26.9.2019 | Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna í Árborg

Forsíða » Fréttir » Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna í Árborg
Aneta um stöðumat

image_pdfimage_print

Innleiðing stöðumats fyrir nemendur af erlendum uppruna er nú hafið í grunnskólum Árborgar og einnig í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Nýlega var haldið námskeið í Hljómahöll í Reykjanesbæ fyrir fulltrúa allra grunnskóla í Árborg, Reykjanesbæ og Hafnarfirði.

Námskeiðið sóttu einnig aðilar frá Fjölbrautarskóla Suðurlands, Miðju máls og læsis, Menntamálastofnun, KÍ og Fellaskóla, sem komið hafa að verkefninu. Skólaþjónusta Árborgar, fræðslusvið Reykjanesbæjar, fræðslu- og frístundaþjónusta Hafnarfjarðar hafa átt í samstarfi um þróun stöðumats fyrir nemendur af erlendum uppruna sem eru tiltölulega nýkomnir til landsins. Verkefnið gengur m.a. út á það að styrkja nám, líðan og félagslega stöðu þessara nemenda í skólum. Aneta Figlarska, Hrund Harðardóttir og Þorsteinn Hjartarson sitja í stýrihópnum fyrir hönd Árborgar.

Hlutfall nemenda af erlendum uppruna er alltaf að hækka í Sveitarfélaginu Árborg sem og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Í Vallaskóla er það um 17% og 25% í leikskólunum Álfheimum og Árbæ. Með stöðumatinu er hægt að staðsetja nemendur og auðvelda þar með kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers nemanda út frá styrkleika hans og þörfum.

Lagt er mat á fyrri þekkingu og reynslu sem og læsi og talnaskilning. Stöðumatið er sænskt að uppruna og hefur verið notað þar með góðum árangri. Vallaskóli á Selfossi, Háaleitisskóli í Reykjanesbæ og Lækjarskóli í Hafnarfirði hafa verið þátttökuskólar frá byrjun.

Nú verður hins vegar unnið að því að koma stöðumatinu í framkvæmd í öllum grunnskólum sveitarfélaganna þriggja og framhaldsskólum þeirra hefur einnig boðist þátttaka. FSu þáði boðið sem er jákvætt fyrir allt skólasamfélagið í Árborg.

Stöðumat fer einnig í leikskólana                                                                                                                                                

Nú verður stöðumatinu fylgt betur eftir og meðal þess sem verður gert er að halda sambærilegt námskeið og var í Hljómahöll fyrir alla grunnskóla í Reykjavík í næsta mánuði. Þar verða þær Aneta og Hrund meðal kennara.

Verkefnið er styrkt úr Sprotasjóði og faghópurinn fékk framhaldsstyrk v/leikskólahlutans og er þegar búinn að láta þýða sambærilegt efni fyrir leikskólana. Því verður hrint af stað í vetur með leikskólann Árbæ sem þátttökuskóla Árborgar í undirbúningnum.

Í morgunútvarpi Rásar 2, þriðjudaginn 25. september sl., var viðtal við Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur um stöðumatið sem hægt er að nálgast á vefnum:
https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822?ep=7grqq0