Umhverfisstefna

Forsíða » Stjórnsýsla » Stefnur » Umhverfisstefna
image_pdfimage_print

Umhverfisstefna Sveitarfélagsins Árborgar

Árborg er framsækið og nútímalegt sveitarfélag sem nýtir þau tækifæri sem staðsetning þess gefur tilefni til. Umhverfismál í víðasta skilningi eru málaflokkur nútímans sem framsækið sveitarfélag lætur sig miklu skipta. Sveitarfélagið mun því kappkosta að varðveita fjölbreytni og hreinleika náttúrunnar með vel útbúnum aðgerðum og vönduðum vinnubrögðum. Tekið verður á umhverfismálum af mikilli festu til að vera í fararbroddi í þessum mikilvæga málaflokki, öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Stefnumið:

  • Allir starfsmenn sveitarfélagsins kunni skil á umhverfisstefnu sveitarfélagsins og markmiðum henni tengdri. Þeir verði meðvitaðir um áhrif starfa sinna á umhverfið og virkir þátttakendur í að framfylgja stefnunni, í almennu starfi sem og í pólitískum ákvörðunum.
  • Fylgt verði lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál sem eiga við starfsemi sveitarfélagsins sem og öðrum ítarlegri kröfum sem sveitarfélagið sjálft mun setja sér. 
  • Stefnt skal að því að efla samkennd og bæta mannlíf meðal íbúa Árborgar. Íbúum verði auðveldað að njóta náttúru, sögu og menningarminja. 
  • Kappkostað verði að kaupa umhverfisvænar vörur og þjónustu frá aðilum sem hafa skýra og vottaða stefnu í þessum málaflokki. Við öll innkaup verður höfð hliðsjón af þessum þáttum og vægi þeirra metið. 
  • Sveitarfélagið mun vinna að áframhaldandi ræktun á trjágróðri til skjóls og útivistar. 
  • Sveitarfélagið mun vinna markvisst að því að minnka sorp með aukinni endurvinnslu. 
  • Auðvelda umferð gangandi og hjólandi vegfarenda þannig að þeir eigi örugga og greiða leið um sveitarfélagið. 
  • Öll fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir sveitarfélagið Árborg setji sér markmið til að fylgja eftir stefnu sveitarfélagsins. Stefna og markmið skulu uppfylla kröfur og staðla Umhverfisvottunar Beluga og er stefnt að árlegri úttekt. 
  • Ná almennri vakningu meðal íbúa um mikilvægi þessa málaflokks og hvetja þá til að taka höndum saman með sveitarfélaginu við að gera Árborg að umhverfisvænu sveitarfélagi.

Samþykkt í bæjarráði 27. janúar 2005
Einar Njálsson, bæjarstjóri