Jafnréttisáætlun Árborgar

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Jafnréttisáætlun Árborgar
image_pdfimage_print

Jafnréttisáætlun Árborgar

Jafnréttisáætlun þessi byggist á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Sveitarfélagið Árborg leggur metnað í að tryggja konum og körlum jöfn áhrif, tækifæri og virðingu og gerir þá kröfu til kjörinna fulltrúa, fulltrúa í nefndum og starfshópum, stjórnenda og annarra starfsmanna hjá sveitarfélaginu að þeir taki mið af áætlun þessari í störfum sínum fyrir sveitarfélagið.

I. Framkvæmd og umfang

1.1. Umfang

Áætlun þessi tekur annars vegar til stjórnkerfis Árborgar og starfsmanna sveitarfélagsins og hins vegar til starfsemi og þjónustu sem veitt er bæjarbúum.

1.2. Jafnréttisnefnd- umsjón með jafnréttismálum

Félagsmálanefnd hefur með höndum jafnréttismál innan sveitarfélagsins samkvæmt lögum nr. 96/2000. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn Árborgar í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla ásamt því að fylgjast með og leggja fram tillögur til bæjarstjórnar að sérstökum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Jafnréttismál heyra undir Fjölskyldumiðstöð Árborgar. Fjölskyldumiðstöðin er sveitarfélaginu og starfsmönnum sveitarfélagsins til aðstoðar í jafnréttismálum, m.a. við að kanna og stuðla að jafnri stöðu kynjanna hjá stofnunum sveitarfélagsins.

Félagsmálanefnd vinnur, ásamt framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar,  að tillögugerð og undirbúningi stefnumótunar í jafnréttismálum innan Árborgar og sér um framkvæmd jafnréttisáætlunar í samvinnu við bæjarstjórn. Ennfremur veitir hún nefndum, ráðum, stofnunum, sviðum og deildum sveitarfélagsins liðsinni í jafnréttismálum.

1.3. Jafnréttisáætlanir deilda, sviða  og stofnana

Í upphafi hvers kjörtímabils skulu deildir, svið, stofnanir, nefndir og ráð sveitarfélagsins gera starfsáætlun í jafnréttismálum. Þar komi fram hvernig deildir/ svið/stofnanir/nefndir og ráð hyggist vinna á grundvelli jafnréttisáætlunarinnar og hvaða aðgerðir séu fyrirhugðar í þeim tilgangi.

Bæjarstjórn Árborgar veitir árlega viðurkenningu stofnun, sviði eða deild sveitarfélagsins sem hefur staðið sig vel í vinnu að framgangi jafnréttisáætlunarinnar.

1.4. Nefndir og ráð

Við skipan í nefndir, ráð stjórnir og starfhópa á vegum sveitarfélagsins skal gæta þess að hlutföll kynja séu sem jöfnust. Því er beint til stjórnmálaflokkanna að hafa þetta ákvæði að leiðarljósi þegar settar eru fram tillögur um fulltrúa í nefndir, ráð  stjórnir og starfshópa.

II. Stjórnkerfi og starfsmannastefna

2.1. Auglýsingar og ráðningar

Að jafnaði skulu öll störf auglýst, sbr. 3. gr. starfsmannastefnu. Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt. Í auglýsingum um störf skal koma fram hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þegar ráða á í stjórnunarstörf innan bæjarkerfisins verði unnið að því að jafna hlut kynjanna, bæði innan bæjarkerfisins og utan. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.

2.2. Starfsaðstæður og kjör

Við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir skal þess gætt að starfsmönnum sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Gæta skal þess að konur og karlar njóti að öllu leyti sambærilegra kjara og starfsaðstæðna og er í því sambandi vísað til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, þar sem fram kemur í 23. gr.: ,,Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess.“ Það telst þó ekki mismunun að taka sérstaklega tillit til kvenna vegna þungunar, barnsburðar og umönnunar ungbarna.

Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað, sbr. 14. gr. laga nr. 96/2000. Í því sambandi skal sérstaklega leitast við að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna. Unnið skal að því að störf, s.s. umönnunar-, uppeldis- og heimilisstörf, verði í samningum metin til jafns við önnur störf við starfsaldursákvarðanir hjá öllum starfsstéttum.

Starfsfólk Árborgar skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu vinnutíma þar sem því verður við komið og samkomulag er gert þess efnis milli viðkomandi starfsmanna og stjórnenda. Þannig skal starfsfólki gert auðveldara að samræma starf og fjölskylduábyrgð. Konum og körlum skal einnig gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð, eins og umönnun veikra barna og annarra nákominna.

III. Fræðsla og ráðgjöf

Fræðsla um jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna skal vera virkur þáttur í starfi sveitarfélagsins. Nýta skal samþættingu á sem flestum sviðum. Samþætting felur í sér að flétta sjónarhorn beggja kynja inn í alla stefnumótun innan samfélagsins, endurskilgreina hefðubundin hlutverk kynjanna og gera bæði konum og körlum kleift að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf.

