Sveitarfélagið Árborg

Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps í febrúar 1998 og er stærsta sveitarfélag á Suðurlandi.

Sveitarfélagið úthlutar lóðum undir fasteignir og sér um innviðaþjónustu, að undanskyldri rafveitu og ljósleiðara. Sveitarfélagið veitir einnig grunnþjónustu á borð við rekstur skóla, félagsþjónustu, sundlauga, bókasafna, áhaldahúss o.fl. fyrir íbúa sveitarfélagsins. Auk þess sinnir sveitarfélagið íþróttum- og tómstundum, ferðaþjónustu og menningarmálum.

Innan Sveitarfélagsins Árborgar eru fjórir grunnskólar. Þrír eru á Selfossi og einn á Stokkseyri og Eyrarbakka en hann skiptist í yngri deild á Stokkseyri og eldri deild á Eyrarbakka. Leikskólar eru sex talsins. Fimm á Selfossi, einn á Stokkseyri og Eyrarbakka með starfstöðvar í báðum kjörnum. Fjölbrautaskóli Suðurlands og Háskólafélag Suðurlands eru staðsett á Selfossi og báðar þessar stofnanir þjónusta mest allt Suðurland, en heyra ekki beint undir Sveitarfélagið Árborg.

Íþrótta-, menningar- og tómstundastarf er í miklum blóma í sveitarfélaginu. Boðið er upp á fjölbreytilegt starf í öllum byggðarkjörnum og er stöðugt verið að bæta aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Sveitarfélagið Árborg veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 5 - 17 ára, með lögheimili í Árborg, frístundastyrk vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi.

Menningarlíf er mjög líflegt í sveitarfélaginu. Á hverju ári gefur sveitarfélagið út viðburðadagatal með yfirlit yfir alla helstu viðburði í Árborg auk þess sem birtar eru viðburðadagskrár fyrir stærri viðburði í sveitarfélaginu, s.s. Menningarmánuðinn október, Vor í Árborg, Jónsmessuhátíðina á Eyrarbakka, Bryggjuhátíðina á Stokkseyri og Jól í Árborg. Auk þessa er fjölmargar hátíðir haldnar í Árborg allt árið um kring sem laða að sér innlenda og erlenda gesti.

Upplýsingar frá Hagstofu um íbúaþróun

Mannfjoldagraf2009-2020


Merki Sveitarfélags Árborgar

Nýtt byggðarmerki sveitarfélagsins Árborgar var afhjúpað við hátíðlega athöfn á Hótel Selfossi 12. nóvember 2000. Sérstök nefnd valdi merkið úr 48 tillögum sem bárust í opinni samkeppni um nýtt byggðarmerki. 

Í umsögn nefndarinnar um merkið sem varð fyrir valinu segir:
„Merkið uppfyllir skilyrði reglugerða um byggðarmerki. Í merkinu er unnið með þá hluti sem nafn bæjarfélagsins felur í sér þ.e. ÁR-BORG, nafn bæjarfélagsins tengist myndmálinu mjög sterkt þannig að nafn þess endurspeglast í merkinu sjálfu. Ölfusá er í aðalhlutverki og í fjarska sést tákn fyrir byggðina við hana.

Helsti styrkur merkisins er einfaldleikinn og gott jafnvægi er milli forma sem eru bæði sterk og ákveðin. Við fyrstu sýn gæti merkið sýnst of einfalt en í merkjahönnun er það talið ótvíræður styrkur. Fólk kemur til með að muna þetta merki eftir að það hefur séð það einu sinni.

Merkið stendur einstaklega vel í svart/hvítri útfærslu og tapar ekki neinu af einkennum sínum, merkið í bláum lit, sem er aðallitur þess, á líka vel við.Merkið hefur yfir sér nútímalegan og ferskan blæ sem er án efa gott veganesti fyrir hið nýstofnaða sveitarfélag.“

Av-arborg-logo

Höfundur merkisins er Finnur Jh. Malmquist, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Fíton.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica