13.6.2018 | Sumarsmiðjur Zelsíuz fyrir börn fædd 2005-2007

Forsíða » Fréttir » Sumarsmiðjur Zelsíuz fyrir börn fædd 2005-2007

image_pdfimage_print

Félagsmiðstöðin Zelsiuz ætlar að standa fyrir sumarsmiðjum fyrir krakka sem voru í 5. -7. bekk síðastliðinn vetur. Smiðjurnar verða í boði frá 11. júní til 13. júlí. Hægt er að skrá sig í stakar smiðjur, heilan dag eða heila viku. Smiðjurnar verða með fjölbreyttu sniði eins og sést hér að neðan en meðal annars verður í boði skartgripagerð, ævintýraferðir, ýmsar leikjasmiðjur, stuttmyndagerð og matreiðslusmiðjur. Umsjón verður í höndum tveggja starfsmanna félagsmiðstöðvarinnar en einnig verða þrjár til fjórar aðstoðarmanneskjur. Nánari upplýsingar gefur Gunnar í síma: 480-1950 eða 820-4567 og á www.arborg.is. Skráning í smiðjurnar sendist á vefpóstinn kristin.olga@arborg.is. Fjöldatakmarkanir verða í hverja smiðju svo um að gera að skrá sig sem fyrst. Smiðjurnar eru frá kl 9-12 fyrri part og frá 13-16 seinni part nema annað sé tekið fram.
Verðskrá: Stök smiðja 1000 kr. Heill dagur 1500 kr. Heil vika 5000 kr.
Skráning hefst 14.maí í vefpóstfangið kristin.olga@arborg.is. Skráning telst ekki gild fyrr en greiðsla hefur borist.

SJÁ DAGSKRÁ

Brjóstsykursgerð
Í brjóstsykursgerðinni fá krakkarnir að prófa sig áfram að búa til heimagerða og gómsæta brjóstsykra. Hægt er að velja skemmtilegan lit og gott bragð og búið þá til í öllum stærðum og gerðum. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Pizzubakstur
Í pizzubakstrinum bökum við pizzabotn frá grunni og fá krakkarnir að spreyta sig í bakarahlutverkinu. Búin er til heimagerð pizzusósa og svo fá krakkarnir að velja sér sín uppáhalds álegg ofan á pizzuna. Borðað er saman í lokin. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Role play smiðja
Í Role play smiðjunni er farið í hlutverkaleiki svo sem „Dungeons and dragons“. Þar velja krakkarnir sér karakter sem þau spila með í leiknum við aðra krakka. Í spilinu lenda þau í ýmsum ævintýrum og skemmtilegum aðstæðum. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 16 – krakkar.

Minute to win it
Í Minute to win it er notast við þrautir og leiki sem voru í hinum sívinsælu samnefndu þáttum. Sem dæmi um þrautir má nefna Oreo kex þrautina, blýentakastið, bómulþrautin,
smartiesþrautin og margt fleira skemmtilegt. Hér fá krakkarnir að upplifa þáttinn sem þátttakendur. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Ferð í Efsta dal
Ferðin í Efsta dal er heill dagur þar sem lagt er af stað frá Selfossi um morguninn og keyrt í Efsta dal. Þar munum við skoða fjósið og fara í skemmtilega útileiki saman. Við munum borða nesti saman og fá okkur ís beint frá býlinu. Það verður ekki farið heim í hádeginu heldur farið beint í sund á Borg þar sem krakkarnir geta farið í hina vinsælu rennibraut og skemmt sér eftir degi. Áætluð heimkoma er um kl 15 þar sem það verður ekki hádegishlé. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Skartgripa- og lyklakippugerð
Í skartgripa- og lyklakippugerðinni munum við búa til eyrnalokka, hálsmen, armbönd, lyklakippur og aðra eins smáhluti. Hér fá listrænir tækifæri til að spreyta sig og útbúa alls kyns fallega muni sem hægt verður að taka með sér heim. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 18-20 krakkar.

Smíða- og föndursmiðja
Í smíða- og föndursmiðjunni munum við smíða og föndra fallega muni saman sem hægt verður að taka með sér heim. Krakkarnir fá að spreyta sig til að búa til það sem þeim langar undir leiðsögn smiðjustjóra. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 18 krakkar.