Fylgjast skal með endurmenntun í sveitarfélaginu og skulu stjórnendur beita sér fyrir því að slíkir möguleikar séu fyrir hendi sem geti aukið tækifæri kvenna og karla til atvinnu og menntunar.

3.1. Jafnréttisráðgjöf til starfsmanna

Starfsmönnum og stjórnendum í sveitarfélaginu skal standa til boða aðstoð Fjölskyldumiðstöðvarinnar í jafnréttismálum. Þetta á bæði við um störf og starfsaðstæður, s.s. samskipti á vinnustað, kynferðislega áreitni, valdbeitingu og önnur þau mál sem snúa að jafnrétti og samskiptum kynjanna á vinnustað.

3.2. Jafnréttisráðgjöf til bæjarbúa

Fjölskyldumiðstöðin skal veita íbúum Árborgar ráðgjöf í jafnréttismálum, sé eftir því leitað. Ef einstaklingur eða hópur telur sér mismunað m.t.t. kynferðis, skal veita viðkomandi aðstoð/ráðgjöf við að leita réttar síns, þar á meðal leiðbeiningar varðandi kærur til kærunefndar jafnréttismála.

3.3. Jafnréttisfræðsla í skólum og öðrum uppeldisstofnunum

Því er beint til skólayfirvalda og forstöðumanna annarra uppeldisstofnana að vinna að því að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að nýta hæfileika sína til fulls, bera virðingu fyrir hvert öðru og efla jákvæð samskipti kynjanna.

Lögð skal áhersla á að kennarar fái þjálfun í að undirbúa nemendur af báðum kynjum undir einkalíf, atvinnulíf, félagslíf og fjölskyldulíf í samfélaginu.

Í þessu skyni er því beint til skólastjórnenda að sjá til þess að:

a. Námsefni mismuni ekki kynjum
b. Náms- og starfsfræðsla verði sjálfstæð námsgrein á síðari stigum grunnskóla

c. Sjálfsstyrking verði sjálfsagður hlutur námsins á öllum skólastigum
d. Skólinn leggi áherslu á að búa bæði kynin undir ábyrgð og skyldur fjölskyldu- og atvinnulífs.

Því er beint til alls starfsfólks þar sem uppeldisstarf fer fram, eins og á leikskólum, í skólum, í félagsmiðstöðvum og íþróttahúsum, að hafa jafnréttisjónarmið að leiðarljósi.

3.3.1. Íþrótta-, forvarna- og tómstundamál
Íþrótta- og tómstundanefnd skal veita stúlkum og drengjum sömu tækifæri til íþróttaiðkana og íþróttafélögin hvött til hins sama. Kynin sitji jöfn að fjárveitingum á vegum sveitarfélagsins til íþróttaiðkunar. Kanna þarf brottfall unglinga og unglingsstúlkna sérstaklega úr hefðbundnum íþróttagreinum og leita leiða til að mæta þörfum þeirra fyrir útrás og hreyfingu á annan hátt ef sýnt þykir að áhugasvið breytist eftir ákveðinn aldur.  Komi í ljós að fyrirkomulag starfseminnar sé með þeim hætti að tækifæri og möguleikar kynjanna séu ekki jafnir skal þegar leita leiða til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd í samstarfi við ÍTÁ og Fjölskyldumiðstöð.
Þess skal gætt að stúlkur og drengir hafi sömu möguleika til sumarstarfa á vegum sveitarfélagsins.

IV. Kynning á áætluninni

Jafnréttisáætlun þessi, sem og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, skulu kynnt stjórnendum og almennum starfsmönnum sveitarfélagsins. Eftir samþykkt áætlunarinnar skal hún kynnt bæjarbúum, stofnunum, stjórnvöldum, stéttarfélögum og öllum þeim sem vinna að jafnréttismálum.

V.  Sérstakar aðgerðir til að auka jafnrétti

a. Gerð verði árlega úttekt á launum karla og kvenna sem starfa hjá Sveitarfélaginu Árborg. Niðurstöður skulu liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert.  Sýni niðurstöður þeirrar úttektar fram á kynbundinn launamun, skal þegar gera og hrinda í framkvæmd áætlun um að uppræta slíkan launamun.

b. Framkvæmdastjórar sviða hjá sveitarfélaginu geri bæjarstjórn grein fyrir því árlega, samhliða tillögum til fjárhagsáætlunar, hvernig þeir muni fylgja því eftir að ákvæðum jafnréttisáætlunar sé framfylgt á þeirra sviði.

c. Félagsmálanefnd Árborgar fjalli á fundum sínum sérstaklega um jafnréttismál, a.m.k. tvisvar á ári, með það að markmiði að áætlun um jafnréttismál sveitarfélagsins nái fram að ganga.

VI. Endurskoðun

Jafnréttisáætlun þessi skal endurskoðuð ári eftir næstu sveitarstjórnarkosningar, sbr. 10. gr. laga nr. 272/2000.

Samþykkt í bæjarstjórn Árborgar 07.12.05

Einar Njálsson, bæjarstjóri.