Samþykkt fyrir kjaranefnd Árborgar

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Samþykkt fyrir kjaranefnd Árborgar
image_pdfimage_print

Bæjarstjórn samþykkir að stofna til sérstakrar kjaranefndar sem hafi það hlutverk að ákvarða laun og önnur starfskjör til handa forstöðumönnum (embættismönnum) sveitarfélagsins samkvæmt því sem nánar verður kveðið á um í samþykkt þessari.

1. Bæjarstjórn skal skipa kjaranefnd Sveitarfélagsins Árborgar til tveggja ára í senn. Í kjaranefnd skulu sitja þrír fulltrúar tilnefndir af bæjarstjórn, þar af einn tilnefndur formaður. Að öðru leyti skiptir nefndin sjálf með sér verkum. Samhliða skal bæjarstjórn tilnefna jafnmarga varamenn. Leitast skal við að tilnefna fulltrúa í kjaranefnd er hafi staðgóða reynslu og/eða sérþekkingu á kjaramálum. Sé bæjarstjóri ekki kjörinn fulltrúi í kjaranefnd skal hann starfa með nefndinni.

2. Hluverk kjaranefndar sveitarfélagsins Árborgar er að ákvarða laun og önnur starfskjör til handa þeim forstöðumönnum (embættismönnum) sveitarfélagsins sem falla undir ákvæði 6. – 8. tölul. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Umræddir forstöðumenn (embættismenn) teljast samkvæmt því falla utan samningsumboðs stéttarfélaga samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. 1. gr. s.l. Um eftirtalda forstöðumenn (embættismenn) er að ræða:

– bæjarritari
– sviðsstjórar / framkvæmdastjórar sviða
– önnur störf sem öldungis verður jafnað við framangreind störf samkvæmt ákvörðun bæjarráðs hverju sinni.

3. Við ákvörðun launakjara skal kjaranefnd gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum hjá þeim sem hún fjallar um. Þess skal gætt að starfskjör séu á hverjum tíma í samræmi við laun hjá þeim er gegna störfum er sambærileg geta talist hjá öðrum sveitarfélögum með tilliti til starfa og ábyrgðar. Þá skal þess ennfremur gætt að samræmi sé á milli þeirra og þeirra launa hjá sveitarfélaginu eða öðrum sveitarfélögum sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga eða samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga. Kjaranefnd skal við töku ákvarðana ennfremur horfa til launaþróunar á almennum vinnumarkaði vegna sambærilegra starfa, eftir því sem við á.

4. Kjaranefnd aflar af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga, bæði frá sveitarfélaginu, bæjarstjóra, hlutaðeigandi forstöðumönnum (embættismönnum), öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins svo og öðrum aðilum óviðkomandi sveitarfélaginu.

5. Kjaranefnd ákvarðar heildarkjör hlutaðeigandi forstöðumanna (embættismanna), þ.e. föst laun fyrir dagvinnu og föst laun vegna yfirvinnu. Þá skal kjaranefnd ennfremur kveða á um önnur starfskjör, eftir því sem við á. Kjaranefnd skal ákvarða sérstaklega hvort tiltekin aukastörf tilheyri aðalstarfi, hver beri að launa sérstaklega og á hvern hátt.

6. Kjaranefnd skal sjálf setja eigin starfsreglur. Kjaranefnd skal taka mál til meðferðar þegar nefndin metur tilefni til og ávallt ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum sem höfð eru til viðmiðunar samkvæmt samþykkt þessari eða á störfum þeirra sem ákvörðunarvald kjaranefndar tekur til.

7. Kjaranefnd skal eigi sjaldnar en árlega meta það hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum þeirra sem þeir ákvarða.

8. Laun nefndarmanna kjaranefndar skulu greidd úr bæjarsjóði samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar.

9. Samþykkt þessi er sett með hliðsjón af samþykktum um stjórn Sveitarfélagsins Árborgar og fundarsköp bæjarstjórnar, frá 17. maí 2000, sbr. einkum ákvæði 48. gr. og V. kafla samþykkta.

10. Samþykkt þessi öðlast gildi nú þegar.

Ákvæði til bráðabirgða: Bæjarstjóri skal nú þegar tilkynna hlutaðeigandi forstöðumönnum samþykkt bæjarstjórnar og gera viðeigandi ráðstafanir varðandi gerð breytinga á gildandi ráðningarsamningum þeirra, allt eftir því sem nauðsyn ber til.

Bæjarstjórn felur samninganefnd Árborgar að fara með hlutverk kjaranefndar til bráðabirgða eða þar til kjaranefnd hefur verið skipuð í upphafi næsta kjörtímabils bæjarstjórnar.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar samþykktar skulu núverandi laun og önnur starfskjör þeirra starfsmanna, sem samþykkt þessi tekur til, ekki taka breytingum næstu 12 mánuði frá gildistöku nema sérstakar breytingar eigi sér stað á störfum hlutaðeigandi starfsmanna.

Samþykkt í bæjarstjórn Árborgar þ. 13. febrúar 2002.

Karl Björnsson,
bæjarstjóri