Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar

Forsíða » Stjórnsýsla » Stefnur » Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar
image_pdfimage_print

Félagsmálanefnd/barnaverndarnefnd Árborgar
Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar
kjörtímabilið 2006-2010

Félagsmálanefnd Árborgar fer m.a. með barnaverndarmál. Í 9 gr.  barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að sveitastjórn skuli marka sér stefnu og gera framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins og skal hún send til félagsmálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu. Í slíkri áætlun skal m.a. koma fram markmið í barnaverndarstarfi, skilgreina þörf fyrir úrræðum og kostnað þeirra, mat á starfsmannaþörf og hvernig eftirliti barnaverndar með aðbúnaði og uppeldisskilyrðum barna er háttað. 

Markmið með áætlun þessari er að stuðla að vönduðum vinnubrögðum og markvissu og árangursríku barnaverndarstarfi.    Áætlunin á þannig að styrkja barnaverndarstarfið og gera það markvissara og árangursríkara.  Kostnaður við barnaverndarstarf skal vera í samræmi við fjárhagsáætlun Árborgar á hverjum tíma.  Með börnum í áætlun þessari er átt við einstaklinga 18 ára og yngri.

Markmið

Markmið í barnaverndarstarfi er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná þessum markmiðum með því að styðja fjölskyldur í uppeldishlutverkinu og beita úrræðum til að vernda einstök börn þegar það á við. Aðalmarkmiðið er  að börnum líði vel í sveitarfélaginu og að foreldrar veiti börnum sínum hlýju og aðhald á heimilinu. Velferð barna á alltaf að vera í fyrirrúmi. Barnaverndarstarf í Árborg skal ávallt miða að því að bæta aðbúnað og líðan barna í sveitarfélaginu og þjóna sem best þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Barnaverndarnefnd skal vera sýnileg í allri umfjöllun um málefni barna og skapa sér jákvæða ímynd þannig að trúnaðartraust skapist  á milli nefndarinnar og starfsmanna hennar annars vegar og íbúa og starfsmanna stofnana sem vinna með börnum hins vegar. Þannig má m.a. tryggja að allir sem vinna með börnum sinni óhikað tilkynningarskyldu barnaverndarlaga og tilkynni til barnaverndarnefndar ef grunur leikur á að börn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða stefni þroska og heilsu sinni í hættu.

Uppbygging barnaverndarstarfs

Félagsmálanefnd/barnaverndarnefnd hefur samkvæmt 4. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefndum nr. 56/2000  framselt til starfsmanna vald til að taka tilteknar ákvarðanir í barnaverndarmálum, sbr. og reglur um verkaskiptingu milli félagsmálanefndar og starfsmanna Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar frá 15. ágúst 2004.

Nefndin hefur eftirlit með störfum starfsmanna með því m.a. að fá reglulega á fundum upplýsingar um stöðu mála. Með upplýsingarnar er farið sem  trúnaðarmál:

 

 

 

 • Mánaðarlega:
  • Fjölda tilkynninga í barnaverndarmálum og ástæður, sbr. sískráningu til Barnaverndarstofu.
 • Ársfjórðungslega:
  • Fjölda áætlana
  • Fjölda fóstursamninga
  • Fjölda vistana
  • Fjölda mála sem lokið er
  • Fjölda umsagna í umgengnis-, ættleiðingar-, fóstur-, stuðningsfjölskyldu- og sumardvalarmálum

Megináhersla í starfi barnaverndar

Áhersla verður lögð á að barnaverndarmál verði unnin af fagmennsku og hlutlægni með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og að þess sé ávallt gætt að vinna mál í samstarfi og samvinnu við foreldra eins og kostur er hverju sinni.

Börn eiga rétt á vernd gegn líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem og vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit. Uppbygging barnaverndarstarfsins  beinist að því að tryggja þessi grundvallarréttindi barna. Það er gert með því að efla foreldra og styrkja þá til að takast á við uppeldishlutverkið. Barnaverndarstarf skal miða að því að tryggja börnum eðlilegan uppvöxt og þroska.

Þegar starfsmenn barnaverndar fá tilkynningu um að barn búi við óviðunandi uppeldiskilyrði eða barn stefni heilsu og þroska í hættu skal tekin ákvörðun um hvort bregðast þurfi við strax, að öðrum kosti skal það gert á næsta vikulega meðferðarfundi. Mál telst barnaverndarmál þegar tekin hefur verið formleg ákvörðun um að hefja könnun máls. Könnun máls skal aldrei vera umfangsmeiri en þörf krefur. Ef þörf er á stuðningi er gerð áætlun um frekari meðferð málsins í samvinnu við hluteigandi aðila.

Við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni gerir verkefnisstjóri félagslegrar ráðgjafar starfsáætlun í samvinnu við starfsmenn og nefndina en þar verða skilgreind þau verkefni sem fyrirhuguð eru á starfsárinu. Leitast skal við að bregðast við aðstæðum hverju sinni og laga starfið að þörfum skjólstæðings.

Leiðir að markmiðum

 • Kynna feril og vinnslu barnaverndarmála og tilkynningarskyldu bæði fyrir íbúum sveitarfélagsins og starfsfólki stofnana sem vinna að málefnum barna. Mikilvægt er að almenningur og starfsmenn stofnana þekki vinnuferla í barnaverndarstarfi og sé upplýst um tilkynningarskylduna. Með því er stuðlað að aukinni samábyrgð í samfélaginu.
 • Jákvæð ímynd barnaverndar er mikilvæg. Barnaverndarnefnd og starfsmenn hennar þurfa að vera sýnileg í allri umfjöllun um málefni barna í sveitarfélaginu. Vekja þarf athygli á jákvæðum áhrifum samverustunda fjölskyldunnar, áhættuþáttum eftirlitslausra samkvæma/partía, mikilvægi útivistartíma o.fl.
 • Samstarf við stofnanir sveitarfélagsins  sem vinna að málefnum barna og fræðsla til þeirra er mikilvægt. Vera í nánu samstarfi við sýslumannsembættið/lögreglu og aðra viðeigandi aðila varðandi skemmtanir/ hátíðahöld með tilliti til forvarna.
 • Leggja áherslu á að öll börn hafi jafnan aðgang að tómstundum óháð búsetu og fjárhag.
 • Leggja áherslu á foreldrafræðslu. Styrkja þarf foreldra í uppeldishlutverki með fræðslu og námskeiðum. Lögð verður áhersla á forvarnir og að ná til foreldra ungra barna til að byggja upp góðan grunn.
 • Aðstoða íbúa af erlendum uppruna og fræða þá um réttindi þeirra, ábyrgð og skyldur í samfélaginu sem tengjast málefnum barna.
 • Efla sjálfsálit og sköpunargleði barna, s.s. með persónulegri ráðgjöf, sjálfsstyrkingu, huga að fræðslu vegna ótímabærra barneigna hjá börnum o.fl.
 • Vinna í forvörnum gegn vímuefnum og hvers konar neyslu sem veldur áhættuhegðun.

Starfsmannaþörf

Sveitarfélagið Árborg er stækkandi sveitarfélag og í hraðri uppbyggingu. Mikilvægt er að fjöldi starfsmanna sé nægjanlegur til að sinna skyldum sveitarfélagsins í barnaverndarmálum og ná markmiðum áætlunarinnar. Áhersla er lögð á að starfsmenn séu menntaðir í samræmi við kröfur þannig að á hverjum tíma vinni að barnaverndarmálum öflugt og vel menntað starfsfólk.

Áætlaður kostnaður

Í fjárhagsáætlun hvers árs er gert ráð fyrir rekstrarkostnaði við barnavernd. Samhliða fjárhagsáætlun verður gerð starfsáætlun þar sem útfærð verða nánar þau verkefni sem fyrirhuguð eru á því ári.

Eftirlit

Í barnaverndarlögum er lögð áhersla á að barnaverndarnefnd skuli kanna aðstæður einstakra barna þegar tilefni er til fremur en að hafa beint eftirlit með högum barna almennt. Þess vegna er mikilvægt að barnaverndarnefnd, sem og starfsmenn hennar, séu í góðri samvinnu við íbúa og þá aðila sem vinna með börnum og þessir aðilar séu meðvitaðir um tilkynningarskyldu.

Eftirliti verður best háttað með því að allir taki höndum saman og láti sig varða velferð barna og að forráðamenn veiti börnum sínum umhyggju, aðhald og fylgist með aðstæðum barna sinna utan sem innan heimilis. Til að svo megi verða þarf m.a. að auka kynningu á tilkynningarskyldu og ferli barnaverndarmála, bæði meðal almennings og starfsmanna stofnana sem vinna með börnum. Mikilvægt er að barnaverndarnefnd og starfsmenn hennar séu sýnilegir þannig að allir viti hvert þeir geti leitað til að tilkynna þegar aðbúnaði og uppeldisskilyrðum barna er áfátt. Gefa skal út kynningarbækling um markmið barnaverndarstarfs og vinnslu barnaverndarmála í sveitarfélaginu.

Framkvæmdaáætlun þessi var samþykkt í félagsmálanefnd þann 26. nóvember 2007 og staðfest í bæjarráði Árborgar 6. desember 2007.