Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn - 27

Haldinn í Grænumörk 5, Selfossi,
16.09.2020 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Helgi Sigurður Haraldsson forseti bæjarstjórnar,
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Ari Már Ólafsson varamaður, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi, Á-lista,
Gunnar Egilsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Ari B. Thorarensen bæjarfulltrúi, D-lista,
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Helga María Pálsdóttir bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Helga María Pálsdóttir, bæjarritari
Fulltrúar ungmennaráðs:
Agnes Ósk Ægisdóttir
Ásrún Aldís Hreinsdóttir
Elín Karlsdóttir
Emilía Sól Guðmundsdóttir
Helena Freyja Segler
Kristín Ósk Guðmundsdóttir
Ólafía Ósk Svanbergsdóttir

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna fulltrúa ungmennráðs Árborgar.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir, frá ungmennaráði, tók til máls og sagði frá verkefnum ungmennaráðs og því sem áunnist hefur hjá ráðinu og framundan er.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2009530 - Tillaga frá UNGSÁ um trjárækt í sveitarfélaginu
Ungmennaráð Árborgar leggur til að fyrir hvert tré sem er höggvið niður skulu tvö tré vera gróðursett í stað þess.

Ungmennaráð Árborgar leggur til að reglur verði settar um að hvert tré sem er höggvið niður skulu gróðursett tvö í stað þess. Þetta yrði gert til þess að stuðla að trjárækt í sveitarfélaginu og til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki og stofnanir geti eytt skógum okkar án afleiðinga. Við leggjum til að sveitarfélagið setji þessa reglu strax á stofnanir og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Síðar ætti að setja þessa reglu á öll tré í sveitarfélaginu. Við viljum að sveitarfélagið okkar sé skógi vaxið og jafnvel þakið skógi.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til umhverfisnefndar.
2. 2009532 - Tillaga frá UNGSÁ um bensínstöðvar og rafhleðslustöðvar í sveitarfélaginu
Ungmennaráð Árborgar leggur til að engar fleiri bensínstöðvar verði byggðar og fjölga rafhleðslustöðvum í Árborg.

Ungmennaráð Árborgar leggur til að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að engar fleiri bensínstöðvar komi til sveitarfélagsins og þvert á móti reyni með öllu móti að bola þeim í burtu. Í stað bensínstöðva skulu hér rísa hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla o.þ.h. Við viljum gera sveitarfélagið okkar rafbílavænasta sveitarfélag á Íslandi. Þetta myndi stuðla að minnkun svifriks í bæjarkjörnum sveitarfélagsins og einnig minnka gróðurhúsaáhrif vegna útblásturs bíla með sprengihreyfla.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til eigna- og veitunefndar og skipulags- og byggingarnefndar.
3. 2009534 - Tillaga frá UNGSÁ um aukna fræðslu um jafnrétti í grunnskólum sveitarfélagsins
Ungmennaráð Árborgar leggur til að aukin fræðsla verði um jafnrétti í grunnskólum sveitarfélagsins.

Ungmennaráð Árborgar leggur til að aukin fræðsla verði um jafnrétti í skólum. Á sumrin er jafningjafræðsla í vinnuskóla Árborgar en það eru ekki allir sem taka þátt í vinnuskólanum og því finnst okkur mikilvægt að það sé líka í skólum á veturna. Það er mikilvægt að allir krakkar í grunnskólum læri um jafnrétti og hvernig það er hægt að vera á móti ójafnrétti. Fræðsla frá jafningjum gefur þeim tækifæri til að tengjast betur umræðuefninu. Við stingum upp á því að hafa allavegana einn tíma í mánuði um jafnrétti og frá jafningjum að lágmarki einu sinni á önn. Ungmennaráð Árborgar ályktar að þetta myndi minnka fordóma í sveitarfélaginu til frambúðar.

Emilía Sól Guðmundsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar.
4. 2009536 - Tillaga frá UNGSÁ um listigarð og endurbætur á leikvelli í sveitarfélaginu
Ungmennaráð Árborgar leggur til að koma fyrir listigarði ásamt því að endurbæta leikvelli í sveitarfélaginu.

