Ársreikningur 2001

Forsíða » Stjórnsýsla » Ársreikningar » Ársreikningur 2001
image_pdfimage_print

Helstu fjárhagsstærðir í ársreikningi Árborgar fyrir árið 2001, ásamt yfirliti um þróunina frá árinu 1998

1. Samstæðureikningur

Samstæðureikningur Árborgar sýnir fjárhag og rekstur bæjarsjóðs, atvinnuþróunarsjóðs, byggingarsjóðs aldraðra, bókasafnsins, félagslegra íbúða og Selfossveitna.

Árið 2001 námu skatttekjur kr. 1.288 millj. og aðrar tekjur þessarar stofnana og málaflokka kr. 798 millj. Samtals námu því tekjur sveitarfélagsins og stofnana þess kr. 2.013 millj. Rekstrarútgjöld brúttó námu kr. 1.775 millj. Afgangur til að standa undir fjármagnskostnaði, afborgunum lána og framkvæmdum nam kr. 312 millj. Að teknu tilliti til greiðslubyrði lána og nettóvaxta af veltufé var afgangur til fjárfestingar og framkvæmda kr. 149 millj. Samanlögð nettófjárfesting nam kr. 394 millj.

Þegar tekið hefur verið tillit til annarra liða fæst neikvæð peningaleg staða eða svokallaðar nettóskuldir. Þær jukust úr kr. 1.216 millj. árið 2000 í kr. 1.329 millj. án lífeyrisskuldbindinga. Þessar lífeyrisskuldbindingar nema nú um kr. 503 millj. þannig að samtals námu néttóskuldir samstæðunnar kr. 1.832 millj. við árslok 2001.

Hlutafall nettóskulda reiknað m.v. skatttekjur á hvern íbúa lækkaði á hinn bóginn úr 100% í 99%. Þannig var um raunlækkun skulda að ræða milli ára.

2. Bæjarsjóður

Við umfjöllun um fjárhag sveitarfélaga er fyrst og fremst lögð áhersla á greiningu á rekstrar- og efnahagsstærðum bæjar- og sveitarsjóða enda vega þeir þyngst í starfsemi sveitarfélaga.

Skatttekjur jukust úr kr. 1.095 millj. í kr. 1.288 millj. milli áranna 2000 og 2001. Á sama tíma jukust nettórekstrarútgjöld málaflokka úr kr. 963 millj. í kr. 1.096 millj.

Raunhæfasti samanburður fjárhagsstærða sveitarsjóða milli ára byggist á viðmiðunum á stærðum reiknuðum á hvern íbúa sem hlutfalli af skatttekjum á hvern íbúa.

Skatttekjur á hvern íbúa hækkuðu úr kr. 187 þús. árið 2000 í kr. 213 þús. árið 2001 eða um 13,8%. Á sama tíma hækkuðu nettórekstrarútgjöld án fjármagnsliða á hvern íbúa úr kr. 164 þús. í kr. 181 þús. eða um 10,2%. Hlutfall rekstrarútgjalda af tekjum lækkaði úr 87,9% í 85,1%. Rekstrarafgangur hækkaði því úr 12,1% í 14,9% sem er mikilvæg jákvæð þróun í þessum efnum og sýnir áframhaldandi bata í rekstrinum m.v. árið 1999 þegar rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði var kominn niður í 8,6%.

3. Almenn rekstrarútgjöld

Til reksturs málaflokka fóru kr. 1.095 millj. Stærsti málaflokkurinn eru fræðslumálin með kr. 579 millj. nettóútgjöld eða 45,0% skatttekna. Aðrir stórir málaflokkar eru félagsþjónustan með kr. 96 millj. eða 7,4%, yfirstjórn með kr. 86 millj. eða 6,7% og æskulýðs- og íþróttamál með kr. 76 millj. eða 5,9%.

4. Framkvæmdir

Frá árinu 1998 til ársloka 2001 eða á fjögurra ára tímabili hefur verið framkvæmt og fjárfest úr bæjarsjóði fyrir kr. 1.050 millj. brúttó á nafnvirði á vegum Árborgar. Fjárfestingartekjur nema á sama tíma kr. 305 millj.

Meginþungi þessara framkvæmda eru á sviði gatnagerðar, holræsa, vatnsveitu, umhverfismála og til byggingar leikskólahúsnæðis bæði á Eyrarbakka og á Selfossi. Einnig var töluverðum fjárveitingum varið til uppgjörs vegna framkvæmda við Sandvíkurskóla árið 1998 og vegna eldri framkvæmda við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Að auki hefur verið varið fjármagni til ýmissa breytinga og lagfæringa á húsnæði Sólvallaskóla, húsnæði BES á Stokkseyri og vegna lagfæringa og breytinga á Ráðhúsi Árborgar.

Á árinu 2001 nam brúttófjárfesting kr. 348 millj. en fjárfesting nettó nam samtals kr. 269 millj. Stærstu liðirnir eru gatna-, holræsa- og vatnsveituframkvæmdir fyrir alls um kr. 136 millj. en á móti koma tekjur af gatnagerðar- og stofngjöldum kr. 76 millj. Aðrir stórir fjárfestingarliðir eru undir fræðslumálum eða samtals um kr. 90 millj. Hafin var bygging nýs leikskóla í Fosslandi og lagðar til verksins kr. 30 millj. á árinu. Einnig var byggt yfir innigarð í Sólvallaskóla og gerðar breytingar á húsnæðinu vegna þess fyrir samtals kr. 24 millj. Þá var samningsbundið framlag til Fjölbrautaskóla Suðurlands kr. 22 millj. Fjárfest var í fasteignum á árinu fyrir samtals kr. 84 millj., lokið var framkvæmdum við Ráðhús Árborgar fyrir samtals kr. 48 millj, keypt var húsnæði á Tryggvagötu 23 fyrir félagsmiðstöð fyrir kr. 29 millj.kr og þá var einnig keypt húsnæði að Austurvegi 52 fyrir kr. 7 millj. til stækkunar á aðstöðu slökkviliðsins.

5. Skuldir

Á árinu 1998 námu nettóskuldir bæjarsjóðs án lífeyrisskuldbindinga á hvern íbúa 44,7% af skatttekjum. Þær hækkuðu í 58,6% árið 1999 en lækkuðu í 48,6% árið 2000. Við árslok 2001 var hlutfallið komið í 52,1% af skatttekjum á hvern íbúa eða um kr. 111 þús. Miðað við flest sveitarfélög að svipaðri stærð og Árborg telst skuldastaða sveitarfélagsins mjög vel viðunandi.

6. Samanburður ársreiknings og áætlunar fyrir árið 2001

Afkoma bæjarsjóðs eftir rekstur málaflokka var um kr. 19 millj. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjurnar reyndust vera um kr. 58 millj. hærri sem að stærstum hluta má rekja til aukinna útsvarstekna. Rekstur málaflokka hækkaði um kr. 39 millj. og er stærsti einstaki liðurinn þar hækkun lífeyrisskuldbindinga umfram áætlun um kr. 21 millj. Önnur frávik í rekstri málaflokka eru því samtals kr. 18 millj. sem er um 1,7% frávik frá áætlun.

Gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2001 að rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði yrði kr. 171 millj. en niðurstaðan skv. ársreikningi nemur kr. 198 millj. þannig að afkoman er kr. 27 millj. betri en áætluð var.

Nettófjármagnskostnaður bæjarsjóðs var kr. 58 millj. eða um kr. 18 millj. umfram áætlun. Mestu munaði þar um verðbætur af lífeyrisskuldbindingum kr. 34 millj. sem ekki var gert ráð fyrir í áætlun en á móti voru fjármagnstekjur einnig hærri.

Á heildina litið eru niðurstöður ársreiknings miðað við áætlun ársins 2001 betri en gert var ráð fyrir og þróun rekstrarstærða Árborgar milli ára er mjög jákvæð.

Selfossi, 8. maí 2002

Karl Björnsson, bæjarstjóri

Guðlaug Sigurðardóttir, framkv.sj. fjármála- og stjórnsýslusviðs

Samanburður á rekstrartekjum, gjöldum og framkvæmdakostnaði Árborgar árin 1998-2002 (Excel skjal)