Fjölskyldustefna

Forsíða » Stjórnsýsla » Stefnur » Fjölskyldustefna
image_pdfimage_print

Fjölskyldustefna Sveitarfélagsins Árborgar

Fjölskyldustefna Sveitarfélagsins Árborgar byggir á stefnum sem sveitarfélagið hefur sett í ýmsum málaflokkum og allar eiga það sameignlegt að varða fjölskylduna með einum eða öðrum hætti. Ýmsar skilgreiningar eru til á hugtakinu fjölskylda. Á heimasíðu fjölskylduráðs er eftirfarandi skilgreining:„Fjölskyldan er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þeir eru skuldbundnir hvorum öðrum í siðferðilegri gagnkvæmri hollustu.” Sveitarfélagið Árborg leggur áherslu á að fjölskyldur njóti jafnræðis án tillits til fjölskyldugerðar og að íbúum sveitarfélagsins sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.

Sveitarfélagið Árborg rekur opna stjórnsýslu þar sem notendur þjónustu hafa aðgang að upplýsingum um starfsemi sveitarfélagsins á öllum tímum sólarhringsins. Í framtíðarsýn sveitarfélagsins er lögð áhersla á rafræn gagnvirk samskipti og aukna flutningsgetu á gögnum  með það að markmiði að auka og bæta þjónustu við fjölskyldur í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið Árborg leggur áherslu á að aðgengi fyrir alla sé sem best tryggt með almennum aðgerðum og sé eðlilegur hluti af skipulagi og þjónustu sveitarfélagsins. Með aðgengi fyrir alla er átt við aðgengi að öllum þeim þáttum sem snerta aðgang að og þátttöku í samfélaginu.

Með stofnun Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar var stefnt að því að auka samræmingu í  velferðarþjónustu sveitarfélagsins og efla hana. Sveitarfélagið Árborg leggur sérstaka áherslu á að börn og unglingar búi við öryggi og fái tækifæri til að vaxa og þroskast við sem bestar aðstæður óháð fjölskyldugerð. Sérstaklega skal hafa í huga mikilvægi þess að skapa fjölskyldum í Árborg skilyrði til að ná sem mestu jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs.

Í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert skulu framkvæmdastjórar sviða gera sameiginlega grein fyrir framkvæmd stefnunnar og hvort þörf sé endurskoðunar eða úrbóta.

Fjölskyldustefnu Árborgar er ætlað að veita yfirsýn yfir helstu áherslur sveitarfélagsins í málefnum fjölskyldunnar og samræma ákvarðanir sem snerta hagsmuni hennar með það að markmiði að styrkja fjölskylduna sem grunneiningu í samfélaginu og tryggja stöðugleika og öryggi allra meðlima hennar.

Atvinnumál

Sveitarfélagið Árborg vinnur markvisst að því að efla og viðhalda búsetuskilyrðum í sveitarfélaginu. 

Markmiðum skal náð með því að: 
*  skapa atvinnustarfsemi samkeppnishæfan grundvöll, eðlileg vaxtarskilyrði og stuðla að fleiri og fjölbreyttari störfum 
*  beita sér fyrir stórbættum samgöngum innan sveitarfélagsins sem utan 
*  bjóða upp á fjölbreytt framboð af lóðum fyrir atvinnufyrirtæki 
*  kynna kosti og möguleika sveitarfélagsins. 

Að öðru leyti vísast til atvinnumálastefnu Sveitarfélagsins Árborgar sem samþykkt var bæjarstjórn Árborgar 13. apríl 2005.

Félagsþjónusta

Sveitarfélagið Árborg leggur áherslu á að veita félagsþjónustu með heildstæðum og markvissum hætti.

Markmiðum skal náð með því að: 
* veita þjónustu sem byggir á fagmennsku og virðingu við notendur 
* við framkvæmd þjónustunnar sé þess gætt að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar 
* bjóða upp á félagslega ráðgjöf til fjölskyldna á mismunandi æviskeiðum 
* stuðla að skilningi og virðingu fyrir mismunandi menningarheimum í samfélaginu 
* styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og tryggja að börn sem búa við óviðunandi uppeldisaðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. 

Forvarnir

Í allri forvarnavinnu Sveitarfélagsins Árborgar er velferð barna og unglinga höfð í forgrunni. 

Markmiðum skal náð með því að: 
* tryggja að árlega liggi fyrir niðurstöður um vímuefnaneyslu, hagi og líðan barna og unglinga í sveitarfélaginu
* gera árlegar aðgerðaáætlanir í forvarnamálum og framfylgja þeim 
* efla enn frekar samstarf og samvinnu á sviði forvarna milli nefnda sveitarfélagsins, stofnana, félagssamtaka og hagsmunaaðila í sveitarfélaginu 
* efla forvarnafræðslu til foreldra ungra barna.

Að öðru leyti vísast til gildandi aðgerðaáætlunar í forvarnamálum í Sveitarfélaginu Árborg sem samþykkt var í bæjarráði Árborgar 22. desember 2005.

Jafnréttismál

Í jafnréttismálum leggur Sveitarfélagið Árborg metnað í að tryggja konum og körlum jöfn áhrif, tækifæri og virðingu.

Markmiðum skal náð með því að:
* gæta þess að sjónarmið beggja kynjanna komist að við stefnumótun og ákvarðanatöku á vegum sveitarfélagsins
* hlutföll kynjanna séu sem jöfnust við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélagsins * láta ekki viðgangast kynjabundinn mun á launum og öðrum kjörum karla og kvenna sem vinna jafnverðmæt og sambærileg störf hjá sveitarfélaginu 
*  leggja sérstaka áherslu á jafnréttisfræðslu í starfi á uppeldis- og fræðslustofnunum sveitarfélagsins og að stúlkur og drengir fái jöfn tækifæri á sviði menntunar, íþrótta og tómstunda 
* framfylgja að öðru leyti jafnréttisáætlun sveitarfélagsins

Ofangreind markmið eru byggð á jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Árborgar sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 7. desember 2005.

Málefni aldraðra

Í málefnum aldraðra leggur Sveitarfélagið Árborg áherslu á að aldraðir íbúar sveitarfélags geti búið í heimabyggð við öryggi, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt.

Markmiðum skal náð með því að: 
* stuðla að fjölbreytni í  búsetumöguleikum aldraðra 
* vinna markvisst að því að auka, bæta og samhæfa félagslega stoðþjónustu aldraðra í sveitarfélaginu 
* efla forvarnastarf meðal aldraðra á sviði félags-, íþrótta- og tómstundastarfs með það að 4.  beita sér fyrir fjölgun hjúkrunarrýma, aukinni samvinnu félags- og heilbrigðisþjónustu og huga sérstaklega að úrræðum fyrir minnissjúka og langveika 
* taka sérstaklega mið af þörfum aldraðra í umferðar-, skipulags- og byggingarmálum sveitarfélagsins 
*  vinna markvisst að því að hrinda í framkvæmd tillögum sem fram koma í stefnu sveitarfélagsins í málefnum aldraðra.

Ofangreind markmið eru byggð á stefnu Sveitarfélagsins Árborgar í málefnum aldraðra sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 14. maí 2003.

Menningar-, íþrótta- og  tómstundamál
Í menningar-, íþrótta- og tómstundamálum leggur Sveitarfélagið Árborg áherslu á að efla menningarstarfsemi í heimabyggð og skapa íbúum aðstöðu til að stunda tómstundir, útivist, íþróttir, heilsu- og líkamsrækt. 

Markmiðum skal náð með því að:
* styrkja menningar-, íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu
* standa að rekstri safna, tónlistarskóla og annarri menningarstarfsemi 
* skapa umgjörð fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi í sveitarfélaginu
* stuðla með markvissum hætti að aukinni þekkingu á sögu sveitarfélagsins
* standa árlega fyrir menningarhátíð sem fram fari víðs vegar í sveitarfélaginu 
* stuðla að fjölbreyttu, uppbyggilegu og þroskandi tómstundastarfi fyrir unga sem aldna íbúa sveitafélagsins 
* vinna markvisst að uppbyggingu íþróttamannavirkja sem nýtist bæði fyrir afreks- og almenningsíþróttir
* efla sérstaklega íþróttastarf barna og unglinga
* tryggja ungmennum aðstöðu til að stunda fjölbreytt, krefjandi og þroskavænlegt tómstundastarf
* stofna ungmennaráð sem verði sveitarstjórn til ráðgjafar í málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu.