Ungmennaráð Árborgar telur þörf á bæði listigarði og endurbætingu leikvalla innan sveitarfélagsins. Listigarður er aðdráttarafl og gerir sveitarfélagið fjölskylduvænna og fallegra og gæti jafnvel laðað að ferðamenn. Við viljum bæta við listigarði í Sigtúnsgarð og endurbæta leikvelli sem eru orðnir lúnir eða þarf að laga. Til dæmis leikvöllurinn hjá Tunguvegi og Kirkjuvegi og þá á Eyrarbakka bæði við sjóminjasafnið og barnaskólann. Marga leikvelli þarf að mála og laga. Það er mikilvægt að hafa góða og uppfærða leikvelli því oft getur myndast slysahætta. Einnig er gott fyrir krakka að fara út og hreyfa sig og góðir leikvellir hjálpa til löngunar við það. Leikvellir sem eru til fyrirmyndar er leikvöllurinn hjá Álalæk.

Elín Karlsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til eigna- og veitunefndar og umhverfisnefndar.
5. 2009538 - Tillaga frá UNGSÁ um að lífsleikni- og sundtíma
Ungmennaráð Árborgar leggur til að Lífsleikni og Sundtímar verði tvöfaldaðir.

Ungmennaráð Árborgar telur að sundtímar og lífsleiknitímar verði betur nýttir verði þeir tvöfaldir aðra hverja viku. Þeim yrði skipt þannig að eina vikuna væri tvöfaldur sundtími og svo hina vikuna tvöfaldur lífsleiknitími. Þetta myndi betrumbæta margt í stundatöflu nemenda því einmitt núna þurfa sumir nemendur að fara fyrr úr tíma til að ná sundrútu og þurfa að mæta seint í tímann eftir sund vegna þess að sundrútan fer á ákveðnum tíma og getur tekið allt að korter af næsta tíma. Hægt væri að nýta lífsleikni tíma í fræðslur sem oft tæki lengri tíma en 40 mínútur á borð við kynfræðslu, jafningjafræðslu og gesta fyrirlesara.

Helena Freyja Segler tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar.
6. 2009539 - Tillaga frá UNGSÁ um gangbraut yfir Engjaveg við Sigtún
Ungmennaráð Árborgar leggur til að máluð verði gangbraut yfir Engjaveg við Sigtún.

Ungmennaráð Árborgar telur að gangbraut yfir Engjaveg við Sigtún myndi bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfaranda sem ferðast þessa leið oft eða jafnvel daglega. Það skapar mikla hættu að hafa enga gangbraut á umferðamikilli götu og gæti valdið umferðaslysi. Börn hafa ekki gott fjarlægðarskyn og eiga því erfitt að greina fjarlægð bíla á fullri ferð. Yfir þessa götu er oft farið þegar sótt er þjónustu hér í kring og æskilegt væri þá að vera með gangbraut sérstaklega þegar nýr miðbær er risinn.

Agnes Ósk Ægisdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til skipulags- og byggingarnefndar.
7. 2009540 - Tillaga frá UNGSÁ um flokkun í skólum og byggingum sveitarfélagsins
Ungmennaráð Árborgar leggur til að lögð verði áhersla á flokkun í skólum og öðrum almennum byggingum sveitarfélagsins.

Ungmennaráði Árborgar finnst áhersla á flokkun nauðsynleg vegna þess að við viljum halda jörðinni hreinni og einnig viljum við fræða yngri kynslóðir mikilvægi flokkunar. Ungmennaráðið vil að flokkað verði plast, pappa, lífrænt sorp, almennt sorp og flöskur og dósir. Ástæðan fyrir því að við leggjum þetta til er sú að okkur finnst að ýta þurfi undir mikilvægi flokkunnar og þekkingu krakka á henni fyrir komandi framtíð. Bæta þyrfti líka aðstöðu í mörgum skólum og kenna þá krökkum sömuleiðis hvernig flokkunin myndi virka á hverjum stað fyrir sig. Þetta myndi líka vera skref í rétta átt og í takt við umræður um loftlagsbreytingar á seinustu árum.

Kristín Ósk Guðmundsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til umhverfisnefndar.
8. 2009541 - Tillaga UNGSÁ um laun fyrir fundarsetu og laun fyrir áheyrnarfulltrúa
Ungmennaráð Árborgar leggur til að Ungmennaráð Árborgar fái greidd full fundarsetulaun, ásamt því að fá greidd laun sem áheyrnarfulltrúar.

