Samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúa

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúa
image_pdfimage_print

Samþykkt um afgreiðslu byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar skv.
skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997,
með síðari breytingum.

1.gr.
Byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar afgreiðir án staðfestingar skipulags- og byggingarnefndar mál er falla undir skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, og skilgreind eru sem verkefni byggingarnefnda í lögunum önnur en gerð skipulagsáætlana, úthlutun lóða, gerð byggingarskilmála og tillagna um nöfn gatna, torga og hverfa.

2. gr.
Mál er falla undir 1. gr. afgreiðir byggingarfulltrúi og getur gefið út byggingarleyfi ef framkvæmdin uppfyllir öll ákvæði laga og reglugerða sem við geta átt, að þremur skilyrðum uppfylltum:
1. Að byggingarstjóri og iðnmeistarar sem ábyrgð bera, hafi undirritað yfirlýsingu um ábyrgð, sbr. 44. gr., 51. gr., og 52. gr. byggingarlaga nr. 73/1997, með síðari breytingum.

2. Tilskilin gjöld vegna byggingarframkvæmdanna hafi verið greidd.

3. Undirritaðir hafi verið byggingarskilmálar.

3. gr.
Mál sem byggingarfulltrúi afgreiðir samkvæmt samþykkt þessari skulu lögð fram til kynningar á næsta fundi í skipulags- og byggingarnefnd og bókuð í gerðabók nefndarinnar, en ekki tekin þar til annarrar afgreiðslu, en skulu hljóta afgreiðslu bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar með sama hætti og aðrar bókanir byggingarnefndar. Í gerðabókinni skal koma fram nafn umsækjanda, um hvað er sótt og hvernig afgreiðslu málið fékk hjá byggingarfulltrúa.

Synji byggingarfulltrúi erindi skal hann gera hlutaðeigandi grein fyrir því með skriflegum rökstuðningi. Í slíkum tilfellum skulu líða a.m.k. 14 dagar þar til hann leggur málið fram í byggingarnefnd.

4. gr.
Um afgreiðslu byggingarfulltrúa gilda, eftir því sem við á, ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, með síðari breytingum og ákvæði skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar.

5. gr.
Telji einhver rétti sínum hallað með afgreiðslu byggingarfulltrúa eða byggingarfulltrúi synji að afgreiða erindi, er honum heimilt að skjóta máli sínu til skipulags- og byggingarnefndar innan 14 daga frá því honum er kunnugt um afgreiðslu byggingarfulltrúa, og fer um meðferð kærumála skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, með síðari breytingum, og skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Skulu slík kærumál send til bæjarstjóra Sveitarfélagsins Árborgar. Enn fremur er hægt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr. og 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.

6.gr.
Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar staðfestist hér með skv. 1. gr. laga nr. 117/1999, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Umhverfisráðuneytið, 30. maí 2000

F.h.r.
Ingimar Sigurðsson / Smári Þorvaldsson