Skólaþjónusta Árborgar

Forsíða » Stjórnsýsla » Svið og deildir » Fræðslusvið » Skólaþjónusta Árborgar
image_pdfimage_print

Skólaþjónusta Árborgar rolo_valla
– almennar upplýsingar og starfmannalisti

Í upphafi ársins 2014 tók skólaþjónusta Árborgar formlega til starfa en um er að ræða alla skólaþjónustu við leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu.  Leiðarljós skólaþjónustunnar er að þjóna fjölbreyttum þörfum barna, foreldra og starfsfólks. Þjónustan fer að mestu fram í skólunum en starfsfólkið hefur skrifstofu- og fundaraðstöðu í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2
(sími 480 1900 – netfang: skolathjonusta@arborg.is).
Áhersla er lögð á samstarf sem flestra fagaðila sem koma að þjónustunni  í Sveitarfélaginu Árborg. Skólastjóri leik- og grunnskóla ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd skólaþjónustu hvers skóla. Fræðsluyfirvöld (fræðslustjóri og fræðslunefnd) eru eftirlitsaðilar og fjalla um málefni skólaþjónustunnar á fundum fræðslunefndar.

Grunnskólabörn með málþroskaraskanir (bæklingur)

Varðandi þjónustubeiðnir til talmeinafræðinga vegna ungra barna með framburðarfrávik

Þjónustubeiðnir og eyðublöð

Fyrir leik- og grunnskóla
Þjónustubeiðni til skólaþjónustu vegna leik-/grunnskóla
Þjónustubeiðni til skólaþjónustu vegna almennrar ráðgjafar í leik- og grunnskóla 

Meginmarkmið skólaþjónustu Árborgar er að:

  • efla skóla sveitarfélagsins sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi
  • byggja upp þjónustu sem einkennist af  sameiginlegri lausnaleit fagaðila og foreldra í þeim  úrlausnarefnum sem aðilar skólasamfélagsins standa frammi fyrir
  • leggja áherslu á snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna náms-, félags- og sálræns vanda og inngrip þegar á þarf að halda
  • helstu ábyrgðaraðilar skóla-, frístunda-, félags- og heilbrigðisþjónustu styrki samstarf sitt

Nokkrir samstarfsaðilar sem koma að þjónustu við börn, foreldra og skóla í Árborg

  • Félagsþjónusta Árborgar, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2.
  • Menningar- og frístundasvið Árborgar (forvarnarteymi), Ráðhúsi Árborgar.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) en þar er meðal annars í boði iðjuþjálfun, sálfræðimeðferð og gjaldfrí unglingamóttaka fyrir 13-20 ára. Nánari upplýsingar í síma 480 5100.
  • ART teymi Suðurlands.
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands.

Eftirtaldir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa hjá skólaþjónustunni:  

2-AnnaI-2-Anna Ingadóttir, skólafulltrúi, annai@arborg.is
Verkefni þjónusturáðgjafa eru einkum á skrifstofu fræðslusviðs og skólaþjónustu. Þjónusturáðgjafi ber meðal annars ábyrgð á móttöku og skráningu þjónustubeiðna til skólaþjónustunnar, situr í móttökuteymi, kemur að mótun verklags og upplýsingamiðlun. Þá vinnur þjónusturáðgjafi að ýmsum verkefnum á skrifstofu fræðslusviðs, svo sem við gerð og vinnslu viðhorfskannana, fundarritun,  skýrslugerð, fjármálaverkefnum og ýmsum daglegum skrifstofustörfum. Anna Ingadóttir hefur lokið kennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri og er rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst.  Áður hefur Anna meðal annars lagt stund á kennslu í grunnskóla, fræðslustörf í fyrirtækjum, námskeiðahald, verkefnastjórn innflytjendamála og verið ráðgjafi hjá félagsþjónustu Árborgar.

 

aneta-stanislawa-figlarskaAneta Figlarska, ráðgjafi í kennslu barna af erlendum uppruna, sinnir ráðgjöf og fræðslu til starfsfólks leik-, grunnskóla og skólaþjónustu, foreldra og nemenda.  Helstu verkefni eru mat á stöðu nemenda í íslensku, fræðsla til foreldra af erlendum uppruna og mat á orðaforða barna. Vinna við gerð móttökuáætlunar í leik- og grunnskólum , þátttaka í fagteymi um fjölmenningu og ráðgjöf í fjölmenningarlegum kennsluháttum og starfsþróunar kennara. Aneta er með M.Ed. próf í leikskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands. Rannsókn hennar fjallaði um orðaforða tvítyngdra barna með pólsku að móðurmáli og um málumhverfi barnanna heima og í leikskóla. Aneta hefur lokið ýmsum námskeiðum, svo sem TRAS, aðferðafræði í pólskukennslu tvítyngdra barna, greining og stuðningur við nemendur með sértæka námserfiðleika og greining dyslexi (lesblindu).