Hjólað í Hellisskóg
Ferðin í Hellisskóg er heill dagur þar sem við munum hjóla saman í Hellisskóg og fara í leiki í skóginum. Við munum grilla pylsur og sykurpúða inni í Stóra Helli og borða saman. Á eftir því munum við hjóla að Ingólfsfjalli þar sem við munum ganga upp. Að lokum hjólum við heim, áætluð heimkoma er um kl 15 þar sem það verður ekki hádegishlé. Ferðin hentar vel krökkum sem finnst skemmtilegt að hreyfa sig og fara í ævintýraferðir. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Gönguferð upp Ingólfsfjall
Gönguferðin upp Ingólfsfjall er í samfleti við hjólaferðina í Hellisskóg. Hjólað verður frá Hellisskógi að Ingólfjalli. Þar munum við ganga saman upp fjallið og aftur niður. Að lokum hjólum við saman til baka. Áætluð heimkoma er um kl 15 þar sem það verður ekki hádegishlé. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Capture the flag leikur
Capture the flag eða fangaðu fánann er skemmtilegur útileikur þar sem skipt er krökkunum upp í tvö lið. Hvort lið hefur það markmið að ná fána hins liðsins án þess að nokkur nái að klukka þau. Ef einhver er klukkaður fer hann í fangelsi þar til hann er frelsaður með klukki frá einhverjum úr sama liði. Við munum spila nokkrar útfærslur á leiknum. Leikurinn hentar öllum vel og skiptir mestu máli að hafa gaman saman. Við mælum með því fyrir áhugasama að skrá sig í heilan dag, þar sem leikirnir eru oft innan sama áhugasviðs. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 30 krakkar.

Hunger Games ævintýri
Hunger Games er mjög skemmtilegur einstaklingsleikur byggður á samnefndri kvikmynd. Hver og einn leikmaður hefur band um hendina sem markar líf hans. Markmið leikmannsins er að ná böndunum af öllum hinum leikmönnunum og standa uppi sem sigurvegari leiksins. Alls kyns hindranir eru á leið hans og hægt að lenda í að ódauðleg skrímsli nái honum eða jafnvel að hann finni aukalíf ef hann missir sitt. Mjög skemmtilegur leikur þar sem krakkarnir fá að spreyta sig sem þátttakendur ævintýrisins. Við munum leika leikinn í Gesthússkógi. Við mælum með því fyrir áhugasama að skrá sig í heilan dag, þar sem leikirnir eru oft innan sama áhugasviðs. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 30 krakkar.

Kókoskúlugerð
Í kókoskúlugerðinni munum við búa til nokkrar útfærslur af hinum gómsætu kókoskúlum. Krakkarnir fá að æfa sig í bakarahlutverki og fá að fara heim með nokkrar kúlur til að leyfa fjölskyldu og vinum að smakka. Allir þátttakendur fá uppskriftir heim svo hægt sé að endurtaka baksturinn aftur. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 16 krakkar.

Masterchef Árborg
Masterchef Árborg er byggt upp á svipaðan hátt og samnefndir þættir. Þátttakendur fá ákveðin hráefni sem þau fá að nýta eins og þeim einum listir. Klukkan tifar og sá sem stendur uppi með flottasta, frumlegasta og bragðbesta réttinn vinnur Masterchef Árborgar. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 16 krakkar.

Ferð í Slakka húsdýragarð
Ferðin í Slakka húsdýragarð er heill dagur þar sem farið verður að skoða hin ýmsu dýr sem leynast þar, farið á leiksvæðið og spilað minigólf. Við munum borða saman nesti og er áætluð heimkoma um kl 15 þar sem það verður ekki hádegishlé. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Vísindasmiðja
Í vísindasmiðjunni munum við prófa alls konar hluti og gera tilraunir saman. Hvað gerist þegar við setjum mentos í kók? Hvernig er hægt að búa til slím? Er hægt að búa til eldfjall úr hráefnum sem leynast í eldhúsinu? Mjög skemmtileg smiðja þar sem forvitnir vísindaáhugamenn njóta sín í botn. Takmarkað pláss í smiðjuna – 20 krakkar

