Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn - 16

Haldinn Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi,
16.10.2019 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Helgi Sigurður Haraldsson forseti bæjarstjórnar,
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi, Á-lista,
Gunnar Egilsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Sveinn Ægir Birgisson varamaður, D-lista,
Ari B. Thorarensen bæjarfulltrúi, D-lista,
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Helga María Pálsdóttir bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Helga María Pálsdóttir, bæjarritari


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 1812056 - Siðareglur kjörinna fulltrúa
Siðareglur kjörinna fulltrúa í Sveitarfélaginu Árborg. Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja reglurnar.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
2. 1909190 - Kaupsamningur - Eyrarbraut 21 og 23 Stokkseyri
Tillaga frá 48. fundi bæjarráðs Árborgar frá 26. september sl., liður 5. Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja framlagða samninga. Bæjarstjóra er falið að leggja fram nauðsynlegan viðauka við fjárhagsáætlun.
Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Gunnar Egilsson, D-lista tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
3. 1908099 - Stækkun á byggingarreit - Sílalækur 13
Tillaga frá 30. fundi skipulags- og byggingarnefndar, frá 9. október sl., liður 3. Lagt er til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
4. 1910109 - Beiðni um heimild bæjarstjórnar til að auglýsa eftir verkefnastjóra starfrænnar þróunnar
Minnisblað Helgu Maríu Pálsdóttur, bæjarritara, með beiðni um að ráða verkefnastjóra starfrænna lausna hjá Sveitarfélaginu Árborg.
Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Ari Björn Thorarensen, D-lista og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.
Tillagan voru borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 bæjarfulltrúar D-lista voru á móti.
5. 1811216 - Fjölnota íþróttahús á Selfossvelli
Tillaga frá 10. fundi eigna- og veitunefndar frá 9. október sl. liður 8.
Meirihluti eigna- og veitunefndar leggur til við bæjarstjórn að tilboði lægstbjóðenda verði tekið og að sviðsstjóra Mannvirkja- og umhverfissviðs verði falið að ganga til samninga við lægstbjóðendur svo fremi að þeir uppfylli kröfur útboðsgagna.

Niðurstaða vinnu sem KPMG vann í júlí sl. sýnir að ekki þörf á sérstakri úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Fjárfestingin telst vera um 16% af skatttekjum sveitarfélagsins og því undir 20% viðmiðs sveitarstjórnarlaga.
Gert er ráð fyrir þessari fjármögnun í 4ra ára áætlun sveitarfélagsins og að fjárfestingunni verði mætti með skatttekjum og lántökum.

Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista og Ari Björn Thorarensen, D-lista tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 bæjarfulltrúar D-lista voru á móti.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

Sögulegum áfanga er nú náð með samþykkt meirihluta bæjarstjórnar um að heimila byggingu fyrsta áfanga Íþróttamiðstöðvar við Engjaveg á Selfossi. Fullbyggð mun Íþróttamiðstöðin verða yfir 20.000 fermetrar að stærð og rúma meðal annars aðstöðu fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð, handbolta- og fimleikahöll, líkamsrækt, bardagaíþróttir auk aðstöðu fyrir fleiri íþróttagreinar og einnig mun hún nýtast til sýningar- og tónleikahalds. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við Íþróttamiðstöðina við Engjaveg verði að fullu lokið árið 2030.
Fyrsti áfangi Íþróttamiðstöðvarinnar sem nú var samþykkt að hefja framkvæmdir við er fjölnota íþróttahús sem er um 6.500 fermetrar að stærð og mun rúma hálfan knattspyrnuvöll, aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, göngubraut og nýtast til sýningar- og tónleikahalds. Húsið mun rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi hússins verði tilbúinn til notkunar 1. ágúst 2021.
Málflutningur bæjarfulltrúa D-lista Sjálfstæðisflokksins vekur furðu þar sem að niðurstaða vinnu sem KPMG vann í júlí sl. sýnir að ekki er þörf á sérstakri úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Fjárfestingin telst vera um 16% af skatttekjum sveitarfélagsins og því undir 20% viðmiðs sveitarstjórnarlaga. Gert er ráð fyrir þessari fjármögnun í 4ra ára áætlun sveitarfélagsins og að fjárfestingunni verði mætt með skatttekjum og lántökum.
Meirihluti bæjarstjórnar fagnar því að framkvæmdir við fyrsta áfanga Íþróttamiðstöðvar við Engjaveg séu að hefjast enda uppfyllir hún óskir og þarfir íþróttahreyfingarinnar til langs tíma, ekki bara á Selfossi heldur í Svf. Árborg og á Suðurlandi öllu.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista

Gunnar Egilsson, D-lista óskaði eftir að fá að gera grein fyrir atkvæði minnihlutans með eftirfarandi bókun:

Bæjarfulltrúar D-lista greiða atkvæði gegn áformum um byggingu fjölnota íþróttahúss eins og lagt er upp með það af hálfu meirihlutans. Fullnægjandi kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, hönnun margra verkþátta er ekki lokið og þó er búið að bjóða bygginguna út. Af hálfu meirihlutans hefur verið vísað til álits endurskoðenda á því að fjárfestingin næmi um 16% af áætluðum skatttekjum sveitarfélagsins. Ekki verður annað séð en það álit hafi byggt á ófullnægjandi gögnum af hálfu sveitarfélagsins, þar sem ekki er gert ráð fyrir nándar nærri öllum kostnaðarliðum, auk þess sem nú liggja fyrir verðtilboð í framkvæmdir, að svo miklu leyti sem unnt er að horfa til þeirra þar sem hönnun verksins er ekki lokið. Þess er farið á leit að unnin verði kostnaðaráætlun fyrir verkið í heild, þar sem tekið verði tillit til kostnaðar við undirbúning og hönnun, þeirra verðtilboða sem nú liggja fyrir vegna framkvæmdarinnar og að áætlaður verði kostnaður við verkliði sem eru ekki inni í útboðum sem fram hafa farið en nauðsynlegt verður að ráðast í til að geta tekið húsið í notkun, þar er t.d. um að ræða gervigras, hlaupabrautir og kaup á nauðsynlegum búnaði, auk þess sem ljóst er að umtalsverður kostnaður mun hljótast af aukaverkum þegar lagt er upp með verkframkvæmd á þessum grunni. Einungis með allar þessar forsendur uppi á borðum verður unnt að fá marktækt álit á því hvort umrædd fjárfesting fer yfir 20% af skatttekjum, en þá ber að gæta að ákvæðum 66. gr. sveitarstjórnarlaga, eins og áður hefur verið bent á.
6. 1902222 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2019
Viðauki við fjárhagsáætlun 2019 nr. 8
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri og Tómas Ellert Tómasson, M-lista tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 bæjarfulltrúar, D-lista sátu hjá.

Gunnar Egilsson, D-lista gerði grein fyrir atkvæðum minnihlutans með eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar D-lista sitja hjá við afgreiðslu viðauka við fjárhagsáætlun. Bæjarfulltrúar D-lista hafa frá upphafi bent á að áætlun meirihlutans um tekjur af lóðasölu, sem settt var inn til að fegra áætlunina, mun aldrei geta staðist. Meirihlutinn virðist vera að átta sig á því, en þó er framsetning á breytingum á fjárfestingum í þeim viðauka sem hér liggur fyrir með slíkum hætti að varla er hægt að sjá hvert meirihlutinn stefnir. Þá eru gerðar athugasemdir við að hætt er við fjölda verkefna sem voru á fjárfestingaáætlun, að því er virðist til að rýma fyrir því eina verkefni sem meirihlutinn virðist hafa áhuga á. Hætt er við gatnaframkvæmdir á Eyrarbakka og Stokkseyri, hætt er við stofnframlög til byggingar þjónustukjarna fyrir fatlaða og leiguíbúða í samstarfi við Bjarg og margt fleira. Fjölnota íþróttahúsið hoppar upp og niður í viðaukum ársins, þannig að engin leið er að skilja á hvaða vegferð meirihlutinn er.

Forseti gerði hlé á fundinum kl. 18:08 að beiðni Eggerts Vals Guðmundssonar bæjarfulltrúa S-lista.

Fundi haldið áfram kl. 18:13

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar:

Enn á ný vekur málflutningur og bókanir bæjarfulltrúa D-lista furðu. Í minnisblaði fjármálastjóra sem fylgir með viðaukanum er útskýrt með einföldum hætti hvers vegna gert er ráð fyrir því að áætlaðar tekjur vegna gatnagerðargjalda eru lækkaðar. Í Björkurstykki lækka áætlaðar tekjur vegna þess að framkvæmdum þar seinkaði um nokkra mánuði frá því sem áður var áætlað vegna breytinga á deiliskipulagi sem gerðar voru. Þær breytingar á deiliskipulagi voru til góðs og munu gera Björkurstykkið enn vænlegra og meira aðlaðandi til búsetu.
Lækkun tekna í Björkurstykki um rúmar fimm hundruð milljónir koma til vegna þess að ekki gert ráð fyrir tekjum vegna nýs grunnskóla uppá 300 milljónir og vegna Bjargs um 89 milljónir á árinu þar sem að framkvæmdir við þær byggingar hefjast ekki fyrr en á næsta ári og því er þar um að ræða einfaldlega tilflutning á tekjum í bókhaldi sveitarfélagsins á milli ára þ.e. frá 2019 til 2020. Eftir standa þá um 100 milljónir fyrir lóðasölu sem gert er ráð fyrir að áætluð gatnagerðargjöld lækki um. Lóðir í Björkustykki verða auglýstar lausar til umsóknar á næstu dögum og þá mun koma betur í ljós hverjar tekjurnar verða. Að auki er rangt sem kemur fram í bókun fulltrúa D-lista að hætt hafi verið við fjölmargar framkvæmdir sem voru í fjárfestingaáætlun ársins. Hvað varðar aðra liði í viðaukanum kemur skýrt fram að í mörgum tilfellum er einungis um tilfærslur þegar samþykktra verkefna og fjármuna að ræða á milli málaflokka eða ára.
Fjárhagsáætlun Svf. Árborgar fyrir árið 2019 er bindandi ákvörðun um fjárútlát sveitarfélagsins. Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, heildarútgjöldum eða skuldbindingum sveitarfélagsins. Krafan um viðauka nær einnig yfir tilfærslur milli málaflokka í þegar samþykktri fjárhagsáætlun. Í viðauka skal m.a. koma fram hvernig útgjaldaauka eða tekjusamdrætti er mætt.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista


Fundargerðir
7. 1909007F - Bæjarráð - 47
47. fundur haldinn 19. september.
8. 1909004F - Íþrótta- og menningarnefnd - 13
13. fundur haldinn 9. september.
9. 1909002F - Skipulags og byggingarnefnd - 28
28. fundur haldinn 11. september.
10. 1909005F - Félagsmálanefnd - 9
9. fundur haldinn 10. september.
11. 1909006F - Fræðslunefnd - 14
14. fundur haldinn 11. september.
12. 1909008F - Eigna- og veitunefnd - 8
8. fundur haldinn 9. september.
Ari Björn Thorarensen, D-lista og Tómas Ellert Tómasson, M-lista, tóku til máls undir lið nr. 1, bygging leikskóla við Engjaland.
13. 1909013F - Bæjarráð - 48
48. fundur haldinn 26. september.
Ari Björn Thorarensen, D-lista tók til máls undir liðum nr. 1, tillaga UNGSÁ um heimavist við FSU og nr. 2, tillaga frá UNGSÁ um samning við ríkið um uppbyggingu á menningarsal.

Bæjarstjórn sameinaðist um eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn tekur undir bókanir bæjarráðs um tillögur UNGSÁ um heimavist við FSU og um samning við ríkið um uppbyggingu á menningarsal.
14. 1909011F - Skipulags og byggingarnefnd - 29
29. fundur haldinn 25. september.
15. 1910005F - Bæjarráð - 49
49. fundur haldinn 10. október.
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 6, fyrirspurn frá bæjarfulltrúa D-lista vegna bókasafnsins á Selfossi.
Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 23, undibúningur að byggingu skóla í Björkustykki.
Gunnar Egilsson, D-lista og Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, Ari Björn Thorarensen, D-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls undir lið nr. 8, Svæðisskipulag Suðurhálendis.
Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Gunnar Egilsson, D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tóku til máls undir lið nr. 10, sameining sveitarfélaga.
16. 1909012F - Eigna- og veitunefnd - 9
9. fundur haldinn 25. september.

17. 1910004F - Íþrótta- og menningarnefnd - 14
14. fundur haldinn 7. október.
18. 1909014F - Umhverfisnefnd - 5
5. fundur haldinn 2. október.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica