áfram og stefnt að hámarksárangri.
 • Að skóladagur Árborgar verði haldinn árlega eða annað hvert ár. Slíkt eykur samkennd og samvinnu innan lærdómssamfélagsins og gerir fagmennsku á öllum sviðum menntunar í sveitarfélaginu enn öflugri. Þar verði einnig til vettvangur viðurkenningar og hróss fyrir það góða starf sem unnið er.
 • Að fræðsluyfirvöld Árborgar styðji við eflingu tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi. Slíkt leiðir til betri miðlunar kennsluefnis og fagmennsku meðal starfsmanna menntastofnana sveitarfélagsins.
 • Hópurinn leggur til að Árborg hefji undirbúning að því að gerast heilsueflandi sveitarfélag. Líkamleg og andleg heilsa er ein af forsendum velmegunar íbúa sveitarfélags og stór þáttur í eflingu lærdómssamfélags.
 • Að Árborg hvetji og styðji starfsmenn til reglulegrar endurmenntunar á öllum stigum menntasamfélagsins. Slíkt eykur fagmennsku, lyftir gæðum og eykur vellíðan starfsmanna í starfi.
 • Að Árborg skoði að koma á menntaverðlaunum Árborgar eða stuðla að því að efla Menntaverðlaun Suðurlands enn frekar. Slíkt verði liður í að gera menntastarf sýnilegra samfélaginu og virki hvetjandi inn í allt menntastarf.
 • Að Árborg gæti þess að efla enn frekar samstarf við fræðsluskrifstofur nærsveita. Slíkt eflir þróunarstarf og heildarárangur og gæði í skólastarfi.
 • Að menntastofnanir sveitarfélagsins geri starf sitt sýnilegra með reglulegum skrifum í héraðsfréttablöð og á samfélagsmiðlum.
 • Að Árborg stuðli að auknu vægi nemendalýðræðis. Að nemendur á öllum aldursstigum eigi þess kost að sitja í ráðum og nefndum er varða þeirra nám og aðbúnað.
 • Að haldið verði áfram að efla flæði á milli skólastiga, jafnt í námsmati sem öðru utanumhaldi nemenda, og að fagleg umræða sé tryggð milli leik, grunn- og framhaldsskóla.
 • Að Árborg hafi skýra og framsækna sýn í skólamálum.

 

Nú þegar er fjölbreytt og metnaðarfullt starf unnið í skólamálum Árborgar í anda lærdómssamfélagsins og telur hópurinn að tillögurnar sem hér eru birtar falli vel að því starfi og séu til þess fallnar að styrkja gott starf enn frekar. Kostirnir við að taka þátt í verkefni eins og því sem hér er til umfjöllunar færir lærdómssamfélagi Árborgar margvíslegan ávinning. Auk þessara þátta sem hér er fjallað um að við getum tileinkað okkur frá menntastarfi annarra þjóða er samstarfið innan og á meðal stofnana Árborgar ekki síður mikilvægt. Faghóparnir sem myndaðir voru samanstanda af einstaklingum sem ekki höfðu endilega starfað saman áður og hefur samstarfið skilað því að nú er flæði milli stofnana enn betra en áður. Starfsmenn kynnast og miðla þekkingu sín á milli, slíkt eflir mannauð og lærdómssamfélagið enn frekar. Vonandi verður frekari vinna í þessum anda á dagskrá á næstunni þar sem enn fleiri starfsmenn Áborgar geta tekið þátt.

Faghópur um þróun lærdómssamfélagsins

Páll Sveinsson, hópstjóri
Lára Ólafsdóttir
Guðbjartur Ólason
Anna Ingadóttir
Kristín Guðlaug Magnúsdóttir
Ásthildur Bjarnadóttir