Stefna um málefni aldraðra

Forsíða » Stjórnsýsla » Stefnur » Stefna um málefni aldraðra
image_pdfimage_print

Efnisyfirlit
1. Formáli……………………………………………………bls. 2
2. Inngangur………………………………………………..bls. 4
3. Öldrunarþjónustan í Árborg………………………………bls. 6
4. Framtíðin………………………………………………….bls. 11
5. Hvað vilja aldraðir ? ………………………………………bls. 15
6. Samantekt………………………………………………..bls. 16
7. Framtíðarverkefni/tillögur…………………………………bls. 17
8. Heimildir……………………………………………………bls. 19

Fylgiskjöl: Lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra
Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga Formáli
Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar Árborgar 2002 – 2006 eru markmið í málefnum aldraðra eftirfarandi:

 • Að mörkuð verði stefna um málefni aldraðra og verkefnum verði forgangsraðað í samstarfi við þá.
 • Að fjölga búsetumöguleikum og efla stuðningsþjónustu
 • Að styrkja þjónustu við aldraða á dvalarstöðum á vegum sveitarfélagsins og heimilum þeirra svo þeir geti búið heima svo lengi sem þeir kjósa.
 • Að bæta stöðu dagvistar og félagsstarfs og auka akstursþjónustu.
 • Að fylgja því eftir að uppbygging hjúkrunardeildar verði í samræmi við nútímaþarfir. [1]

Í anda þessara markmiða var á fundi félagsmálanefndar Árborgar þann 23. júlí 2002 bókað eftirfarandi:
Með hliðsjón af niðurstöðu könnunar á húsnæðismálum og félagslegri þjónustu við aldraða í Árborg leggur Félagsmálanefnd Árborgar til að komið verði á fót 3-5 manna nefnd sem vinni að tillögum og stefnumótun um þjónustu aldraðra í Árborg.  Jafnframt leggi nefndin fram tillögur að því hvernig megi efla félagslega þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu í ljósi niðurstöðu nefndrar könnunar.  Deildarstjóri stoðþjónustudeildar verði starfsmaður nefndarinnar.  Stefnt verði að því að nefndin skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 30. desember nk.

Fundargerðin var samþykkt í bæjarráði 1. ágúst 2002 með eftirfarandi bókun:
Bæjarráð samþykkir að skipa 5 manna nefnd til að vinna að tilhögun og stefnumótun í þjónustu við aldraða í Árborg. Formaður: Ragnheiður Hergeirsdóttir. Óskað er tilnefningar frá félögum eldri borgara á Selfossi og Eyrarbakka – einum fulltrúa frá hvorum, einum fulltrúa úr öldrunarnefnd og einum fulltrúa úr félagsmálanefnd.

Nefndina skipuðu:
Ragnheiður Hergeirsdóttir, fulltrúi bæjarstjórnar Árborgar, formaður nefndarinnar, Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi félagsmálanefndar, Drífa Eysteinsdóttir, fulltrúi öldrunarnefndar, Hjörtur Þórarinsson, fulltrúi Félags eldri borgara á Selfossi, Guðfinna Sveinsdóttir, fulltrúi Félags eldri borgara á Eyrarbakka. Kristjana Sigmundsdóttir, deildarstjóri stoðþjónustudeildar Árborgar, var starfsmaður nefndarinnar.

Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 3. október 2002. Alls voru haldnir 12 fundir. Einnig var farið í heimsóknir og gestir komu á fundina. Auk þess unnu nefndarmenn úr gögnum milli funda.

Greinargerð þessi skiptist í tvo meginhluta. 
Annars vegar eru kynnt markmið laga um málefni aldraðra á Íslandi, umræða um öldrunarþjónustu í nágrannalöndunum og hvernig nú er staðið að öldrunarþjónustu í Árborg. 

Hins vegar er litið til framtíðar. Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er skoðuð og kynntar helstu niðurstöður úr könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði á högum eldri borgara í Árborg vorið 2002. Loks eru hugmyndir og tillögur um framtíðarsýn í öldrunarþjónustu í Árborg.

Inngangur
Þegar litið er til framtíðar í málefnum aldraðra er heildarsýn mikilvæg. Hver er staða mála, hvað þarf að bæta og hvernig er hægt að spá fyrir um framtíðina? Hverjar eiga megináherslur að vera?  Og ekki síst, hvað vilja aldraðir sjálfir?

Miklar breytingar hafa orðið á öldrunarþjónustu síðustu áratugi á vesturlöndum sérstaklega í húsnæðismálum og heimaþjónustu. Kröfur hafa verið um meira sjálfstæði og öryggi. Áður fyrr var fólk annað hvort heima á sínum gömlu heimilum eða á stofnun. Í dag fær fólk heimaþjónustu hvar sem það býr og aðgang að félagsstarfi við hæfi. Stefnan er að tryggja aukið sjálfstæði í búsetu- og þjónustuþáttum. Þjónustan sé ekki stofnanabundin heldur búi fólk við eðlilegt heimilislíf eins lengi og hægt er[2].