Ofangreind markmið eru byggð á stefnu Sveitarfélagsins Árborgar í íþrótta- og tómstundamálum sem samþykkt var í bæjarráði Árborgar 13. ágúst 2003.

Starfsmenn Sveitarfélagsins Árborgar

Það er sameiginlegt verkefni stjórnenda og starfsmanna sveitarfélagsins að tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái þjónustu sem er með því sem best gerist á hverjum tíma. Áhersla er lögð á að virkja mannauðinn á hverjum vinnustað, starfseminni, íbúum og starfsmönnum til heilla.

Markmiðunum skal náð með því að:
* starfsmenn búi við góð vinnuskilyrði, hvetjandi starfsumhverfi, gott upplýsingaflæði og  möguleika á sí- og endurmenntun
* skapa starfsmönnum skilyrði til að ná sem mestu jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs 
* starfsmenn sýni ábyrgð, frumkvæði og gott viðmót gagnvart íbúum 
* framfylgja fyrirmælum starfsmannastefnu Árborgar.

Ofangreind markmið eru byggð á starfsmannastefnu Sveitarfélagsins Árborgar sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 12. október 2005.

Umhverfis-, byggingar- og skipulagsmál
Í umhverfis-, byggingar- og skipulagsmálum vinnur Sveitarfélagið Árborg markvisst að því að skapa umhverfis- og fjölskylduvænt samfélag og stuðla að jafnvægi milli íbúa og náttúru með það að markmiði að heildarskipulag byggðar þjóni sem best hagsmunum íbúanna.

Markmiðum skal náð með því að:
* við ákvarðanir, skipulag og rekstur sveitarfélagsins verði umhverfisvernd og sjálfbær þróun  höfð að leiðarljósi 
* fræða íbúa sveitarfélags á öllum aldri um nánasta umhverfi sitt, lífríki og möguleika á útivist í heimabyggð
* heildarskipulag byggða, t.d. skipulag gatnakerfis, útivistarsvæða og gróðurs, miði að því að auka þægindi og vellíðan íbúa 
* bjóða upp á nægilegt framboð lóða og gera ráð fyrir fjölbreytilegu íbúðarhúsnæði 
* framfylgja að öðru leyti umhverfisstefnu Árborgar og stefnu sveitarfélagsins í byggingar- og skipulagsmálum sem fram kemur í greinargerð með aðalskipulagi Árborgar 2005-2025.

Ofangreind markmið eru byggð á umhverfisstefnu Sveitarfélagsins Árborgar sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 27. janúar 2005 og aðalskipulagi Árborgar 2005-2025 sem samþykkt var bæjarstjórn Árborgar 15. janúar 2006.

Uppeldis- og fræðslumál
Í uppeldis- og fræðslumálum leggur Sveitarfélagið Árborg áherslu á metnaðarfullt fræðslu- og uppeldisstarf í  leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. 

Markmiðum skal náð með því að:
* stuðla að því að foreldrum standi til boða örugg daggæsla fyrir börn sín frá því fæðingarorlofi lýkur þar til grunnskólaganga hefst
* efla ráðgjöf og fræðslu til dagforeldra sem og eftirlit með starfsemi þeirra
* halda áfram uppbyggingu leikskóla í  sveitarfélaginu þannig að hægt verði að uppfylla þarfir fjölskyldna eftir leikskólaplássi
* halda áfram uppbyggingu grunnskóla í sveitarfélaginu
* stuðla að því að auka fjölbreytni í náms- og kennsluaðferðum í  grunnskólum sveitarfélagsins 
* styrkja samstarf heimilis og leik- og grunnskóla með markvissum hætti
* auka samstarf allra skólastiga
* leggja metnað í að framfylgja leik- og grunnskólastefnu sveitarfélagsins

Ofangreind markmið eru byggð á leikskólastefnu sveitarfélagsins sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 12. október 2005 og grunnskólastefnu sveitarfélagsins sem samþykkt var í bæjarstjórn Árborgar 12. nóvember 2003.

Fjölskyldustefna Sveitarfélagsins Árborgar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Árborgar 12 .apríl 2006.