Samþykkt um búfjárhald í Sveitarfélaginu Árborg

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Samþykkt um búfjárhald í Sveitarfélaginu Árborg
image_pdfimage_print

Samþykkt um búfjárhald í Sveitarfélaginu Árborg.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja sem best skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Sveitarfélaginu Árborg, með ákvæðum um vörsluskyldu  og  ábyrgð allra búfjáreigenda.  Ákvæði um vörsluskyldu á jafnt við búfjáreigendur á lögbýlum sem utan þeirra.

2. gr.

Með búfjáhaldi samkvæmt samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita-, og alifuglahald, samanber lög um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002.  Búfjárhald utan lögbýla er leyft í sérstaklega skipulögðum hverfum að fengnu samþykki landbúnaðarnefndar.

3. gr.

Sá sem stunda vill búfjárhald utan lögbýla sbr. 2. gr., skal senda skriflega umsókn til landbúnaðarnefndar. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda búfjár, sem halda skal, hvernig geymslu skuli háttað og öðru, sem  máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu.

4. gr.

Telji landbúnaðarnefnd  að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem krafist er veitir hún leyfi til  búfjárhalds. Leyfisveiting til búfjárhalds skuldbindur þó ekki Sveitarfélagið Árborg til að sjá búfjáreigendum fyrir beitilandi handa búfénu né veita þeim aðra aðstöðu til búfjárhalds.

Leyfi til búfjárhalds er veitt í óákveðinn tíma en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.

Samþykki landbúnaðarnefndar til búfjárhalds er háð gildandi lögum og  reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma og er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt.  Sá sem fær leyfi til búfjárhalds samkvæmt samþykkt þessari skal hafa búféð í öruggri vörslu og ber hann að öllu leyti ábyrgð á því.

Allt búfé skal einstaklingsmerkt eigendum sínum samkvæmt lögum og reglum.

5. gr.

Allar lögskipaðar læknismeðferðir á búfénaði, svo sem garnaveikibólusetning, sauðfjárböðun og annað sem upp gæti komið, skulu framkvæmdar á ábyrgð landbúnaðarnefndar en á kostnað búfjáreiganda.

Um fjallskil af búfé og landi í Sveitarfélaginu Árborg fer eftir eftir lögum nr. 6/1986 um afréttarmál, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og ákvæðum í fjallskilasamþykkt fyrir Árnessýslu austan vatna nr. 408/1996.

6.  gr

Óheimilt er að halda búfé, nema að hafa fyrir það hús sem samræmist  reglugerðum  um aðbúnað búfjár. Sama gildir um  allt umhverfi húsanna.

Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi beitiland  og fóður fyrir búfé sitt og hann skal tryggja góða meðferð þess.

Gangi búfé úti á vetrarbeit skal eigandi eða umráðamaður þess ábyrgjast nægilegt fóður, viðunandi skjól og örugga vörslu.

7. gr.

Stjórnsýslufulltrúi heldur skrá yfir lönd í eigu sveitarfélagsins, sem leigð eru til beitar og/eða slægna. Þeir búfjáreigendur eða félagasamtök sem hafa land á leigu frá sveitarfélaginu skulu hafa landið girt gripheldri girðingu, sem nauðsynleg er til vörslu þeirra gripa sem innan hennar eiga að vera, samanber reglugerð um vörslu búfjár nr. 59/2000. Umsóknum um land til beitar eða slægna skal senda til stjórnsýslufulltrúa sem úthlutar landi samkvæmt tillögu landbúnaðarnefndar.

8. gr.

Lausaganga búfjár er bönnuð í Sveitarfélaginu Árborg og er búfjáreigendum skylt að halda búfénaði sínum á afgirtum svæðum.

Hvern þann búfénað sem sleppur úr vörslu skal taka hvar sem til hans næst og færa í örugga vörslu, sem stjórnsýslufulltrúi sér um. Eiganda eða ábyrgðaraðila skal tilkynnt um gripi sína, eftir því sem unnt er og gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, s.s. vegna tjóns sem gripirnir hafa valdið og kostnað við handsömun þeirra.  Ef eigandi eða ábyrgðaraðili hefur ekki hirt um að sækja gripi og greiða áfallinn kostnað innan 10 daga frá því að honum hefur verið tilkynnt um það, er heimilt að beita ákvæðum  33. – 35. gr. laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og ákvæðum 3. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Árnessýslu austan vatna nr. 408/1996.

Enn fremur geta þeir, sem fyrir ágangi verða, látið handsama ágangsfénað, og skulu þeir tilkynna stjórnsýslufulltrúa um hann tafarlaust.

 9. gr.

Undanþegnir  lausagöngubanni samkvæmt 8. gr. er  vegur 316, Kaldaðarnes- vegur,  vestan ristarhliðs við Litlu–Sandvík og vegur 314,  Holtsvegur,  frá ristarhliði við Bræðratungu að sveitarfélagsmörkum austan Hæringsstaða.  Verða þessir vegir merktir með viðeigandi aðvörunarmerkjum.

 10. gr.

Byggingar gripahúsa utan lögbýla eru einungis leyfðar á ákveðnum svæðum sem skipulögð eru fyrir búfjárhald. Þau gripahús sem fyrir eru í sveitarfélaginu utan lögbýla og svæða sem ekki eru ætluð til búfjárhalds samkvæmt aðalskipulagi, skulu fjarlægð þegar bæjarstjórn ákveður slíkt, með eins árs fyrirvara. Óheimilt er að byggja við þau, endurnýja eða endurbyggja, en gæta skal þess að þau líti vel út.

11. gr.

Einstaklingar og félög búfjáreigenda, sem hafa lönd í eigu sveitarfélagsins á leigu til beitar eða slægna  skulu leitast við að viðhalda gróðri landsins og efla hann, meðal annars með árlegri áburðargjöf. Í leigusamningi fyrir beiti- og  slægjulönd eru tilgreindar  reglur um umgengni um landið.

12. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varðar sektum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála skv. 18. gr laga um búfjárhald  o.fl. nr. 103/2002.

Samþykkt þessi sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar, staðfestist hér með samkvæmt lögum um búfjárhald o. fl. nr. 103/2002  til þess að öðlast gildi þegar í stað og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. 

Jafnframt fellur  úr gildi  Samþykkt um búfjárnald í Sveitarfélaginu Árborg nr. 993 frá 19. desember 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.

Allir þeir, sem við gildistöku samþykktar þessarar eiga eða hafa í umsjá sinni búfé sem fellur undir samþykktina teljast hafa samþykki landbúnaðarnefndar til búfjárhalds.

Landbúnaðarráðuneytið, 1. ágúst 2003.

F.h.r.

Níels Árni Lund.

                                                                         Atli Már Ingólfsson.