Ungmennaráð Árborgar leggur til að fundarlaun verði hækkuð úr hálfum í full fundarlaun. Ástæðan fyrir því að okkur finnst þetta er vegna þess að við teljum okkur vera alveg jafn mikilvæg og aðrir nefndarmenn Árborgar. Þess vegna ættu launin að vera í samræmi við það, við fundum mjög reglulega og höfum haft mikið fyrir stafni seinustu ár. Sem áheyrnarfulltrúar að þá finnst okkur að við ættum að fá borgað líkt og aðrir nefndarmeðlimir. Ungmennaráðið leggur jafn mikinn tíma, vinnu og metnað í starf sitt líkt og meðlimir annara nefnda.

Kristín Ósk Guðmundsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til bæjarráðs.
9. 2009542 - Tillaga frá UNGSÁ um úttektir og skráningu á fasteignum í sveitarfélaginu
Ungmennaráð Árborgar leggur til að gerð verði betri skil á úttektum á fasteignum í sveitarfélaginu og unnið verði markvisst að því að húsnæði sé rétt skráð.

Úttektir á húsnæði og nýbyggingum á Íslandi á að gera samkvæmt reglugerðum. Í Árborg eru ýmsar brotlamir sem betur mætti fara. Á nýjum vef sveitarfélagsins arborg.is er gagnagrunnur sem heitir landupplýsingavefur. Þar er hægt að sjá úttektir og byggingarstig húsnæðis í sveitarfélaginu. Það á að vera hægt að taka mark á opinberum gögnum en það hefur komið í ljós að þessi gögn reynast ekki alltaf rétt. Margar eldri eignir eru ekki komnar með lokaúttekt þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna sem eðlilegt er. Það eru margar eignir sem eru komnar á byggingarstig 7 þrátt fyrir að lokaúttekt hafi ekki farið fram og eiga þær ekki að komast á það stig nema að lokaúttekt hafið farið fram hjá byggingarstjóra og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Til eru úttektir sem fram hafa farið hjá byggingarfulltrúa sveitarfélagsins óviðunandi og standast ekki kröfur, verklag eða reglugerðir. Þetta er alvarlegt ástand og varhugavert fyrir sveitarfélagið með það sjónarmið að sveitarfélagið ber ábyrgð á að farið sé eftir verkferlum og vinnulagi og með því að koma í veg fyrir þann skaða sem slæm vinnubrögð geta haft í för með sér t.d. ef til skaðabóta skildi koma. Þetta getur einnig orðið til þess að sveitarfélagið verður af tekjum því ef eignir eru ekki rétt skráðar þá eru fasteignagjöldin lægri en þau ættu að vera. Breytum okar málum og gerum sveitarfélagið okkar öflugra, betra og betur í stakk búið fyrir stækkun og komandi fólksflutninga til okkar.

Ólafía Ósk Svanbergsdóttir tók til máls f.h. ungmennaráðs.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til skipulags- og byggingarnefndar.
10. 2002046 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2020 - Viðauki 6
Tillaga frá 84. fundi bæjarráðs frá 27. ágúst sl., liður 6. Spálíkan um mannfjölgun og fjárhagsáætlunargerð Tilboð frá Talnakönnun hf, dags. 21. ágúst.
Bæjarstjóri telur mikilvægt að sveitarfélagið fái í hendur öflugt tól til að spá fyrir um framtíðarþarfir; fólksfjölgun, stöðugildaþörf, tekjur og útgjöld sveitarfélagsins. Gríðarmikil íbúafjölgun gerir það áríðandi að sjá fyrir þarfir í mönnun og þjónustu. Meðfylgjandi er tilboð frá Talnakönnun sem bæjarstjóri hafði óskað eftir á fundi með fyrirtækinu.
Í fjárhagsáætlun eru til 1,5 m.kr. auk 0,5 m.kr. í móttöku erlendra gesta sem færa má á milli liða í viðaukagerð, en alls er um að ræða kostnað upp á 2,5 m.kr.
---------------------------------------------
Afgreiðslur nefnda í tengslum við þessa viðauka:

Lagt er til að tilboði Talnakönnunar verði tekið.
Bæjarráð samþykkir tillöguna en óskar eftir að unninn verði viðauki fyrir því sem upp á vantar og lagður fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Tillaga frá 30. fundi eigna- og veitunefndar frá 9. september sl., liður 6. Fjárfestingaráætlun 2020-2020.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkja hjálagðan viðauka vegna endurskoðunar og breytinga á fjárfestingaráætlun ársins 2020.