Sundferð á Selfossi
Farið verður í sund á Selfossi og leikið sér saman í lauginni. Mjög gaman að fara saman sem hópur í góðu veðri. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Leiklistarsmiðja
Hér fá leiklistaráhugamenn að spreyta sig í alls konar skemmtilegum leikjum sem æfa framkomu, spuna, hugmyndaflug og leik. Hér verður hægt að prófa sig áfram í að gera stutt leikrit og æfa hin ýmsu hlutverk. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Skátasmiðja
Í þessari smiðju munum við kynnast skátum og fara í skemmtilega leiki og læra ýmislegt sniðugt. Við munum prófa að klifra í klifurgrind, binda hnúta, kveikja eld og alls kyns skemmtilega hluti. Leynist skáti í þér? Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Hönnunarsmiðja
Í þessari smiðju geta þeir sem hafa áhuga á hönnun spreytt sig í alls kyns sniðugum hlutum. Við munum til dæmis hanna bolinn sem við litum síðan samdægurs í bolagerðinni. Því mælum við með því að skrá sig allan daginn. Hægt verður að prófa sig áfram í ýmsum hlutum til að skreyta herbergið sitt, búa til falleg kerti og ýmis konar skraut sem hægt verður að taka með sér heim. Takmarkað pláss í smiðjuna – 20 krakkar

Bolagerð / Tie Dye
Í bolagerðinni fá allir bol til þess að lita eftir eigin litamynstri og gera ýmislegt fallegt. Allir fá að taka bolinn sinn með sér heim. Takmarkað pláss í smiðjuna – 20 krakkar.

Ferð í Hveragerði, aparóla, kjörís og sund
Ferðin í Hveragerði er heill dagur. Þar munum við fá að fara í stóru aparóluna yfir ánna, fá að skoða hvernig ísinn er búinn til og enda í sundi. Við munum borða saman nesti og er áætluð
heimkoma um kl 15 þar sem það verður ekkert hádegishlé. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Amazing race ratleikur
Amazing race er mjög skemmtilegur ratleikur byggður á samnefndum þáttum þar sem skipt verður krökkunum í lið. Hvert lið fær lista yfir þrautir og leiki sem veitir þeim stig. Tíminn er settur í gang og sá sem endar með flest stig vinnur leikinn. Æsispennandi og skemmtilegur leikur sem hentar öllum með áhuga á ævintýrum. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Skotbolti og brennó
Við munum fara í skotbolta og brennó með virkjum og alls kyns skemmtilegum útfærslum. Mjög skemmtileg smiðja fyrir krakka sem hafa áhuga á boltaleikjum. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Stuttmyndagerð
Stuttmyndagerðin er heill dagur þar sem kennt verður grundvallaratriði sem snúa að upptöku, myndbandsgerð og fleira. Krökkunum er skipt upp í hópa og fá verkefni sem felst í því að búa til stuttmynd út frá ákveðnum þáttum. Eftir hádegi er horft á allar myndirnar saman og haft gaman af. Takmarkað pláss í smiðjuna – 16 krakkar.

Heimsækja lögreglu og slökkvilið
Ótrúlega skemmtileg heimsókn til lögreglunnar þar sem krakkarnir fá að sjá hvernig vinnan þeirra er og fá að vita hina ýmsu hluti sem viðkemur lögreglustarfi. Skemmtileg heimsókn til slökkviliðsins og fá að sjá slökkviliðsbílinn og slönguna. Skemmtilegt fyrir alla sem hafa áhuga á að sjá þeirra starf og hugsanlega með þann draum að verða lögregla eða slökkviliðsmaður/kona í framtíðinni. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Vatnsstríð
Hið sívinsæla vatnsstríð þar sem vatnsblöðrur, vatnsbyssur, dúkur með nóg af sápuvatni er aðal uppistaða vatnsstríðsins. Ótrúlega skemmtileg smiðja þar sem enginn fer þurr heim. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Ratleikur
Í ratleiknum er skipt krökkunum upp í lið. Liðin fara víða um bæinn til þess að finna hina ýmsu miða með gátum og vísbendingum. Það lið sem nær að finna allar vísbendingarnar og
gáturnar og leysa þær fyrst vinnur. Æsispennandi og skemmtilegur leikur sem hentar öllum með áhuga á ævintýrum. Takmarkað pláss í smiðjuna – 30 krakkar.

Kajak og sund
Farið verður í ævintýraferð á Stokkseyri þar sem við munum fara á kajak og svo í sund eftir á. Ótrúlega skemmtileg ferð þar sem allir með áhuga á hreyfingu, ævintýrum eða íþróttum hafa gaman af. Takmarkað pláss í smiðjuna – 20 krakkar.

