Reglur um styrkveitingar til greiðslu fasteignaskatts

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Reglur » Reglur um styrkveitingar til greiðslu fasteignaskatts
image_pdfimage_print

Reglur bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um   styrkveitingar til greiðslu fasteignaskatts.

1.

Heimilt er að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum í sveitarfélaginu, þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi eða vinna að mannúðarstörfum.

2.
Styrkir skulu eingöngu veittir almennum félögum sem hafa með höndum einhverja þá starfsemi sem getið er í 1. gr. Viðkomandi fasteign skal vera notuð fyrir þá starfsemi en ekki rekstur eða starfsemi í ágóðaskyni. Skilyrði er að viðkomandi félag sé skráður eigandi viðkomandi fasteignar eða handhafi þinglýst húsaleigusamnings til a.m.k. eins árs, og að í samningnum komi fram að félagið skuli greiða fasteignagjöld af hinu leigða húsnæði.

Veittur styrkur getur aldrei numið hærri fjárhæð en sem svarar 50% af álögðum fasteignaskatti. Sé húsnæðið að öllu leyti í fastri útleigu fyrir aðra starfsemi en þá sem tilgreind er í 1. gr. verður styrkur ekki veittur.

Eingöngu er um að ræða styrki til greiðslu fasteignaskatts en ekki fasteignatengdra gjalda.

3.
Aðilar skulu sækja um styrk á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókn skal fylgja greinargerð um starfsemi í viðkomandi húsi á næst liðnu ári.
Þær umsóknir einar skulu metnar gildar sem berast innan tilskilins umsóknarfrests og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í auglýsingu.

4.
Auglýst skal í janúar ár hvert eftir umsóknum um styrki skv. reglum þessum. Umsóknarfrestur skal vera einn mánuður.

5.
Bæjarritari og fjármálastjóri, í umboði bæjarstjórnar, afgreiða umsóknir skv. reglum þessum.

Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu umsóknar og hvenær styrkur kemur til greiðslu, sé hann veittur.

6.
Um endurupptöku gilda ákvæði 60. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar.

Reglur þessar sem samþykktar eru í bæjarstjórn Árborgar eru settar með heimild í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum og með vísan til

7.gr. reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005.

Samþykkt í bæjarstjórn Árborgar hinn 9. desember 2009.

                                                                                                                   Sjá umsókn