Samþykkt um kattahald í Árborg

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Samþykkt um kattahald í Árborg
image_pdfimage_print

Nr. 587 18. júní 2009

SAMÞYKKT

 

um kattahald í Sveitarfélaginu Árborg.

 

1. gr.
Kattahald í þéttbýlisstöðunum í Sveitarfélaginu Árborg sætir þeim takmörkunum sem settar eru í samþykkt þessari. Samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/1994, fer Umhverfisstofnun með mál er varða dýravernd. Þéttbýlisstaðirnir sem hér um ræðir eru Eyrarbakki, Selfoss og Stokkseyri.

2. gr.
Stjórnsýsla. 
Bæjarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum sem búa í sveitarfélaginu leyfi til kattahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang einstaklings og óheimilt er að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni.

3. gr.
Merking katta og ormahreinsun.
Þeir sem óska eftir leyfi til kattahalds skulu sækja um það á skrifstofu áhaldahússins á Selfossi að Austurvegi 67 eða á þjónustuskrifstofunni á Eyrarbakka að Túngötu 40 og þar fær eigandi hans afhenta númeraða plötu með skráningarnúmeri kattarins, sem alltaf skal vera í ól um háls dýrsins.

Við skráningu skal eigandi/umráðamaður framvísa vottorði frá dýralækni um örmerkingu eða húðflúrmerkingu, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gælu-dýra og dýrahald í atvinnuskyni.

 Greiða skal skráningargjald sem nemur sannarlegum kostnaði vegna skráningar kattarins.

Árlega skal kattareigandi framvísa vottorði dýralæknis um að kötturinn hafi verið hreinsaður af spóluormum. Þá skal, ef óskað er, framvísa vottorði dýralæknis um að kötturinn hafi verið hreinsaður af öðrum sníkjudýrum.

4. gr.
Kattahald í fjöleignarhúsum. 
Skilyrði fyrir kattahaldi í fjöleignarhúsum er að hlutaðeigandi íbúðareigendur veiti sam-þykki í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994 og skal leggja fram skriflegt samþykki þar um við skráningu kattarins.

5. gr.
Ónæði og óþrif af völdum katta.
Eigendum og/eða forráðamönnum katta ber að gæta þess að kettir valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allan kostnað við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf. (breyting 08.09.2010)

6. gr.
Fjöldi katta á heimili. 
Óheimilt er að láta kött dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir köttinn.

Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimili. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum, svo sem ef kettir eru ræktaðir í atvinnuskyni, sbr. reglugerð um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni nr. 1077/2004. Nr. 587 18. júní 2009

7. gr.
Kattahald í opinberum stofnunum, matvælafyrirtækjum, matvöruverslunum o.fl. 
Óheimilt er að hafa ketti í opinberum stofnunum, skólahúsum, matvöruverslunum eða öðrum þeim stöðum sem tilgreindir eru í fylgiskjali 3 í reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, matvælafyrirtækjum samkvæmt ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, nr. 522/1994, eða vatnsveitum, vatnsbólum og verndarsvæðum þeirra, brunnum og sjóveitum.

8. gr.
Handsömun katta. 
Bæjarstjórn er heimilt að láta fanga ómerkta ketti. Meiriháttar föngun villikatta í þéttbýlisstöðunum skal auglýst með a.m.k. viku fyrirvara. Kettir sem fangaðir eru skulu færðir í kattageymslu sveitarfélagsins. Ef eigandi vitjar ekki kattarins innan 7 sólarhringa er heimilt að aflífa köttinn án frekari fyrirvara, sbr. þó ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004, um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Sé kvartað undan ágangi katta í sveitarfélaginu er dýraeftirlitsmanni heimilt að veiða í búr og aflífa ómerkta ketti, sbr. þó ákvæði 8. gr. reglugerðar nr.1077/2004, án þess að það sé auglýst sérstaklega.

Ef merktir kettir sem lenda á flækingi eru handsamaðir af dýraeftirlitsmanni skal hann strax hafa samband við skráðan eiganda sem fær köttinn afhentan gegn greiðslu áfallins kostnaðar. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan 7 sólarhringa af réttum eiganda og hann greitt áfallinn kostnað vegna handsömunar og vörslu dýrsins, skal dýrinu lógað. Við endurtekna handsömun sama kattar skal að auki greiða sekt samkvæmt gjaldskrá.

9. gr.
Dýraeftirlitsmaður. 
Fyrir hönd bæjarstjórnar annast dýraeftirlitsmaður framkvæmd og eftirlit með kattahaldi í Sveitarfélaginu Árborg. Dýraeftirlitsmaður starfar undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar við sín eftirlitsstörf. Eftirlitsmaður getur leitað aðstoðar lögreglu við framkvæmd starfa sinna, ef köttur er að mati eftirlitsmanns hættulegur umhverfi sínu og/eða vörsluaðili kattarins hindrar starf eftirlitsmanns samkvæmt samþykkt þessari og almannahagsmunir og/eða heilbrigðissjónarmið valda því að nauðsynlegt er að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja dýrið.

10. gr.
Gjaldtaka. 
Gjald samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 8. gr. skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

11. gr.
Viðurlög. 
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Nr. 587 18. júní 2009

12. gr.
Lagastoð. 
Framangreind samþykkt bæjarstjórnar Árborgar staðfestist hér með samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 1209/2005 um kattahald í Sveitarfélaginu Árborg.

 

Umhverfisráðuneytinu, 18. júní 2009.

 

F. h. r.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

 

 

B-deild – Útgáfud.: 3. júlí 2009