Berglind Jónsdóttir, talmeinafræðingur, sinnir m.a. fræðslu, ráðgjöf, skimunum, talþjálfun og málþroskagreiningum hjá Skólaþjónustu Árborgar í 40% starfi. Hún vinnur einnig hjá Talþjálfun Suðurlands á Selfossi. Berglind tekur þátt í þverfaglegu samstarfi og skipulagi á talmeinaverkefnum í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins sem fleiri talmeinafræðingar koma að í verktöku. Hún hefur lokið prófi í talmeinafræði (magister scientiarum MS), BS prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur fengið leyfisbréf frá landlækni.

 

 

Hafdís Björk JensdóttirHafdís Björk Jensdóttir, sálfræðingur hafdisbj@arborg.is (er í fæðingarorlofi)
Helstu verkefni Hafdísar eru á sviði sálfræðilegra athugana, ráðgjafar og þverfaglegs samstarfs um málefni barna. Einnig ráðgjöf við nemendur, foreldra og kennara vegna hegðunar- og tilfinningavanda, kvíða, þunglyndis, námserfiðleika og vanlíðunar nemenda. Hafdís er með Cand.Psych. próf frá Háskólanum í Aarhus í Danmörku og hefur fengið leyfisbréf frá landlækni. Áður lauk hún B.A. prófi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri. Hafdís hefur verið í verknámi og meðferðarvinnu hjá Kvíðameðferðarstöðinni, starfað á endurhæfingardeild fyrir geðfatlaða í Noregi, unnið sem verkefnastjóri í búsetuendurhæfingu hjá Reykjavíkurborg, og unnið sem sálfræðingur á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ).

 

Hrund HarðardóttirHrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi, hrundh@arborg.is
Helstu verkefni Hrundar snúa að almennri kennslu- og sérkennsluráðgjöf til starfsfólks skóla og foreldra. Einnig ráðgjöf við gerð einstaklingsáætlana, skipulag sérkennslu í skólum, uppeldi barna, samskipti heimila og skóla, mat á stuðningsþörf, verkefni á sviði símenntunar, eflingu tengsla leik-, grunn og framhaldsskóla og situr Hrund í móttökuteymi skólaþjónustunnar. Hrund lauk B.Ed. prófi í grunnskólafræðum frá Háskólanum á Akureyri 1999. Auk þess hefur hún lokið diplómaprófum  í námi og kennslu ungra barna, sérkennslufræðum og stjórnun menntastofnana frá KHÍ og HÍ. Hrund hefur kennsluréttindi í leik- og grunnskóla og hefur lokið ýmsum námskeiðum, svo sem ART þjálfun, Uppeldi til ábyrgðar og réttindum á LOGOS lestrargreiningarforrit  auk fjölda annarra námskeiða. Hún hefur víðtæka reynslu úr skólastarfi sem starfsmaður á leikskóla, kennari í grunnskóla, deildarstjóri í grunnskóla og skólastjóri í leik- og grunnskóla. Hrund er tengiliður skólaþjónustunnar við grunnskólana ásamt skólasálfræðingunum Hafdísi Björk Jensdóttur og Lucindu Árnadóttur.

Júlíana Hilmisdóttir, leikskólaráðgjafi, juliana.hilmis@arborg.is

Helstu verkefni Júlíönu snúa að almennri ráðgjöf til starfsfólks leikskóla varðandi starfshætti og starfsþróun, einnig sinnir hún fræðslu til foreldra, aðstoðar við mat á sérkennsluþörf leikskóla, veitir ráðgjöf í starfmannamálum og rekstrarstjórnun. Júlíana tekur þátt í fag- og nemendateymum skóla og skólaþjónustu og vinnur að þróun úrræða fyrir börn í samstarfi við skóla, skólaþjónustu o.fl. Jafnframt kemur hún að verkefnum á skrifstofu fræðslusviðs á sviði leikskóla- og daggæslumála. Júlíana hefur kennsluréttindi í leikskóla og grunnskóla og hefur lokið diplómaprófi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á stjórnun menntastofnana. Hún hefur sótt fjölda námskeiða hér á landi og í útlöndum. Sem dæmi má nefna leiðtogaþjálfun og sérsniðnar lausnir á sviði sí- og endurmenntunarmála fyrir stjórnendur og vinnustaðinn í heild, leiðir til úrlausna krefjandi starfsmannamála, samningatækni, fjármál og rekstur, Vala – leikskólakerfi og Vinnustund – launakerfi. Júlíana er tengiliður skólaþjónustunnar við leikskóla ásamt Lucindu Árnadóttur, sálfræðingi.

