Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fuglafriðland

Flæðiengjar og tjarnir setja svip á friðlandið, en það nær með austurbakka Ölfusár frá Nesósi skammt norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í Straumnesi og spannar það yfir stóran hluta jarðanna Óseyrarness og Flóagafls. 

Stærð friðlandsins er um 5 ferkílómetrar, það er um 1-1,5 km á breidd og telst ásamt Ölfusforum til ósasvæðis Ölfusár sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Landið er lágt og meðalhæð yfir sjávarmáli aðeins um 2 metrar. Á stórstreymi gætir sjávarfalla í friðlandinu. Í góðu skyggni er fjallasýnin úr friðlandinu stórbrotin.

Aðdragandi

Umræða um endurheimt framræsts votlendis hefur verið áberandi undanfarin misseri og hefur Fuglaverndarfélag Íslands verið framarlega í flokki þeirra sem hafa sett þetta brýna umhverfismál á oddinn. Vorið 1997 fékk Fuglaverndarfélagið styrk úr Umhverfissjóði verslunarinnar, sem gerði því kleift að hefjast handa við endurheimt votlendis og uppbyggingu friðlands fugla í Flóa við Ölfusárós. Sama sumar undirrituðu félagið og Eyrarbakkahreppur samning og hófst strax vinna sem miðaði að færa votlendið í upprunalegt horf. Eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa, gekk hið nýja sveitarfélag inní samninginn.

Jarðsaga

Flóinn stendur á hinu mikla Þjórsárhrauni sem rann fyrir um 8000 árum. Hraunið myndaðist í gosi í Vatnaöldum á Veiðivatnasvæðinu og er það stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Yfirborð friðlandsins er þakið litlum pyttum og tjörnum. Lægðir í hinu forna hrauni eru vatnsfylltar vegna hárrar grunnvatnsstöðu og skýrir það myndun tjarnanna. Í Flóanum nefnast þessar tjarnir eða pollar Dælir. Þær dreifast um allt hraunið og skipta þúsundum. Dælirnar eru frá því að vera um 4 m í þvermál uppí nokkra tugi metra og eru flestar grunnar.

Saga friðlandsins

Víða á engjunum eru minjar um Flóaáveituna. Áveitan mikla var gerð á árunum 1922-1927, þá var vatni úr Hvítá veitt yfir stóran hluta sveitarinnar. Alls voru grafnir 300 km af áveituskurðum og hlaðnir um 540 km af flóðgörðum, smíðaðar um 200 brýr og jafnmargar stíflur. Á sínum tíma var þetta umfangsmesta framkvæmd í íslenskum landbúnaði og var veitan sú stærsta í Evrópu. Stuttu eftir að áveitan var tekin í notkun, hefst tími framræslunnar í íslenskum landbúnaði og var þá hluta áveitunnar breytt í fráveitu.

Nesbrú og Melabrú, hinar gömlu þjóðleiðir milli Eyrarbakka og Kaldaðarness og Selfoss, liggja um austurhluta friðlandsins. Göturnar eru sums staðar enn vel sjáanlegar. Fornar bæjartóftir í Óseyrarnesi eru friðlýstar.

Skammt vestur af gömlu Flóagaflsbæjunum er þyrping mógrafa. Vatnið í þeim er blátært, með miklu smádýralífi og skemmtilegum gróðri. Mógrafirnar sameina minjar um horfna menningu og athyglisvert lífríki.

Nánar um Friðlandið í Flóa






Þetta vefsvæði byggir á Eplica