65. fundur bæjarráðs, 27. febrúar sl.:
Bæjarráð samþykkir að gerður verði ótímabundinn leigusamningur með 6 mánaða uppsagnarfresti vegna húsnæðis undir starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga að Eyrarvegi 15.

Viðauki nr. 6, 2020 var borinn undir atkvæði og samþykktur með fimm atkvæðum. Fjórir fulltrúar D-lista sitja hjá.
11. 2009483 - Reglur um innritun í grunnskóla í Árborg
Tillaga frá 25. fundi fræðslunefndar frá 9. september sl., liður 1. Reglur um innritun í grunnskóla Árborgar. Nýjar reglur sem tengjast stofnun nýs grunnskóla á Selfossi.

Fræðslunefnd samþykkir reglurnar og vísar þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Tillaga að reglum um innritun í grunnskóla var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
Reglur um innritun í grunnskóla Árborgar 7.9.2020.pdf
12. 2009518 - Reglur um skólamáltíðir frá hausti 2020
Tillaga frá 25. fundi fræðslunefndar frá 9. september sl., liður 6. Reglur um skólamáltíðir frá hausti 2020.

Fræðslunefnd samþykkir reglurnar og vísar þeim til bæjarstjórnar. Samþykkt að breyta orðalagi undir kaflanum um innheimtu.

Ari B. Thorarensen, D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tóku til máls.

Tillaga að reglum um skólamáltíðir var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
Reglur um skólamáltíðir.pdf
13. 2006031 - Kosning í embætti og nefndir 2020
Kosning aðal- og varafulltrúa á aðalfund SASS og HES. Fulltrúum Árborgar fjölgar nú úr 12 í 13 vegna íbúafjölgunar. Þrettándi fulltrúinn fellur í skaut D-lista skv. d´Hondts reglu.
Lagt er til að Þórhildur Dröfn Ingvarsdóttir, D-lista verði aðalmaður. Þá er lagt til að Sigríður Guðmundsdóttir, D-lista verði varamaður ásamt Gísla Árni Jónssyni, D-lista.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum

14. 2008178 - Landskipti - Nýibær 3
Tillaga frá 85. fundi bæjarráðs. Erindi af 50. fundi skipulags- og byggingarnefndar, frá 26. ágúst sl. liður 6. Landskipti - Nýibær 3. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir landskiptin fyrir sitt leiti.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að landskiptin verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
15. 2008179 - Landskipti - Nýibær Lnr 166202
Tillaga frá 85. fundi bæjarráðs. Erindi af 50. fundi skipulags- og byggingarnefndar, frá 26. ágúst sl. liður 7. Landskipti - Nýibær Lnr 166202.
Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir landskiptin fyrir sitt leiti.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að landskiptin verði samþykkt.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
16. 1909188 - Deiliskipulagsbreyting - Víkurheiði
Tillaga frá 51. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 9. september sl., liður 33. Deiliskipulagsbreyting að Víkurheiði Selfossi.

Lagt er til við Bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista tók til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
17. 1912054 - Tillaga að deiliskipulagi - Heiðarbrún 6-6b
Tillaga frá 51. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 9. september sl., liður 34. Tillaga að deiliskipulagi að Heiðarbrún 6-6b Stokkseyri.

Lagt er til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt.

Forseti leggur til að málinu verði frestað.

Tillaga um að málinu væri frestað var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
18. 2009639 - Verklagsreglur um fundarritun og birtingu gagna með fundargerðum
Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja verklagsreglur um fundarritun og birtingu gagna með fundargerðum.
Forseti leggur til að í lið 2 verði orðið "prentuð" fellt út og í lið 3 verði fellt út "í sérstökum dálki til hliðar" og þess í stað komi "þá".

