Atvinnumálastefna

Atvinnumálastefna Sveitarfélagsins Árborgar

Sveitarfélagið Árborg þjónar íbúum sveitarfélagsins og öðrum þeim sem þurfa að nýta sér þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir.  Sveitarfélagið veitir þjónustu sem stenst samanburð við það sem best gerist hjá sveitarfélögum í landinu. Með því að vinna að vexti og viðgangi samfélagsins gegnir sveitarfélagið lykilhlutverki við að efla og viðhalda búsetuskilyrðum í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið Árborg er framsækið og nútímalegt sveitarfélag. Það er leiðandi aðili á Suðurlandi við að draga til sín tækifæri og nýta kosti staðsetningar sveitarfélagsins.

Atvinnumál í víðasta skilningi er málaflokkur sem framsækið sveitarfélag lætur sig miklu skipta.

Atvinnuþróunarnefnd Árborgar vinnur eftir þeirri meginstefnu:

*  að skapa samkeppnishæfan grundvöll og eðlileg vaxtarskilyrði fyrir atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu í stað þess að taka með beinum hætti þátt í starfsemi fyrirtækja.

*   að laða fyrirtæki til sveitarfélagsins í því skyni að skapa fleiri og fjölbreyttari störf fyrir þann vaxandi fjölda fólks sem kýs að setjast að í Árborg. 

Markmiðum sínum hyggst sveitarfélagið ná með eftirfarandi áherslum

*  Styrkja eftir föngum grunngerð sveitarfélagsins; viðskiptalegur og markaðslegur grunnur er fyrir hendi, verslun og þjónusta stendur vel.  Vinnumenning er góð og stöðugleiki vinnuafls er fyrir hendi í Árborg.

*  Styrkja Árborgarsvæðið sem hluta af sífellt stækkandi atvinnu-, menningar og búsetusvæði höfuðborgarinnar.

*  Beita sér fyrir stórbættum vegasamgöngum við höfuðborgina og alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.  Byggja þarf upp Suðurlandsveg nr. 1 með a.m.k. þremur akreinum frá Rauðavatni um Hellisheiði og nýja brú á Ölfusá við Selfoss austur að Þjórsá. Ljúka byggingu Suðurstrandarvegar.

* Skapa samkeppnisforskot með því að tryggja góðan aðbúnað fjölskyldunnar, ekki síst barna og aldraðra og fjölbreytta menntun fyrir fólk á öllum aldri þ.m.t. fjarkennslu á æðri skólastigum.  Beita sér fyrir eflingu heilbrigðisþjónustu.

* Skapa samkeppnisforskot með því að byggja upp skilvirkari stjórnsýslu, einfalda afgreiðslu mála og efla upplýsingagjöf í gegnum verkefnið Sunnan 3 – rafræn stjórnsýsla.

* Sjá til þess að jafnan sé skipulagslegar forsendur fyrir uppbyggingu atvinnu-starfsemi og eðlilegu og fjölbreyttu framboði af lóðum.  

* Markvissri kynningu á kostum og möguleikum sem sveitarfélagið býður uppá.

Samþykkt í atvinnuþróunarnefnd Árborgar      17.03.05