Hundahald í Árborg

Forsíða » Upplýsingar » Hundahald í Árborg » Hundahald í Árborg
image_pdfimage_print

Hundahald í Árborg
Á síðustu vikum og mánuðum hefur talsvert borist af kvörtunum til Sveitarfélagsins Árborgar vegna hundahalds sem
veldur nágrönnum ónæði. Einkum hafa kvartanir vegna hundahalds í fjölbýli verið áberandi og verður hér leitast  við að kynna þær reglur sem um málið gilda.
Hundahald í fjölbýlishúsum sætir meiri takmörkunum skv. lögum og reglum en hundahald almennt, en skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu.
Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.
Allir hundar eru skráningarskyldir og þegar sótt er um skráningu hunds í fjölbýlishúsi skal fylgja skriflegt samþykki allra eigenda ef inngangur er sameiginlegur. Þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð, þá er veiting leyfis til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og/eða umferð hunds um slíkt rými stranglega bönnuð.

Hundeiganda ber að gæta þess að hundur valdi ekki ónæði, valdi ekki hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt. Þá er umráðamönnum alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn. Talsvert er um ábendingar þess efnis að hundar séu óskráðir. Brot á skráningarskyldu varðar sektum og eru þess dæmi að málum hafi verið vísað til sektarmeðferðar hjá lögreglu vegna vanrækslu á skráningu.
Hundeigendur eru hvattir til þess að skrá hunda sína.

Skráningargjald er fyrir hund  og eftirlitsgjald SJÁ GJALDSKRÁ
Gjaldið greiðist árlega frá og með næsta ári eftir skráningu hunds.
Innifalin í gjaldinu eru gjald fyrir hundahreinsun og eru hundeigendur minntir á að fara með hunda sína í hundahreinsun árlega.
Einnig er innifalin í gjaldinu ábyrgðartrygging, en sveitarfélagið ábyrgðartryggir alla skráða hunda sem greitt er eftirlitsgjald af.
Sífellt fleiri kjósa að halda hund, sér og fjölskyldu sinni til ánægju og yndisauka. Hundeigendur eru hvattir til þess að gæta þess að hundahaldið valdi öðrum ekki ónæði eða raski ró manna.
Ábendingum og fyrirspurnum  í síma 480-1900 – Sveitarfélagið Árborg