Lista- og föndursmiðja
Í lista- og föndursmiðjunni fá listrænir tækifæri til að spreyta sig í alls kyns verkefnum. Krakkarnir fá að spreyta sig til að búa til það sem þeim langar undir leiðsögn smiðjustjóra. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Sleikjógerð
Hin sívinsæla sleikjógerð þar sem krakkarnir fá að prófa sig áfram að búa til heimagerða og gómsæta sleikjóa. Hægt er að velja skemmtilegan lit og gott bragð og búið þá til í öllum stærðum og gerðum. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 24 krakkar.

Fléttur, maskar og varasalvagerð
Tilvalin smiðja fyrir þá sem hafa áhuga á því að búa til ýmis konar fallegar fléttur og annað fallegt í hárið, búa til maska sem henta þinni húð og varasalva í skemmtilegum litum. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Fimleika og danssmiðja
Í fimleika og danssmiðjunni verður farið í skemmtilegar fimleikaæfingar og lært nokkur skemmtileg dansspor og prófað sig áfram. Hægt er að búa til skemmtilegan dans í lokinn með blöndu af fimleikaæfingum og danssporum. Tilvalin smiðja fyrir þá sem hafa gaman af hreyfingu og íþróttum. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Fót- handbolta og körfubolta smiðja
Í fótbolta, handbolta og körfubolta smiðjunni verður farið í hinar vinsælu boltaíþróttir sem svo margir hafa gaman af. Við munum prófa okkur áfram með alls konar trikk og skemmtilegheit og skipta svo í lið og spila saman. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Útileikir
Í útileikjasmiðjunni munum við fara í skemmtilega leiki sem eru hvað vinsælastir utan dyra svo sem 10 skref blindandi, einakrónu, snúsnú, verpa eggjum, 1-2-3-4-5-dimmalimm og lengi mætti telja áfram. Skemmtileg smiðja fyrir alla sem hafa áhuga á skemmtilegri hreyfingu utan dyra. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 30 krakkar.

Frisbí golf
Í Frisbí golf smiðjunni verður farið í hið vinsæla Frisbí golf á 9 holu vellinum við Gesthús. Þar fá allir að spreyta sig áfram í að miða rétt og hafa gaman af. Skemmtileg smiðja fyrir alla sem hafa áhuga á skemmtilegri hreyfingu og að prófa nýja hluti. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 30 krakkar.

Bubblubolti og núðlustríð
Í þessari smiðju munum við fara í hinn sívinsæla bubblubolta og núðlustríð þar sem allir fá að leika með sundnúðlur. Skemmtileg smiðja fyrir alla sem hafa áhuga á skemmtilegri hreyfingu og að prófa nýja hluti. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 20 krakkar.

Ferð á Skátasvæði Úlfljótsvatn
Í þessari smiðju munum við fara að Úlffljótsvatni þar sem við munum prófa klifurgrindina og leiksvæðið í eigu skátanna. Eftir skemmtilega útiveru munum við svo grilla pylsur og sykurpúða áður en haldið er í sund á Borg. Skemmtileg smiðja fyrir alla sem hafa áhuga á skemmtilegri hreyfingu og útivist. Áætluð heimkoma er um kl 15 þar sem það verður ekki hádegishlé. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 30 krakkar.

Rice crispies gerð
Í rice crispies gerðinni munum við búa til nokkrar útfærslur af hinum gómsætu rice crispies kökum. Krakkarnir fá að æfa sig í bakarahlutverki og fá að fara heim með nokkrar kökur til að leyfa fjölskyldu og vinum að smakka. Allir þátttakendur fá uppskriftir heim svo hægt sé að endurtaka baksturinn aftur. Takmarkað pláss er í smiðjuna – 16 krakkar.

Lokahátíð
Á lokahátíðinni verður farið í skemmtilegan ratleik og verða óvæntar uppákomur. Við munum grilla og fagna góðu gengi á skemmtilegum sumarsmiðjum saman. Hlökkum til að sjá ykkur hress og kát  Þessi viðburður hentar öllum krökkum fædd 2005-2007 þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Takmarkað pláss er þó á lokahátíðina – 30 krakkar.