Hér á landi eru svipaðar hugmyndir um breytta búsetu og í nágrannalöndum. Hugmyndin er að aldraðir búi í húsnæði sem falli að þeirra þörfum og stuðli að sjálfstæði þeirra í stað stofnanavistar. Má þar nefna sem dæmi Seljahlíð í Reykjavík sem hefur verið rekið sem dvalarheimili á þjónustugjöldum frá ríkinu, en er nú verið að breyta í þjónustuíbúðir þar sem íbúar hafa sjálfstæðan fjárhag og borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði fyrir Árborg vorið 2002 á húsnæðismálum aldraðra eru fleiri sem kjósa það búsetuform en dvalarheimili.[3]

Í lögum um málefni aldraðra  nr. 125/1999 eru skýr markmið í þessum anda:

Markmið.
1. gr. Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða.

Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.

Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.[4]

Sami tónn er í lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga frá 1991.

X. kafli. Þjónusta við aldraða.
[38. gr.]
1) Sveitarstjórn skal stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða má. Jafnframt verði tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.

[Ákveði sveitarstjórn að fela sérstöku öldrunarmálaráði stjórn öldrunarmála, á grundvelli heimildar í lögum um málefni aldraðra, breytir það engu um þann rétt sem aldraðir eiga samkvæmt lögum þessum, þar á meðal hvað varðar málsmeðferð og málskot.]2)
   1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 31/1994, 2. gr.

[39. gr.] 1) [Félagsmálanefnd, eða öldrunarmálaráð, skal leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.]2)
1)L. 34/1997, 9. gr. 2)L. 31/1994, 2. gr.

 [40. gr.]1) Sveitarstjórn skal sjá um að félagsþjónusta aldraðra sé fyrir hendi í sveitarfélaginu eftir þörfum. Hér er m.a. átt við heimaþjónustu, félagsráðgjöf og heimsendingu matar. Jafnframt skal tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi. Í því sambandi skal lögð sérstök áhersla á fræðslu og námskeiðahald um réttindi aldraðra og aðlögun að breyttum aðstæðum sem fylgja því að hætta þátttöku á vinnumarkaði. 1)L. 34/1997, 9. gr.

[41. gr.]1) Aldraðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum en að öðru leyti fer um málefni þeirra eftir sérlögum um málefni aldraðra. 1)L. 34/1997, 9. gr..[5]

Öldrunarþjónustan í Árborg
Í reglum um félagslega heimaþjónustu í Árborg kveður við sama tón og í lögum um málefni aldraðra og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.e.a.s. að stuðla beri að virðingu fyrir einstaklingnum og auknu sjálfræði hans.

1.gr.
Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleyft að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður.

2.gr.
Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita:
– aðstoð við almennt heimilishald
– aðstoð við persónulega umhirðu
– félagslegan stuðning
– aðstoð við umönnun barna og ungmenna [6]

Áður en litið er til framtíðar er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvaða þjónusta öldruðum í Árborg stendur til boða.

Félagsleg heimaþjónusta
Nú er heimaþjónusta veitt u.þ.b. 150 heimilum í Árborg. Langflestir notendur heimaþjónustu eru aldraðir en einnig er þjónusta fyrir fatlaða, öryrkja og þá sem búa við tímabundin veikindi eða félagslega erfiðleika. Segja má að heimaþjónusta byggi á þremur þáttum:

·        Algeng heimilisverk (vikulega eða hálfsmánaðarlega)
·        Félagsleg samvera (spjallað, farið í gönguferðir o.s.frv.)
·        Yfirseta (verið heima hjá fólki sem þarf stöðuga umönnun)

Vinnutími starfsfólks er aðallega dagvinnutími, en nokkrir einstaklingar eru heimsóttir um kvöld og helgar í tengslum við vaktir í Grænumörkinni. Þar er starfsmaður öll kvöld frá 18-22 og  frá 9-12 um helgar.
Meirihluti núverandi starfsmanna hafa unnið við heimaþjónustuna árum saman og eru mjög góðir starfskraftar sem hafa oft sinnt þjónustunotendum langt umfram vinnutíma (t.d. með hringingum á kvöldin og um helgar).
Deildarstjóri stoðþjónustudeildar heldur fundi með starfsfólkinu mánaðarlega yfir vetrartímann um málefni heimaþjónustunnar. Deildarstjóri hefur einnig haft starfsmannaviðtöl einu sinni til tvisvar á ári.

Starfsdagur er árlega og einnig hefur starfsfólk átt kost á ýmsum námskeiðum.

Flokksstjóri heimaþjónustu hefur aðsetur í Grænumörk 5. Hlutverk hans er m.a. að skipuleggja viðveru starfsmanna inni á heimilum og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Einnig að leysa starfsmenn heimaþjónustu af í forföllum þeirra eins og unnt er.

Heimsendur matur
U.þ.b. 26 heimili á Selfossi fá heimsendan mat og 4 heimili á Stokkseyri og  Eyrarbakka. Mikilvægi þessarar þjónustu snýst ekki bara um næringuna, sem öllum er nauðsynleg, heldur einnig það öryggi sem fylgir því að komið sé við á heimilinu.

