Stokkseyrarkirkja

image_pdfimage_print

Kirkja hefur verið á Stokkseyri frá fornöld og átti meginhluti hreppsins kirkjusókn þangað. Stokkseyrarkirkja var Maríukirkja í kaþólskum sið og er hún fyrst nefnd í heimildum í kirknatali Páls biskups Jónssonar um 1200. Kirkjan var bændakirkja til ársins 1886 er söfnuðurinn tók við henni.

Er lokið var við að reisa kirkjuna kvað hann:
Mikið er ég minni en guð,
máske það geri syndin.
Á átta dögum alsköpuð
er nú kirkjugrindin.

Að síðustu smíðaði Sigfús brúðarbekk í kirkjuna, og mælti hann þá fram þessa vísu, sem sumir telja, orðið hafi að áhrinsorðum.

Brúðhjónin, sem byggja fyrst
bekkin þann ég laga,
óska ég að akneytist
alla sína daga.

Sonur Sigfúsar var hinn nafnkunni klerkur síra Eggert í Vogsósum.

Nokkur gamla og merka gripi á kirkjan, og má þar til nefna kirkjuklukku sem er steypt 1762 og er talin gjöf til kirkjunnar frá Brynjólfi Sigurðssyni, sýslumanni í Hjálmholti en hann var eigandi kirkjunnar á þessum tíma.

Endurbyggði hann kirkjuna 1752 og var það fyrsta timburkirkjan sem byggð var á Stokkseyri.

Kirkja sú er nú stendur er fimmta timburkirkjan sem byggð hefur verið. Hún er frá árinu 1886, timburkirkja járnklædd, 20×12 álnir að stærð og kórinn 6×6 álnir. Yfirsmiður var Jón Þórhallason trésmiður á Eyrarbakka, en tveir nemendur hans, Jón Gestsson í Villingaholti og Símon Jónsson á Selfossi leystu þar af hendi prófsmíð sína.

Margháttaðar viðgerðir hefur Stokkseyrarkirkja hlotið síðan. Upphaflega var hún klædd timbri en fyrir og eftir aldamótin 1900 var hún öll járnklædd. Árið 1910 var settur í kirkjuna stór ofn en árið 1953 rafmagnshitun. Árið 1918 var kirkjan raflýst og hún máluð að innan. Síðasta rækilega viðgerð á kirkjunni var gerð árið 1963 og var þá einnig keypt í kirkjuna pípuorgel sem tekið var í notkun við hátíðlega athöfn í kirkjunni er viðgerð hennar var lokið, 24. maí 1964. Þak kirkjunnar var endurnýjað 1981 og 1990 var kirkjunni breytt innandyra, m.a. sett parket á gólfið. Viðgerðir eru fyrirhugaðar enda langt um liðið frá síðustu stórviðgerð.

Sérstök þjóðtrú var bundin við kirkjuna í sambandi við sjósóknina á Stokkseyri. Það var gömul trú að skip mundi ekki farast á réttu sundi ef rekatré væri í sundmerkinu og kirkjan stæði opin. Var því lengi fram eftir 20. öld siður að opna kirkjuna þegar bátar voru á sjó í misjöfnu veðri.

Prestar voru heimilisfastir á Stokkseyri í kaþólskri tíð en frá því seint á 15. öld og fram til 1856 var Stokkseyri þjónað af Gaulverjabæjarprestum. Stokkseyrarprestakall var fyrst veitt 1856 Magnúsi Eiríkssyni guðfræðingi í Kaupmannahöfn en hann kom ekki til brauðsins. Næsti prestur, Björn Jónsson frá Torfastöðum, sat á Eyrarbakka en síðan sáu þrír Stokkseyrarprestar á Ásgautsstöðum, Páll Mathiesen, Gísli Thorarensen og Jón Björnsson. Hann flutti prestsetrið árið 1884 að Stóra-Hrauni og síðar til Eyrarbakka. Þar hafa Stokkseyrarprestar jafnan setið síðan. Sóknarprestar hafa verið Ólafur Helgason, Gísli Skúlason, Árelíus Níelsson, Magnús Guðjónsson og Valgeir Ástráðsson, auk afleysingapresta. Núverandi sóknarprestur er sr. Úlfar Guðmundsson.

Fyrsta orgelið sem kom í Stokkseyrarkirkju var keypt fyrir samskotafé árið 1876 og kostaði það 400 krónur. Organistar við Stokkseyrarkirkju hafa allir verið af frægri tónlistarætt en fyrstur þeirra var Bjarni Pálsson í Götu sem lærði á orgel hjá ungrú Sylvíu Thorgrímsen í Húsinu á Eyrarbakka. Bjarni gerðist svo hinn ötulasti brautryðjandi um söngmennt og orgelkennslu í héraðinu. Hann kenndi mörgum að leika orgel og voru sumir nemendur hans langt að komnir. Við fráfall Bjarna árið 1887 tók Jón Pálsson bróðir hans við. Hann varð síðar bankagjaldkeri í Reykjavík. Bróðir hans, Ísólfur Pálsson tónskáld tók þá við, en er hann fór til Reykjavíkur tók við fjórði bróðirinn Gísli Pálsson í Hoftúni. Í þrjú ár var Margrét Gísladóttir dóttir hans organisti. Síðustu áratugi hefur Pálmar Þ. Eyjólfsson tónskáld í Skipagerði verið organisti Stokkseyrarkirkju en hann hefur nýlega látið af því starfi.