Samþykkt um sorphirðu í Árborg

Forsíða » Stjórnsýsla » Samþykktir, reglur og gjaldskrár » Samþykktir » Samþykkt um sorphirðu í Árborg
image_pdfimage_print

 

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Árborg. 

I. KAFLI 

Almenn ákvæði. 

1. gr. 

Gildissvið og markmið. 

Samþykkt þessi tekur til meðhöndlunar úrgangs í Sveitarfélaginu Árborg, þ.m.t. hirðu úrgangs og förgunar. Sérhverjum eiganda eða umráðamanni húsnæðis (húsráðanda) í sveitarfélaginu er skylt að nota þau sorpílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður við meðhöndlun úrgangs. Markmið samþykktarinnar er: 

að lágmarka það sorpmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs,

að lágmarka kostnað samfélagsins við sorphirðu og sorpförgun,

að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

2. gr. 

Fyrirkomulag sorphirðu. 

Meðhöndlun úrgangs fer fram undir yfirstjórn bæjarstjórnar og er háð eftirliti heilbrigðisnefndar Suðurlands. Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd tilekinna þátta vegna meðhöndlunar úrgangs, þ.m.t. hirðu úrgangs, móttöku spilliefna, brotajárns og landbúnaðarplasts. Þeir aðilar sem þetta annast skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á. Förgun úrgangs skal framkvæmd undir yfirstjórn og á ábyrgð bæjarstjórnar. Bæjarstjórn er heimilt að fela öðrum að sjá um förgun og samskipti við þá aðila sem við á.

 

Hirða úrgangs frá íbúðar- og frístundahúsnæði fer fram í samræmi við útgefið sorphirðudagatal. Allan úrgang sem að mati húsráðenda þarf að losa örar en gert er ráð fyrir samkvæmt áætlun þar um, skal húsráðandi sjálfur og á eigin kostnað losa á söfnunarstöð. 

3. gr. 

Íbúðar- og frístundahúsnæði. 

Sérhverjum húsráðanda íbúðar- eða frístundahúsnæðis er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs sem samþykkt þessi kveður á um. Við hvert íbúðar- eða frístundahús í sveitarfélaginu skulu vera tvö ílát, grátunna og blátunna. Blátunna er 240 lítra ílát með bláu loki undir endurvinnanlegan heimilisúrgang. Sveitarfélagið auglýsir sérstaklega hvaða úrgangur á að fara í blátunnuna. Grátunna er ílát með gráu loki undir annan heimilisúrgang en þann sem fer í blátunnuna, annan en spilliefni, garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang. Húsráðendur geta valið hvort þeir hafa grátunnu sem tekur 120 lítra eða 240 lítra. Einnig geta húsráðendur valið að hafa fleiri en eina grátunnu ef þörf er á. 

Húsráðendur bera ábyrgð á þeim ílátum sem sveitarfélagið lætur þeim í té. Sorpílátum skal komið fyrir í sorpgeymslum eða þau fest tryggilega, gæta ber þess að auðvelt sé fyrir sorphirðumenn að losa ílátin úr festingum. Sorpgeymslur skulu aðgengilegar fyrir sorphirðumenn. Þær skulu staðsettar saman á jarðhæð ef um fjölbýlishús er að ræða. Sorpgeymslur skulu ekki vera fjær götu en 15 metrar. Í deiliskipulagi nýrra hverfa skal eftir því sem við á gera ráð fyrir sorpgeymslum og aðkomu að þeim við skipulagningu. 

Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Húsráðendur skulu hreinsa snjó frá sorpgeymslum og sorpílátum eins og þörf krefur til að halda ávallt greiðfærri leið að þeim.

 4. gr.

 Frágangur úrgangs. 

Í ílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur daglega til við venjulegt heimilishald í samræmi við nánari fyrirmæli um flokkun úrgangs. Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang í sorpílát og gáma.

 Jarðvegsefni, þ.m.t. grjót, múrbrot o.þ.h. skal setja á viðurkennda losunarstaði.

 Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal skilað á söfnunarstöð sveitarfélagsins.

 Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt.

 Gæta skal þess að fylla ekki sorpílátin meira en svo að auðveldlega megi loka þeim. Húsráðanda er heimilt að skila umfram úrgangi á söfnunarstöð sveitarfélagsins eða í þar til gerðum sorppokum sem teknir eru um leið og sorpílát er tæmt.

 5. gr. 

Skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda.

 Íbúum, húsráðendum, rekstraraðilum og landeigendum í sveitarfélaginu ber að fara eftir eftirfarandi reglum sem sveitarfélagið setur um úrgang:

 Setja skal allan úrgang í viðeigandi ílát, að öðrum kosti er þeim sem annast sorphreinsunina heimilt að skilja hann eftir.

Úrgang sem samþykktin nær til má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins.

Flokkaður úrgangur skal þannig meðhöndlaður að hann blandist ekki öðrum úrgangsflokkum.

Flokkaðan úrgang skal geyma og meðhöndla þannig að gæði hans við væntanlega endurnýtingu skerðist sem minnst.

Úrgang sem getur fokið skal geyma þannig að hann fjúki ekki.

Meðhöndlun á úrgangi má ekki valda lyktaróþægindum, draga til sín meindýr eða valda hreinlætisvandamáli.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma úrgang á víðavangi, götum, gangstígum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við númerslausa bíla, vélar og önnur tæki.

6. gr. 

Fyrirtæki og stofnanir.

 Eigendur og umráðamenn atvinnuhúsnæðis bera ábyrgð á því að við meðhöndlun úrgangs sem hlýst af eða fylgir starfsemi þeirra sé farið samkvæmt gildandi lögum, reglugerðum og kröfum sveitarfélagsins. Heimilt er að skila heimilisúrgangi frá fyrirtækjum, rekstrarúrgangi og öðrum úrgangi frá fyrirtækjum á söfnunarstöð sveitarfélagsins. Frágangur og umgengni um ílát, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar. Staðsetning gáma fyrir rekstrarúrgang skal vera í samræmi við ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa og/eða ákvæði skipulags- og byggingarreglugerðar og viðkomandi deiliskipulags.

 II. KAFLI

 Gjaldtaka vegna meðhöndlunar úrgangs.

 7. gr.

 Gjaldskrá.

 Bæjarstjórn skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs og er heimilt að innheimta gjald fyrir aðra meðhöndlun úrgangs. Gjald skal innheimta samkvæmt gjaldskrá sem sett er í samræmi við 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Heimilt er m.a. að innheimta gjöld á söfnunarstöðvum fyrir móttöku og förgun úrgangs.

 Við ákvörðun gjaldsins skal miða við magn úrgangs, þ.e. stærð og fjölda sorphirðuíláta, hvort sem um er að ræða flokkaðan eða óflokkaðan úrgang, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.

 Heimilt er að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs frá fyrirtækjum og stofnunum samkvæmt magni úrgangs, þ.e. samkvæmt samkomulagi við viðkomandi. Tekið skal tillit til flokkunar og minnkunarþátta, sem af flokkun leiðir. Gjöld mega aldrei vera hærri en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

 Bæjarstjórn er heimilt að setja upp gjaldskrárflokka fyrir mismunandi þjónustu, með það að markmiði að draga úr magni úrgangs og umfangi sem fer til urðunar.

 Bæjarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda. Í gjaldskránni skal vísa til þessarar samþykktar.

 III. kafli

 Ýmis ákvæði.

 8. gr.

 Kvartanir.

 Hafi húsráðandi kvörtun fram að færa vegna sorphirðu, skal hann koma henni á framfæri við framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs Árborgar eða framkvæmdaaðila.

 9. gr.

 Viðurlög.

 Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 40. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 10. gr.

 Gildistaka.

 Samþykkt þessi er sett samkvæmt ákvæðum 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi. Við gildistöku samþykktarinnar fellur úr gildi samþykkt nr. 188/2007 um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Árborg.

 Umhverfisráðuneytinu, 1. febrúar 2010.

 F. h. r.

 Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

 Kristín R. Snorradóttir. 

B-deild – Útgáfud.: 16. febrúar 2010