Dagdvöl

13.gr. 3. Dagvist aldraðra sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagvist aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Um framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir dagvist aldraðra fer skv. 16. og 17. gr.
(Lög um málefni aldraðra 125/1999)

Dagdvöl fyrir aldraða er í Grænumörk 5. Leyfi er frá Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu fyrir sjö einstaklinga í einu en að meðaltali koma þar um 13 -14 einstaklingar á viku. Nýlega hefur fengist leyfi fyrir tvo einstaklinga í viðbót frá ráðuneytinu. Dagdvöl er á daggjöldum frá ríkinu en auk þess borgar hver einstaklingur 500 kr. fyrir hvern dag sem hann dvelur þar.

Félagsstarf
Á Selfossi hefur félagsstarf verið í höndum Félags eldri borgara, með stuðningi frá sveitarfélaginu samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. Félagið gefur reglulega út dagskrá um félagstarfið auk auglýsinga í blöðum. Mest af félagsstarfinu fer fram í Grænumörk og er félagið þar með aðsetur. Þröngt hefur verið um starfsemina undanfarin ár vegna fjölgunar eldri borgara í sveitarfélaginu og nágrenni. Einnig er stundað félagsstarf á Eyrarbakka og Stokkseyri og sér sveitarfélagið fyrir aðstöðu til þess.

„Verndað“ húsnæði
Á Selfossi eru 16 leiguíbúðir fyrir aldraða í Grænumörk 1 og 3. Ekki eru sérstakar reglur til um úthlutun þeirra íbúða. Í Grænumörk 5 eru 22 kaupleiguíbúðir og 2 leiguíbúðir. Í Grænumörk hefur umsjónarmaður húsanna viðveru virka daga frá 8 – 16. Heimaþjónusta er um kvöld og helgar sem fyrr segir. Margir íbúar eru með öryggishnappa. Unnið er að því að auka þjónustu í Grænumörk eftir könnun í janúar 2003 meðal íbúa þar á þörf fyrir næturvakt, en tæp 90% svarenda töldu þörf fyrir hana .[7]

Stofnanir
Ljósheimar á Selfossi eru hjúkrunardeild HsS fyrir aldraða með 26 rými, en undanfarin ár hafa ekki öll rýmin verið í notkun, m.a. vegna ástands húsnæðisins.

Á Eyrarbakka eru Sólvellir sem er einkarekin stofnun á daggjöldum frá ríkinu. Þetta er þjónustuhúsnæði (dvalarheimili), án hjúkrunaraðstöðu, með 17 rými.

Kumbaravogur á Stokkseyri er einnig einkarekin, en blönduð stofnun, þ.e.a.s. bæði þjónustuhúsnæði (dvalarheimili) með 22 rými og hjúkrunardeild með 24 rými.

Heimahjúkrun
Heimahjúkrun er veitt í Árborg frá Heilsugæslustöðinni á Selfossi. Deildarstjóri stoðþjónustudeildar Árborgar fundar mánaðarlega með starfsfólki heimahjúkrunar. Forstöðumaður dagdvalar og flokksstjóri í heimaþjónustu mæta til skiptis annan hvern mánuð á fundinn. Auk þess eru aðilar oft í símasambandi.

Þjónustuhópur

6. gr. Í hverju heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skal starfa þjónustuhópur aldraðra. Sveitarfélög geta sameinast um þjónustuhóp aldraðra sé það talið hagkvæmt.
Kostnaður af starfi þjónustuhóps aldraðra greiðist af sveitarfélögum á starfssvæði hans í hlutfalli við fjölda íbúa í hverju sveitarfélaganna (Lög um málefni aldraðra 125/1999)

Á heilsugæslusvæði Selfoss eru  alls 6600 íbúar, í Árborg, Hraungerðis-, Villingaholts- og Gaulverjabæjahreppum, Grafningi og hluta af Ölfusi (Árbæjarhverfi og upp með Ölfusá).

8. gr. Þjónustuhópur aldraðra skal hafa eftirtalin verkefni á starfssvæði sínu:
   1.  Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.
   2. Að gera tillögur til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu.
   3. Að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum  þá kosti sem í boði eru.
  4. Að meta vistunarþörf aldraðra, sbr. 14. og 15. gr.[8]

Í þjónustuhópi aldraðra í heilsugæsluumdæmi Selfoss eru nú Kristjana Ragnarsdóttir frá heimahjúkrun, Óskar Reykdalsson heilsugæslulæknir, Árni Guðmundsson frá Félagi eldri borgara og Kristjana Sigmundsdóttur frá félagsþjónustu Árborgar.

Hvíldarinnlagnir
Samvinna hefur verið við Ljósheima á Selfossi um hvíldarinnlagnir. Það er mikilvægt úrræði í öldrunarþjónustu fyrir aldraða sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Þá fer hinn aldraði inn á sjúkradeild, t.d. í 2 – 3  vikur í einu, og dvelur svo heima á milli. Einnig getur þetta  verið góð kynning eða aðlögun fyrir fólk sem  síðar þarf að flytjast á hjúkrunardeild eða aðra stofnun.