lucinda-arnadottirLucinda Árnadóttir, sálfræðingur, lucinda@arborg.is
Helstu verkefni Lucindu eru á sviði sálfræðilegra athugana, ráðgjafar og þverfaglegs samstarfs um málefni barna. Einnig ráðgjöf við nemendur, foreldra og kennara vegna hegðunar- og tilfinningavanda, kvíða, þunglyndis, námserfiðleika og vanlíðunar nemenda. Lucinda er með cand.psych próf frá Háskóla Íslands og hefur fengið leyfisbréf frá landlækni. Áður lauk hún MS prófi í sálfræði með áherslu á klíníska barnasálfræði frá Háskóla Íslands. Lucinda hefur starfað sem sálfræðingur á Sálstofunni og verið stundakennari við sálfræðideild Háskóla Íslands í námskeiðinu Foreldraþjálfun. Lucinda situr í móttökuteymi skólaþjónustunnar og er ásamt Júlíönu Hilmisdóttur tengiliður skólaþjónustunnar við leikskólana.

 

Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur, tinna.rut@arborg.is

Helstu verkefni Tinnu eru á sviði sálfræðilegra athugana, ráðgjafar og þverfaglegs samstarfs um málefni barna. Einnig ráðgjöf við nemendur, foreldra og kennara vegna hegðunar- og tilfinningavanda, kvíða, þunglyndis, námserfiðleika og vanlíðunar nemenda. Tinna Rut er með Cand.Psych/framhaldsnám í klínískri sálfræði með áherslu á klíníska barnasálfræði og skólasálfræði frá Háskóla Íslands og hefur fengið leyfisbréf frá landlækni. Áður lauk hún B.A. í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og einnig B.Ed. í kennarafræðum (grunnskólakennari) ásamt því að vera með kennsluréttindi í framhaldsskóla. Áður hefur Tinna Rut m.a. kennt í Sunnulækjarskóla (2007-2015) og verið sálfræðingur á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar. Hún situr í móttökuteymi skólaþjónustunnar.

Þorseinn Hjartarson-Þorsteinn Hjartarson fræðslustjóri, thorsteinnhj@arborg.is

Skólaþjónustan og skrifstofa fræðslusviðs heyra undir fræðslustjóra. Hans helsta hlutverk er að stýra fræðslusviði og skólaþjónustu Árborgar og hafa yfirumsjón með framkvæmd laga, reglugerða og samþykkta um fræðslumál, svo sem um rekstur leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Fræðslustjóri fylgir eftir skólastefnu Árborgar og er ábyrgur fyrir skipulagi og starfi sérfræðiteyma sem vinna verkefni sem undir hann heyra. Fræðslustjóri er yfirmaður allra skólastjóra leik- og grunnskóla í Árborg, er starfsmaður fræðslunefndar og annast ýmis samskipti við bæjarráð, stoðþjónustudeildir og hagsmunaaðila. Fræðslustjóri sér um samninga við önnur sveitarfélög á sviði skólamála og hefur yfirumsjón með skýrslugerð og skjalamálum fræðslusviðs og skólaþjónustu. Einnig ber fræðslustjóri ábyrgð á og hefur eftirlit með framkvæmd starfs- og fjárhagsáætlana Árborgar sem heyra undir fræðslusvið. Þorsteinn hefur kennsluréttindi í grunnskóla og framhaldsskóla, er með M.Ed. próf í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands. Hann hefur margra ára reynslu sem kennari, skólastjóri og síðast sem framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts áður en hann tók við fræðslustjórastarfinu í Árborg.

Ráðgjöf frá Setri. Kennarar og þroskaþjálfar Seturs (Sérdeildar Suðurlands) í Sunnulækjarskóla veita ráðgjöf kennurum, foreldrum og starfsmönnum skólanna. Deildarstjóri Seturs er Kristín Björk Jóhannsdóttir, kristinbj@sunnulaekjarskoli.is

Talmeinaráðgjöf og talþjálfun. Nokkrir talmeinafræðingar sinna greiningu, ráðgjöf og talþjálfun leik- og grunnskólabarna í Árborg fyrir Sjúkratryggingar Íslands og skólaþjónustu. Skólaárið 2017-2018 eru það einkum talmeinafræðingar frá Tröppu, Talþjálfun Suðurlands og sjálfstæðir verktakar. Foreldrar bera alla ábyrgð á því að sækja um og að fá vottorð frá lækni vegna niðurgreiðslu Sjúkratrygginga. Því vottorði á að skila á Talþjálfun Suðurlands ásamt afriti af skýrslu talmeinafræðings. Foreldrar sækja um talþjálfun hjá Talþjálfun Suðurlands, www.talsud.is Fyrst er þó æskilegt að talmeinafræðingur á vegum skólaþjónustunnar leggi fyrir málþroskamat en slíkar umsóknir fara í gegnum viðkomandi skóla. Ef um væg framburðarfrávik er að ræða fer framburðarmat fram hjá Talþjálfun Suðurlands.