Tillagan með áorðnum breytingum var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
Verklagsreglur um fundarritun.pdf
19. 1801139 - Eftirlit á móttökustað fyrir úrgang í landi Lækjamóta
Frá árinu 2008 hafa Sveitarfélagið Árborg og Umhverfisstofnun verið í samskiptum vegna urðunarstaðs í landi Lækjarmóta. Árið 2018 tók sveitarfélagið ákvörðun um láta vinna lokunaráætlun í samræmi við fyrirmæli Umhverfisstofnunar. Frá þeim tíma hefur verið unnið markvisst að því að finna lausn á frágangi á svæðinu.
Að mati bæjarlögmanns hefur Sveitarfélagið Árborg skuldbundið sig til að annast og ábyrgjast lokun móttökusvæðis fyrir óvirk jarðefni að Lækjarmótum. Hluti af lokunarferlinu er útgáfa og undirritun ábyrgðaryfirlýsingar til 30 ára sem jafngildir starfsleyfistryggingu þess efnis að sveitarfélagið ábyrgist að staðið verði við þær skyldur sem settar eru fram í lokunarfyrirmælum Umhverfisstofnunar varðandi frágang og vöktun urðunarstaðar í landi Lækjarmóta, sbr. 61. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja yfirlýsinguna.

Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista tóku til máls.

Gert var fundarhlé kl. 18.13.

Fundi fram haldið kl. 18.33

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.

Bæjarstjórn leggur fram eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn setur allan fyrirvara á að fyrirmæltar aðgerðir Umhverfisstofnunar séu viðeigandi enda hefur sveitarfélagið í gegnum tíðina meðhöndlað svæðið sem móttökusvæði fyrir óvirk jarðefni og m.a. farið í aðgerðir til að hreinsa upp rusl sem almenningur hefur losað þarna í óleyfi. Bæjarstjórn áskilur sér rétt til að fá úr því skorið hjá þar til bærum aðilum hvort tilefni sé til þeirra aðgerða sem Umhverfisstofnun mælir fyrir um.

Bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar



Fundargerðir
20. 2008002F - Skipulags og byggingarnefnd - 49
49. fundur haldinn 12. ágúst.
21. 2008004F - Eigna- og veitunefnd - 28
28. fundur haldinn 12. ágúst.
Kjartan Björnsson, D-lista tók til máls undir lið nr. 1 - Endurhönnun Ráðhúss Árborgar.
22. 2008005F - Frístunda- og menningarnefnd - 11
11. fundur haldinn 17. ágúst.
23. 2008003F - Bæjarráð - 83
83. fundur haldinn 20. ágúst.
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 10 -Fundargerðir Bergrisans bs 2020.
Kjartan Björnsson, D-lista tók til máls undir lið nr. 6- Menningarsalur á Hótel Selfossi.
24. 2008012F - Bæjarráð - 84
84. fundur haldinn 27. ágúst.
Ari B. Thorarensen, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 3 -Húsnæðismál dagdvalar í Vinaminni.
Gunnar Egilsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 6- Spálíkan um mannfjölgun og fjárhagsáætlunargerð.
25. 2008013F - Eigna- og veitunefnd - 29
29. fundur eigna- og veitunefndar frá 26. ágúst.
26. 2008009F - Fræðslunefnd - 24
24. fundur haldinn 26. ágúst.
27. 2008011F - Skipulags og byggingarnefnd - 50
50. fundur haldinn 26. ágúst.
28. 2008010F - Félagsmálanefnd - 18
18. fundur haldinn 25. ágúst.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tók til máls undir lið nr. 4- Styrkbeiðni-Sigurhæðir.
29. 2008016F - Bæjarráð - 85
85. fundur haldinn 3. september.
30. 2008015F - Umhverfisnefnd - 13
13. fundur haldinn 2. september.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista tók til máls undir lið nr. 1- Umhverfisverðlaun Árborgar 2019.
31. 2009005F - Bæjarráð - 86
86. fundur haldinn 10. september.
Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tók til máls undir lið nr. 1 - Viðbragð vegna Kórónaveirunnar og Covid-19.
Gunnar Egilsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista tóku til máls undir lið nr. 8- Undirbúningur að byggingu skóla í Björkurstykki.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:50 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica