Lista- og menningarstefna

Forsíða » Stjórnsýsla » Stefnur » Lista- og menningarstefna
image_pdfimage_print

  Lista- og menningarstefna Sveitarfélagsins Árborgar 2010 – 2013

Menning er hugarfar hvers samfélags sem birtist í tjáningu og starfsemi í margvíslegu formi. Menning nær því aðeins að þróast og vaxa að íbúum sé gert sem auðveldast að njóta, taka þátt í eða upplifa þessa tjáningu og starfsemi. Það sem við í daglegu tali köllum menningu er að einhverju leyti huglæg verðmæti sem íbúarnir njóta og mæla lífsgæði sín við.

Það er því brýn nauðsyn hvers samfélags að leggja rækt við og styðja myndarlega alla þá einstaklinga, félög, samtök, stofnanir eða fyrirtæki sem starfa að menningu á einn eða annan hátt. Í menningarstarfi birtist hugur og sál samfélagsins, persónuleiki þess.

 Framtíðarsýn og grunnur að lista- og menningarstefnu Sveitarfélagsins Árborgar

 Nefnd um mótun lista- og menningarstefnu í Sveitarfélaginu Árborg hefur eftirfarandi framtíðarsýn í lista- og menningarmálum sveitarfélagsins og leggur til eftirfarandi tillögur sem grunnatriði í lista- og menningarstefnunni. 

 • Stefna þessi verði endurskoðuð fyrir lok árs 2013 með það í huga að sjá hvaða markmið hafi náðst á tímabilinu og ákvarða hvaða skref skuli taka næst til að efla lista- og menningarlíf og menningaraðstöðu í Sveitarfélaginu Árborg.
   
 • Að íbúar hafi fullnægjandi aðstöðu fyrir menningarstarf. Sveitarfélagið Árborg stefni að því að setja fram framtíðarlausn (og framkvæmdaáætlun ) um lista- og menningarhúsnæði á Selfossi sem gefur kost á fjölbreyttri menningarstarfsemi ásamt frekari nýtingu mannvirkja sem fyrir eru. Tekið verði mið af niðurstöðum og tillögum úr greiningarskýrslu frá sept. 2008 um úttekt á menningarhúsnæði í Sveitarfélaginu Árborg ,,Greining á húsnæðisþörfum menningarstarfsemi vegna tillagna um mögulegt lista- og menningarhús í Sveitarfélaginu Árborg” sem gerð var af RHA. 
   
 • Stefnt verði að því að setja á stofn „stofu”, Árborgarstofu eða stofu Tryggva Gunnarssonar í Tryggvaskála. Stofan gegni því hlutverki að auka samræmi og samþættingu í menningar-, markaðs-, ferða-, kynningar- og umhverfismálum í Sveitarfélaginu Árborg og ná þannig fram aukinni tengingu og skilvirkni milli málaflokkanna. Þetta yrði fyrsta skrefið í átt að fjölnota menningarhúsi.   Kjölfestan yrði Ölfusársetur og Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Árborg. 
   
 • Stefnt verði að því að almenningssamgöngur innan Sveitarfélagsins Árborgar verði efldar, t.d. að kvöldlagi, um helgar og á menningarhátíðum.
 • Úthlutun styrkja til viðburða og menningarstarfsemi á vegum einstaklinga eða einkaaðila verði einu sinni á ári að undangengnu umsóknarferli til lista- og menningarnefndar. Fjárstyrkir verði þrenns konar:
        a) til undirbúnings   
        b) til framkvæmda 
        c) vegna annars kostnaðar

      Einnig verði styrkir í formi þátttöku sveitarfélagsins, t.d. varðandi niðurfellingu     húsaleigu, aðkomu bæjarstarfsmanna, þátttöku stofnana, flöggun og fánaborgir o.fl. 

 • Stefnt verði að því,að „Listamaður Sveitarfélagsins Árborgar” verði útnefndur árlega úr einhverri listgrein og fái starfslaun sem nema allt að 6 mánaða launum, samkv. þeim reglum sem gilda almennt um starfslaun listamanna hjá sveitarfélögum. 
   
 • Að Sveitarfélagið Árborg stefni að því að koma upp og bjóða gestalistamönnum upp að aðstöðu til að dvelja í ákveðinn tíma til að vinna að listsköpun sinni og jafnframt að deila með og veita almenningi aðgang að list sinni.
   
 • Að staða menningar,- ferða- og kynningarmála fái aukið vægi í starfi verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála.
   
 • Að Sveitarfélagið Árborg hafi samstarf við sveitarfélög á Suðurlandi um stefnu í lista- og menningarmálum á svæðinu í heild, í samvinnu við menningarfulltrúa og menningarráð Suðurlands. Fylgst verði með þróun og nýjum tækifærum til eflingar lista- og menningarmálum í tengslum við Markaðsstofu Suðurlands og Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja. 
   

Í stefnunni, sem hér fer á eftir, er „menning” skilgreind í eftirfarandi þætti: sjónlist, tónlist, ritlist, leiklist, reglulegar hátíðir, samkomur og viðburði, söfn og sýningar, börn, ungmenni, eldri borgara, menningarminjar og náttúru. 

Markmið Sveitarfélagsins Árborgar til eflingar á eftirfarandi menningarþáttum 

Sjónlist

Hugtakið sjónlist nær yfir sköpun í þrívídd, málverk og aðra myndlist og handverk af ýmsum toga og er einhver sýnilegasti hluti listsköpunar í Sveitarfélaginu Árborg. 

 • Stefnt verði að því að kaupa eitt útilistaverk á hverju kjörtímabili og sjónlistaverk í samstarfi við Listasafn Árnesinga. Verkunum verði valinn opinber staður í eða við stofnanir á vegum Sveitarfélagsins Árborgar. Hugað verði að mögulegum staðsetningum fyrir útilistaverk framtíðarinnar í endurskoðun aðalskipulags.
   
 • Listskreytingar verði sem oftast fastur liður í nýbyggingum á vegum Sveitarfélagsins Árborgar. Gerður verði þjónustusamningur við Listasafn Árnesinga varðandi umsjón og skráningu listaverka, ráðgjöf varðandi viðhald á útilistaverkum í eigu Sveitarfélagsins Árborgar og lán á verkum til stofnana Sveitarfélagsins Árborgar.

Tónlist

Í Sveitarfélaginu Árborg er fjölbreytt tónlistarmenning og tónlistarsköpun á hér langa og merka sögu. 

 • Rekstur Tónlistarskóla Árnesinga verði tryggður áfram sem atvinnustofnun í tónlist og stutt við frumkvæði einkaaðila í tónlistarkennslu.
   
 • Að menningarhúsnæði verði sérútbúið með tilliti til tónlistarflutnings. 
   
 • Að leitast verði við að fá starfandi tónlistarmenn eða nemendur í tónlistarnámi í Sveitarfélaginu Árborg til að flytja tónlist þegar staðið er fyrir móttöku, öðrum opinberum viðburðum eða hátíðum í sveitarfélaginu.
   
 • Æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir verði fyrir hendi í samráði við félagsmiðstöð og ungmennahús.  

Ritlist

Ritlistin á sér merka sögu í Sveitarfélaginu Árborg. Margir þekktir rithöfundar koma af svæðinu og bókasöfn eru hér með þeim elstu á landinu.  

·        Bókasafn Árborgar, Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka, er ein elsta og öflugasta menningarstofnun sveitarfélagsins. Standa skal vörð um bókasafnið sem alhliða fræðslu- og upplýsingamiðstöð ásamt því að það gegni menningarlegu hlutverki.  

 • Héraðsskjalasafn Árnesinga skal varðveita heimildir og ljósmyndir um sögu Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Sandvíkurhrepps.
   
 • Að örva og hvetja til meiri sýnileika á afrakstri þeirra sem iðka ritstörf, s.s. leikritun, sögur eða ljóð og einnig þeirra sem skila góðum árangri á því sviði í grunn- og framhaldsskóla, t.d. með upplestri eða birtingu. 

Leiklist

Öflug leikfélög eru starfandi á Selfossi og í FSU. Húsnæði og aðstaða hefur helst staðið leiklistinni fyrir þrifum í Sveitarfélaginu Árborg. 

 • Stefnt verði að því að auka við húsnæði og aðstöðu til æfinga og flutnings leikverka, sbr. kafla 7.2 Leiklist í tillögum um menningarhúsnæði sem vísað er á í grunni að menningarstefnu.
   
 • Stefnt verði að því að leiklistarnámskeið, kennsla í framsögn og leikrænni tjáningu verði markviss á öllum skólastigum í Sveitarfélaginu Árborg.
   
 • Leitað verði til leikfélaga og/eða leikhópa í sveitarfélaginu eftir því sem kostur er með þátttöku í menningarhátíðum og óskað eftir samstarfi við stofnanir og fyrirtæki.
   
 • Kannað verði hvort hægt sé að skapa grunn að því að atvinnuleikhópur geti þrifist í Sveitarfélaginu Árborg. 
   
 • Stefnt verði að því að Sveitarfélagið Árborg fari með og fái hingað áhugaverðar dans- og leiksýningar svo og aðra menningarviðburði.
   
 • Stefnt verði að því að að allar opinberar leiksýningar leikhópa í Sveitarfélaginu Árborg verði teknar upp og varðveittar á Héraðsskjalasafni Árnesinga. 

Reglulegar hátíðir, samkomur og viðburðir

Hátíðir hafa verið haldnar reglulega í Sveitarfélaginu Árborg og efla þær sjálfsmynd sveitarfélagsins og kynna hana út á við.  

 • Standa þarf vörð um hátíðir sem byggja á sérstöðu, sögu, menningu og arfleifð þeirra hreppa sem nú mynda Sveitarfélagið Árborg. 
   
 • Að hátíðin, Vor í Árborg, verði áfram fastur viðburður ár hvert í Sveitarfélaginu Árborg. 
   
 • Heildarskipulag menningar- og viðburðadagatals verði unnið af verkefnisstjóra menningarmála. 
   
 • Sveitarfélagið Árborg og Samtök verslunar og þjónustu í Sveitarfélaginu Árborg (SVOÞÁ) hafi samráð og samstarf um ákveðna menningarviðburði.
   
 • Horft verði sérstaklega til haust- og vetrarmánaða við skipulagningu hátíða / viðburða en á þeim árstíma er hvað mest sóknarfæri fyrir Sveitarfélagið Árborg vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.
   
 • Menningarlegum samskiptum við vinabæi verði viðhaldið. 

Söfn og sýningar

Sveitarfélagið Árborg er aðili að Byggðasafni Árnesinga, Listasafni Árnesinga, Héraðsskjalasafni Árnesinga, rekur Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og Bókasafn Árborgar, Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka auk grunnskólasafna. Í Sveitarfélaginu Árborg eru einnig fjölbreytt og öflug einkasöfn. 
           

 • Standa skal vörð um og efla rekstur þeirra safna og setra sem sveitarfélagið er aðili að og stefna að því að efla safna- og sýningaraðstöðu á Selfossi, sbr. helstu niðurstöður og tillögur um menningarhúsnæði og hugmyndir að viðbótarhúsnæði í kafla 7.2. sem vísað er til í skýrslu RHA.
   
 • Samstarf milli safna, setra og stofnana í Sveitarfélaginu Árborg, s.s. skóla og einkasafna, verði aukið sem frekast er kostur svo sveitarfélagið geti nýtt sér þjónustu safnanna í meiri mæli.
   
 • Stefnt verði að því að komið verði á fót Ölfusársetri á Selfossi, mögulega í Tryggvaskála, þar sem sögu Ölfusár og umhverfis hennar verði gerð skil og hún varðveitt.
   
 • Stefnt skal að því að Rjómabúið á Baugsstöðum verði hluti af Byggðasafni Árnesinga.
   
 • Undirbúningi að stofnun skólasöguseturs á Eyrarbakka verði haldið áfram.
   
 • Stefnt verði að því að koma upp stofu Páls Ísólfssonar, tónskálds á Stokkseyri, sem jafnframt verði aðstaða fyrir listamenn sem vilja vinna að sköpun sinni, sbr. grunnur að menningarstefnu. 

Börn, ungmenni, eldri borgarar

Íslensk þjóðmenning hefur frá upphafi byggt á samskiptum eldri kynslóða við hinar yngri. Þannig hefur þekkingu, reynslu, mannviti og menningu verið miðlað frá einni kynslóð til annarrar.  

 • Stuðla skal að markvissum samskiptum á milli eldri íbúa Sveitarfélagsins Árborgar og þeirra yngri í gegnum skólastarf eða félagsstarf og ýmis samvinnuverkefni. 
   
 • Starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa þarf að endurskoða reglulega með það í huga að þau séu lifandi sköpunarhús, staður fræðslu, skemmtunar og skapandi vinnu á forsendum þeirra sem þau sækja. 
   
 • Stefnt skal að því að Barnamenningarsjóði Sveitarfélagsins Árborgar verði viðhaldið áfram og hann nýttur til að styrkja menningarstarf ungs fólks í sveitarfélaginu.
   
 • Listasmiðja og götuleikhús verði starfrækt á sumrin eins og verið hefur.
   
 • Ungmennaþing starfi áfram í samstarfi við ungmennaráð þar sem ungum íbúum er gefinn kostur á að ræða og álykta um hin ýmsu mál er varða þá og Sveitarfélagið Árborg. Ályktanir ungmennaþings fái afgreiðslu á sérstökum fundi bæjarstjórnar.
   
 • Eldri borgurum verði sem oftast gefinn kostur á að ræða og álykta um hin ýmsu mál er varða þá sérstaklega og Sveitarfélagið Árborg. Ályktanir þeirra fái afgreiðslu á sérstökum fundi bæjarstjórnar. 

Menningarminjar og náttúra

Á því svæði sem nú heitir Sveitarfélagið Árborg á sér rætur mikil og mögnuð menningarsaga, allt frá upphafi landnáms á Íslandi, þ.e. saga landbúnaðar, verslunar, sjósóknar og samgangna. Þessa sögu ber að varðveita og auðvelda aðgang að henni hvort sem um er að ræða heimildir, örnefni eða einstaka staði í náttúrunni. 

·        Stefnt skal að því að skerpa ímynd sögubæjarins Eyrarbakka sem ,,gamla bæjarins” í Sveitarfélaginu Árborg. 

·        Örnefnaskráningu og fornleifaskráningu verði haldið áfram eins og mögulegt er og afrakstur þeirrar skráningar gerður aðgengilegur. 

·        Stuðla skal að húsavernd í Sveitarfélaginu Árborg til verndar byggingararfi og heildstæðri götumynd í sveitarfélaginu. 

·        Stefnt skal að því að koma fyrir  upplýsingaskiltum með nöfnum húsa, sögu og arkítektúr við ,,gömul” hús á Eyrarbakka, Stokkseyri, Selfossi og í Sandvíkurhreppi.  

·        Stefna skal að varðveislu og kynningu á minjum og sögu, og varðveita minjar og sögu sem tengjast Ölfusá og umhverfi hennar. 

·        Stefna skal að skrásetningu frásagna eldri borgara og viðtöl kvikmynduð eða tekin upp.  

·        Minnisvarði um Bjarna Herjólfsson, landkönnuð frá Eyrarbakka, verði settur upp við Drepstokk í framtíðinni. 

·        Stefnt skal að uppsetningu fleiri upplýsingaskilta á sem flestum minja- og sögustöðum og bæta aðgengi með göngustígum, reiðhjólastígum og reiðgötum til að auka þekkingu og skilning íbúa og gesta á umhverfi sínu.  

·        Suðurströndin undan Eyrarbakka og Stokkseyri, sem er hverfisvernduð, er útivistarparadís sem gæta þarf að halda hreinni og ómengaðri. 

·        Stefnt skal að og standa enn frekari vörð um og auka vinnu við uppbyggingu fuglafriðlandsins í Flóagaflsmýrinni norðan Eyrarbakka, í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og önnur hlutaðeigandi samtök.