 ———

Þegar heimaþjónusta í Árborg á  árinu 2001 er skoðuð nánar kemur í ljós að  alls 150 heimili nutu félagslegrar heimaþjónustu (sjá töflur).

Konur virðast nota heimaþjónustu í meira mæli en karlar. Hluti af  skýringunni er sá að á 31 heimili eru hjón, en konurnar skrifaðar fyrir þjónustunni.

Eins og sjá má er meirihluti þeirra sem nota heimaþjónustu eldri borgarar eða 114 heimili af 150. Árið 1999 voru heimili eldri borgara sem nutu félagslegrar heimaþjónustu 108.  Búast má við fjölgun heimila á næstu árum. Eldra fólk flytur í meira mæli í þéttbýliskjarnana í skjól fjölskyldu og þar sem félags- og heilbrigðisþjónusta er til staðar, en Selfoss er dæmigerður slíkur staður[9] . Einnig hækkar hlutfall aldraðra meðal íbúa Árborgar.

Árið 2000 voru 67 ára og eldri 10,72% af íbúatölu Árborgar, 10,87% árið 2001 og 11,04% þann 1. des 2002.

Framtíðin
Þjóðfélag allra aldurshópa  var yfirskrift alþjóðaárs aldraðra árið 1999. Þar var lögð megináhersla á fjóra þætti:

 • Breytingar einstaklinga til æviloka
 • Samskipti kynslóða
 • Framtíðaráætlanir
 • Hækkandi meðalaldur og stöðu aldraðra

Í alþjóðlegri framkvæmdaáætlun í öldrunarmálum fyrir 2002 er eitt af markmiðunum að fólk geti „elst í sinni heimabyggð“, þar sem tekið er tillit til óska einstaklinga og að húsnæði sé í boði  á viðráðanlegu verði fyrir aldraða. Einnig að stuðlað verði að því að allir aldurshópar búi saman í hverfi og mörkuð verði stefna til að auðvelda öldruðum aðgengi að þjónustu og verslun. Þar kemur fram að viðhorf til aldraðra þurfi að breytast. Öldrunarmál komi inn í námsefni skóla og kynslóðir vinni saman að verkefnum.

Annað af markmiðum framkvæmdaáætlunar er að aldraðir eigi kost á fjölbreytilegri umönnun og þjónustu og að þeir sem annast aldraða fái stuðning[10]. Á Norðurlöndum er umræðan svipuð. Í framtíðinni fari umönnun aldraðra fram inni á heimilum þeirra og því verði uppbygging húsnæðis að mæta mismunandi þörfum á hverju æviskeiði. Fjölbreytni samfélagsins geri þær kröfur að áherslu verði að leggja á sveigjanlegar lausnir sem falla að þörfum allra einstaklinga.[11]

Í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá 1999 kemur fram að þörf á þjónustu og húsnæði fyrir aldraða muni aukast en ekki er alveg ljóst hverjar þarfirnar verða. Samkvæmt könnunum  kjósi aldraðir að búa heima og ef áhersla verði lögð á gæði húsnæðis og þjónustu stuðli það að sjálfstæði einstaklinga og auknum möguleikum til að geta búið á eigin heimili en ekki á stofnun.[12] Í ljósi þessarar umræðu er ljóst að nauðsynlegt er fylgjast með breytingum á samfélaginu og endurmeta stöðugt  þörf allra aldurshópa fyrir þjónustu og húsnæði.

 ————–

Í umræðu um nútímaöldrunarþjónustu, sem og framtíðar, hér á landi og í nágrannalöndum hefur verið rætt um breytingar hjá eldri  kynslóðum. Fleiri í hverjum árgangi verða aldraðir en einnig fjölgar hraustu gömlu fólki. Í mannfjöldaspá frá Hagstofu Íslands er spáð mikilli fjölgun eldra fólks.

Samkvæmt þeim framreikningi verða Íslendingar orðnir 300.000 seint á árinu 2007, tæp 330.000 árið 2020 og rúmlega 360.000 árið 2040.

Niðurstöður framreikningsins benda til þess að fólki á ellilífeyrisaldri, 67 ára og eldri, komi til með að fjölga mikið á næstu áratugum og verður heildarfjöldi þeirra árið 2030 um 59.000, eða um tvöfalt fleiri en nú. Fólki á vinnumarkaði, 25-66 ára, kemur einnig til með að fjölga nokkuð næstu 40 árin, en þó ekki eins mikið hlutfallslega, fjöldinn fer úr tæpum 148.000 í rúm 180.000. Börnum 0–6 ára og fólki á framhaldsskólaaldri, 17–24 ára, fjölgar um 5–6% næstu 40 árin. Samkvæmt framreikningnum mun minnst fjölgun verða í aldurshópnum 7–16 ára, eða 2%.

Forsendur framreikningsins eru eftirfarandi: Gert er ráð fyrir að meðalævilengd kynjanna hækki jafnt og þétt yfir tímabilið 2003–2042 og verði orðin í lok þess 82,1 ár hjá körlum og 84,8 ár hjá konum. Í dag er meðalævilengd karla 77,6 ár og hjá konum 81,4 ár. Reiknað er með að hver kona fæði að meðaltali 2,05 börn á tímabilinu 2003–2042, en það er meðaltal áranna 1996-2000. Mikil óvissa ríkir um fjölda þeirra sem flytja búferlum milli landa. Búferlaflutningar til og frá landinu eru í núverandi framreikningi meðaltal áranna 1991–2000, eða 177 innfluttir umfram brottflutta á ári. [13]

Mannfjöldaþróun 2003 til 2043 fyrir valda aldurshópa. 67 ára línan er dökkrauð.

Hagstofa Íslands

Í  Árborg var 6161 íbúi 1.des.2002 og þar af 680 eldri en 67 ára, eða 11,04% af íbúatölu, og er það í hærra lagi en talið er „eðlilegt“ að 67 ára og eldri séu 10% af íbúafjölda. Fjölgun íbúa í Árborg á tíu ára tímabili, frá árinu 1992-2002, var 19% .

Í umræðu um öldrunarmál kemur víðast fram að allir vilja búa við öryggi þegar aldurinn færist yfir. Öryggi sem snertir heilsufar, húsnæði, fjármál og umönnun.

Markmiðið að „allir búi heima sem lengst“ hentar kannski ekki alveg öllum, því til að einstaklingur geti búið heima þarf að vera hægt að tryggja öryggi hans.  Þetta öryggi byggir á samspili margra þátta og þjónustukerfa.[14]

Þegar þjónusta við aldraða er skipulögð með þessi markmið í huga er heildaryfirsýn mikilvæg: Hver er þjónustuþörfin og hvað er í boði? Hvernig er hægt að treysta stuðningsnet hins aldraða?

Aldraðir eru  ekki samlitur, stór hópur heldur ólíkir einstaklingar á allt að því þrjátíu ára aldursbili, með ólíkan bakgrunn, ólíkar þarfir og mismunandi lífsviðhorf. Þessu má aldrei gleyma. En þegar þjónusta er skipulögð er gagnlegt að flokka notendur hennar í þrjá hópa.[15]

Forvarnarhópur:
Fólk sem er komið á eftirlaun og hefur sæmilega heilsu og færni. Sækir félagsstarf af krafti og fær kannski aðstoð við heimilisverk einu sinni  í viku eða hálfsmánaðarlega. Félagsstarfið og heimaþjónustan gefur kraft og öryggi sem frestar eða kemur í veg fyrir félagslega einangrun og kvíða sem er oft fylgifiskur eftirlaunaaldurs.

Einangraður hópur:
Fólk sem hefur ekki lengur þá færni og framtakssemi sem þarf  til að vera í forvarnarhópnum, t.d. vegna þess að sjón og heyrn hefur dofnað, svimi er yfir höfði og/eða handardofi, kvíði og/eða sorg hellist yfir, t.d. eftir ástvinamissi. Þessir þættir gera það að verkum að fólk á erfiðara með að vera í stærri hópum og að fylgjast með. Það treystir sér ekki eitt á staðinn og er upp á aðra komið með bílfar. Eftir því sem lengri tími líður er erfiðara að drífa sig. Þessi hópur þarf dagvist, akstursþjónustu, heimaþjónustu oft í viku eða innlit.

Umönnunarhópur:
Fólk sem þarf mikla umönnun, ýmist vegna líkamlegrar fötlunar eða heilabilunar. Fólk sem þarfnast umönnunar meira eða minna allan sólarhringinn í heimahúsi, með hvíldarinnlögn eða á stofnun.
Mikilvægt er að taka fram að þessir hópar skarast mjög mikið. Hver einstaklingur er sérstakur og allt þetta fólk hefur misgóða færni til að njóta lífsins, þiggja þá þjónustu sem er í boði og er með misjafnlega sterkt tengslanet í kringum um sig.

Þau úrræði sem þarf að samhæfa eru fjölmörg. Þar á meðal eru heimaþjónusta, heimahjúkrun, félagsstarf, akstursþjónusta, dagvist, hvíldarinnlagnir, þjónustuíbúðir og annað þjónustuhúsnæði. Einnig hjúkrunarheimili, sambýli fyrir heilabilaða,  hvers kyns ráðgjöf sem og aðstoð við að efla stuðningsnet þess aldraða. Þá má nefna heimsendingu matar og öryggishnappa.

Þegar talið er að aldraður einstaklingur hafi þörf fyrir þjónustu er mikilvægt að gengið sé út frá heildarsýn við þjónustumatið. Ganga skal út frá sterku hliðum einstaklingsins en ekki þeim veiku. Athuga þarf hvernig má styrkja það tengslanet sem er í kringum hann og hvaða opinberu þjónustu hann þarfnast. Þetta er mikilvægt því að opinber þjónusta er oftast bundin við dagvinnutíma og sá aldraði er því oft einn á kvöldin, á nóttu og um helgar. Annar veikleiki opinberrar þjónustu er sá að hún er ekki á einni hendi heldur ýmist frá ríki, sveitarfélagi eða jafnvel frá einkastofnunum.
—–

Hvað vilja aldraðir?
Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir bæjarstjórn Árborgar vorið 2002 komu fram óskir aldraðra. Svarhlutfall í þessari könnun var 77% sem bendir til þess að niðurstöður séu áreiðanlegar. Svör fengust frá 77 íbúum. Meðalaldur þeirra var 76,2 ár, konur voru 60%, en karlar 40%. 73% svarenda eru giftir eða í sambúð en aðrir búa einir.

Húsnæðismál
Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu vilja búa sem lengst heima, með eða án heimaþjónustu, eða 86%. Næsti kostur, sem rúmlega 10% kusu, er þjónustuíbúð, þar sem borguð eru þjónustugjöld, með sólarhringsviðveru þjónustufólks. Fæstir, eða 1%, vilja vera á dvalarheimili sem rekið er á daggjöldum frá ríkinu.

Þessi niðurstaða er mjög í anda þess sem aðrar kannanir á Íslandi og á Norðurlöndunum hafa leitt í ljós.[16] Því hefur stefna í öldrunarþjónustu verið að þróast í þá átt að aldraðir geti búið sem lengst heima með heimaþjónustu og síðan í þjónustuíbúðum þar sem íbúar greiða fyrir þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Félagsstarf
Rúmlega helmingur svarenda tekur þátt í félagsstarfi og flestir af þeim vikulega eða oftar. Konur taka áberandi meiri þátt í félagsstarfinu en karlar og er umhugsunarefni hvað veldur. Er minna framboð fyrir  karla, hafa þeir minni áhuga eða eru það aðrir félagslegir þættir? Þátttaka í félagsstarfi er ekki háð aldri sérstaklega.

Önnur mál
Þegar spurt var hvort fólk hefði áhuga á dagvist, ferðaþjónustu eða heimsóknarþjónustu kom í ljós mestur áhugi var fyrir ferðaþjónustu innan sveitarfélagsins, eða 43%, sem er eðlilegt vegna þess að þjónustan hefur fremur fjarlægst íbúðahverfin. Margir eldri borgarar sem búa í nýrri hverfum eru langt frá þjónustu  og verslun.

28% hafa áhuga á dagvist, sem er nýtt úrræði í Árborg, og ætlað er fyrir þá sem eiga erfitt með að nýta sér hið almenna félagsstarf.
20% hafa áhuga á heimsóknarþjónustu en sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa séð um hana.

Margar góðar ábendingar, sem vert er að skoða nánar, fylgdu síðan með þegar spurt var hvort áhugi væri fyrir annarri þjónustu.[17]

Samantekt
Þegar hugsað er til framtíðar í málefnum aldraðra er ljóst að miklar breytingar eru framundan. Breytt aldurssamsetning þjóða hefur í för með sér að hlutfallslega færri eru á vinnumarkaði. Fleira ungt fólk er lengi í námi og kemur seinna inn á vinnumarkaðinn og fjölmennar eldri kynslóðir munu hverfa af honum.

Nýjar kynslóðir eru að eldast, kynslóðir sem hafa vanist öðrum lífstíl en t.d. elsta kynslóðin sem nú nýtur öldrunarþjónustu. Þessi nýja kynslóð gerir aðrar kröfur, t.d. með íbúðir og umhverfi, og aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Hún hefur tileinkað sér tómstundir og áhugamál til að stunda í frítíma sem nú standa kannski ekki til boða í félagsstarfi.

Ljóst er að í þjónustu og félagsstarfi þarf meiri sveigjanleika. Þetta á ekki síst við þegar hugað er að húsbyggingum sem kosta mikla peninga. Hús sem byggð eru nú á tímum munu standa lengi. Munu þau hafa þann sveigjanleika sem fylgir breyttum áherslum nýrra kynslóða?

Þetta þarf að hafa í huga þegar mörkuð er stefna í öldrunarþjónustu. Í þeirri stefnumörkun þarf líka ávallt að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

 • Að bera virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins
 • Að einstaklingar fái að lifa við öryggi til æviloka
 • Að aldraðir íbúar geti haldið sinni mannlegu reisn
 • Að þjónusta verði í heimabyggð
 • Að við skipulagningu byggingasvæða verði hugað að blöndun kynslóða
 • Að eldri borgarar verði virkjaðir til þátttöku í samfélaginu

Árborg, í apríl 2003

Ragnheiður Hergeirsdóttir
Drífa Eysteinsdóttir                          
Sigríður Ólafsdóttir
Hjörtur Þórarinsson                             
Guðfinna Sveinsdóttir
Kristjana Sigmundsdóttir

Framtíðarverkefni/tillögur

Húsnæðismál

 • Bæta húsnæðisaðstöðu dagvistar fyrir aldraða. Stefnt verði að því að  dagvistin verði í Grænumörk og fái aukið húsnæði hið fyrsta og í framhaldi af því verði sótt um heimild til Heilbrigðis – og tryggingaráðuneytisins um fleiri rými.
 • Búsetumöguleikum fyrir aldraða verði fjölgað. Það verði gert m.a. með því að gera félagasamtökum og einkaaðilum kleift að koma upp hentugum íbúðum fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Sérstaklega verði tillit tekið til þarfa aldraðra íbúa á Stokkseyri og Eyrarbakka.
 • Íbúðum í Grænumörk verði með tímanum breytt í þjónustuíbúðir. Félagsleg heimaþjónusta, félagsstarf og heimahjúkrun verði samræmd að þörfum íbúa hverju sinni með það að markmiði að fólk geti dvalið sem lengst heima í öryggi.
 • Settar verði reglur um úthlutun leiguíbúða fyrir aldraða þar sem tillit verði til tekið félagslegra, fjárhagslegra og heilsufarslegra aðstæðna.
 • Endurmeta þarf nýtingu á húsnæði í Grænumörk 1 og 3. Athugað verði hvort hægt verði að breyta miðrými í Grænumörk 1 og 3 í íbúðir eða í aðstöðu til félagsstarfs.
 • Fjölga þarf leiguíbúðum fyrir alla aldurshópa í blandaðri byggð. Hugsað verði fyrir mismunandi þörfum fólks á öllum aldri með tilliti til aðgengis og innréttinga.
 • Aðalskipulag og deiliskipulag taki tillit til þarfa allra íbúa. Tekið verði tillit til eldri kynslóða þegar íbúðabyggð er skipulögð. Áhersla verði lögð á blandaða byggð fyrir alla aldurshópa.

Félagsstarf:

 • Komið verði á ferðaþjónustu fyrir aldraða. Unnið verði að því að aldraðir einstaklingar, sem ekki komast á eigin vegum í nauðsynlega þjónustu, eigi kost á ferðaþjónustu.
 • Grænamörk verði miðstöð félagsstarfs og þjónustu fyrir aldraða. Félög eldri borgara verði studd áfram til að hafa umsjón með félagsstarfi og tryggt verði að eldri borgarar hafi aðgang að því húsnæði sem hæfir skipulögðu félagsstarfi. Komið verði upp dreifistöðvum fyrir félags-starfið til að auðvelda íbúum Árborgar aðgang að því hvar sem þeir búa. Ekki er talið nauðsynlegt að allt félagsstarf fari fram á einum stað og hugað verði að nýtingu leiguhúsnæðis eftir þörfum hverju sinni. Auka þarf rými fyrir félagsstarf á Selfossi fyrir næsta starfsár.

Stoðþjónusta:

 • Efla félagslega heimaþjónustu. Stofna til stöðu deildarstjóra í heima-þjónustu til að bæta megi þjónustumat og eftirlit. Æskilegt að deildar-stjóri væri iðjuþjálfi. Styrkja starfsmenn í heimaþjónustu, t.d. með símenntun og bættum kjörum. Markvisst verði unnið að bættri þjónustu og betri nýtingu fjármagns.
 • Auka markvisst samvinnu milli félagslegrar heimaþjónustu, heilsugæslu og sjúkrahúss. Nauðsynlegt er að vinna að sameiginlegum útskriftafundum og hvíldarinnlögnum. Einnig verði unnið að samræmingu og þróun í umönnun langveikra í heimahúsum.
 • Auka fræðslu, ráðgjöf og stuðning við aðstandendur minnissjúkra. Þeir sem fá þann sjúkdóm þurfa mikla umönnun frá fjölskyldu og er því mikilvægt að hægt sé að sækja stuðning til opinberra aðila.
 • Upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins séu aðgengilegar. Tryggja að íbúar sveitarfélagsins þekki rétt sinn og möguleika til þjónustu svo að skortur á upplýsingum verði ekki til þess að fólk búi við lakari aðstæður en ella.
 • Fjölgað verði hjúkrunarrýmum fyrir aldraða í Árborg. Sérstaklega verði gert ráð fyrir þörfum minnissjúkra. Einnig verði fjölgað hvíldarinnlagnarrýmum. Bent er á bókun bæjarstjórnar Árborgar 9.okt. 2002:

Bæjarstjórn Árborgar fagnar áformum um að byggja hjúkrunardeild við Heilbrigðisstofnunina Selfossi.  Bæjarstjórnin bendir hins vegar á að Ljósheimar, núverandi hjúkrunardeild HsS er 26 rúma deild eins og hin nýja deild sem koma á upp.  Það virðist því ekki vera ætlun stjórnvalda að fjölga hjúkrunarrúmum á svæðinu.  Ljósheimar hafa búið við óviðunandi aðstöðu í húsnæðismálum til margra ára, auk þess sem þeir hafa ekki annað þeirri þörf sem er fyrir hjúkrunarrými.  Það er óþolandi að íbúar sveitarfélagsins og nágrannasveitarfélaga þurfi að búa við það öryggisleysi sem þessu ástandi fylgir.  Fjölgun íbúa á Árborgarsvæðinu og hlutfallsleg fjölgun aldraðra í samfélaginu krefst þess að hjúkrunarrýmum verði fjölgað frá því sem nú er. Nauðsynlegt er að fylgt verði þörfum og kröfum nútímans m.a. með því að gera ráð fyrir sérstakri deild fyrir heilabilað fólk en það er hópur sem á mjög undir högg að sækja í heilbrigðisþjónustunni.  Einnig er það eðlileg krafa að gert sé ráð fyrir einkarými fyrir alla í samræmi við nútímakröfur, þannig verði gengið út frá því að allir eigi þess kost að vera á einkastofu nema annars sé óskað.

Bæjarstjórn Árborgar telur nauðsynlegt að bregðast skjótt við vandanum og bendir á að skv. upplýsingum frá þjónustuhópi aldraðra þá liggja nú fyrir a.m.k. 13 umsóknir einstaklinga á svæði HsS sem farið hafa í vistunarmat vegna þarfar fyrir hjúkrunarrými.  Engin úrræði eru í sjónmáli fyrir það fólk.  Þetta er ástand sem ekki er sæmandi í okkar velferðarþjóðfélagi og því skorar bæjarstjórn Árborgar á heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra að huga strax að fjölgun rýma við uppbyggingu  hjúkrunardeildar við HsS.

Annað:

 • Markvisst verði unnið að samvinnu við skólana í Árborg. Markmiðið er að breyta viðhorfi til öldrunar og stuðla að samvinnu kynslóða.
 • Tekið verði mið af þörfum eldri borgara við skipulagningu á íþrótta- og útivistarsvæðum og lögð verði áhersla á þátttöku eldri borgara í almenningsíþróttum og útivist af ýmsu tagi.
 • Unnið verði áfram að góðu samstarfi við sjálfboðaliða sem sinna málefnum aldraðra og að framlag þeirra verði metið að verðleikum.

Heimildir.

1.      Aldring og eldre, gerontologisk magasin 4/99. Útg. af Universitetsforlaget AS í samarbeit med NOVA
2.      Alþjóðleg framkvæmdaáætlun í öldrunarmálum 2002. Útg. af Heilbrigðis- og  tryggingaráðuneytinu
3.      Byggðir og búseta, haustskýrsla 2002. útg. af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands
4.      Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Könnun á húsnæðismálum og félagslegri þjónustu við aldraða í Árborg. Júlí 2002
5.      Hagstofa Íslands. Mannfjöldatölur.
6.      Kristjana Sigmundsdóttir. „Áfram veginn í vagninum ek ég“.Fyrirlestur á öldrunarráðstefnu á Hvolsvelli 1999
7.      Kristjana Sigmundsdóttir. „Greinargerð vegna fyrirspurnar um þörf fyrir dvalarheimili á Selfossi.“ 19.okt.2002.
8.      Kristjana Sigmundsdóttir. „Smá samantekt um öldrunarmál“. 25.sept.2002
9.      Kristjana Sigmundsdóttir. „Greinargerð vegna áætlunar um kostnað við uppbyggingu og rekstur sambýlis fyrir heilabilaða“. 31.ágúst 2000.
10.  Könnun á viðhörfum íbúa Grænumarkar á þörf fyrir næturvakt í Grænumörk. Janúar 2003
11.  Lög um málefni aldraða 125/1999
12.  Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991
13.  Málefnasamningur milli Samfylkingar og Framsóknarflokks í meirihluta bæjarstjórnar Árborgar 2002-2006
14.  Nord:1999:26  Fremtidens boform for eldre
15.  Reglur um félagslega heimaþjónustu í Árborg . 9. febrúar 2002
16.  Samspråk inom vård och omsorg till äldre. Socialstyrelsen i Sverige 2003
17.  Sverre Bugge. „Statens satsing på bolig og omsorgstilbud for eldre“. 20.okt.2000.  Erindi á “Seminar om boligbygging for eldre “ Arkitektur og omsorg

——————————————————————————–

[1] Málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar Árborgar 2002-2006
[2] Aldring og eldre 4/99
[3] Könnun Félagsvísindastofnunar  vorið 2002
[4] Lög um málefni aldraðra nr. 125/1999
[5] Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/ 1991
[6] Reglur um félagslega heimaþjónustu í Árborg frá 09.02.02
[7] Könnun á viðhorfum íbúa Grænumarkar á þörf fyrir næturvakt í Grænumörk
[8] Lög um málefni aldraðra 125/1999
[9] Byggðir og búseta, haustskýrsla 2002
[10] Alþjóðleg framkvæmdaáætlun í öldrunarmálum fyrir 2002
[11] Statens satsing på bolig og omsorgstilbud for eldre, 2000
[12] Fremtidens boformer for eldre,1999
[13] Hagstofa Íslands
[14] „Samspråk“
[15] Kristjana Sigmundsdóttir
[16] Fremtidens boform for eldre
[17] Könnun Félagsvísindastofnunar vorið 2002